Föstudagur 23.01.2015 - 20:17 - Lokað fyrir ummæli

Okkur er ekki alls varnað – af ungu fólki, lýðræðisþátttöku, mannréttindum og nýsköpun

Stundum er ekki annað hægt en fyllast bjartsýni andspænis framtíðinni. Þrátt fyrir allt og allt.

Fyrir viku síðan leit ég inn á ráðstefnu Landssambands æskulýðsfélaga um lýðræðsþátttöku og samfélagsáhrif ungs fólks

Fyrir utan að líða eins og liðstirðu gamalmenni innan um öll blómlegu ungmennin, var upplifunin mögnuð. Sem er ekki skrýtið, orkan í ungu fólki er kröftug og eflaust oft vannýtt af hálfu samfélagsins.

Nokkrir punktar sem ég tek með mér í nesti frá æskulýðsviðburðinum eru m.a.:

-rafrænar kosningar eru ekki töfralaust hvað varðar dræma þátttöku ungu kynslóðarinnar – málið er ekki síður að efla aðkomu allra í aðdraganda kosninga. Ef fólk setur sig ekki með virkum hætti inn í stefnumál og framtíðarsýn þeirra valkosta sem í boði eru í kosningum, skiptir prósentutala þeirra sem kjósa í raun ekki máli. Virk lýðræðisþátttaka er meira en að mæta á kjörstað – hún felst í því að segja skoðun sína, hafa áhrif á stefnumál flokka og móta samfélagsumræðuna.

-það þarf að vanda sig þegar ungu fólki er boðin þátttaka í stefnumótun. Ekki bara stofna ráð þar sem ungt fólk getur komið saman og rætt þau mál sem „okkur hinum“ þykir við hæfi að þau fjalli um. Veitum ungliðunum aðgang að sem flestum ráðum og spyrjum þau um öll mál – óháð því hvort þau teljist til „málefna ungs fólks“. Framtíðin er jú þeirra – skipulag bæja og borga, inntak félagsþjónustu og fleira og fleira mun allt verða þeirra mál þegar fram í sækir.

Mannréttindi og ferðafrelsi

Á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði sl. miðvikudag var meðal annars fjallað um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, ekki bara út frá hnökrum við flutning þjónustunnar milli þjónustuaðila um áramótin, heldur líka í tengslum við ferðafrelsi og réttindi almennt. Á fundinum urðu þau góðu tíðindi að ákveðið var að skoða möguleika á rýmkun réttinda umfram það sem þegar hafði verið lagt til og liggur nú fyrir fjölskylduráði að yfirfara reglur bæjarins um ferðaþjónustuna að nýju hvað útfærslur varðar.

Í þessu samhengi er rétt að halda því til haga að hafnfirska stjórnkerfið hefur á að skipa sérstöku ráðgjafaráði um málefni fatlaðra, hópi sem hagsmunaaðilar skipa. Sem nýjum formanni fjölskylduráðs og nýliða í bæjarstjórn fannst björtu framtíðarmanneskjunni mér það mikið gleðiefni að slíkur hópur skyldi þegar hafa verið stofnaður, enda mjög mikilvægt að hafa notendur ávallt með í ráðum þegar þjónusta er mótuð. Í tilfelli ferðaþjónustunnar voru t.d. drög að nýjum reglum bornar undir ráðgjafaráðið og tillit tekið til þeirra athugasemda við endanlega útfærslu (sem nú verður reyndar endurskoðuð aftur).

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ráðgjafaráð í málefnum fatlaðs fólks eigi ekki bara að fjalla um félagsþjónustu og tengd málefni. Það á að mínu mati fullt erindi inn til umhverfis- og framkvæmdaráðs, skipulags- og byggingaráðs, sem og fræðsluráðs – með öðrum orðum í alla stefnumótun á vegum bæjarins. Betur sjá augu en auga. Ég veit ekki betur en að hafinn sé undirbúningur að samráði í amk einu af ofannefndum ráðum á næstunni, svo það mál mjakast í rétta átt.

Þess má geta að fjölskylduráð hefur sett af stað vinnu við að móta sambærilegan vettvang fyrir Hafnfirðinga af erlendum uppruna, með sama markmið í huga – að leita álits á mögulegum sérþörfum hvað varðar þjónustu bæjarins. Upplýsingagjöf við hæfi er t.d. forsenda fyrir virkri samfélagsþátttöku og mikið kappsmál að vel takist til í þeim efnum. Þá er gott að geta byggt á reynslunni frá ráðgjafaráðinu um málefni fatlaðs fólks.

Í dag var ég síðan viðstödd tvo viðburði sem hvor um sig vakti von um bjartari framtíð

Annars vegar var þar um að ræða afhendingu verðlauna og viðurkenninga fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu, þar sem Hafnarfjarðarkaupstaður fékk viðurkenningu fyrir frumkvöðlaverkefnið „Áfram“ sem snýr að því að efla þjónustu við atvinnulausa á fjárhagsaðstoð. Yfir því verkefni getur bærinn sannarlega glaðst, enda árangurinn verið mjög góður. Það er alls ekki sjálfgefið í hafnfirskri pólitík að allir flokkar sameinist um mál, en sú er raunin um þetta verkefni og á síðasta fundi borgarstjórnar í Reykjavík var ákveðið að fara að okkar fordæmi og taka upp svipað verklag.

Meðal annarra verkefna sem hlutu viðurkenningar var Ungmennaráð Seltjarnarness en verkefni þeirra var einmitt kynnt á ráðstefnu æskulýðsfélaganna og felst m.a. að því að opna ungmennaráðsliðum leið inn í allar nefndir bæjarins. Þetta fyrirkomulag er að mínu mati mjög til eftirbreytni og mun ég beita mér fyrir því að Hafnarfjörður fylgi í kjölfarið með einum eða öðrum hætti. Þar vildi ég reyndar líka sjá öldungaráðið okkar virkjað, sem á ekki síðra erindi en ungmennaráðið.

Hinn viðburður dagsins var síðan Framtíðarþing BHM, sem er jafnframt síðasta formlega verkefnið sem ég tók þátt í að undirbúa sem formaður þess frábæra bandalags. Þar var einfaldlega opnaður vettvangur fyrir háskólanema til að tjá sig um spurninguna „Hvernig Ísland vilt þú?“ án allra afskipta eða mótunar á umræðunni. Ég læddist þar inn sem fluga á vegg undir lokin. Sú reynsla var vægast sagt punkturinn yfir i-ið á uppörvandi viku og frábært að sjá og heyra hvað framtíðarraddirnar hafa margt gott fram að færa.

Jamm. Þetta er frekar væminn pistill, en stundum er bara svo hollt og gott að taka eftir því góða og jákvæða sem er að gerast allt í kringum okkur.

Okkur er nefnilega ekki alls varnað.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur