Hið fræga mannvirki, klukkuturninn í Pisa er rómað fyrir fegurð og sérstöðu, laðar að sér ferðamenn og er vinsælt myndefni.
Hann er þó fyrst og fremst minnisvarði, um byggingalist, hönnun og verkfræði – bæði sem víti til varnaðar og sem dæmi um úrræðagæði og reddingar.
Bygging turnsins tók langan tíma og skiptist í áfanga með löngum hléum. Fljótlega eftir að verkið hófst fór byggingin að halla, undirstöðurnar gáfu sig. Ef ekki hefði verið fyrir aldarlangt hlé á framkvæmdum, sem gaf jarðveginum tíma til að festa sig í sessi, hefði byggingin fallið um sjálfa sig.
En byggingin hélt semsagt áfram, með þeirri varúðarráðstöfun að hver hæð var reist skökk – til að mæta hallanum á grunninum. Svo það er ekki nóg með að turninn sé skakkur, heldur er hann boginn líka.
Þetta er gullfallegur turn, sérviskulegur og ber merki um þrautseigju andspænis mótlæti. Hann er hins vegar afar viðkvæmur, haldið í sessi með fargi til að vega á móti halla og berjast gegn þyngdaraflinu og aðgangur að honum er takmarkaður. Og þótt hann eigi sér sannarlega verðugan tilgang, er það ekki í samræmi við upphaflegar áætlanir.
Ef undirstaðan er góð þarf ekki reddingar
Mér verður hugsað til skakka turnsins í umræðum um efnahagslífið þessa dagana. Þegar það er kallað skortur á stefnu að vilja treysta grunninn, en ekki bara setja stög til að redda næstu árum.
Efnahagslíf sem þarf gjaldeyrishöft, verðtryggingu og skuldaleiðréttingar getur varla talist hvíla á traustum grunni.
Því furða ég mig á því hversu mjög er tekist á um útfærslur á togvírum, tegundum af fargi og tímalengd aðgangstakmarkana í stað þess að ræða undirstöðuna.
Eða er það tabú að velta því upp að setja krónuna á safn, taka af henni myndir og setja á póstkort?
Og byggja svo nýjan turn – á góðum undirstöðum.