Þriðjudagur 31.12.2013 - 11:33 - Lokað fyrir ummæli

Sækjum fram, virkjum hugvitið

Í samfelldan straum tímans er okkur tamt að marka skil, staldra við, líta yfir farinn veg, horfa svo fram á við og taka stefnu til framtíðar. Við stöndum nú á slíkum tímamótum. Brýnt er að kveðja hið gamla og fagna hinu nýja með opnum hug. Eldri áherslur hafa komið okkur þangað sem við erum í dag, nú þarf nýja sýn til að grípa möguleika framtíðarinnar.

Áskorun undanfarinna ára var af völdum bankakreppunnar og þar axlaði háskólamenntað fólk sína ábyrgð, tók á sig kjaraskerðingar og lagði sitt af mörkum við endurreisn landsins. Áskorun næstu ára er að byggja upp íslenskt efnahagslíf með því að nýta sóknarfæri til verðmætasköpunar á grundvelli þekkingar og þar gegnir háskólamenntað fólk lykilhlutverki.

Stjórnvöld og atvinnurekendur tala nú mjög fyrir kjarasamningum sem skuli undirbyggja hagvöxt til framtíðar. Eina trúverðuga atvinnustefnan að slíkum markmiðum er að leggja áherslu á menntun, setja störf sem grundvallast á þekkingu í fyrsta sæti og virkja þannig auðlind sem sannarlega er sjálfbær og eykst frekar ef á hana er gengið, hugvitið. Höfum í huga að þar sem menntað fólk sest að og fær störf við hæfi munu sprotar vaxa og nýjungar fæðast en það eru forsendur fyrir hagvexti.

Til þess að slík stefna gangi upp þarf Ísland að vera ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir háskólamenntað fólk. Að mörgu leyti er Ísland spennandi en einum þætti er þó verulega ábótavant og það eru kjörin. Eftir kjaraskerðingu undanfarinna ára er ljóst að þau þarf að bæta svo um munar til þess að tryggja samkeppnishæfni Íslands og forsendur fyrir hagvexti til framtíðar. Þar þarf að leiðrétta þær skerðingar sem orðið hafa og síðan að tryggja eðlilega kaupmáttaraukningu.

Forsætisráðherra lét nýverið þau orð falla að árið 2014 yrði staðan á Íslandi betri en öll undangengin ár. Við hljótum að vona að svo verði og vera reiðubúin að leggja okkar af mörkum til að tímamótaósk ráðherrans rætist. Það mun þó ekki gerast nema íslensk stjórnvöld og vinnumarkaður marki sér nýja stefnu, horfi til framtíðar og virki hugvitið.

Tækifærið er núna, okkar er að grípa það.

Grein þessi birtist á visir.is þann 31.12.13. Í Fréttablaðinu birtist hins vegar grein eftir annan höfund undir sömu fyrirsögn og mynd.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: ,

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur