Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, skrifar grein í Fréttablaðið sem birtist á vefsvæðinu Vísi.is. Þar setur Þórður út á viðbrögð hagsmunaaðila í kjölfar eignarnámsumsókna Landsnets á landi sem á að fara undir Suðurnesjalínu 2 – eignarnám sem viðkomandi landeigendur fréttu af í fjölmiðlum. Ég ætla ekki að velta þeim viðbrögðum fyrir mér heldur benda á eftirfarandi rangfærslu í grein Þórðar.
Þórður ritar: „Landsnet gegnir því lagalega hlutverki að tryggja öruggt og hagkvæmt raforkukerfi á Íslandi en um leið að gæta að umhverfisáhrifum nauðsynlegra flutningsvirkja.”
Þetta er ekki rétt. Hið rétta er að Landsnet gegnir því lagalega hlutverki að tryggja öruggt og þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi á Íslandi en um leið að gæta að umhverfisáhrifum nauðsynlegra flutningsvirkja. Um þetta er kveðið í raforkulögum (lög 65/2003, 1.gr., undirstrikun mín):
“Markmið laga þessara er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.”
Hagkvæmt og þjóðhagslega hagkvæmt
Á þessu tvennu – „hagkvæmu“ raforkukerfi og „þjóðhagslega hagkvæmu“ rafkorkukerfi – er stór munur.
Munurinn er sá að þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi tekur tillit til allra þátta, beinna sem óbeinna, sem að kerfinu og uppbyggingu þess lúta. Þar með talið eru svokölluð ytri áhrif en það eru áhrif sem verða á þriðja aðila vegna samninga milli tveggja aðila. Þessi ytri áhrif geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Klassískt dæmi um neikvæð ytri áhrif er útblástur bíls: eigandi bílsins (aðili 1) kaupir eldsneyti á bíl (af aðila 2) og greiðir fyrir það ákveðið verð en þetta verð tekur ekki tillit til kostnaðarins sem Jón Jónsson (aðili 3) verður fyrir þegar gæði loftsins í kringum hann verða verri vegna útblásturs. Í tilviki raforkukerfisins má nefna neikvæð sjónræn áhrif af loftlínum. Það yrði að taka tillit til slíks í þjóðhagslegu arðsemismati á uppbyggingu raforkukerfisins.
Hagkvæmt raforkukerfi er allt annað mál. Í því tilviki er hagkvæmnin eingöngu skoðuð út frá áhrifum framkvæmdarinnar á Landsnet. Vitanlega hefur Landsnet, í tilviki Suðurnesjalínu 2, gert arðsemismat þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé arðsöm. Framkvæmdin er raunar bara arðsöm ef nægilega lág arðsemiskrafa er gerð. Grundvöllur arðsemisreikninga Landsnets er 5,98% nafnvextir sem er vægast sagt hlægilega lág arðsemiskrafa og m.a.s. lægri en á ríkisskuldabréfum en ávöxtunarkrafa á þeim (lengsti flokkurinn) er 6,6%: Landsnet myndi græða meira á því að kaupa ríkisskuldabréf, einhverja öruggustu eign sem hægt er að kaupa í hvaða hagkerfi sem er, en að byggja Suðurnesjalínu 2.
Trikkið er að átta sig á því að jafnvel þótt eitthvað geti verið hagkvæmt fyrir Landsnet þá er ekki þar með sagt að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Ástæðan er að hagkvæmnimatið fyrir Landsnet, sem er jákvætt svo lengi sem ávöxtunarkrafan er nægilega lág, tekur ekki tillit til „útblástursins“ sem yrði af lagningu Suðurnesjalínu 2 á t.d. ferðaþjónustu á svæðinu.
Hvar er þjóðhagslega hagkvæmnismatið á Suðurnesjalínu 2?
Málið er að þjóðhagsleg arðsemismat hefur ekki verið gert á Suðurnesjalínu 2 né á Suðvesturlínum í heild. Þetta er svo jafnvel þótt bæði heilbrigð skynsemi teldi það sjálfsagt sem og að skýrt er á um það kveðið í raforkulögum að byggja skuli kerfið upp á þjóðhagslega hagkvæman máta.
Þetta er ekki lítið hagsmunamál sem engu máli skiptir. Ímyndið ykkur t.d. áhrifin á ferðaþjónustu á svæðinu og á landinu öllu! Eitthvað segir mér að ferðamenn sem vilja upplifa „ósnortna náttúru Íslands“ – ein helsta ástæða þess að þeir koma til landsins – verði ekki par hrifnir af því að sjá háspennumöstur alla leiðina milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Og seint verður upplifunin af því að fara í Bláa Lónið sú sama ef háspennulína blasir við himin. Raunar er það svo að m.v. núverandi áætlanir þarf að keyra undir Suðurnesjalínu 2 þegar farið er í Bláa Lónið frá Keflavík eða Reykjavík.
Líkanmynd sem sýnir sjónrænu áhrif Suðvesturlína í formi loftlína (heimild: Suðvesturlínur)
Í þessu sambandi er rétt að benda á niðurstöðu Rögnvaldar Guðmundssonar sem gerði, fyrir Landsnet, rannsókn á því hver yrðu áhrif Suðvesturlína á útivist og ferðaþjónustu:
„Heildarniðurstaðan er sú að þessar áformuðu línulagnir á Reykjanesskaganum muni hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu á svæðinu, enda um verulega aukningu á línumagni að ræða.“
„Talsverð neikvæð áhrif“ eru, samkvæmt skýrslu Rögnvaldar, næst versta einkunn af sjö mögulegum (einkunnin „-2“ á skalanum -3 upp í 3).
Er framkvæmdin þjóðhagslega hagkvæm?
Landsnet hefur, eftir því sem ég best veit, aldrei tekið tillit til þessa neikvæða þáttar á ferðaþjónustu, né annarra ytri þátta, þegar hugað er að byggingu Suðvesturlína. Þetta er svo jafnvel þótt raforkulög kveði á um að svo eigi að gera, þ.e. í samræmi við markmið laganna um að byggja upp þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi.
Því er rétt að spyrja spurningarinnar sem er eftir að svara: er fyrirhuguð lagning Suðvesturlína þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd og ef ekki, er hægt að breyta lagningu þeirra svo framkvæmdin verði þjóðhagslega hagkvæm?