Laugardagur 14.01.2017 - 16:40 - FB ummæli ()

Gjaldeyriskaup SÍ auka ekki peningamagn

Því er stundum haldið fram að kaup Seðlabankans á gjaldeyri auki peningamagn í umferð og auki þar með hættuna á verðbólgu. Því væri best fyrir Seðlabankann að hætta að kaupa gjaldeyri því hann berjist með því gegn eigin markmiði um lága verðbólgu.

Þetta er ekki rétt: það gerist nákvæmlega ekki neitt fyrir peningamagn í umferð þegar Seðlabankinn kaupir gjaldeyri. Og það sem er kallað „stýfing“ gerist sjálfkrafa: það þarf ekki að selja ríkisskuldabréf eða innistæðubréf SÍ til að minnka peningamagn í umferð, einfaldlega vegna þess að peningamagn í umferð eykst aldrei við gjaldeyriskaup SÍ.

Byrjunin

Þar sem kaup SÍ á gjaldeyri eru vegna ferðaþjónustunnar er ekki úr vegi að byrja þar.

Bandaríkjamaðurinn John borgar fyrir sundlaugarferð hjá Laugardalslaug. Segjum að Laugardalslaug sé með sinn ISK bankareikning hjá Arion banka, sem við skulum ímynda okkur að eigi USD bankareikning hjá Goldman Sachs (Goldman er þá það sem er kallað „correspondent bank“ Arion í USD). John borgar með erlendu korti, segjum að hann sé í bankaviðskiptum hjá Bank of America. Þegar John borgar lækkar BofA innistæðu John hjá sér um 900 kr (eða hvað það kostar að fara í sund á Íslandi) í USD á gengi dagsins sem færslan er gerð upp. BofA millifærir í staðinn 900kr í USD af bankareikningi sínum hjá US Fed yfir á USD bankareikning Goldman Sachs hjá US Fed. Goldman lætur þá Arion vita að John sé að borga fyrir sundlaugarferð hjá Laugardalslaug um leið og Goldman hækkar USD innistæðu Arion hjá Goldman. Arion uppfærir þá innistæðureikning Laugardalslaugar hjá sér um 900kr. og lætur Laugardalslaug vita að John hafi borgað.

John hefur þá greitt: hans USD bankareikningur hjá BofA lækkaði um 900kr í USD á gengi dagsins og Laugardalslaug fær 900rk. Arion fær USD og hækkar í staðinn ISK innistæðureikning Laugardalslaugar hjá sér. (Ath, þetta er sýnidæmi til að sýna hvernig þetta virkar bókhaldslega séð. Í raun yrði svona lág færsla aldrei bókuð á þennan veg heldur yrði hún nettuð út á móti öðrum litlum færslum og heildarniðurstaðan svo gerð upp milli banka í greiðslukerfinu í lok dags).

Þannig hefur eftirfarandi gerst:

– það er 900kr aukning á peningamagni í umferð á Íslandi því Laugardalslaug fær 900kr hækkun á sinn bankareikning hjá Arion.
– það er 900kr minnkun á peningamagni í umferð í Bandaríkjunum því innistæða John hjá BofA lækkar um 900kr í USD
– USD innistæða Arion hjá Goldman hækkar um 900kr. í USD á gengi dagsins sem færslan er gerð upp.

Kaup SÍ á gjaldeyri

Þegar Seðlabankinn kaupir gjaldeyri gerist hins vegar þetta (segjum að SÍ kaupi 100kr í USD af Arion):

Arion á 100kr í USD hjá Goldman Sachs. Nú hækkar SÍ innistæðu Arion hjá SÍ sjálfum um 100kr (SÍ bókstaflega skrifar hana niður, enginn borgar þetta í skatta og enginn hefur sparað þetta: algjörlega nýmyndað fé sem hækkar innistæðu Arion hjá SÍ). Í staðinn biður Arion Goldman Sachs um að millifæra 100kr í USD yfir á bankareikning SÍ hjá US Fed af bankareikningi Goldman hjá US Fed.

Innistæða Arion hjá SÍ hefur nú hækkað um 100kr. og erlendur gjaldeyrir Arion hefur lækkað um 100kr (innistæðan hjá Goldman). Skuldir SÍ (innistæða Arion hjá SÍ) hafa hækkað um 100kr, eignir SÍ (USD gjaldeyrir hjá US Fed) hafa hækkað um 100kr. í USD á gengi dagsins sem færslan er gerð upp.

Innistæða Arion hjá SÍ er ekki hluti af peningamagni í umferð

Það sem skiptir öllu máli í þessu er að innistæða banka hjá SÍ er aldrei hluti af peningamagni í umferð (innistæða ríkissjóðs hjá SÍ er heldur ekki hluti af peningamagni í umferð sé einhver að velta því fyrir sér). Þannig er það svo að eyðsla ferðamanna á Íslandi eykur peningamagn í umferð (hækkar innistæðu söluaðilans á Íslandi) en þegar SÍ kaupir gjaldeyrinn gerist ekkert fyrir peningamagn í umferð (því innistæða íslenskra banka hjá SÍ er ekki hluti af peningamagni í umferð).

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að spurningunni um hvort stýfa (e. sterilize) þurfi inngrip SÍ á gjaldeyrismarkaði með því að selja ríkisskuldabréf. Svarið er afskaplega einfalt: nei, það er engin þörf á því vegna þess að það gerist sjálfkrafa. Raunar er það svo að kaup SÍ á gjaldeyri leiða aldrei til þess, ekki einu sinni í sekúndubrot, að peningamagn í umferð aukist einmitt vegna þess að bókunin innan Íslands gerist á innistæðureikningi bankans, hjá SÍ, sem selur SÍ gjaldeyrinn.

Innistæður banka hjá SÍ eru aldrei lánaðar út til fyrirtækja eða heimila úti í bæ – allt tal um að bankar „margfaldi“ innistæður sínar hjá SÍ er einfaldlega rangt – og aukning innistæðu banka hjá SÍ í kjölfar kaup SÍ á gjaldeyri er, út frá virkninni á peningamagn í umferð séð, það sama og að selja ríkisskuldabréf. Enda er það svo að bankar gera þrjá og aðeins þrjá hluti með innistæður sínar hjá SÍ: a) þeir kaupa ríkisskuldabréf og -ríkisvíxla (og aðrar skuldbindingar SÍ, t.d. innistæðubréf eða bundin innlán), b) þeir lána innistæðuna til annarra banka sem þurfa e.t.v. á þeim að halda vegna lausafjárkrafna og c) þeir gera upp greiðslukerfið með þeim.

Myndin að neðan sýnir skuldbindingar SÍ í eigu fjármálastofnana (heimild: Seðlabanki Íslands). Síðan SÍ byrjaði aftur að kaupa gjaldeyri reglubundið um mitt ár 2014 hafa skuldbindingar SÍ í eigu fjármálastofnana aukist margfalt, sjá mynd. Ástæðan er að fjármálastofnanir (einkum bankar) fá skuldbindingar Seðlabankans í staðinn fyrir gjaldeyrinn þegar SÍ kaupir af þeim gjaldeyri sem þær hafa eignast vegna milligönguhlutverks síns í greiðslukerfinu þegar ferðamenn borga fyrir vöru á Íslandi, sjá hér að ofan. Aukningin rétt fyrir Hrun er tengd ástarbréfaviðskiptunum þegar SÍ var að reyna að auka lausafjáreign íslenskra bankastofnana: hann bjó til og jók innistæðu banka hjá sér sjálfum og í staðinn eignaðist hann skuldbindingu gefna út af bankastofnunum sjálfum. Í dag gerist það sama nema í dag eignast hann gjaldeyri.

fjarmalastofnanir

 

Áhrifin á vexti á millibankamarkaði

Hvað varðar áhrifin af gjaldeyriskaupum SÍ á vaxtamyndun á millibankamarkaði er það afskaplega einfalt: þau eru engin, einfaldlega vegna þess að SÍ greiðir bönkum innlánsvexti á innistæður banka hjá SÍ sjálfum (í dag 4,75%). SÍ ræður þessum vöxtum sjálfur og mynda þeir gólfið fyrir vexti á millibankamarkaði (og þeir hafa mikilvæg áhrif á vaxtamyndun ríkisskuldabréfa, sjá neðar): enginn banki mun lána öðrum banka sína innistæðu  hjá SÍ nema fá hærri vexti en SÍ borgar sjálfur á viðkomandi innistæðu.

Innlánsvextir banka sem SÍ borgar þeim hafa líka mikilvæg áhrif á vexti ríkisskuldabréfa. Eins og ég minnist á hér að ofan gera bankar aðeins þrjá hluti með innistæður sínar hjá SÍ: þeir kaupa ríkisskuldabréf og -víxla og aðrar skuldbindingar SÍ, þeir lána öðrum bönkum og þeir gera upp greiðslukerfið með þeim.

Ef ofgnótt lausafjár er í bankakerfinu, eins og er í dag m.a. vegna gjaldeyriskaupa SÍ sem hafa aukið innistæður banka hjá SÍ sjálfum samanber það sem hér að ofan er ritað, vilja og þurfa bankar ekki taka þessar innistæður að láni hjá hvorum öðrum til að t.d. uppfylla lausafjárkröfur eða sjá til þess að greiðslukerfið gangi smurt fyrir sig.

Því getur banki í raun bara gert eitt við innistæðuna sína hjá SÍ sem hugsanlega eykur hagnað bankans: keypt ríkisskuldabréf eða -víxla. En ef ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og -víxla er lægri en innlánsvextirnir sem SÍ ákveður að bankarnir skuli fá þá kaupir bankinn vitanlega ekki nein ríkisskuldabréf eða -víxla heldur skilur féð eftir óhreyft á innistæðureikningi sínum hjá SÍ og safnar þar vöxtum. Sama hversu mikið af gjaldeyri SÍ kaupir sem hækkar innistæðu bankanna hjá SÍ sjálfum. Áhrifin af gjaldeyriskaupum SÍ á vexti eru því engin þegar ofgnótt af lausafé er þegar til staðar.

Áhrif innlánsvaxta SÍ á vaxtamyndun ríkisskuldabréfa og -víxla

Að lokum er hér skemmtileg staðreynd sem þið getið hugsað út í og bent ykkar þingmanni á: ef SÍ ákveður að bjóða ekki upp á bundin innlán og engin innistæðubréf og hættir að borga bönkum vexti á innistæður bankanna sjálfra hjá SÍ mun ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og -víxla lækka niður í 0%. Vextir á millibankamarkaði myndu fylgja með en, vegna áhættuálags lána til einkaaðila, þó vera hærri (en aldrei hærri en daglánavextir SÍ þegar SÍ veitir banka lán í einn dag).

Ástæðan er afskaplega einföld: eftir að SÍ hættir að borga bönkum innlánsvexti, og hættir að bjóða upp á bundin innlán og innistæðubréf, sitja bankarnir uppi með fé (innistæða hjá SÍ) sem þeir geta ekki lánað út til neins og safnar engum vöxtum. Bankarnir munu því gera það eina sem þeir geta gert með féð sem eykur hagnað þeirra: kaupa ríkisskuldabréf og -víxla sem, ólíkt innistæðureikningi þeirra hjá SÍ, borgar þeim vexti. Þetta munu bankarnir gera uns ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og -víxla fellur niður í vaxtaprósentuna sem þeir fá fyrir innlán sín hjá SÍ: 0%.

Svo ef þið viljið lækka vaxtabyrði ríkissjóðs er einfaldast að Seðlabanki Íslands hætti að borga bönkum vexti á innistæður banka hjá Seðlabankanum sjálfum.

Svo að lokum: ef SÍ borgar ekki bönkum vexti á innistæður sínar en vill samt hitta á vaxtastig á millibankamarkaði sem er hærra en 0% verður SÍ að selja ríkisskuldabréf. Salan á ríkisskuldabréfum dregur úr lausafé á millibankamarkaði og hækkar vaxtastigið á millibankamarkaði. Þetta yrði gert uns vextir á millibankamarkaði hefðu hækkað upp í það stig sem SÍ vildi hitta á – og þetta er raunveruleg stýfing og í samræmi við það sem er kennt í inngangskúrsum í hagfræði! En þessi aðgerð, þessi stýfing, er óþarfi þegar SÍ borgar bönkum vexti á innlán bankanna hjá SÍ.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur