Fimmtudagur 25.11.2010 - 09:37 - Lokað fyrir ummæli

Educated by Iceland

Háskólamenntaðir launamenn hafa orðið hart úti í aðhaldsaðgerðum hins opinbera eftir hrun og búið við skert launakjör jafnt á almennum sem opinberum vinnumarkaði.  Félagsmenn aðildarfélaga BHM eru millitekjufólk og hafa ekki þótt þurfa vernd í þrengingum, þvert á móti eru úrræði sniðin að því að þeir beri stóran hluta kostnaðar.  Nægir þar að nefna skattabreytingar, aukna tekjutengingu bóta, svo ekki sé minnst á beinar launaskerðingar á tímum verðbólgu.  Þá hafa úrræði vegna skulda hingað til ekki tekið tillit til námslána.

Menntun er samfélagsauður.

Góð menntun er forsenda framþróunar á vinnumarkaði og undirstaða samfélagslegra gæða.  Öll viljum við njóta nýjustu þekkingar í menntakerfinu, heilbrigðisþjónustu, náttúruvöktun og félagslegum úrræðum.  Miklar kröfur eru gerðar til fagfólks og  þeim verður að fylgja eftir með starfsaðstæðum sem hvetja til fagmennsku, bjóða upp á sí- og endurmenntun, alþjóðleg tengsl og innleiðingu nýrrar þekkingar. 

Kjör háskólamenntaðra verða að taka tillit til að slíkar kröfur verði uppfylltar.  Til að svo megi verða þarf að snúa við öfugþróun á vinnumarkaði þar sem hlutur menntunar er ítrekað verðfelldur í kjarasamningum.  Frá undirritun stöðugleikasáttmála hefur legið fyrir tilboð ríkisins um kjarasamning við aðildarfélög BHM sem heggur enn í sama knérunn og því ekki hægt að ganga að.  Á sama tíma hefur markvisst verið skorið niður í launagreiðslum háskólamenntaðra. 

Flytjum út hugvit, ekki fólk!

Ísland er ekki samkeppnishæft um störf háskólamenntaðra, launakjör þeirra hér á landi standast ekki alþjóðlegan samanburð.  Lágt gengi og láglaunastefna valda því einnig að íslenskur vinnumarkaður laðar ekki til sín sérfræðinga erlendis frá, þannig að vandséð er hvernig fylla má í eyðurnar sem innlendur atgervisflótti skapar.

Vangaveltur um að samfélag hafi ekki efni á að meta menntun að verðleikum á krepputímum eru hættulegar og til marks um úreltan, metnaðarlausan og einangrandi hugsunarhátt.  Við eigum ekki að ýta undir málflutning sem hvetur til að láglaunastörfum sé fjölgað en þekkingu kastað á glæ.  Klisjukennd svör við áhyggjum af brottflutningi menntaðs fólks á borð við „menntum bara fleiri“ eru innantóm, því við bætum ekki fjárhagslegt tap af landflótta með frekari fjárfestingu í menntun til útflutnings. 

Kostnaður samfélagsins við að mennta einstakling frá leikskóla til fyrstu háskólagráðu er lauslega áætlaður 23 milljón krónur.  Meðalskatttekjur af háskólamenntuðum starfsmanni eru ríflega milljón á ári.  Um 2.600 Íslendingar stunda nú nám erlendis. Ef tveir þriðju þeirra skila sér ekki til baka er fjárfesting upp á 40 milljarða horfin – eitt Icesave. Því til viðbótar verður hið opinbera af beinum skatttekjum upp á meira en 2 milljarða á ári.

Menntun er dýrmæt.  Missum verðmætin ekki úr landi! 

Horfum fram á veginn og stefnum upp á við.  Ísland þarf á því að halda að hér verði til fjölbreytt og vel launuð störf, til þess að svo geti orðið verðum við að viðurkenna mikilvægi þess að menntun sé metin til launa.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM

Pistill þessi birtist einnig í Fréttablaðinu 25. nóvember.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur