Sunnudagur 20.10.2013 - 15:43 - FB ummæli ()

Launahækkanir og þversögn kostnaðar

Það virðist vera þó nokkur umræða um að í komandi kjarasamningum verði launahækkanir að vera hóflegar, ella endi allt hagkerfið í tómu rugli þegar fjárhagslega veik fyrirtæki Íslands lenda í launakostnaðarhækkunum. Þá er líka talað um að of miklar launahækkanir muni drepa niður fjárfestingu, þá litlu sem er til staðar í hagkerfinu, og seinka því að eitthvað gerist af alvöru í hagkerfinu.

Út af þessu langaði mig að benda á að það er nokkuð til í hagfræði sem kallast „fallacy of composition“. Nú veit ég hver íslenskan er yfir þetta hugtak – e.t.v. væri „rökvilla heildarinnar“ eitthvað í áttina – en að útskýra þetta tekur ekki langan tíma: þótt eitt og aðeins eitt gildi um sérhvern hluta heildarinnar þarf slíkt hið sama ekki að gilda um heildina sjálfa.

Frægasta rökvilla heildarinnar í hagfræði er þversögn sparnaðar (e. paradox of thrift). Hún kemur upp þegar aðili ákveður að spara stærri hluta af tekjum sínum til að eiga stærri varasjóð í framtíðinni. En ef allir gera þetta á sama tíma getur heildar eyðslan í hagkerfinu – sem eru tekjur á sama tíma – dregist svo mikið saman að sparnaður einstaklinga eykst í rauninni ekki heldur dregst saman.

Þannig að þótt það sé skynsamlegt fyrir hvern og einn einstakling að spara meira til að eiga stærri varasjóð þá er það ekki jákvætt fyrir heildina ef allir gera það og getur niðurstaðan raunar verið nákvæmlega þveröfug.

Þversögn launakostnaðar

En þær eru fleiri þversagnirnar í hagfræði. Ein af þeim lítt þekktu er þversögn kostnaðar (e. paradox of costs) sem pólski hagfræðingurinn Kalecki benti á fyrstur manna. (Kalecki var raunar merkilegur hagfræðingur og benti á sumt það sem í dag er eignað Keynes á undan honum. En hann skrifaði á pólsku og var ekki þýddur yfir á ensku fyrr en eftir að Keynes var búinn að fjalla um svipuð og jafnvel sömu málefni).

Þversögn kostnaðar virkar á eftirfarandi máta. Ef fyrirtæki stendur frammi fyrir því að þurfa að hækka laun sín þá mun kostnaður framleiðslu þess aukast. Að öllu öðru óbreyttu (l. ceteris paribus, hættulegustu orð sem hagfræðingur getur látið út úr sér!) mun það leiða til minni hagnaðar. Minni hagnaður mun síður en svo vera hvetjandi fyrir fyrirtækið til að fara í fjárfestingar o.s.frv. og þá mun eftirspurn þess eftir vinnuafli dragast saman sem getur aukið atvinnuleysi þegar fólki er jafnvel sagt upp. Launahækkunin er því slæm, bæði fyrir fyrirtækið sjálft sem og launafólkið sjálft því það gæti misst vinnuna.

En ef öll fyrirtæki í hagkerfinu þurfa að hækka laun vinnufólks síns á sama tíma, t.d. vegna kjarasamninga, eru öll heimilin í hagkerfinu að fá meira í hverjum mánuði í launaumslagið. Það þýðir að kaupmáttur heimila eykst – launin eru hærri – og neysla þeirra getur þannig aukist. Neysla heimila er framleiðsla fyrirtækja í hagkerfinu og aukin neysla heimila getur þannig leitt til hærri hagnaðar hjá fyrirtækjum en áður. Kostnaðaraukningin í formi hærri launa sem fyrirtækin urðu fyrir í upphafi skilaði sér því í hærri en ekki lægri hagnaði að lokum.

Þannig var það rangt að heimfæra niðurstöðuna fyrir hluta heildarinnar (eitt fyrirtæki) fyrir heildina alla (öll fyrirtæki) og við stöndum frammi fyrir rökvillu heildarinnar.

Og á Íslandi í dag?

Nú skal ósagt látið hvort þversögn kostnaðar sé til staðar á Íslandi í dag (þá skal ósagt látið hvaða áhrif miklar launahækkanir hefðu á þjóðhagslega mikilvæga þætti eins og afgang á viðskiptum við útlönd). En að minnsta kosti er ljóst að það er ekki hægt að segja það hreint út og með pottþéttum hætti að „ríflegar launahækkanir“ í komandi kjarasamningum muni láta fyrirtæki og hagkerfi Íslands á hliðina.

Það gæti allt eins verið nákvæmlega það sem hagkerfið þarf á að halda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur