Miðvikudagur 10.04.2013 - 08:19 - Lokað fyrir ummæli

Skuldaleiðrétting til framtíðar, ekki bara fyrir horn

Í umræðum um leiðréttingu skulda vill ýmislegt gleymast. Svo sem það hvort hún er:

Fyrir alla eða suma?

Að leiðrétta allar núverandi verðtryggðar húsnæðisskuldir inniber að fólk sem er fjárhagslega vel stætt og ræður vel við afborganir í lengd og bráð fær sömu meðhöndlun og þeir sem ná ekki endum saman. Þetta er vissulega rausnarleg framkvæmd, en er hún nauðsynleg eða gagnleg til framtíðar? Það verður hver og einn að dæma fyrir sig.

Skammgóður vermir eða varanleg lausn?

Óstöðugleiki hefur ríkt um langa hríð í íslensku efnahagskerfi. Við erum orðin vön því að oft og reglulega þurfi að grípa inn og rétta kúrsinn, redda málum, það er ekkert nýtt. Reddingar eru hins vegar skammtímalausn. Því skiptir meginmáli fyrir framhaldið núna að redding fyrir horn verði studd markvissum aðgerðum til að fyrirbyggja næstu vandræði. Redda fyrirfram – er það ekki eitthvað?

Á kosnað einhverra og þá hverra?

Það er hollt að minna sig reglulega á að „there’s no such thing as a free lunch“. Ekkert verður til af öngvu, plús hér er oftar en ekki mínus þar. Skuldaleiðrétting nær til þeirra sem skulda – en hvað með þá sem skulda ekki, hverjir eru það? Væntanlega þeir sem hafa ekki ennþá stofnað til skulda og hinir sem eru búnir að greiða þær upp. Semsagt ungir og gamlir.

Gamalt fólk hefur vissulega sopið ýmsa fjöru og lagt sitt af mörkum til uppbyggingar almenningsgæða og á það kannski ekki skilið að fá nú enn einn reikninginn. Hins vegar er ólíklegt að það fari að stofna til skulda héðan af, svo redding fyrir horn og áframhaldandi óstöðugleiki er kannski frekar óþægilegt en óbærilegt. Eða hvað?

Ungt fólk 

Víkur þá sögunni að alvarlegasta áhyggjuefninu. Er sanngjarnt að láta ungt fólk sem á eftir að koma þaki yfir höfuð sér bera kostnað af reddingu og búa síðan við áframhaldandi óstöðugleika? Er það verjandi ráðstöfun?

Tillögum um reddingu fyrir horn í skuldamálum þeirra sem nú eru þunga hlaðnir verður að fylgja sannfærandi áætlun um stöðugleika til langs tíma.

Ungir kjósendur þurfa því að krefjast svara um áætlun til framtíðar áður en þeir leggja atkvæði sitt á vogarskál reddinganna.

Björt framtíð styður allar góðar og raunhæfar hugmyndir um bættan hag almennings. Þeim stuðningi fylgir hins vegar skýr krafa um langtímaplan, sannfærandi áætlun um að héðan af verði áherslan lögð á að redda fyrirfram með áherslu á stöðugleika og jafnvægi.

230817_422910494435910_125593183_n

 

Meiri fjölbreytni – Minni sóun – Meiri stöðguleiki – Minna vesen – Meiri sátt

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur