Ummæli þingmannsins Vilhjálms Árnasonar um laun hljóðfæraleikkvenna vekja hjá mér svipaða tilfinningu og „finndu fimm villur“ myndir í krossgátublöðum. Stenst eiginlega ekki mátið að prófa mig við þessa þraut.
1. villa: Dagvinnulaun eru afar vafasöm stærð þegar verið er að fjalla um laun lögreglumanna (eða þá kvenna eins og í þessu tilviki) í samanburði við aðrar stéttir. Margt hefur orðið til þess í gegnum tíðina að stór hluti launa þeirra fellur utan þeirrar skilgreiningar, t.d. uppbygging lífeyriskerfisins, samningar um greiðslur vegna álags og fleira. Lögreglufólk gengur vaktir utan dagvinnu og þ.a.l. er stór hluti launa er annað en „dagvinna“. Líkurnar á því að samsetning launa hljóðfæraleikara í Sinfóníunni sé mjög sambærileg við lögreglukonur, eru litlar.
2. villa: Hvað er með þennan samanburð á konum í þessum hópum? Er mjög óhagstætt að fjalla um launasamanburð milli lögreglumanna og -kvenna? Það ættu að vera mjög sambærilegir hópar sem samkvæmt öllum málefnalegum rökum ættu að hafa sömu laun að öðru óbreyttu. Af hverju er nærtækara að ræða tónlistarkonur í þessu samhengi?
3. villa: Heiður sem laun fyrir starf. Er ekki tímabært að hætta að þrugla um slíkt þegar listamenn eru annars vegar? Þetta fólk er ekki að leika sér. Nú er t.d. gífurlegur heiður að fá að vera forseti þjóðríkis. Hversu mikinn afslátt ættum við að setja á þau laun miðað við það? Hafa það ókeypis kannski? Svo er mjög eftirsóknarvert að leiða ríkisstjórn. Sem minnir mig á annað; þegar kona var í því hlutverki hérlendis, var sett bann við að aðrir ríkisstarfsmenn fengju hærri laun en hún. En það er önnur saga og efni í annan „finnið fimm villur“ leik.
4. villa: Tvíhyggjan löggæsla/heilbrigðisþjónusta vs. listir er ótrúlega þreytt. Allt þetta eru grundvallaratriði í farsælu þjóðfélagi. Það þýðir ekki að stilla þessu upp sem annað hvort eða. List er ekki dund sem menn geta fyrst leyft sér þegar löggæsla og heilsuvernd hefur náð fullkomnun. Kennsla og ástundun listgreina hefur mjög mikið með andlega og líkamlega líðan fólks að gera. Það er t.d. til heilbrigðisgrein sem heitir músíkþerapía og það ku hafa jákvæð áhrif á umgengni opinberra rýma að skreyta þau listaverkum hvort sem er fyrir eyru eða augu. Heimurinn er ekki svarthvítur, listamenn framleiða verðmæti og gera gagn.
5. villa: Laun langflestra ríkisstarfsmanna eru lág (þótt dómarar, forsetinn og ráðherrar mælist kannski þokkalega í innlendum samanburði þá fellur fljótt á silfrið ef launin eru borin saman yfir höf við sambærilega hópa). Við ættum endilega að ræða þann vanda, en spurning hvort það skilar miklu að einblína á einstaka hópa innan tiltekinna stétta, eins og konur í löggunni og sinfó.
6. villa: Menntun er ekki ókeypis. Það er mikil fjárfesting að baki því að ná sér í langskólamenntun. Fjöldi ára á námslánum og/eða afar lágum launum og að þeim loknum háar endurgreiðslur vegna námslánanna. Þó maður hafi lært eitthvað sem manni þykir gaman (sem ég vona að flestir geri) þá er ekki hægt að krefja mann um að þiggja lág laun gleðinnar, eða heiðursins vegna. Það má alveg vera launamunur á langskólagengnum og öðrum, fyrir því eru málefnalegar ástæður.
7. villa: Þingmaðurinn virðist misskilja hugtakið heiðurslaun listamanna. Það vísar ekki til afsláttar vegna ánægjunnar sem fylgir því að mega vinna í eftirsóttri hljómsveit.
Að lokum er kannski rétt að hrósa því sem gott er að þingmaðurinn bendir á: Sinfóníuhljómsveitin er mjög góð og starf lögreglukvenna er ómetanlegt.
—–
Viðbót: mér voru að berast upplýsingar um heildarlaun lögreglufólks og sinfóníufólks, sem ég verð bara að hnýta hér aftanvið (sjá 1., 2. og 6. villu):
Meðalheildarlaun kvenna innan Landssambands lögreglumanna: 511.947; konur í Sinfóníuhljómsveitinni: 433.960
Launamunurinn er á heildina litið þannig að hljóðfæraleikkonur eru með 77.987 krónum lægri laun en lögreglukonur.
Karlar í SÍ eru með 161.346 krónum lægri heildarlaun en lögreglumenn (444.640 vs 605.986).
Launamunur kynja innan SÍ (dagvinna og heildarlaun): 2,75% og 2,46%
Launamunur kynja hjá lögreglunni (dv og hl): 10,23% og 18,37%
Sinfóníuhljómsveitin gerir kröfur um a.m.k. 7 ára nám umfram lögregluna.