Föstudagur 10.01.2014 - 13:20 - Lokað fyrir ummæli

Launaleiðrétting BHM

Fjárfesting í menntun er samfélagsleg nauðsyn og til þess að hún nýtist sem best og gefi af sér til samrekstrar þjóðarheimilisins þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar.

Gróflega áætlað fjárfestir íslenskt samfélag um 26 milljónir króna í hverjum háskólamenntuðum einstaklingi í gegnum menntakerfið og gera má ráð fyrir að hann greiði um 124 milljónir til baka í gegnum skattkerfið á starfsævi sinni. Til viðbótar eru þau störf og þjónusta sem háskólamenntað fólk innir af hendi bæði samfélagslega mikilvæg og virðisaukandi. Það er því mikilvægt að þessi fjárfesting nýtist íslensku samfélagi sem allra best og enn mikilvægara að hún tapist ekki.

Lengi hefur legið fyrir að opinberir vinnuveitendur hafa orðið undir í samkeppni um vinnuafl við almennan vinnumarkað á Íslandi, enda launakjör hjá ríki og sveitarfélögum alls ekki eftirsóknarverð frá sjónarhorni háskólamenntaðra sérfræðinga. Launakjör háskólamenntaðra sérfræðinga hjá hinu opinbera hafa á undanförnum árum dregist verulega aftur úr miðað við aðra hópa, eins og meðal annars má sjá í sameiginlegri greiningu aðila vinnumarkaðar á launaþróun á árunum 2006 til 2012, og eru nú meira en 30% lægri en á almennum markaði.

Vinnumarkaður háskólamenntaðra sérfræðinga er í síauknum mæli alþjóðlegur. Í launamun yfir landamæri hallar mjög á Ísland, sem og í samanburði á ýmsum öðrum samfélagslegum kjörum. Gögn Eurostat um laun háskólamenntaðra á Norðurlöndum, mæld í kaupmáttareiningum, sýna að Ísland var þar í neðsta sæti árið 2006 og lækkaði á árinu 2010 á meðan öll hin löndin hækkuðu. Í þessu samhengi skal bent á að ef ungt fólk sem nýverið hefur lokið námi er hreyfanlegra en þeir eldri og ráðsettari skapast hætta á kynslóðabili innan þeirra geira sem eru útsettir fyrir atgervisflótta hverju sinni.

Þessar staðreyndir styðja við kröfu BHM um leiðréttingu kjara háskólamenntaðra. Þær kröfur miða fyrst og fremst að því að bæta samkeppnishæfni Íslands þannig að það verði ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir háskólamenntað fólk, ekki hvað síst í opinberri þjónustu. Þannig getum við tryggt að fjárfesting sú sem samfélagið hefur lagt í menntun nýtist til fulls og forsendur skapist fyrir sjálfbærum hagvexti og bættum lífsgæðum á Íslandi til framtíðar.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu þann 9. janúar 2014

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur