Miðvikudagur 29.05.2013 - 11:21 - FB ummæli ()

Álver, „eitthvað annað“ og hagvöxtur

Umræðan um hvort eigi að byggja álver eða gera „eitthvað annað“ er fjörleg nú um stundir. Ég ætla að leggja orð í belg og benda á þá staðreynd að margt „eitthvað annað“ hefur meiri möguleika en áliðnaður á því að halda uppi háum hagvexti á Íslandi til framtíðar.

Lögmál Thirlwalls

Til er „lögmál“ í hagfræði sem nefnt er eftir hagfræðingnum sem fann það fyrstur, Anthony Thirlwall. Lögmálið lýsir sambandi langtímahagvaxtar við útflutningsgreinar þjóðarinnar og í sinni einföldustu mynd er sambandið eftirfarandi:

Langtímahagvöxtur í landi A er jafn margfeldinu af hagvexti á heimsvísu og hlutfallinu milli tekjuteygnar eftirspurnar útflutnings og innflutnings.

OK, þetta hljómar illa svo ég skal gera mitt besta til þess að þýða þetta á mannamál.

Fyrst þurfum við að vita hvað „tekjuteygni eftirspurnar“ (e. income elasticity of demand) vöru er. Þetta hugtak lýsir því einfaldlega hversu mikið meira fólk vill neyta af vörunni þegar tekjur þess aukast. Ef ég t.d. eyk tekjur mínar um 1% er ég vís til þess að auka  neyslu  mína á humar um 2%. Það þýðir þá að tekjuteygni eftirspurnar humars er 2, þ.e. 2%/1%. Þetta einfalda samband eftirspurnar eftir vöru og tekna kaupandans er hægt að heimfæra á þjóðfélagið í heild.

Þá er eftir að þýða restina af setningunni. „Hagvöxtur á heimsvísu“ er auðskilinn. „Hlutfallið milli tekjuteygni eftirspurnar útflutnings og innflutnings“ er einfaldlega hlutfallið milli þess hve mikið meira er óskað eftir því að kaupa af útflutningi lands þegar tekjur heimsbyggðarinnar aukast – hagvöxtur á sér stað – og þess hve mikils landið sem um ræðir mun óska eftir því að flytja inn þegar tekjur þarlends fólks aukast.

Ef við t.d. ímyndum okkur að heimsbyggðin vilji kaupa 4% meira af einu vörunni sem er flutt út frá ákveðnu landi þegar tekjur heimsbyggðarinnar aukast um 1% væri það tekjuteygni eftirspurnar útflutnings upp á 4. Á sama tíma mun almenningur í þessu tiltekna landi vilja kaupa eitthvað inn frá öðrum löndum þegar tekjurnar aukast. Segjum að sú aukning sé t.d. 3% fyrir hverja 1% aukningu í tekjum. Tekjuteygni eftirspurnar innflutnings er þá 3. Saman þýðir þetta að hlutfallið milli tekjuteygnar eftirspurnar útflutnings og innflutnings er 4/3 eða 1,33.

Margföldum svo hagvöxt í heiminum öllum við töluna 1,33 og við fáum út langtímahagvöxt í viðkomandi landi samkvæmt Thirlwall.

 Dæmi um virkni lögmáls Thirwalls

Nú getum við skoðað nærtæknara dæmi til að skilja þetta betur.

Ímyndum okkur að landið Ísland geti valið milli tveggja vara þegar það tekur ákvörðun um hvora þeirra eigi að framleiða og flytja út. Köllum vörurnar „ál“ og „ferðamennsku“. Tekjuteygni áls er ca. 0,9 (sjá Tcha & Takashina, 2002) sem þýðir að þegar heimurinn allur eykur tekjur sínar um 1% eykst neysla á áli um 0,9%. Tekjuteygni ferðamennsku er hins vegar í kringum 1,8 (meðal annars háð því hvaðan ferðamennirnir eru að koma og hvert þeir eru að fara, sjá m.a. bók James Mak, 2004, „Tourism and the Economy“, University of Hawai Press) sem er tvöfalt hærri en samsvarandi tala fyrir ál. Við getum, til einföldunar, gert ráð fyrir því að hagvöxtur heimsins sé sá sami hvað sem Íslendingar velja að framleiða og þá gerum við líka ráð fyrir því, til einföldunar, að Íslendingar muni flytja inn sömu vörurnar óháð því hvort þeir ákveði að framleiða og flytja út ál eða ferðamennsku.

Það þarf ekki að íhuga málið lengi miðað við gefnar forsendur og gögn til að sjá að það er ekki gáfulegt fyrir Íslendinga að framleiða ál í staðinn fyrir ferðamennsku. Annars vegar erum við með ál hvers eftirspurn eykst um minna hlutfall en tekjur heimsins aukast um og hins vegar erum við með ferðamennsku sem selst eins og heitar lummur þegar tekjur fólks aukast. Vitanlega ættum við þá að framleiða ferðamennsku frekar en ál.

Þar fyrir utan er svo vitanlega sú staðreynd að hagnaðurinn af álframleiðslu er ekki eftir í landinu heldur er hann fluttur úr landi. Það á ekki við um ferðamennsku sem er í eigu innlendra aðila.

Innflutningshliðin

En þetta er ekki búið því hægt er að hugsa mun lengra en valið milli ferðamennsku og álframleiðslu, þ.e. útflutningsgreina. Lögmál Thirlwalls gengur í raun út á að hámarka hlutfallið milli tekjuteygni eftirspurnar útflutnings og tekjuteygni eftirspurnar innflutnings. Það má gera í fyrsta lagi með því að framleiða frekar þær vörur sem hvað mesta tekjuteygni eftirspurnar hafa – ca. 1,8 í tilfelli ferðamennsku en aðeins um 0,9 í tilfelli áls – en einnig með því að reyna að framleiða sjálf þær vörur sem við þurfum annars að flytja inn.

Eitt dæmi um hugsanlega vöru sem við getum reynt að minnka innflutning okkar á er orka. Þá á ég við orku í formi jarðefnaeldsneytis, s.s. dísel og bensín. Einhver geta er til þess að framleiða metan eldsneyti þótt líklega muni sú framleiðsla aldrei ná að þjóna allri eftirspurninni. Önnur hugsanleg aðferð er að auka fjölda rafmagnsbíla í umferð, sérstaklega þar sem nýjustu rafmagnsbílarnir gefa jarðeldsneytisbílum lítið eftir (t.d. Tesla Model S). Innflutningur á bensíni var rúmlega 18 milljarðar króna á síðasta ári og það væri kærkomið að minnka þessa tölu með þvi að nota orkugjafa – rafmagn – sem við framleiðum sjálf. Hið opinbera gæti aðstoðað við þessa þróun, t.d. með því að fella niður alla skatta og gjöld af rafmagnsbílum.

Hvað með „eitthvað annað“?

Á heildina litið snýst málið um að framleiða þær vörur hvers eftirspurn eykst hraðar en annarra vara þegar tekjur fólks í útlöndum aukast. Ef það tekst ekki er hætt við langtíma stöðnun. Það er til dæmis þekkt vandamál að þróunarlönd framleiða mikið af hrávörum og matvöru en eftirspurn eftir þessum vörum eykst, í mörgum tilfellum, lítið þótt tekjur fólks í öðrum löndum aukist. Útflutningur frá þróunarlöndum tekur því aldrei almennilega við sér. Á meðan framleiða þróuð hagkerfi vörur sem mikil eftirspurn er eftir þegar tekjur fólks aukast. Vegna þessa er svo erfitt fyrir þróunarlönd að brjótast út úr stöðnuninni og ná þróuðu löndunum í lífsgæðum. Íslendingar ættu að forðast að gera þessi mistök, þ.e. að framleiða hrávöru sem lítið meira selst af þótt tekjur fólks í öðrum löndum aukist.

Þær vörur sem seljast mikið þegar tekjur fólks aukast eru t.d. iðnaðarvörur byggðar á hátækni (vitsímar og vandaðir bílar eru gott dæmi), afþreying (þar með talið tölvuleikir, kvikmyndir, ferðamennska, veitingastaðir og fleira í þeim dúr), hágæða matvörur (fín vín, humar, kavíar og lífrænt ræktaðar matvörur svo dæmi sé tekið) og skartgripir (gull, úr, hringar, hálsmen, o.s.frv.). Vörur sem seljast lítið meira þótt tekjur fólks aukist eru vörur á borð við margar hrávörur (þar á meðal ál og margir aðrir málmar), grundvallar matvörur (mjólk, hveiti, hrísgrjón, maís, o.s.frv.) og óunnin vefnaðarvara (tískuvörufatnaður þar sem hönnun er mikilvægur hluti framleiðslunnar er hins vegar með háa tekjuteygni eftirspurnar).

Í raun má segja að svo lengi sem þetta „eitthvað annað“ sem framleiða á í staðinn fyrir meira ál er vara hvers eftirspurn eykst hlutfallslega meira en tekjur fólks aukast eru allar líkur á því að það sé gáfulegra að framleiða „eitthvað annað“ í staðinn fyrir álið. Ferðamennska er þar klárlega ofarlega á blaði og þar sem flestir ferðamenn sem koma til Íslands gera það vegna ósnortinnar náttúru (án rafmagnslína og álvera) eru allar líkur á því að áliðnaður og ferðamennska á Íslandi geti ekki lifað fullkomlega saman í sátt og samlyndi. Og þar sem vaxtar- og tekjumöguleikar ferðamennsku eru betri en álvinnslu á ferðamannaiðnaðurinn að fá forgang hjá stjórnvöldum! Það er þjóðhagslega hagkvæmt!

Íslendingar ættu, frekar en að byggja fleiri álver, að snúa sér að því að byggja ferðamannaiðnaðinn upp fyrir alvöru. Þá ætti að ýta undir nýsköpun í „einhverju öðru“, sérstaklega ef það er í framleiðslu á vöru og þjónustu hvers eftirspurn eykst mikið þegar tekjur fólks aukast. Þá mætti skoða að nota orkuna í „eitthvað annað“ eins og að stuðla að minni innflutningi á dýru jarðefnaeldsneyti. (Og hér er hugmynd fyrir ferðamannaiðnaðinn og orkuiðnaðinn til að vinna saman: reisið „Orkubúgarð“ sem væri knúinn af íslenskri raforku og sýndi t.d. sögu rafmagns, virkni þess og ýmsa notkun á því, eins og t.d. „Magnifying transmitter“ sem jafnvel væri hægt að labba í gegnum… vá hvað það væri flott!! Ég sé líka fyrir mér nokkurs konar „rafmagnstónleika“ þar sem íslensk tónlist væri flutt.)

Allt þetta hefur þá kosti að hagvöxtur á Íslandi yrði hærri til frambúðar en ef haldið væri áfram við uppbyggingu álvera. Uppbygging á „einhverju öðru“ yrði ekki skammtímafix, líkt og hættan er að yrði í tilviki álvers, heldur væri hagkerfinu lyft á hærra stig til frambúðar. Þá myndi arðurinn af þessari starfsemi vera eftir innan íslenska hagkerfisins en ekki vera fluttur úr landi.

Það eru allar líkur á því að það sé efnahagslega skynsamlegt fyrir Íslendinga að láta gott heita í uppbyggingu álvera. Gerum „eitthvað annað“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur