Föstudagur 19.04.2013 - 07:54 - Lokað fyrir ummæli

Hættum að rífast, framtíðin er björt

Grein þessi birtist í bæjarblaðinu Hafnarfjörður þann 19. apríl 2013.

Þegar ég kaus síðast sem Hafnfirðingur fann ég atkvæði mínu ekki samastað. Samfélagið var í uppnámi og þar sem ég var ein þeirra sem vildi sjá afgerandi breytingar í stjórnmálum, var ég ósátt við að nýjungarnar sem spruttu upp víða um land skyldu ekki ná til bæjarins míns. Á Akureyri var í boði nýr listi, í Kópavogi var komið eitthvað næst best og Jón Gnarr var með alls konar í Reykjavík. Ég upplifði mína kosti sem skilti með tveimur örvum: hægri eða vinstri? Byltingar fortíðar og kreddur úr gömlum ritgerðum.

Það er óþægilegt að skila auðu og til að þurfa ekki að gera það í næstu Alþingiskosningum kom ég að stofnun frjálslynds, græns og mannréttindasinnaðs framboðs, Bjartrar framtíðar. Hópurinn sem að því stendur vill jafnframt bæta starfshætti á Alþingi, sem á síðustu árum hefur misboðið landsmönnum með því að eyða dýrmætum tíma í að rífast við sjálft sig um sjálft sig, með því að sýna fram á að kurteis og góð vinnubrögð má stunda þar jafnt og öðrum vinnustöðum.

Reddingar eða ráðdeild?

Björt framtíð er raunsær flokkur sem finnst alltof mikil orka fara í að viðhalda kerfi sem ekki virkar. efnahagskerfi okkar byggir á dýrkeyptri sjónhverfingu, íslenska krónan er ekki þess virði að loka landinu henni til verndar.

Björt framtíð treystir fólki og vill efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Grundvöllur þess er greiður aðgangur að upplýsingum um okkar sameiginlega heimilisrekstur, íslenska ríkiskassann. Í dag er hann, rétt eins flest önnur heimili, þjakaður af vaxtabyrði vegna óstöðugrar fortíðar. Sá kostnaður er næststærsti útgjaldaliðurinn í bókhaldi landsins.

Björt framtíð er grænn flokkur og vill vinna að uppbyggingu atvinnulífs án þess að sífellt sé gengið á dýrmæta náttúru. Með því að virkja eigin útsjónarsemi geta Íslendingar aukið hagsæld landsins, framtíðin er björt ef við gerum það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur