Þriðjudagur 25.03.2014 - 13:03 - Lokað fyrir ummæli

Félagsmenn BHM hjá hinu opinbera – dýrmætt fólk á bak við tjöldin (brot úr ræðu)

Á síðustu vikum höfum við í BHM haldið á fjórða tug vinnustaðafunda með félagsmönnum vítt og breitt. Þeir hafa verið afar vel sóttir og þátttakendur eflaust orðnir yfir 1500.

Óhætt er að segja að það sé hugur í okkar fólki og jafnframt augljóst af þessum milliliðalausu samskiptum forystu og félagsmanna að samninganefndir aðildarfélaganna voru með puttann á púlsinum þegar kröfur í yfirstandandi kjaraviðræðum voru mótaðar.

Það er ómentanlegt að upplifa þessa miklu virkni í baklandinu, sem birtist reyndar mun víðar en í góðri mætingu á fundi. Rafrænar kannanir félaganna um viðhorf til verkfallsaðgerða nú á síðustu dögum eru nærtækt dæmi. Svörun upp á 70% innan tveggja sólarhringa virðist vera eitthvað sem aðildarfélög BHM geta hrist fram úr erminni. Það er afskaplega vel af sér vikið og alls ekki sjálfgefið.

Fólkið bak við tjöldin

Undanfarið hef ég verið rækilega minnt á það að félagsmenn BHM eru vanir því að virka eins og vel smurð vél. Ekki bara þegar þátttaka í kjarabaráttu er annars vegar, heldur í daglegu starfi árið út og inn. Hvort sem leið okkar hefur legið inn til Skattstjóra, þjónustumiðstöðva borgarinnar, sjúkrahúsa, Stjórnarráðsins, Vinnumálastofnunar, Þjóðleikhússins, Lögreglunnar, Greiningarstöðvar, Hagstofunnar, Sinfóníunnar, Háskólanna, bókasafna eða til starfsmanna ríkisins og sveitarfélaganna vítt og breitt um landið, höfum við þessi gestkomandi fundið skýrt fyrir því að starfsmenn bera hag vinnustaðarins og þjónustuþega fyrir brjósti. Hins vegar er það jafn augljóst fyrir gestsaugað að tími þolinmæði gagnvart launafrystingum og álagsaukningu til að „halda vélinni gangandi“ á hverjum stað fyrir sig er á þrotum. Nú er mál að snúa við blaði og færa launakjör og vinnuaðstæður til betri  vegar. Og sama hvað hver segir, þá er það hægt, ef viljinn er fyrir hendi.

Um þetta snúast kröfur BHM og viðræður okkar við viðsemjendur fjalla ekki um hvort, heldur hvenær og hvernig þessi leiðrétting verður framkvæmd, því hún er beggja hagur.

Ómetanlegt fólk

Á opnum fundi í Háskólabíói þann 6. febrúar síðastliðinn flutti ég ræðu um kröfur BHM og rökstuðninginn sem býr þar að baki.

Einn hluti ræðunnar fjallaði um verksvið þeirra starfsmanna sem samningarnir fjalla um. Kveikjan að honum var tvíþætt; annars vegar þarf ég sem formaður BHM ótrúlega oft að gera grein fyrir því hvað fólkið okkar vinnur við, hvaða stéttir er um að ræða. Gildir þá einu hvort rætt er við stjórnvöld eða fjölmiðla. Hins vegar veit ég sem er, að opinberir starfsmenn eru vanari því í opinberri umræðu að fá á sig neikvæðan stimpil. Þeir þykja ýmist of margir, of dýrir, með of mikil réttindi, eða þar fram eftir götum. Sjálfur vinnuveitandinn, stjórnvöld, ber sjaldnast í bætifláka fyrir þá þegar ráðist er að þeim í umræðunni, heldur biðst jafnvel afsökunar á tilvist þeirra og þeirra réttinda.

Því fannst mér rakið að lýsa því í stuttu máli hvaða þýðingu þetta fólk hefur í okkar daglega lífi.

Og af því að góð vísa er sjaldnast of oft kveðin – og vegna fjölmargra fyrirspurna um það hvar sé hægt að finna þessi orð (þau eru reyndar á bhm.is) – birti ég textann hér eins og hann var lesinn í Háskólabíói í febrúar:

Félagsmenn BHM starfa á öllum sviðum vinnumarkaðarins. Yfirstandandi kjaraviðræður varða þá sem tilheyra opinbera geiranum.
Almenningur á Íslandi vill búa við opinbera þjónustu í fremstu röð, trygga umsjón og öflugt öryggisnet. Þegar kemur að því að fjármagna þá þjónustu verður umræðan oft neikvæð, sem er skrýtið, þar sem fólkið á bak við þjónustuna er okkur afar dýrmætt.

Ég fagna því að hafa verið umvafin opinberum starfsmönnum allt frá fæðingu. Opinberir starfsmenn taka á móti okkur í heiminn, skrá nafnið okkar, fylgjast með heilsufarinu og gæta okkar í hvívetna. Þeir passa okkur, kenna okkur, annast okkur í veikindum eða þegar erfiðleikar steðja að, fylgjast með veðrinu, hafa gætur á náttúrunni og varðveita sameiginlegan arf okkar á hverju því formi sem tjáir að nefna. Þeir hafa svæft okkur, vakið okkur, gegnumlýst, rannsakað, þjálfað, nært, staðið vörð um lög og rétt. Kennt okkur að lesa ljóð, spila á hljóðfæri, fara eftir umferðarreglum, sýnt okkur leikrit, spilað tónlist. Passað upp á gögn, haldið skikk á tölum, talið fiskana í sjónum og grösin á heiðum, reiknað laun, innheimt skatta, borgað laun. Þeir stuðla að því að við séum öll virkir þjóðfélagsþegnar, eflum andlegt og líkamlegt atgervi og fótum okkur í lífsins ólgusjó. Þeir styðja okkur frá vöggu til grafar. Hvað er hægt að biðja um meira?
Mér dettur eitt í hug. Það er hægt að biðja um að framlag þeirra sé metið að verðleikum. Þekking þeirra sé launuð. Menntun þeirra sé viðurkennd.
Það er krafa BHM. Vegna þess að BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar

Svo mörg voru þau orð. Þetta er það sem félagsmenn BHM gera (og svo margt, margt fleira). Á öllum þessum sviðum ber okkar fólk faglega ábyrgð og er ráðandi í stefnumótun, með það að markmiði að tryggja að þjónustan sé á hverjum tíma í samræmi við nýjustu þekkingu og færni.

Sameiginlegt verkefni BHM og viðsemjenda er síðan að tryggja að launakjör endurspegli verðmæti þekkingarinnar. Þar er verk að vinna.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur