Í minni orðabók er móðir kona sem sinnir börnum og búi, heldur utan um fjölskyldutengsl og önnur vensl, starfar margt innan veggja heimilisins og vinnur – síðast en ekki síst – „úti“ af hugsjón, atorku og heilindum. Mömmur vinna og ömmur vinna, í nútímanum er það regla en ekki undantekning.
Nú vill svo illa til að hið launaða starf minnar móður hefur falist í því að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu á stað sem upp á síðkastið hefur hætt að þykja heppilegur til slíks.
Konur á barmi taugaáfalls
Á vinnustað mömmu (skurðstofu sem nú er talin ranglega staðsett innan heilbrigðiskerfisins) vinnur samheldinn og samhentur hópur kvenna sem margar hafa deilt saman starfsdegi í fjölmörg ár. Þessi hópur er mér sem aukagrein á ættartrénu, ómissandi hluti tilverunnar.
Ég heilsaði upp á þær í hádegishléum sem 12 ára gömul barnapía með lítinn dreng í vagni. Sams konar heimsóknir gat ég endurtekið um 20 árum síðar með mína eigin drengi á armi. Reyndar held ég þó að ég geti talið á fingrunum þau skipti sem ég hef komið almennilega inn til þeirra, frekar að ég hafi staðið í dyragætt og rekið inn nefið. Þessi takmörkuðu innlit helgast ekki bara af smitgát og sóttvörnum skurðstofunnar, það hefur einfaldlega alltaf verið svo mikið að gera og dagskráin þétt.
Líkt og á við um alla sem horfa upp á ættingja og vini missa atvinnuöryggi sitt, hefur mér reynst þungbært að fylgjast með líðan þessara kvenna undanfarin ár. Óvissa, misvísandi skilaboð, fyrirheit og hótanir á víxl – og umfram allt vanmáttur andspænis endanlegum ákvörðunum hefur lamandi áhrif til lengdar.
Það er einhvern veginn svo ömurlegt að gott starf njóti ekki sannmælis, heldur liggi undir ámæli einfaldlega tilvistar sinnar vegna. Sama hversu vel er unnið, er starfsemin litin hornauga.
Hvað hef ég gert til að eiga þetta skilið?
Missir starfs af því tagi sem nú blasir við hjá þessum hópi, leiðir væntanlega til þess sem nefnt hefur verið atvinnuleysi að ósekju*. Það segir sína sögu á Íslandi í dag að slíkt nýyrði skuli líta dagsins ljós og þyngra en tárum taki hversu margir falla undir þessa skilgreiningu – og eiga á hættu að gera það.
Endurkoman
Allt er í heiminum hverfult og það eina varanlega í lífinu er breytanleikinn. Klisjur, veit ég vel, en stundum er gott að halla sér að þeim. Ekki síst þegar við manni blasir hringavitleysa, stefnuleysi og handahófskenndar ákvarðanir.
Ég kýs að trúa því að hinna sérhæfðu starfskrafta sem nú stendur til að losa sig við á sjúkrastofnunum um land allt verði aftur þörf áður en varir (og hafi raunar alltaf verið þörf).
Ég trúi því ekki að hér hafi fólk verið skorið upp við kvillum eða læknað með öðrum hætti af hvers kyns krankleika að óþörfu.
Að fólk hafi mætt til vinnu vikuna inn og vikuna út til að framkvæma óþarfa – árum saman.
*sjá m.a. www.nyttukraftinn.is
(Fyrirsagnir í pistlinum eru fengnar að láni hjá Pedro Almodóvar).