Mánudagur 18.03.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Heitasta kosningaloforðið

Í febrúar 2012 viðraði ég hugmynd um hvernig mætti fella niður hluta skulda heimila án þess að aðrir skattgreiðendur en útlánastofnanir – hverjar þær yrðu væri útfærsluatriði – borguðu kostnaðinn. Þar sem eitt heitasta kosningaloforðið er niðurfelling skulda (Dögun, Framsókn, Hægri Grænir… fleiri?) ætla ég að leyfa mér að rifja upp hugmyndina. Og, já, ég er ennþá þeirrar skoðunar að þetta er framkvæmanlegt, a.m.k. að einhverju marki.

Upprunalega hugmyndin

Til þess að forðast endurtekningar ætla ég einfaldlega að benda á pistlana þrjá sem ég skrifaði í febrúar fyrir ári síðan. Sá fyrsti var Framkvæmd skuldaniðurfellingar. Næstur var Framkvæmd skuldaniðurfellingar, hluti 2 og hinn síðasti var Athugasemdir um skuldaniðurfellingu. Þó er rétt að útskýra hugmyndina í mjög stuttu máli hér til að halda samhengi.

Fyrsta skrefið var að stofna „sértækt eignarhaldsfélag“ (e. special investment vehicle). Þetta fyrirtæki myndi taka lán hjá Seðlabankanum sem myndi búa til peningana úr engu öðru en bókhaldsfærslum líkt og bankar geta og gera. Andvirði lánsins yrði borgað út til heimila. Heimili gætu aðeins notað andvirðið í einn hlut: að borga inn á höfuðstól láns. Þá er upphæðin komin til útlánastofnana sem síðan leggja hana inn á reikning hjá seðlabankanum. Upprunalega lánið til eignarhaldsfélagsins yrði svo endurgreitt af útlánastofnunum en það væri útfærsluatriði hversu mikið hver útlánastofnun myndi borga. Endurgreiðsla lánsins myndi eingöngu eiga sér stað ef útlánastofnanir myndu hagnast.

Margir skutu hugmyndina samstundis í kaf. Gylfi Magnússon spurði hví við björguðum ekki Afríku í leiðinni. Tryggvi Herbertsson var hógværari, spurði hví við tækjum ekki 400-800 milljarða í staðinn fyrir 200 milljarða eins og oft var miðað við. Þórarinn Pétursson skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hann benti á hið augljósa: það væri ekki hægt að fella niður skuldir án þess að einhver borgaði það. Það er alveg hárrétt og hugmyndin var beinlínis að láta lánastofnanir borga kostnaðinn (það er ennþá hugmyndin, sjá neðar). Þá var það líka augljóst að það var ekki hægt að fella niður hvaða upphæð sem er, nokkuð sem a.m.k. Gylfi og Tryggvi virtust ekki átta sig á, vegna neikvæðra áhrifa á nettó vaxtatekjur útlánastofnana.

Greinarnar sem ég sá sem andsvar við hugmyndinni voru þó ekki að fjalla um það sem ég hafði mestar áhyggjur af. Það sem ég hafði mestar áhyggjur af var annars vegar hvort þetta væri löglegt bókhaldslega séð; væri hægt að bóka þetta í gegnum „sértækt eignarhaldsfélag“? Ég fékk aldrei svar við því.

En það er hægt að gera þetta án þess að stofna sértækt eignarhaldsfélag og sleppa allri bókhaldsleikfimi. Og það er vitanlega svo auðvelt að stilla því þannig upp að ég skammast mín fyrir að hafa ekki hugsað út í þetta áður. Margur hefur vafalaust gert það.

Einfaldara að nota efnahagsreikning ríkissjóðs

Lausnin er vitanlega sú að gefa út ríkisskuldabréf sem Seðlabankinn kaupir með peningum sem hann býr til úr engu öðru en bókhaldsfærslum – það er normið við lánveitingar bankastofnana hvort eð er. Engin „sértæk eignarhaldsfélög“ og engar „útrásarvíkinga bókhaldsæfingar“ eins og einn gagnrýnandi hugmyndarinnar sagði við mig á sínum tíma.

Þá náttúrulega standa allir upp og segja strax „og eiga skattgreiðendur að borga milljarða fyrir að fella niður skuldir heimila?“ Mitt svar er „já, en eingöngu nokkrir skattgreiðendur“. Þessir „nokkrir skattgreiðendur“ eru vitanlega útlánastofnanir, einkum og sér í lagi bankarnir þrír.

Hugmyndin er því eftirfarandi:

1. Seðlabankinn lánar ríkissjóði vaxtalaust lán upp á þá upphæð sem á að nota í skuldaniðurfellinguna. Sem áður skulum við miða hér við 200 milljarða en ég ætla ekki að halda því fram að „skattgreiðendur“ (bankarnir) geti staðið undir svo hárri niðurfellingu, það yrði að skoða sérstaklega. Það eru engir fastir gjalddagar á láninu því eingöngu er greitt inn á það í samræmi við lið 3.

2. Ríkissjóður borgar heimilum upphæðina sem eingöngu nota hana í að borga inn á höfuðstól lána. Upphæðin er komin inn á efnahagsreikning bankanna. Þeir setja upphæðina á vaxtalausan reikning í Seðlabankanum. Upphæðin er bundin uns skuldabréfið, eða hluti af því, hefur verið greitt upp, sjá lið 3.

3. Ríkissjóður setur skatt á framtíðar hagnað þeirra útlánastofnana sem eiga að borga kostnaðinn við skuldaniðurfellinguna. Þegar þessar skatttekjur verða að veruleika fara þær, skilyrðislaust, í að borga skuld ríkissjóðs við seðlabankann sem stofnað er til í lið 1. Þegar greitt hefur verið inn á skuldabréfið  mun Seðlabankinn leyfa viðkomandi útlánastofnunum að gera það sem þær vilja við samsvarandi upphæð af heildarupphæðinni, sjá lið 2. Þetta þýðir að borgi t.d. Arion 1 milljarð í skatt sem síðan er notaður til að borga niður höfuðstól lánsins frá seðlabankanum til ríkissjóðs (sjá lið 1) mun seðlabankinn losa um 1 milljarð á vaxtalausum reikningi Arion í seðlabankanum, sjá lið 2. Þetta er gert til að hvetja bankastofnanir til að greiða sinn hluta af reikningnum sem fyrst. Um leið og þær borga inn á skuldabréfið geta þær ráðstafað samsvarandi upphæð af vaxtalausa reikningnum í Seðlabankanum í hvað sem þær vilja og þar með hagnast meira en ef peningarnir myndu liggja inni á vaxtalausum reikningi. Bankastofnanir munu þá líka í kjölfarið sjá til þess að hið opinbera muni í raun nota peningana í að greiða niður lánið. Ætli hið opinbera að svíkja lit og t.d. byggja jarðgöng eða höfn einhvers staðar munu bankarnir láta fólk heyra það að ríkið sé að bregðast sínum skyldum.

Eina breytingin frá upprunalegu upphugmyndinni er í raun að bóka lánið á efnahagsreikning ríkissjóðs í stað þess að fara í gegnum sértækt eignarhaldsfélag.

Hvaða skattgreiðendur eiga að borga og hvers vegna?

Endurreisn íslenska fjármálakerfisins var ekki ókeypis. Sigrún Davíðsdóttir og Þórólfur Matthíasson setja ca. 340-420 milljarða á þann verðmiða (20-25% af landsframleiðslu) sem er með dýrustu endurreisnum í fjármálasögunni. Brúttókostnaður ríkissjóðs við endurreisn fjármálakerfisins var 414 milljarðar króna samkvæmt Ríkisendurskoðun. Mestur kostnaðurinn var vegna útlána Seðlabankans og ríkissjóðs til bankanna; 267 milljarðar. Þetta fé er tapað fé að mati Ríkisendurskoðunar. Þessi kostnaður er kominn til vegna þeirra bankabjörgunaraðgerða sem reynt var að fara út í á seinni hluta ársins 2007 og fram að hruni. Þær klúðruðust, ekki síst vegna þess að bankarnir voru þá þegar í raun komnir að fótum fram og það var ekki hægt að bjarga þeim hvort sem var.

Eftir hrun hafa Íslandsbanki, Landsbanki og Arion hagnast um samtals 234,5 milljarða króna samkvæmt upplýsingum frá The Icelandic Financial Reform Initiative. Hluti þessa hagnaðar er vegna uppfærslu á lánasafni bankanna sem flutt var á 30-40% afslætti (jafnvel meira í sumum tilvikum) frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þannig varð, í október 2008, 100 krónu skuld Jóns við Kaupþing að 60 kr eign á efnahagsreikningi Arion. Arion reyndi eftir sem áður að rukka Jón um 100 kr. og hefur, hægt og rólega, hækkað 60kr. töluna upp í kannski 70-80 krónur. 10-20 krónu hækkunin er bókuð sem hagnaður eða „endurmat á virði eigna.“ Frír bókhaldslegur hagnaður í vöggugjöf.

Hagnaðartölur bankanna eru ennþá magnaðri í ljósi þess að vegna til dæmis gengislánadómanna hafa um 170 milljarðar af skuldum heimila – eignum bankanna – þurrkast út. Það er þó aðeins brot af öllum þeim 750 milljörðum sem hafa verið felldir niður af skuldum síðan frá hruni.

Staldrið aðeins við og hugsið út í þetta: er ekki eitthvað óeðlilegt við 235 milljarða hagnað bankanna þrátt fyrir 750 milljarða skuldaniðurfellingar fjármálakerfisins alls á sama tíma sem að mestu koma frá umræddum bönkum? Og er ekki óeðlilegt að ríkissjóður borgi 414 milljarða til þess að endurreisa fjármálakerfið án þess að ríkissjóður fái það fé greitt til baka, með ávöxtun, á einn eða annan hátt?

Ég ætla ekki að skammast mín neitt fyrir að segja að það eiga að vera bankarnir sem skulu greiða mestan kostnaðinn við skuldaniðurfellingu. Ástæðan er einfaldlega sú að mestallan kostnaðinn vegna endurreisnar fjármálakerfisins má rekja til gömlu bankanna og þeirra starfsemi. Vilji fólk það má horfa á niðurfellingu á skuldum heimilanna sem endurgreiðslu á því opinbera fé sem fjármálakerfið fékk úthlutað í endurreisnarstarfinu. (Nota bene: það má gera þetta og nota peningana í annað en skuldaniðurfellingu, s.s. endurreisn heilbrigðiskerfisins. En þið vilduð vita hvernig ætti að fjármagna skuldaniðurfellingu sérstaklega svo fókusinn er á þeirri aðgerð hér.)

Kostnaðurinn við skuldaniðurfellingu endar, samkvæmt þessari tillögu, aldrei á öðrum skattgreiðendum en bönkunum. Þetta er svo þrátt fyrir að skuldabréfið í lið 1 sé bókað sem skuld ríkissjóðs. Þótt ríkisskuldabréfið yrði til þess að skuldir ríkissjóðs myndu aukast um upphæð þess yrði greiðsluflæði þess eingöngu til staðar þegar bankarnir yrðu skattlagðir og um nákvæmlega þá upphæð. Nettó myndi því t.d. vaxtakostnaður ríkissjóðs ekkert breytast.

Hvað varðar aðra punkta – s.s. áhrif á peningamagn í umferð og verðbólgu – vísa ég í Athugasemdir um skuldaniðurfellingu.

Er þetta hægt?

Það verður að undirstrika að það verður að skoða það vandlega hversu mikið bankarnir myndu ráða við að borga. Þeir geta ekki borgað hvaða upphæð sem er vegna neikvæðra áhrifa aðgerðarinnar á nettó vaxtatekjur þeirra. Einnig verður að framkvæma þetta þannig að framtíðarskattbyrði bankanna sé ekki bókuð sem skuld í dag en það myndi rústa efnahagsreikningi þeirra (er þetta hægt? Svar óskast frá endurskoðanda).

Þá er einnig vel mögulegt fyrir bankana að koma sér hjá slíkum reikningi sé skatturinn í lið 3. hér að ofan illa útfærður. Ef hann er t.d. lagður á hagnað bankanna er auðvelt að ímynda sér leið fyrir eigendur bankanna að komast hjá því að hagnaður bankans fari í skatt. Bankinn gefur einfaldlega út skuldabréf til eigenda sinna. Afborganir og vextir skuldabréfsins verða svo notuð til að koma hagnaði bankans niður í mun lægri tölu sem síðan er skattlögð. Auðvelt er að ímynda sér t.d. skuldabréf í erlendri mynt sem erlendur eigandi bankans í gegnum skilanefnd, þ.e. aðili sem á kröfu á gömlu gjaldþrota bankanna, kaupir sjálfur. Hann fær svo afborganir og vexti af skuldabréfi í stað þess að fá útgreiddan arð og þannig er komist hjá því að bankinn beri kostnaðinn við skuldaniðurfellinguna.

Þá er líka rétt að benda á að kannski erum við orðin of sein að skattleggja hagnað bankanna. Kannski er stjarnfræðilegur hagnaður þeirra frá hruni á enda runninn. Það er óvíst hversu mikið er eftir af þeirri vöggugjöf sem bankarnir fengu í formi afsláttar á lánasafni þeirra þegar þeir voru stofnaðir. Er búið að færa afsláttinn allan til baka eða er búið að nota hann í að afskrifa skuldir nú þegar? Það veit ég ekki.

Að lokum er líka rétt að benda á að allar útlánastofnanir munu tapa á skuldaniðurfellingu. Þótt það yrðu, sé þessari tillögu fylgt, bankarnir sem myndu bera stærstan hluta kostnaðarins yrðu vaxtatekjur lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs einnig fyrir áfalli. Ástæðan er sú að lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður fengju lágvaxtaeign (bankainnistæða) í stað hávaxtaeignar (útlán til heimila). En sannast sagna er þetta ekki endilega galli því enn verri staða lífeyriskerfisins myndi einfaldlega ýta við nauðsynlegu endurskipulagi á því. Það sama gildir um Íbúðalánasjóð sem er fjárhagsleg afturganga. Það er bara spurning um „hvenær“ en ekki „hvort“ þessar stofnanir verða endurskipulagðar.

Þannig að, já, þar til annað kemur í ljós ætla ég að leyfa mér að halda því fram að skuldaniðurfelling að einhverju marki án þess að hinn almenni skattgreiðandi beri kostnaðinn sé möguleg. Hvort hún takist – t.d. vegna löglegra undanskota – og hver upphæðin yrði og hvort hún verði framkvæmd er þó alls óvíst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur