Í nýlegri grein á Bloomberg er skoðun þess efnis að þegar gjaldeyrisforði Seðlabankans sé orðinn eins stór og raun ber vitni þá geti eigið fé Seðlabankans orðið fyrir höggi vegna sveiflna í gengi krónunnar. Slíkt á vitanlega ekki að vera gott, hvorki fyrir Seðlabankann sjálfan né fyrir ríkissjóð. Með þetta í huga er eins gott að hætta að kaupa gjaldeyri, það er of áhættusamt.
Ég ætla hins vegar að segja ykkur að Seðlabanki Íslands þarf ekki að óttast gengisáhættu þegar kemur að gjaldeyriskaupum sínum. Seðlabanki Íslands er eini aðilinn í hagkerfinu sem getur búið til krónur nákvæmlega eins og hann lystir. Ríkissjóður getur raunar líka búið til krónur eins og hann vill en þar sem sú nýmundun króna gerist í gegnum Seðlabanka Íslands má með einföldun segja að Seðlabankinn sé sá eini (SÍ mun samt aldrei neita ríkissjóði að búa til krónur fyrir ríkissjóð).
Að óttast um eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands er óþarfa ótti. Seðlabanki Íslands getur starfað með hvaða eiginfjárhlutfall sem er, hann mun aldrei lenda í gjaldþroti (þ.e. ekki greiða sínar skuldbindingar) þegar kemur að skuldbindingum í krónum. Ástæðan er vitanlega sú að Seðlabankinn býr til krónurnar um leið og hann þarf á þeim að halda. Hið sama gildir um ríkissjóð: ríkissjóður mun aldrei ekki borga skuldbindingar sínar sem eru í íslenskum krónum.
Eitt gott dæmi um það að ríkissjóður og Seðlabanki Íslands geta búið til eins margar krónur eins og þeir vilja er 270 milljarða skuldabréfið sem ríkissjóður afhenti SÍ til að bæta eiginfjárstöðu SÍ eftir hrun. Þessi bókhaldsæfing var tilgangslaus í efnahagslegu tilliti, hún var til þess eins að hafa eigið fé SÍ jákvætt í bókhaldinu. Þessir 270 milljarðar komu hvergi, þeir voru einfaldlega og bókstaflega skrifaðir niður á eignahlið efnahagsreiknings Seðlabanka Íslands og skuldahlið efnahagsreiknings ríkissjóðs. Sem er soldið fyndið því ríkissjóður á SÍ. Þess vegna, þegar horft er á efnahagsreikninga ríkissjóðs og SÍ sem heild, þá var ríkissjóður að lána sjálfum sér 270 milljarða með því að skrifa „ISK 270.000.000.000“ á báðar hliðar efnahagsreiknings síns.
Ég og þú getum líka gert þetta, við getum lánað sjálfum okkur hvað sem vil viljum. En ég og þú gefum ekki út gjaldmiðil sem er viðurkenndur sem fullnaðargreiðsla á skattskuld við ríkissjóð. Þess vegna skiptir máli að ríkissjóður geti gert þetta en það skiptir engu máli þótt ég og þú getum gert þetta. (Ef þið viljið vita meira, lesið ykkur til um chartalism: „… fiat currency has value in exchange because of sovereign power to levy taxes on economic activity payable in the currency they issue.“)
En úr því ég er byrjaður á þessum pistli er eins gott að hrekja tvær aðrar staðhæfingar varðandi kaup Seðlabankans á gjaldeyri.
Kaup Seðlabankans á gjaldeyri veldur auknum lánveitingum banka og verðbólgu
Hugmyndin að baki þessarar staðhæfingar er að þegar Seðlabankinn nýmyndar krónur til að kaupa evrur þá spýtist þessar krónur inn í hagkerfið þegar bankar lána þær út og valda verðbólgu.
Þetta er ekki rétt. Ferlið að baki gjaldeyriskaupum Seðlabankans er eftirfarandi:
- SÍ býr til innistæðu (skrifar hana bókstaflega niður) á eiginn efnahagsreikningi. Þessi innistæða er í eigu íslenska bankans sem selur gjaldeyrinn til SÍ. Segjum að það sé Arion. Gjaldeyririnn sem Arion á og er að selja til SÍ er geymdur á bankareikningi Arion erlendis. Þessi erlendi bankareikningur Arion er t.d. hjá JP Morgan í Bandaríkjunum ef um er að ræða USD.
- Þegar SÍ kaupir USD af Arion mun JP Morgan gera millifærslu af USD bankareikningi Arion yfir á erlendan USD bankareikning SÍ, sem er hjá bandaríska Seðlabankanum. Þessi millifærsla á sér stað því Arion fékk hærri innistæðu á sínum bankareikningi hjá SÍ í staðinn fyrir gjaldeyrinn.
- USD hefur þannig verið færður milli erlendra bankareikninga Arion og SÍ. Arion fær í staðinn hærri innistæðu á sínum bankareikningi hjá SÍ. SÍ hefur nú keypt USD af Arion með því að hækka innistæðu Arion hjá SÍ, bókstaflega með því að skrifa það niður.
Efnahagsreikningur SÍ hefur því stækkað um upphæðina sem hann keypti af Arion sem situr nú uppi með hærri innistæðu inni á bankareikningi sínum hjá SÍ en áður.
Nú er röksemdafærslan sú að þessi aukning í innistæðu Arion hjá SÍ muni valda verðbólgu því Arion mun lána þessa peninga út í hagkerfið.
Þetta er ekki rétt. Arion getur ekki, aldrei, í neinum tilvikum, lánað út í hagkerfið innistæður sem Arion á hjá Seðlabanka Íslands. Það eina sem Arion getur gert við þessar innistæður er a) lánað þær til annarra banka, b) keypt ríkisskuldabréf fyrir þær (sem hefur engin áhrif á peningamagn í umferð og er í raun það sama og að eiga innistæðu á bankareikningi hjá SÍ, eini munurinn er að þá á bankinn fjárskuldbindingu gefna út af ríkissjóði en ekki SÍ) eða c) notað þær til að standa skil á sínum skuldbindingum innan greiðslukerfisins. Arion mun aldrei lána þessar innistæður til fyrirtækis eða einstaklings úti í bæ af þeirri einföldu ástæðu að hann getur það ekki. Þessar innistæður Arion eru bókstaflega fastar innan kerfisins sem bankar og Seðlabankinn eru aðilar að til að sjá til þess að greiðslukerfið á Íslandi gangi smurt fyrir sig.
Og fyrir þá sem halda að þetta muni valda auknum lánveitingum í gegnum hinn svokallaða peningamargfaldara er einfaldast að vísa í þennan pistil. Í stuttu máli: peningamargfaldarinn er ekki til og í raunveruleikanum lána bankar fyrst og leita svo að lausafé (þar með töldum innistæðum hjá SÍ). Lausafjárstaða banka er fjarri þeirra huga þegar þeir búa til útlán í ISK, þeir hugsa fyrst og fremst um eigið eiginfjárhlutfall og hvort viðkomandi lántaki muni borga lánið til baka. Vanti bankana lausafé eftir að þeir hafa búið til útlánið mun Seðlabanki Íslands útvega það, ellegar hætta á að lausafjárþurrð komi upp innan bankakerfisins með tilheyrandi fjármálalegum óstöðugleika.
Þó er rétt að minnast á að kaup SÍ á gjaldeyri getur valdið tímabundinni verðbólgu sé krónan að veikjast í kjölfarið. En önnur verðbólguáhrif eru sannarlega ekki til staðar vegna þess að bankakerfið fær auknar innistæður hjá SÍ.
Kaup á gjaldeyri eru svo dýr
Önnur staðhæfing sem heyrist er að vegna vaxtamunarins við útlönd þá sé svo dýrt fyrir SÍ að kaupa gjaldeyri. Og þar með er það svo dýrt fyrir ríkissjóð. Þess vegna muni það valda aukinni skattbyrði því það verður að vega upp á móti þessu tapi.
Þetta er í sjálfu sér rétt út frá þeirri staðreynd að vaxtatekjur SÍ af gjaldeyriseign sinni verður alltaf minni en vaxtagjöld hans af auknum innistæðum banka hjá SÍ. (Þetta er raunar „vandamál“ sem SÍ býr til sjálfur því hann heldur vöxtum háum á Íslandi). En þetta er ekki rétt hvað varðar skattbyrðina.
Það eina sem gerist er að auknar innistæður banka hjá SÍ fá hærri vaxtatekjur en ef gjaldeyririnn hefði ekki verið keyptur. SÍ borgar fyrir þessar vaxtatekjur á nákvæmlega sama hátt og hann borgar fyrir gjaldeyrinn sjálfan: þær eru bókstaflega skrifaðar inn á innistæðureikning viðkomandi banka. Enginn þarf að borga krónu í skatt til þess að borga þessar auknu vaxtatekjur sem bankarnir fá vegna kaupa SÍ á gjaldeyri. Og sem fyrr segir skiptir það ekki máli fyrir lánveitingar bankanna því innistæður bankanna hjá SÍ eru fastar innan þess kerfis. Það eina sem gerist er að bankar fá hærri innistæður hjá SÍ og vaxtatekjur bankanna aukast í kjölfarið. Hrúga af lausafé hleðst upp í hinu lokaða kerfi sem bankarnir og Seðlabankinn eru aðilar að og sér m.a. til þess að nægt lausafé sé til staðar til þess að greiðslukerfið gangi smurt fyrir sig. Þetta lausafé mun, ég endurtek, aldrei vera lánað út til fyrirtækja og einstaklinga úti í bæ.
Ef til vill er hægt að bera rök fyrir því að auknar vaxtatekjur bankanna og í framhaldinu af því betri eiginfjárgrunnur þeirra ýti þeim í að búa til meira lánsfé fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Hvort þau áhrif hafi teljandi efnahagsleg áhrif efast ég um. En sé svo er auðveldlega hægt að bregðast við þeim með því einu að hækka eiginfjárkröfur á bankana sjálfa.
Kaupum meiri gjaldeyri!
Seðlabanki Íslands hefur ekkert að óttast varðandi sín gjaldeyriskaup. Sannarlega ætti hann ekki að draga úr þeim og ef eitthvað er þá ætti að herða á þeim!
Í stuttu máli á Seðlabanki Íslands að taka Seðlabanka Sviss sér til fyrirmyndar. Gjaldeyrisvarasjóður þess ágæta seðlabanka er andvirði heillrar landsframleiðslu og stækkar enn. Seðlabanka Íslands vantar enn ca. 1.600 milljarða króna í erlendum gjaldeyri til að ná því hlutfalli.