Fimmtudagur 21.11.2013 - 14:04 - FB ummæli ()

Kjarasamningarnir og stóra myndin

Finna má gögn um hitt og þetta þegar kemur að efnahagsmálum. Hér er dæmi um gögn sem kannski er vert að hafa í huga þegar kemur að kjarasamningum, en svo virðist sem einhver harka sé að færast í þann leik – hafi það gerst áður.

Laun og framleiðsla

island_laun_framleidni

Gögnin bakvið þessa mynd koma frá OECD og Hagstofunni. Þau eru á vísitöluformi, þ.e.a.s. árið 2008 fá báðar tímaraðirnar gildið 100 og svo er tölurnar endurreiknaðar út frá því gildi í báðum tilvikum. Þannig er tilgangurinn að sýna þróun viðkomandi tímaraða hlið við hlið út frá ákveðnum tímapunkti. 2008 er eins gott ár og hvað annað.

Sem sjá má hafa raunlaun ekki haldið í við (lands)framleiðslu á hverja unna vinnustund frá hruni. Þetta gefur til kynna að virði framleiðslu Íslendinga hefur í auknum mæli endað í vasa eiganda framleiðslufjármagnsins – hinir „hötuðu kapítalistar“ – í stað þess að enda í vasa vinnufólks. Staðan var öðruvísi um aldamótin sem sjá má.

Harkan sem virðist vera að færast í kjarasamningaviðræður snýst um að loka þessu gati. Vinnufólk vill fá til baka sinn hlut. Talsmenn fyrirtækja tala á sama tíma um að ef gatinu er lokað muni það bara enda með verðbólgu, uppsögnum, vaxtahækkunum og viðlíka vandræðum. Enginn vinnur og allir tapa. Skárra að hafa litlar launahækkanir og vinnu en miklar launahækkanir og enga vinnu.

Það er tvímælalaust rétt að launahækkanir myndu ýta undir verðbólgu. Fyrirtæki verðleggja venjulega sínar vörur með álagningu á kostnað við framleiðslu vörunnar en ekki með einhvers konar jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs í huga (sjá t.d. Lee, 1995, Post Keynesian Price Theory, Cambridge University Press). Laun eru venjulega stór hluti þess kostnaðar og því eðlilegt að búast við verðlagsþrýstingi upp á við þegar launahækkanir eiga sér stað. Geta fyrirtækja til þess að koma slíkum kostnaðarhækkunum út í verðlag er vafalaust enn meiri á Íslandi heldur en í mörgum öðrum löndum vegna þess hve lítil samkeppni, almennt séð, er í íslenska hagkerfinu m.v. önnur.

Hins vegar verður einhvern veginn að fjármagna slíkar verðlagshækkanir, þ.e. það verður að vera ákveðin aukning á peningamagni í umferð sem gerir það mögulegt að hækka verðlag. Ef peningamagn í umferð er stöðugt er eini möguleikinn að auka veltuhraða peninga. Sá hraði er, eðlilega, takmarkaður og því geta slíkar verðlagshækkanir ekki staðist til lengdar. Peningamagn í umferð er fyrst og fremst undir áhrifum þess hversu mikil lán bankakerfið nýmyndar.

Seðlabankinn ætlar að reyna að takmarka þessa nýmyndun peninga með hækkun stýrivaxta verði launahækkanir of miklar. Ekki hefur það stýritæki virkað mjög vel í gegnum árin, hvorki á Íslandi né annars staðar, þegar kemur að því að halda útþenslu peningamagns í umferð í skefjum. Og einhver mjög gáfaður á einu sinni að hafa sagt að geðveiki væri að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við öðruvísi niðurstöðu í hvert skipti.

Það er samt lítið mál fyrir Seðlabankann að takmarka nýmyndun peningamagns í umferð: beinar reglugerðatakmarkanir. Seðlabanki Japan gerði það á 7. og 8. áratug 20. aldar og gekk nokkuð vel framan af, a.m.k. þar til þeir leyfðu bönkunum að búa til of mikið af peningum sem síðar þróaðist í eina mögnuðustu húsnæðis- og landbólu sem sögur fara af.

Kosturinn við beinar reglugerðatakmarkanir á nýmyndun lána er sá að stýrivextir verða í raun gagnslausir sem stýritæki. Þeir mættu vera 0%, og jafnvel ættu að vera það, við slíkar aðstæður án þess að hætta væri á ofþenslu peningamagns í umerð með tilheyrandi verðlagsvandræðum.

En 0% stýrivextir væru einkar aðlaðandi fyrir fyrirtæki sem myndu vilja fara í fjárfestingu. Og þar sem reglugerðatakmarkanir væru til staðar um hversu mikið bankarnir mættu lána út myndu þeir heldur vilja lána til fyrirtækja og einstaklinga sem væru með öruggar og vel útpældar viðskiptaáætlanir en til hvers sem er sem ætlaði t.d. að stofna fyrirtæki „for carrying out an undertaking of great advantage, but nobody to know what it is„. (Slík fyrirtæki minna óneitanlega svolítið á Íslenska Erfðagreiningu og aðrar frábærar íslenskar fjárfestingarhugmyndir.)

Bestu viðskiptahugmyndirnar myndu því vinna hlut af því takmarkaða lánsfjármagni sem væru til staðar en aðrar síðri hugmyndir myndu einfaldlega svelta og hverfa. Hættan á einhvers konar bólum væri takmarkaður svo lengi sem Seðlabankinn sæi til þess að nýmyndun lánsfjármagns væri ekki of mikil. Og það gerir hann ekki með stýrivöxtum í dag líkt og ekki aðeins íslenska sagan sýnir okkur heldur margar aðrar sögur frá öðrum hagkerfum.

Lágvaxtahagkerfi með litla verðbólgu, næga fjárfestingu, atvinnu, eftirspurn og launahækkanir sem halda í við framleiðsluaukningu á unna vinnstund. Hljómar eins og draumur í dós.

Já, þetta hljómar eins og draumur í dós sem í dag eru engar líkur á að verði opnuð. Málefnið snýst nefnilega ekki um hvort eða hversu mikið eigi að hækka laun. Kjarasamningarnir snúast um aðeins eina hlið þeirra stofnanalegu umbreytinga sem verða að eiga sér stað í íslensku hagkerfi eigi það að vera stöðugt og aðlaðandi fyrir ungt fólk sem fjárfesta í framtíðinni. Þangað til þær stofnanalegu umbreytingar eiga sér stað munum við halda áfram í hinu endalausa og heldur gagnslausa reipitogi sem við höfum verið í síðustu ár og áratugi. Dósin verður áfram lokuð.

2% eða 6% launahækkanir? Hafið ekki áhyggjur af því, stóra myndin snýst um mikið meira en svarið við þessari spurningu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur