RÚV var með innslag um 172 milljarða skuldabréfið sem var búið til, með því einu að skrifa það niður á blað, árið 2008 til að „endurfjármagna“ seðlabankann. Nú á að spara 11 milljarða króna með því að breyta bréfinu (sem er alls ekki ný hugmynd) m.a. með því að fella niður vextina af bréfinu.
Einhverjir eru sjálfsagt að hugsa um hvort þetta er hægt! Getur ríkissjóður bara stjórnað vöxtunum eins og hann vill á eigin skuldum? Svarið við þeirri spurningu er afskaplega einfalt: já, hann getur það og ekki bara á þessu bréfi heldur öðrum skuldabréfum líka.
Án þess að lengja þennan pistil að óþörfu með umræðu um kenningarnar þrjár um myndun vaxta (1. vextir sem tímakostnaður, 2. vextir sem jaðarframleiðni framleiðslufjármagns, 3. vextir sem kostnaður öryggis (lausafjárkenning Keynes)) þá vil ég benda á að það eru söguleg dæmi þess að vextir ríkisskuldabréfa hafi verið stjórnað beinlínis af ríkinu. Bretar gerðu það upp úr 1930 allt þar til „kafteinninn“ bakvið stefnuna dó árið 1946. Þá var stefnunni snarlega snúið við því „gömlu“ vaxtakenningarnar sögðu að stefnan væri tóm tjara, jafnvel kommúnísk! Niðurstaðan varð (óþarfa) aukning í vaxtakostnaði breska ríkisins – og vaxtakostnaði annarra aðila innan hagkerfisins.
Það sem Bretar gerðu í stuttu máli var eftirfarandi: þeir buðu upp á ótakmarkað (e. „on tap“) magn ríkisskuldabréfa til kaups með beinni tryggingu fyrir því að nafnverð skuldabréfanna myndi ekki fara niður fyrir ákveðið gólf. Sama hvað gengi á á ríkisskuldabréfamarkaði þá yrði alltaf þetta verðgólf til staðar. Þetta gólf var ákveðið af breska fjármálaráðuneytinu og tryggt af einu stofnuninni sem getur búið til ótakmarkað magn af breskum pundum hvenær sem hún vill: Seðlabanka Englands. Seðlabanki Englands sá til þess að það var alltaf einhver sem myndi kaupa útistandandi ríkisskuldabréf á fyrirfram ákveðnu verði (ávöxtunarkröfu). Vitanlega ákvað breska fjármálaráðuneytið líka hverjir nafnvextirnir (vaxtagreiðslurnar) voru á bréfunum: hví að bjóða 5% þegar fólk samþykkir að þú borgir 3%? Þegar stefnan var tekin upp byrjuðu þeir í rúmlega 3% en voru komnir niður í 2,5% á 10 ára skuldabréfum og að hugsa sér til hreyfings með að lækka vextina enn frekar þegar Keynes (kafteinn stefnunnar) dó. Til samanburðar eru vextir á 10 ára íslenskum ríkiskuldabréfum í kringum 6,4%.
Áhrifin af stefnunni á ávöxtunarkröfu langtíma ríkisskuldabréfa var eftirfarandi (skyggða svæðið er tímabilið sem stefnan var virk, sjá mynd 7.5, bls. 215, í Keynes Betrayed eftir Tily… bókin er frábær, ég mæli með henni!):
Svo ef Íslendingar vilja lækka vaxtakostnað ríkissjóðs, hví að stoppa við Seðlabankabréfið?