Fimmtudagur 22.02.2018 - 22:38 - FB ummæli ()

Umsögn við fjármálastefnu 2018 – 2022

*Þessi pistill birtist fyrst á Patreon síðu minni þar sem mínir velunnarar fengu aðgang að honum fyrst. Þú getur styrkt bóka- og greinarskrif mín um íslensk efnahagsmál á Patreon.com. $3 á mánuði veita þér aðgang að öllum pistlum og bætirðu $2 við sendi ég þér eintak af fyrstu bók minni þegar hún verður tilbúin, vonandi á þessu ári.*

———————————————-

Ég settist niður á sunnudaginn og ritaði nokkurra blaðsíðna umsögn til fjárlaganefndar vegna fjármálastefnu 2018 – 2022.

Miðað við fréttir síðustu daga voru aðrir umsagnaraðilar aðallega að hnýta í að ekki væri verið að fara nægilega varlega við áætlunina vegna forsendna um langan tíma hagvaxtar.

Mér fannst það satt best að segja léttvægt vandamál því greiðslugeta ríkissjóðs í ISK er ekki háð hagvexti á nokkurn hátt.

Einnig var því haldið fram að það yrði að fara varlega í dag til þess að eiga efni fyrir útgjöldum ríkissjóðs á morgun.

En það er ekki rétt: ríkissjóður er útgefandi íslenskrar krónu og mun aldrei, vegna efnahagslegra ástæðna, lenda í vandræðum með að borga fyrir neitt sem verðlagt er í ISK.

Þá benti ég á að minni afgangur á rekstri ríkissjóðs fæli ekki endilega í sér slaka á aðhaldsstigi opinberra fjármála. Ástæðan er að við vitum ekki hvort eftirspurnaráhrifin sem eru að koma frá hinum geirum (innlendi einkageirinn og erlendi geirinn) hagkerfisins séu minni eða meiri á sama tíma. Geirajafnvægi skiptir nefnilega máli: þótt afgangur eins geira sé að minnka getur heildareftirspurn í hagkerfinu eftir sem áður verið að minnka.

Ef eitthvað er benti ég ekki nægilega skýrt á að þótt ríkissjóður þurfi ekki að hafa áhyggjur af sinni greiðslugetu í ISK gildir ekki hið sama um sveitarfélög. Ég minnist aðeins stuttlega á þetta atriði.

Eins benti ég á og hvatti nefndarmenn til þess að öll erlend lán ríkissjóðs væru greidd upp sem allra fyrst. Enda er ríkissjóður notandi viðkomandi gjaldmiðla en ekki útgefandi.

Þá benti ég nefndarmönnum á að atvinnubótavinna væri kjörið opinbert (ótímabundið) verkefni sem ríkissjóður getur fjármagnað til að ná fram grunngildum fjármálastefnunnar (sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa, gagnsæi).

Að nokkru leyti var eftirfarandi texti kjarni umsagnar minnar:

Opinberar skuldbindingar ríkissjóðs í ISK eru alltaf viðráðanlegar út frá efnahagslegu sjónarmiði. Það er engin þörf fyrir ríkissjóð að spara í dag til þess að „eiga fyrir“ opinberum framkvæmdum þegar núverandi hagvaxtarskeiði lýkur. Að minnka opinberar skuldir í ISK í dag hefur engin áhrif á getu ríkissjóðs til þess að inna af hendi greiðslur í ISK í framtíðinni „þegar harðna fer á dalnum“ í efnahagslegu tilliti. Peningaleg og fjárhagsleg markmið sjálfstæðs ríkis sem gefur út sinn eiginn lögeyri eiga fyrst og fremst að snúa að því að valda ekki verðbólgu en ekki að draga úr peningalegum opinberum skuldum, þ.e. peningalegum eignum einkageirans.

Umsögnin birtist í heild sinni hér í viðhengi. Endilega kíkið á allar sex blaðsíðurnar!

Fjármálastefna 2018 – 2022: Umsögn

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur