Fimmtudagur 28.04.2016 - 10:29 - Lokað fyrir ummæli

Róluvellir og rekstur bæjar

Ræða mín um ársreikning Hafnarfjarðar 2015 frá bæjarstjórnarfundi 27. apríl 2016:

Á róluvelli þjóðfélagsins
er vegasaltið 
langsamlega mikilvægast

Samt skal alltaf vera
lengsta biðröðin
við hoppukastalana

Þetta ljóð eftir Sigurð Pálsson skáld, sem ber yfirskriftina Þjóðvegasalt, lýsir í einfaldleika sínum heimi stjórnmálanna á snilldarlegan hátt og er að mínu mati vel við hæfi við lestur ársreikninga og undirbúning fjárhagsáætlana.

Löngunin til að opna fyrir aðgang í hoppukastala og finna fiðringinn í maganum er alltaf jafnsterk, enda þótt skynsemin segi okkur að jafnvægið sé grundvöllurinn, að við verðum að geta staðið áður en við göngum og gengið áður en við hlaupum.

Skynsemi er almennt ekki mikið tekin í pólitík, hún kemst ekki í fyrirsagnir blaða og fær hjartað ekki til að slá hraðar af spenningi. En skynsemin er samt forsenda gleðinnar, grunnurinn undir fjörinu.

Ársreikningur Hafnarfjarðar fyrir árið 2015 ber merki um langvarandi jafnvægisskort. Þættirnir sem draga niður eru hlutfallslega þungir og þegar horft er lengra aftur í tímann sést að jafnvæginu hefur verið náð með herkjum trekk í trekk og að reksturinn á erfitt með að standa af sér ytra áreiti.

Uppsafnað ójafnvægi

Jafnvægisskorturinn er uppsafnaður, hvort sem horft er til langvarandi kyrrstöðu í launaþróun starfsfólks sveitarfélaga sem tók síðan kipp síðustu tvö árin, langvarandi skorts á viðhaldi á eignum bæjarins sem skapar þörf á bráðaaðgerðum, uppsöfnunar lífeyrisskuldbindinga sem ekki er brugðist við með inngreiðslum, eða þeirra fjölmörgu ára þar sem skuldir eru ekki greiddar öðruvísi en með nýrri lántöku. Sumt af þessu hefur Hafnarfjarðarbær haft á sínu forræði og valið að hafast ekki að, annað eru afleiðingar af ytri aðstæðum, fjármálakreppu og ákvarðanatöku á öðrum vígstöðvum. Oft er um samverkandi þætti að ræða, en áhrifin eru öll mjög á einn veg.

Á síðasta árinu sem kom út í plús hjá Hafnarfirði, var það gengismunur gjaldmiðla sem gerði gæfumuninn. Með öðrum orðum tilviljun. Gengismunur gjaldmiðla er ekki á forræði bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Það að hagstætt gengi skuli geta vippað bæjarsjóði upp um hundruð milljóna endurspeglar reyndar þá köldu staðreynd að skuldir bæjarins í erlendri mynt voru umfangsmiklar, þannig að happafengurinn sem ýtti bænum upp fyrir núllið árið 2013 var í raun ekki kominn til af góðu. Hann var ekki styrkur, heldur mun frekar veikleiki. Þung skuld, sem hefði allt eins getað ýtt okkur niður eins og upp eftir því hvernig vindar blésu í gjaldmiðlaþróun á alþjóðamarkaði. Vogun vinnur og vogun tapar, vegasaltið sveiflast án okkar stjórnar. Það er fallvalt jafnvægi.

Árið 2015

Á miðju ári 2015 var gripið til hagræðingaraðgerða á grunni rekstrarúttektar sem unnin var veturinn 2014-15. Áhrifa þeirra aðgerða gætir því ekki nema að hálfu leyti á rekstrarárinu, auk þess sem aðlögunartími fylgir flestum breytingunum. Ljóst má vera af lestri ársreikningsins að ráðstafanir til hagræðingar voru óumdeilanlega nauðsynlegar og verulega tímabærar. Það sést reyndar ekki bara í baksýnisspeglinum. Þörfin var þekkt, enda vitað að von væri á hækkunum launa en því til viðbótar komu síðan ófyrirséð áföll sem eiga þátt í því að draga reksturinn niður fyrir núllið.

Ytri áhrifaþættir árið 2015

Niðurstaða ársins 2015 sveiflast niður fyrir áætlun af ýmsum orsökum, sem bæjarstjórn hefur ekki nema í besta falli óbeina stjórn á:

-Endurkröfu um útsvarsgreiðslur upp á um 400 milljónir var ekki hægt að sjá fyrir, en alveg ljóst að á tímum stórra launahækkana var það þungt högg að fá ekki inn aukið útsvar, heldur þvert á móti þurfa að skila til baka útsvari sem greitt var í bæjarsjóð löngu fyrir 2015.

-Launaleiðréttingar (samkvæmt bókunum í fyrri samningum um endurupptöku starfsmats) og launahækkanir í nýjum samningum vógu líka þungt. Hafnarfjörður hafði þar sömu aðkomu og önnur sveitarfélög (að Reykjavík undanskilinni sem gerir eigin samninga), sem aðili að kjarasamningum Sambands sveitarfélaga. Þessum launaleiðréttingum ber reyndar að fagna, enda langt tímabil kjarafrystingar að baki. Launaumhverfi opinberra starfsmanna á Íslandi er því miður með þeim hætti að á skiptast tímabil stöðnunar og tímabil átaka sem leiða til stórra stökka í kjörum. Áhrif þessarar vinnumarkaðsvenju á sveitarfélögin eru svo þau sem við sjáum í ársreikningi 2015, stór breyting sem slær út fyrri áætlun og raskar jafnvæginu.

-Aukning lífeyrisskuldbindingar um milljarð, til viðbótar við hálfs milljarðs aukningu árið 2014 er afleiðing launabreytinga og frá því sjónarhorni ekki beint á forræði bæjarins að stjórna. Uppsöfnun lífeyrisskuldbindinga í bókhaldinu byggir hins vegar á vali bæjarstjórna í gegnum tíðina, þar sem hægt er að grynnka á þeim með inngreiðslum.

Lífeyrisskuldbindingar Hafnarfjarðarbæjar

Lífeyrisskuldbindingar eru orðið stórt rautt flagg í ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar. Sé horft til annarra sveitarfélaga þá sést að okkar krónutala er um 80% af krónutölunni sem Reykjavíkurborg hefur í sínum bókum (árið 2014). Samt er Hafnarfjörður að umfanginu til bara rétt um 20% af Reykjavík. Kópavogur er með næstum helmingi lægri tölu en Hafnarfjörður, sem reyndar getur tengst því að um yngra sveitarfélag er að ræða og því mögulega færri starfsmenn (núverandi og fyrrverandi) sem tilheyra eldri deildum lífeyrissjóða, eftirlaunadeildunum. Því ber líka að halda til haga að um 20% af upphæðinni okkar eru til komin vegna skuldbindinga sem raktar eru til Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem er mál sem ekki á sér hliðstæðu í nágrannasveitarfélögunum.

Það liggur hins vegar fyrir að Reykjavíkurborg greiddi inn á sínar lífeyrisskuldbindingar þegar hlutur borgarinnar í Landsvirkjun var seldur fyrir um áratug síðan. Uppsöfnun lífeyrisskuldbindinga er nefnilega ekki náttúrulögmál, við henni má bregðast. Í raun er um skuld að ræða, svipað og með skuldir vegna lána, enda vinnuveitandinn skuldbundinn til að greiða fólki eftirlaun þegar starfsævinni lýkur. Eftirlaunadeildir lífeyrissjóða búa ekki að sjóðsöfnun nema að litlu leyti, í dag greiðir t.d. Hafnarfjörður tvo þriðjuhluta af lífeyri til fyrriverandi starfsfólks, á meðan sjóðurinn greiðir þriðjung.

Lífeyrisskuldbinding í bókum bæjarins sem er orðin á pari við heildartölu árlegra launaútgjalda og vex á tveimur árum um 1,5 milljarð kallar óneitanlega á það að bæjarstjórn skoði inngreiðslur á skuldbindinguna til jafns við innborganir á lán.

Niðurgreiðslur skulda

Síðusta rúma áratug hefur Hafnarfjörður ekki greitt af lánum öðruvísi en með nýrri lántöku. Núverandi meirihluti hefur á stefnuskrá sinni að greiða með virkum hætti niður skuldir bæjarins og bæta þannig jafnvægið í rekstrinum. Fjárhagsáætlun ársins 2016 inniheldur beinar niðurgreiðslur lána upp á 200 milljónir, auk þess sem tilfallandi tekjuaukningu er að jafnaði ráðstafað til viðbótaruppgreiðslu lána. Það er skynsamleg og ábyrg ráðstöfun sem horfir til lengri tíma en yfirstandandi augnabliks.

Rekstrarniðurstaða ársins 2015 sýnir það glöggt að Hafnarfjörður þarf á skynsemi að halda næstu misserin. Við verðum að létta á þeim þáttum sem draga reksturinn niður, skuldum og lífeyrisskuldbindingum þar á meðal um leið og markvisst er unnið að því að efla allt það sem lyft getur rekstrinum upp.

Höldum okkur við staðreyndir

Þessi skoðun mín á ársreikningi Hafnarfjarðar fyrir árið 2015 fjallar ekki um persónur og leikendur, bæjarstjóra eða flokka. Hún fjallar um staðreyndir og það sem hefur verið gert, eða ekki gert, á undanförnum árum.

Verum óhrædd við að rýna staðreyndir, skoða orsök og afleiðingu og læra af reynslunni. Tökum síðan höndum saman um að treysta grunninn til langrar framtíðar og bæta jafnvægið í rekstri Hafnarfjarðarbæjar. Verum skynsöm.

Forgangsröðun verður að byggja á styrkum grunni – án hans gerum við ekkert.

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur