Fyrir tveimur árum síðan gerði ég grín að ríkissjóði Íslands. Tilefnið var skuldabréfaútgáfa í USD sem bar 6,0% vexti sem notað var til að borga erlend lán sem báru 3-3,5% vexti. Ég bar vextina saman við íbúðalánsvexti í Bandaríkjunum sem báru mun lægri vexti en nýútgefið skuldabréf ríkissjóðs. Ég stakk upp á því – í góðlátlegu gríni með alvarlegum undirtóni – að Alþingishúsið yrði næst notað sem veð til að fá lægri vexti. Að minnsta kosti ætti að bjóða lægri vexti næst þegar farið yrði í erlenda skuldabréfaútgáfu.
Nýlega, nánar tiltekið 8. júlí, gaf ríkissjóður út EUR skuldabréf upp á 750 milljónir evra. Vextirnir í þetta sinnið voru lægri: 2,56%. Hugmyndin með útgáfunni var að endurfjármagna útistandandi lán ríkissjóðs sem bera hærri vexti en nýja lánið.
Þetta er skynsamlegt! Öllu mikið skynsamlegra en USD útgáfan fyrir tveimur árum síðan! Enn athyglisverðara er að ávöxtunarkrafan á þessu EUR skuldabréfi ríkissjóðs er svipuð eða lægri en ávöxtunarkrafan sem gerð er á skuldabréf sumra þeirra landa sem nota evruna sem lögeyri. Krafan á grískum skuldabréfum með örlítið styttri gjalddaga (5 ár, svo ef allt væri eðlilegt er samanburðurinn Grikklandi í hag) er í kringum 4,0% og portúgölsk bréf til 5 ára bera um 2,4% ávöxtunarkröfu.
Ég ætla því að hrósa fjármálaráðuneytinu fyrir þessa útgáfu. Vel gert!
Það er svo annað mál hvort ríkissjóður eigi að gefa út skuldabréf í erlendri mynt. Ef þið spyrjið mig þá er svarið þvert, sterkt og óhikað nei! En það er önnur og lengri umræða.