Íslendingar framleiða um 53.000 KWH af rafmagni á mann á ári. Miðað við hina frægu höfðatölu eru Íslendingar langstærstu framleiðendur rafmagns í heiminum. Næsta þjóð á eftir okkur eru Norðmenn með um 26.000 KWH á mann á ári.
Stóriðja á Íslandi kaupir um 80% af þessari raforku. Þar eru langstærstu kaupendurnir aðeins þrír, þ.e. Rio Tinto Alcan, Alcoa og Century Aluminium. Saman má raunar flokka þessi fyrirtæki sem einn hóp, sérstaklega þar sem til eru Samtök Álframleiðenda á Íslandi, SAMÁL.
Einkeypi- og fákeypi
Markaður þar sem aðeins einn kaupandi er af hinni framleiddu vöru er kallaður „einkeypismarkaður“ (e. monopsony). Séu þeir örfáir er markaðurinn kallaður „fákeypismarkaður“ (e. oligopsony).
Einkeypis- og fákeypismarkaðir virka í raun líkt og spegilmynd af einokunar- og fákeppnismörkuðum. Á einokunar- og fákeppnismörkuðum geta framleiðendur vörunnar verðlagt hana á hærra verði en ef almennileg samkeppni ríkti. Á einkeypis- og fákeypismörkuðum eru áhrifin þveröfug: í krafti stærðar sinnar getur kaupandinn krafist lægra verðs á vörunni en ef margir kaupendur væru að henni sem væru af svipaðri stærð.
Klassíska dæmið um einkeypismarkað er heilbrigðisþjónusta. Ástæðan er sú að langstærsti kaupandi heilbrigðisþjónustu er oftar en ekki ríkið, þ.e. þegar heilbrigðisþjónusta er á vegum hins opinbera. Læknar og hjúkrunarfólk eru framleiðendur heilbrigðisþjónustu en í krafti stærðar sinnar sem langstærsti kaupandi slíkrar framleiðslu getur hið opinbera borgað lægra verð fyrir hana en ella. Áhrifa af þessu má raunar gæta í þeim vandamálum sem upp hafa komið í íslenska heilbrigðiskerfinu í dag þar sem hið opinbera virðist reyna hvað það getur að fara ekki eftir gerðum launasamningum og vill þess aukin heldur ekki ganga til nýrra samninga um kaup og kjör lækna og hjúkrunarfólks.
Orkumaðurinn á Íslandi er fákeypismarkaður
Annað augljóst dæmi á Íslandi er orkumarkaðurinn. Langstærsti hluti framleiddrar orku er keyptur af örfáum aðilum sem í krafti stærðar sinnar geta þrýst verðinu sem þeir borga fyrir vöruna niður á við. Landsvirkjun og aðrir framleiðendur raforku geta í raun lítið gert því ef álfyrirtækin myndu ekki taka þátt í orkumarkaðinum myndi Landsvirkjun ekki finna tekjur til þess að borga eigin skuldbindingar á borð við endurgreiðslu lána. Landsvirkjun er því upp við vegg í málinu og getur ekki krafist þess verðs sem hún ella gæti ef raforkan væri seld til fleiri aðila. Ríkið getur ekki gert mikið í málinu heldur því það er ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsvirkjunar.
Álfyrirtæki geta því hótað að labba í burtu og skilja Landsvirkjun og hið opinbera eftir með skuldbindingar sem ólíklega væri ráðið við. Niðurstaðan verður því sú að raforkuverðið verður lægra, kaupendur raforkunnar græða og framleiðendurnir – Íslendingar – sitja eftir með sárt ennið þar sem þeir fá ekki réttmætt verð fyrir vöruna.
Það stórundarlega í stöðunni er að þrátt fyrir þetta fákeypisvandamál á íslenska raforkumarkaðinum virðist eiga að halda áfram að þrýsta á uppbyggingu frekari álframleiðslu á Íslandi en með því yrði þetta vandamál enn alvarlegra en það er í dag. Uppbygging álvers í Helguvík er því síður en svo gáfuleg út frá sjónarmiðinu um fákeypi á íslenskum orkumarkaði.