Mánudagur 31.01.2011 - 22:23 - Lokað fyrir ummæli

Tónlistarskólar – uppeldi og lífsleikni

Ég er ein þeirra fjölmörgu sem er alin upp í tónlistarskóla, þótt ég hafi ekki orðið tónlistarmaður.

Meðal þess sem tónlistarnám og tónlistarástundun hefur kennt mér (auk þess að blása í lúður og lesa nótur) er:

að ganga í takt.  Maður skyldi ekki gera lítið úr þeim eiginleika að kunna að fylgja takti, að hlusta eftir hrynjandi.  Hryneyra hjálpar manni meðal annars að muna ljóð og skrifa eftir upplestri. 

að fara eftir fyrirmælum og taka tillit til annarra.  Í hljómsveit er ekki aðalmálið að skara framúr, heldur vera hluti af hljómnum.  Það er ekki síður krefjandi að halda sig til hlés en að láta heyrast í aðalrödd.  Enda heyrist ekki aðalröddin nema henni sé gefið svigrúm.  

að vera liðsmaður.  Mitt uppáhaldshlutverk var að vera „2. klarinett“.  Ekki að vera berskjölduð með aðalrödd, heldur að styðja við þann sem var í því hlutverki og sjá til þess að það gengi vel.  Ég lærði að það er kalt á toppnum og að maður þarf bakhjarl ef maður skyldi villast þangað.

agi.  Kúnstarinnar reglur eru margar í tónlist og það er líka kúnst að brjóta þær eða sveigja.  Stjórnandinn ræður, æfingin skapar meistarann og svo framvegis…

– að koma fram, yfirstíga sviðsskrekk og standa keik andspænis áheyrendum – mörgum eða fáum – aftur og aftur og aftur.  Ég hef komið fram vel æfð og illa æfð, vel stemmd og illa stemmd, með auðveld verkefni og illa yfirstíganleg.  Áheyrendur hafa grátið af gleði (þegar þjóðsöngurinn var fluttur á elliheimilum í Nýja Íslandi í Kanada), haldið fyrir eyrun (á þröngum göngum elliheimila á Íslandi andspænis háværri lúðrasveit), gengið framhjá mér (þegar ég spilaði jólalög ásamt systur minni í Kringlunni),  elt mig á röndum (í skrúðgöngum) – en oftast þó hlustað og klappað með hefðbundnum hætti.

að takast á við mistök.  Allir gera einhvern tímann mistök – detta út af laginu.  Mestu máli skiptir þá að „koma aftur inn“ – finna lagið og halda áfram.  Ef það tekst, er ekki einu sinni víst að neinn taki eftir mistökunum…

Veganestið mitt úr tónlistarskólanum er mér óendanlega dýrmætt.  Ég er svosem ennþá slarkfær á lúðurinn – en þó hefur frekar fennt yfir fingrafimina en lífsleiknina sem ég þakka tónlistarnáminu.

Fyrsti kennarinn minn sagði oft þegar ég var illa æfð og rak í vörðurnar: 

„Þú ert bara eins og maður sem er úti að ganga og allt í einu stígur hann í poll.“

Núna – þrjátíu árum síðar – vil ég miðla þessum sannindum áfram til þeirra sem halda á fjöreggi tónlistarskólanna.

Gætum að hvar drepið er niður fæti, stöndum vörð um það uppeldisstarf sem fram fer í tónlistarskólum landsins – stígum ekki í poll!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur