Föstudagur 25.10.2013 - 16:47 - FB ummæli ()

Flugvöllurinn – lausn fyrir alla

Ríkið, borgin og flugið hafa náð samkomulagi um lausn á flugvallarmálinu. Völlurinn fær að vera á sama stað til 2022, en á tímabilinu verði unnið að því að finna honum nýjan stað, helst á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er mikið fagnaðarefni.

Með þessu er m.a. opnað á framkvæmd þeirrar tillögu sem ég hef verið talsmaður fyrir – þ.e. að færa völlinn í áföngum á uppfyllingar í Skerjafirði.

Aðrir staðir nálægt höfuðborgarsvæðinu kæmu þó til greina.

Hér er mynd úr skipulagstillögum sérfræðingahóps, þar sem ein braut er komin að fullu á uppfyllingu og hin gæti svo farið í framhaldinu. Svigrúm verður í tíma til að vinna þetta vel og farsællega.

Með þessu fengju allir sitt: landsbyggðin, flugið og höfuðborgin (sjá hér og hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.10.2013 - 21:46 - FB ummæli ()

Forystu vantar – ekkert gerist

Allir eru sammála um alvarlega stöðu Landsspítalans.

Allir.

Kvöld eftir kvöld koma nýjar upplýsingar frá málsmetandi læknum um alvarlegt ástand tækja, ófullnægjandi húsakost og manneklu – og umfram allt afleitar horfur til framtíðar við óbreytt ástand.

Í kvöld var greint frá hjartalækningadeildinni (hér). Enn einn dapurlegi vitnisburðurinn.

Af hverju er ekki hlustað á læknana? Hvað þarf til?

Hvers vegna tekur enginn stjórnmálamaður forystuna og gerir eitthvað? Kemur með plan um veglega aukafjárveitingu og hvernig megi fjármagna hana.

Hvar er heilbrigðisráðherrann? Velferðarnefnd Alþingis? Forsætisráðherrann? Fjármálaráðherrann?

Af hverju gerir enginn það sem gera þarf?

 

Svo eru það skuldamál heimilanna!

Talsmenn ríkisstjórnarinnar ýmist tala skuldaleiðréttinguna niður (Sjálfstæðismenn), eða vara fólk nú við að framgangur málsins muni taka miklu lengri tíma en lofað var (Framsókn).

Hvoru tveggja er slæmt og grefur undan stjórninni.

En svo kemur formaður slitastjórnar Glitnis og segir “fullkomlega óskiljanlegt af hverju stjórnvöld séu ekki löngu byrjuð að ræða við þrotabú bankanna um lyktir þeirra”!

Halló! Á þetta stóra mál að gerast af sjálfu sér – án viðræðna við þá sem eiga að borga?

Í ofanálag kemur svo Bjarni Benediktsson og segir að stór skref verði stigin á næstu 6 mánuðum til að losa gjaldeyrishöftin!

Ætlar Bjarni að grafa undan samningsstöðu okkar gagnvart kröfuhöfum þrotabúanna með afléttingu gjaldeyrishaftanna – áður en búið er að leysa mál snjóhengjunnar og skuldaniðurfellingarinnar?

Hvernig? Hvar fæst gjaldeyririnn sem til þarf?

Getur Bjarni Benediktsson tryggt að gengið muni ekki hrynja með tilraunum til að losa gjaldeyrishöftin – með skelfilegum afleiðingum fyrir kaupmátt og skuldir heimilanna?

Nei, það getur hann augljóslega ekki.

Bjarni segir raunar ekkert hvað hann er að tala um. Þetta hljómar því eins og innantómt og ábyrgðarlaust tal hjá honum, nema hann fari beinlínis með fleipur. Enda trúir hinn vandaði formaður Samtaka iðnaðarins ekki orðið af því sem Bjarni sagði í dag (sjá hér).

Stór mál og erfið gerast ekki af sjálfu sér.

Forystu þarf. Annars gerist ekkert af viti…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.10.2013 - 12:31 - FB ummæli ()

Kjarasamningar – þetta er verkefnið

Aðilar vinnumarkaðarins birtu fyrir helgi nýja skýrslu um kjaraþróun og ýmsar forsendur sem þeir hyggjast líta til í komandi kjarasamingum.

Tvennt skiptir mestu máli fyrir komandi kjarasamninga, að mínu mati. Það er þetta:

  • Auka þarf kaupmátt almennings til að örva hagkerfið, í anda Keynesískrar hagstjórnar (sjá ný skrif Ólafs Margeirssonar hagfræðings um það).
  • Ná þarf upp kaumætti eftir hrun hans, svo Ísland verði betur samkeppnishæft fyrir launafólk.

Varðandi fyrri punktinn hef ég skrifað nokkra pistla (t.d. hér). En varðandi seinni punktinn þá er ágæt mynd úr ofangreindri skýrslu aðila vinnumarkaðarins sem sýnir verkefnið sem fyrir liggur.

Myndin er hér:

Screen shot 2013-10-21 at 12.53.54 PM

Græna línan sýnir hvernig kaupmátturinn hrundi hér 2008 og 2009 og út frá henni má ætla að við þurfum nú að komast upp fyrir þjóðirnar sem eru í neðri sætunum.

Það þýðir um 5-8% aukningu kaupmáttar, sem mætti koma á svona einu til tveimur árum, í markvissum skrefum á sex mánaða fresti – með miklu aðhaldi gegn verðbólgu.

Talsmenn atvinnurekenda segja að hækkanir kaups hér ættu að vera aðeins um eða undir 2% eins og á hinum Norðurlöndunum. Fyrst þarf hins vegar að ná upp drjúgum hluta af kjaraskerðingunni – og stöðugri gjaldmiðli.

Kaupmáttaraukning þarf að vera meiri hér en í grannríkjunum á næstu misserum. Annars festumst við á botni kreppunnar.

Kjarasamningar á Íslandi geta ekki orðið eins og á hinum Norðurlöndunum fyrr en búið er að jafna helstu skilyrðin að öðru leyti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.10.2013 - 10:49 - FB ummæli ()

Spilling í stjórnkerfinu – mikil eða lítil?

Gallup International gerði könnun á viðhorfum almennings í nærri 130 löndum á síðasta ári, þar sem spurt var: “Er spilling víðtæk í stjórnkerfi lands þíns, eða ekki?“

Niðurstöðurnar má sjá á myndinni hér að neðan (tvísmellið á myndina til að stækka hana).

Spillingin í heiminum

Ísland er í 42. sæti. Almenningur á Íslandi telur sem sagt í mun meiri mæli en almenningur á hinum Norðurlöndunum að spilling sé víðtæk í stjórnkerfinu. Þar eru það á bilinu 14-30% sem telja spillingu víðtæka í stjórnkerfinu á móti 67% hér á landi. Þetta er mikill munur.

Vestræn hagsældarríki sem teljast með meiri spillingu en Ísland skv. þessari mælingu eru aðeins Bandaríkin (73%), Ítalía (86%), Portúgal (88%) og Grikkland (92%).

Útkoman fyrir Ísland er því alls ekki nógu góð.

Transparency International birtir einnig upplýsingar um spillingu í opinbera geiranum, sem byggir á öðruvísi gögnum. Þar kemur Ísland betur út og er í 11. sæti. Þó fyrir neðan öll hin norrænu löndin.

Almenningur telur sem sagt í mun meiri mæli að spilling sé ríkjandi í íslenska stjórnkerfinu en mælingar Transparency International benda til.

Erfitt er að meta hvor niðurstaðan er réttari. Hins vegar er það grafalvarlegt ef almenningur trúir því í svona miklum mæli að spilling sé víðtæk í stjórnkerfinu. Slíkt er ekki bara spurning um lítið traust á stjórnmálum og stjórnkerfi. Þetta kallar því á úttektir, aðhald og eftirlit í auknum mæli, t.d. frá Ríkisendurskoðun og óháðum rannsóknaraðilum.

Ganga verður úr skugga um hvort slíkar grunsemdir almennings eigi við rök að styðjast.

Fyrirgreiðsluspilling hefur lengi verið talin mikil hér á landi, eins og fram hefur komið í rannsóknum prófessoranna Svans Kristjánssonar og Gunnars Helga Kristinssonar. Fyrirgreiðsluspilling tengist ekki síst of miklum samgangi milli stjórnmála og viðskiptalífs. Það var ríkur þáttur í því sem orsakaði hrunið. En fyrirgreiðsluspilling á einnig við á öðrum sviðum.

Einkavæðing bankanna er líklega mest sláandi og afdrifaríkasta dæmið um slíka fyrirgreiðsluspillingu. Mikilvægt er því að fyrirhuguð úttekt rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu bankanna fari fram.

Spillingin er eins og syndin, lævís og lipur og leynist víða. Mikið er í húfi að unnið sé gegn henni. Það er ein af mikilvægustu lexíum hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.10.2013 - 15:55 - FB ummæli ()

Færri öryrkjar á Íslandi en í Skandinavíu

Alltaf annað slagið gýs upp umræða um mikla fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi. Margir virðast trúa því að hér sé framfærslubyrði samfélagsins óvenju mikil vegna örorku og elli. Hér sé alltof auðvelt að komast á örorkulífeyri.

Það er ekki rétt, ef borið er saman við hinar norrænu þjóðirnar.

Á myndinni hér að neðan má sjá hve hátt hlutfall þjóðarinnar 16 ára og eldri þáði lífeyri eða bætur á árinu 2011. Seinni myndin sýnir hve hátt hlutfall í einstökum aldurshópum er á örorkulífeyri.

Hlutfall lífeyrisþega

Mynd 1: Hlutfall allra lífeyrisþega af íbúum 16 ára og eldri, Norðurlöndin árið 2911. (Heimild: NOSOSKO 2012)

 

Hér má sjá að á meðan um 21% íbúa 16 ára og eldri á Íslandi voru á lífeyri eða bótum þá var samsvarandi hlutfall í hinum norrænu löndunum frá 27% til 30%.

Munurinn er umtalsverður. Álíka hátt hlutfall 67 ára og eldri eru á ellilífeyri í öllum löndunum og skýrist munurinn því einkum af lægra hutfalli öryrkja á Íslandi. Það má sjá á næstu mynd.

Hlutfall öryrkja 2011

Mynd 2: Tíðni örorkulífeyrisþega í ólíkum aldurshópum 16-67 ára: Norðurlöndin 2011. (Heimild: NOSOSKO 2012)

 

Örorkulífeyrisþegum fjölgar hlutfallslega með hærri aldri. Þannig er það alls staðar. Einkum verður hlutfall öryrkja hærra eftir 45 til 50 ára aldurinn.

Ísland er með hærra hlutfall örorkulífeyrisþega í yngstu aldurshópunum (þar sem tíðnin er þó lægst), en frá 50 til 54 ára er Ísland á svipuðu róli og hinar þjóðirnar.

Hærra hlutfall ungra öryrkja er líklega mest hér vegna meira brottfalls úr framhaldsskólum. Því fylgja meiri áhættur á að fara afvega í lífi og heilsu.

Frá 55 ára aldri og upp að ellilífeyrisaldri er hlutfall öryrkja á Íslandi umtalsvert lægra.

Öryrkjum fjölgar þannig mun örar með hærri aldri á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi. Það er helst í Danmörku sem hlutfallið eftir 60 ára aldurinn er svipað og á Íslandi, en Danir fara þó í mun meiri mæli á lífeyri eftir að 65 ára aldri er náð.

Það er því enginn fótur fyrir þeirri trú sumra að lífeyrisþegar almennt og öryrkjar sérstaklega séu óvenju margir á Íslandi.

Þar að auki hefur verulega dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi á síðustu árum (sjá það hér). Áður þegar atvinnuleysi jókst þá fjölgaði  nýjum örorkulífeyrisþegum mun örar. Það gerðist hins vegar ekki eftir hrun, þó margir hafi óttast að sú yrði raunin.

Breytt vinnubrögð við örorkumat hjá TR ásamt því að tryggt væri að öll önnur úrræði væru reynd áður en fólk með heilsubresti færi á örorkulífeyri skipti máli. Verulega auknar virkniaðgerðir Vinnumálastofnunar og aukin áhersla á endurhæfingu og virkni hjá vinnumarkaðsaðilunum (VIRK) höfðu einnig áhrif til hins betra.

Með þessu var dregið úr líkum á að óeðlilegur fjöldi fólks festist á örorkulífeyri vegna kreppunnar, án þess beinlínis að eiga heima þar. Án þessara mótvægisaðgerða hefðu afleiðingar hrunsins því orðið alvarlegri.

 

Síðasti pistill: Sjálfstæðiskona vegur að fátækum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.10.2013 - 11:29 - FB ummæli ()

Sjálfstæðiskona vegur að fátækum

Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er í herferð gegn fátækum í Reykjavík.

Hún gagnrýnir harðlega að borgin skuli hafa hækkað leyfilega upphæð fjárhagsaðstoðar við fólk í sérstökum fjárhagsþrengingum. Segir að upphæðin nálgist lægstu laun um of og að þetta dragi úr vilja fólks til að vinna sér til sjálfsbjargar.

Reykjavíkurborg hækkaði fjárhagsaðstoðina sem hluta af viðbrögðum við kreppunni sem kom í kjölfar frjálshyggjuhrunsins. Þeim sem eru í vandræðum og hafa t.d. misst rétt til atvinnuleysisbóta og þurfa að stóla á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi hefur vissulega fjölgað í kreppunni.

Hins vegar stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi sjálfstæðiskonunnar.

Eftirfarandi eru nokkrar ástæður þess:

  • Rangt er að miða fjárhagsaðstoðina við lægstu laun. Þeir sem eru á lægstu launum eru einkum skólafólk í hlutastörfum, ófaglærðir nýliðar á vinnumarkaði eða útlendingar sem búa við slík kjör venjulega í skamman tíma.
  • Lægstu laun fullvinnandi fólks eru í flestum tilvikum laun verkafólks. Þau voru að jafnaði um 358 þúsund á mánuði 2012 skv. Hagstofunni. Þá var hámark fjárhagsaðstoðarinnar í Reykjavík 163.635 kr. á mánuði fyrir einhleypan sem rekur eigin heimili, eða um 46% af miðlaunum verkafólks.
  • Meðallaun verkafólks í lægsta tekjufjórðungi (þ.e. regluleg heildarlaun hjá láglaunaverkafólki) voru um 297.000 krónur 2012. Fjárhagsaðstoðin var um 55% af þeim launum. Hættan á vinnuletjandi áhrifum af fjárhagsaðstoðinni er því hverfandi.
  • OECD var að birta nýjar tölur um atvinnuþátttöku í gær. Þar kom fram að atvinnuþátttaka á Íslandi er nú sú hæsta innan samtakanna. Það er því enginn fótur fyrir því að vinnuletjandi áhrif af bótakerfi eða fjárhagsaðstoð séu vandamál hér á landi.
  • Flestir Íslendingar sem geta unnið vegna heilsufars og fá atvinnutækifæri vilja frekar vinna – og gera það í reynd. Þannig hefur það lengi verið. Allt tal um annað er rangt. Líf á bótum eða fjárhagsaðstoð er örsjaldan eða aldrei betri kostur fyrir fullfrískt fólk.
  • Þeir sem fengu fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg á árinu 2012 fengu hana greidda að jafnaði í 5,1 mánuð. Fyrir flesta er sá stuðningur því tímabundinn, til að fleyta fólki í gegnum sérstaka erfiðleika. Fólk sem er utangarðs í samfélaginu og sem ekki á neinna annarra kosta völ þarf þó að reiða sig á slíka ölmusugreiðslu. Þannig er það í öllum borgum og víðast er umfangið meira en í Reykjavík.

Sjálfstæðismenn eru eins og Repúblikanar og frjálshyggjuróttæklingar í Bandaríkjunum.

Þeir hafa mestar áhyggjur af því að hátekjufólk borgi of háa skatta og að fátækt fólk hafi það of gott á bótum eða lífeyri. Vilja skera niður velferðarkerfið og bæta hag auðmanna.

Málflutningur borgarfulltrúans sýnir að auki lítinn skilning á því að hér varð hrun og djúp kreppa. Hún virðist telja að hækkun fjárhagsaðstoðarinnar hafi búið til atvinnuleysisvanda í Reykjavík.

Veruleikinn er allt annar. Atvinnuleysi hefur verið minnkandi á síðustu árum og einnig á þessu ári – þrátt fyrir það að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi hækkað fjárhagsaðstoðina í kreppunni.

Þessi annars ágæti borgarfulltrúi ætti að endurskoða málflutning sinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.10.2013 - 09:36 - FB ummæli ()

Það sem AGS lærði um ríka fólkið á Íslandi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skekur nú heimsbyggðina með boðskap í nýrri skýrslu sinni um að rétt kunni að vera að skattleggja ríkasta fólkið og fyrirtæki meira til að vinna gegn halla á ríkisbúskap og ójöfnuði.

Þetta eru helgispjöll í heimi hagfræðinnar, þar sem frjálshyggja og auðmannadekur hafa ráðið ríkjum.

Boðskapur frjálshyggjumanna hefur frá um 1980 verið sá, að það sé allra meina bót að lækka skatta á ríkasta fólkinu. Bættur hagur þeirra ríku hafi góð áhrif á hagvöxt og molar hrynji af veisluborðum þeirra niður til þeirra tekjulægri, segja trúboðar frjálshyggjunnar.

Nú er komin um 30 ára reynsla af þessum boðskap. Niðurstaðan er að slík forréttindi hátekjufólks skila engu til samfélagsins nema auknum ójöfnuði, bóluhagkerfum, kreppu og hægari hagvexti í mörgum löndum.

Það voru einkum þeir ríku sem steyptu samfélögum heimsins út í fjármálakreppuna með skuldsettu braski sínu. Og þeir græddu rosalega á bólutímanum.

Víðast á Vesturlöndum hefur skattbyrði þeirra ríku lækkað eftir 1980, bæði með lækkun jaðarskatta á tekjur og eignir, en einnig með lægri skattlagningu á fjármagnstekjur.

Sú þróun varð mjög afgerandi á Íslandi eftir 1995, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Hún sýnir þróun skattbyrðarinnar hjá ríkasta einu prósenti þjóðarinnar (gögn frá Ríkisskattstjóra).

Skattbyrði ríkra til 2011

Ríkasta eitt prósentið á Íslandi greiddi um 35% af heildartekjum sínum í beina skatta árið 1994. Það lækkaði svo ár frá ári niður í 13% árið 2007, er það varð lægst (enda voru fjármagnstekjur sem báru einungis 10% skatt mestar það árið).

Eftir hrun jókst svo skattbyrði ríkasta fólksins, bæði vegna minnkandi fjármagnstekna og upptöku þriggja þrepa tekjuskatts vinstri stjórnarinnar (sjá nánar hér).

Þetta var mikilvæg breyting, því auknar tekjur af skattlagningu þeirra sem greiðslugetu höfðu varð til þess að ekki þurfti að skera eins mikið niður í opinberum útgjöldum. Nóg var nú samt – enda fjárhagsvandi ríkisins skelfilegur.

Íslenska leiðin í skattlagningu hátekjuhópa og fyrirtækja hjálpaði þannig til við endurreisnina.

Þessa lexíu boðar AGS nú til heimsins.

Frjálshyggjumenn og hagsmunagæslumenn ríka fólksins munu rísa upp á afturlappirnar og reyna að kveða þetta í kútinn. Sennilega ná þeir árangri. Völd þeirra eru einfaldlega svo mikil.

Spurning er hvort Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra læri eitthvað af þessum boðskap á fundi AGS í Washington sem hann nú situr. Lækkun tekjuskatts á auðmenn og útvegsmenn gengur þvert á þennan boðskap AGS!

Lítillega hærri skattlagning á þá hópa myndi duga til að bjarga heilbrigðisþjónustunni.

 

Síðasti pistill: Kaupmátturinn batnar of hægt

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.10.2013 - 09:34 - FB ummæli ()

Kaupmátturinn batnar of hægt

Samtök atvinnulífsins og sumir stjórnmálamenn leggjast nú kröftuglega gegn alvöru kauphækkunum í komandi kjarasamningum.

Það er aðfinnsluvert af tvennum ástæðum:

  • Íslendingar tóku á sig meiri kjaraskerðingu en aðrar vestrænar þjóðir í kjölfar hrunsins
  • Endurheimt viðunandi kaupmáttar hefur gengið of hægt og heldur nú aftur af hagvexti

Það er óþolandi og beinlínis skaðlegt ef Íslendingar festast með of lök kjör í kjölfar kreppunnar. Við þurfum að vera samkeppnishæf fyrir launafólk – annars missum við okkar besta fólk úr landi.

Hvernig hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna þróast fyrir og eftir hrun? Það má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir tölur Hagstofunnar (sjá hér).

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna tekur tillit til kaupmáttar launa, vinnumagns, húsnæðiskulda og skatta. Allir helstu afkomuþættir eru taldir með – ekki bara launin.

Kaupmáttur heimila til 2012

Við hrun krónunnar og kreppuáhrifin sem fylgdu féll kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um nærri 30%, sem var met í kjaraskerðingu. Lækkunin var minni hjá lægri tekjuhópum en meiri hjá þeim tekjuhærri.

Í kjölfarið varð svo góð hækkun á árinu (5,1%), vegna kjarasamninga og batnandi atvinnu- og skuldastöðu.

Síðan þá höfum við staðið að mestu leyti í stað.

Á árinu 2012 lækkaði kaupmátturinn um 0,8% og lítil eða engin hækkun verður á yfirstandandi ári (2013).

Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár gerir ráð fyrir 0,3% aukningu kaupmáttar.

Þetta er enginn gangur!

Ef menn tala við verslunarfólk má heyra afleiðingarnar. Það er enginn skriður á einkaneyslunni neins staðar og hagvöxturinn hægist og slappast.

Þess vegna segi ég, með tilvísun til Keynesískrar hagfræði, að við þurfum að ná kaupmættinum upp á viðunandi stig til að koma meiri þrótti í hagkerfið.

Það þurfa að koma umtalsverð skref í átt aukins kaupmáttar út úr kjarasamningunum í nóvember.

Það yrði gott fyrir alla – konur og kalla. Líka fyrir atvinnulífið.

 

Síðasti pistill: Orsakir hrunsins – í fræðilegu samhengi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.10.2013 - 23:43 - FB ummæli ()

Orsakir hrunsins – í fræðilegu samhengi

Margt hefur skýrst um orsakir íslenska hrunsins á síðustu árum.

Hrunið byrjaði sem hrun hlutabréfamarkaðarins haustið 2007. Síðan tók við hrun krónunnar frá ársbyrjun 2008 og loks kom hrun bankanna í október 2008. Eftir það hrundi traust á stjórnvöldum og efnahagslífið sökk í kreppu, sem náði botni á árinu 2010.

Hrunið kom í kjölfar óvenju stórs bóluhagkerfis sem byrjaði 1998 til 2001, eins og Gylfi Zoega hagfræðiprófessor benti á í nýlegum athyglisverðum fyrirlestri (hér). Síðan tók hagkerfið flugið aftur með mun róttækari hætti frá og með árinu 2003, eftir að bankarnir voru að fullu komnir í einkaeign vildarvina stjórnvalda.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins tvöfölduðust frá 1997 til 2001 en áttfölduðust svo frá 2002 til 2008 (sjá hér).

 

Íslenska bólan var af sama toga og aðrar bólur – en stærri og gáleysislegri

Í megindráttum er bóluhagkerfið og hrunið á Íslandi eins og flestar erlendar fjármálakreppur – bæði í aðdraganda og afleiðingum. Sérstaðan á Íslandi var einkum sú, að hér gerðust hlutirnir með meiri hraða og gengu lengra en annars staðar hefur sést. Þannig varð t.d. skuldasöfnun þjóðarbúsins (einkum bankanna og fyrirtækja) eftir 2002 meiri en annars staðar hefur áður sést (sjá hér og hér).

Þannig liggur beinast við að skoða ríkjandi kenningar um fjármálakreppur þegar skýra skal íslensku fjármálakreppuna, bóluna og hrunið.

Á myndinni hér að neðan eru samantekin helstu einkenni á aðdraganda og orsökum fjármálakreppa, samkvæmt áhrifamiklum fræðiritum um efnið.

Slide2

Flestar fjármálabólur byrja í kjölfar aukins frelsis á fjármálamarkaði, bæði með afreglun (deregulation), nýmælum sem skapa aukið framboð fjármagns (t.d. skuldabréfavæðingu og vafningum o.fl.) og öðru sem eykur aðgengi að fjármagni. Í alþjóðlega umhverfinu magnaðist svo áhættan af þessu með auknu framboði lánsfjár á lágum vöxtum eftir 2001.

Eftir 1980 hafði víða á Vesturlöndum aukist trú margra á sjálfstýringarmætti óheftra markaða, sem jók andvaraleysi og afskiptaleysisstefnu. Þar með var dregið úr eftirliti og aðhaldi opinberra stofnana og stjórnvalda. Frjálshyggjan barðist einmitt gegn ríkisafskiptum, þ.m.t. eftirlitsiðnaði og fjármálaeftirliti sérstaklega.

Eins og Hyman P. Minsky sýndi fyrir löngu leiða slíkar aðstæður, með auknu frelsi og auknu aðgengi að lánsfé, til aukinnar bjartsýni, aukinna fjárfestinga og aukins brasks eða spákaupmennsku. Þensla eykst, með aukinni gróðasókn og auknum ójöfnuði, því það eru einkum aðilar úr yfirstéttinni sem taka þátt í fjármálabraski og hagnast mikið á uppsveiflunni.

Allt leiðir þetta til aukinnar skuldasöfnunar. Í þeim skilningi er mikil aukning skuldasöfnunar mikilvægasta hættumerkið um yfirvofandi fjármálakreppu, því ör skuldasöfnun magnar ofþenslu, eignaverð og önnur bóluáhrif – auk þess að stórauka áhættur hvers konar.

Því meiri sem skuldasöfnunin er, þeim mun meiri líkur eru á að illa fari og ekki takist að forða brotlendingu, þegar hægir á framboði fjár á mörkuðum eða þegar eignaverð falla með stórauknu framboði í kjölfar versnandi ástands – eða bara þegar traust lánveitenda þrýtur.

Hér á Íslandi varð skuldasöfnun þjóðarbúsins sem sagt meiri en áður hefur sést í fjármálasögunni, að mati Reinhart og Rogoffs. Það eitt og sér segir mikið um þróunina sem hér varð. Írland var næst því að jafna hina geigvænlegu skuldasöfnun Íslendinga.

Saman fóru alþjóðleg áhrif, klassísk bólueinkenni og séríslenskar aðstæður sem mögnuðu þróunina langt úr hófi.

 

Séríslenskar aðstæður mögnuðu bóluna

Þó íslenska bólan og hrunið hafi um margt verið í anda flestra þekktra fjármálakreppa, þá gætti einnig sérstakrar þróunar á Íslandi. Þróunin hér varð jú öfgafyllri eða gáleysislegri en í öðrum vestrænum löndum. Hvað olli því?

Eftirfarandi eru helstu séríslensku þættirnir sem mögnuðu bóluna og gerðu sitt til að hrunið varð stærra og hrikalegra en í flestum öðrum löndum.

  • Of náin samgangur stjórnmála og viðskipta til lengri tíma. Þetta veikti ríkisvaldið um leið og það styrkti fjármálaöflin og færði þeim meira frelsi til að fara afvega. Slíkt ástand eykur gjarnan klíkukapítalisma og fyrirgreiðsluspillingu. Slíkt fyrirkomulag hefur verið ríkur þáttur íslenska samfélagsins allan lýðveldistímann.
  • Hröð umskipti frá langvarandi ríkisafskiptakerfi til frjálsra markaðshátta, einkum frá og með 1995, skapaði verulegar nýjar áhættur, ekki síst í ljósi veiks ríkisvalds sem aðhylltist afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar. Þessu tengdust m.a. fjármálavæðing sjávarútvegs og aðildin að EES (sem innleiddi algert frelsi til fjármagnsflutninga milli landa, sem var mikið nýmæli á Íslandi).
  • Misheppnuð einkavæðing bankanna kom síðan til sögunnar, beint í kjölfar aukins frelsis á fjármálamarkaðinum íslenska (nýir eigendur bankanna höfðu ekki reynslu af alþjóðlegri fjárfestingabankastarfsemi, en sökktu sér djúpt í slíka starfsemi strax – og fóru geist).
  • Oftrú á óhefta markaði og ókunnugleiki áhrifamikilla íslenskra hagfræðinga og stjórnmálamanna á hættum sem fylgja óheftum fjármálamarkaði.
  • Skortur á faglegri gagnrýni í þjóðmálaumræðunni og veikir fjölmiðlar. Möntrur óheftrar peningahyggju og afskiptaleysisstefnu áttu því of greiðan aðgang að þjóðinni og mögnuðu agaleysið – og áhætturnar.
  • Mistök í stjórnun peningamála og fjármála almennt, sem meðal annars mögnuðu upp ofþensluna (t.d. álver sem bættist við öfgafulla skuldabólu; létting bindiskyldu þegar þörf var á öndverðum aðgerðum; stórlækkun skatta á fjármagnstekjur þegar ástæða var til að veita viðnám gegn braski).
  • Kunningjasamfélag, með of nánum tengslum aðila sem ættu að veita hver öðrum aðhald.
  • Of mikil samþjöppun eignarhalds (krosseignatengsl), bæði á fyrirtækjum, bönkum og fjölmiðlum. Þetta stórjók áhættur og færði fjármálamönnum og atvinnurekendum of mikil völd í samfélaginu.
  • Landlægur skortur á reglufestu og aga.

Allt þetta varð sem sagt til þess að skuldasöfnun þjóðarbúsins varð geigvænleg. Þróunin varð öfgafyllri og gáleysislegri en í öðrum vestrænum löndum. Þegar alvarlegar viðvaranir bárust erlendis frá haustið 2005 og vorið 2006 þá voru það síðustu forvöð til að hemja þróunina og aftra stórslysi.

Það var ekki gert, heldur gefið í og brugðið á það ráð að fegra aðstæðurnar (með aðstoð fræðimanna og stjórnmálamanna).  Síðan var tekið til við að afla bönkunum skammtímalána með yfirboðum vaxta á innlánsreikningum á internetinu (Icesave o.fl.), þegar erlendir fjármálamarkaðir lokuðust. Það seinkaði uppgjörinu og stórjók tjónið sem af hlaust.

 

Niðurstaða

Þarna fóru því saman stóraukið frelsi á fjármálamarkaði á stuttum tíma, mikil oftrú á sjálfstýringu og hagkvæmni markaða, afskiptaleysisstefna, ókunnugleiki og andvaraleysi gagnvart augljósum áhættum, og veikt eftirlit Seðlabanka,  Fjármálaeftirlits og stjórnvalda.

Afleiðingin var taumlaust brask með auðfengið lánsfé, sem fól í sér gríðarlegar áhættur. Þróunin varð fljótlega ósjálfbær. Það tók nýja eigendur stærstu bankanna einungis um fimm ár að reka þá alla í þrot, með óhóflegum lánveitingum til braskara, ekki síst til þeirra sjálfra.

Þegar íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn knúðu dyra í seðlabönkum vestrænna grannríkja á árinu 2007 og 2008 með hjálparbeiðni, var þróunin á Íslandi of langt gengin til að hægt væri að bjarga bönkum sem voru allt að  tífalt stærri en þjóðarbúið sjálft. Íslandi var vísað á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem veitir neyðaraðstoð með uppbyggilegum skilyrðum fyrir þá sem hafa farið sér að voða.

Þjóðin hefði ekki verið borgunaraðili fyrir þeim lánveitingum sem þörf var á til að bjarga bankakerfinu. Að auki hefði slíkt bundið þjóðina á mun verri skuldaklafa en á endanum varð.

Bólan og fyrirhyggjuleysið voru svo langt gengin á árinu 2007 að hrunið var þá óumflýjanlegt.

Frá haustinu 2007 var einungis tímaspursmál hvenær blaðran myndi springa.

———————————-

Helstu heimildir: Hyman P. Minsky (2008); Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff (2009 og 2011); Charles P. Kindleberger og Robert Aliber (2005); Nourini Roubini og Stephen Mihm (2011); Joseph Stiglitz (2010); Gary B. Gorton (2012); Posner (2011 og 2012); Martin H. Wolfson og Gerald A. Epstein (2012); Rannsóknarnefnd Alþingis (2010); Robert Aliber og Gylfi Zoega (ritstj. 2011).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.10.2013 - 21:40 - FB ummæli ()

Mistök ríkisstjórnarinnar?

Það er auðvitað hægt að hafa ýmsar skoðanir á fjárlögunum.

En ef mið er tekið af málflutningi aðstandenda ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar þá blasa við a.m.k. þrenn stór mistök í fjárlagafrumvarpinu.

  • Meðferðin á Landsspítalanum
  • Undanhald í nýsköpun.
  • setja auðmenn í forgang í skattalækkunum

Allir voru sammála um að nú væri komið að umskiptum fyrir Landsspítalann. Læknar, stjórnmálamenn og almenningur töluðu einum rómi – af mikilli alvöru. Þeirra á meðal voru núverandi heilbrigðismálaráðherra  og einnig formaður fjárveitinganefndar.

Hver er svo uppskeran?

Engin aukning og sérstakt framlag vinstri stjórnarinnar til tækjakaupa (um 600 m.kr.) er fellt niður! Að auki er sérstakur skattur lagður á sjúklinga (gistináttagjald).

Forstjórinn lét ekki bjóða sér þetta og hætti samstundis.

Þau ljós sem kveikt voru í fyrra eru slökkt á ný, þ.e. aukið rými til tækjakaupa, sérstök launahækkun til starfsfólks og áform um nýbyggingar. Hnignunin heldur því áfram.

Þetta eru slæm mistök. Ríkisstjórnin hefði frekar átt að bæta einum til þremur milljörðum til Landsspítalans strax og marka stefnu um frekari uppbyggingu á næstu þremur árum.

Bæði heilbrigðismálaráðherra og formaður fjárlaganefndar viðurkenna nú að hæpið sé að leggja gistináttagjald á sjúklinga. Segjast vonast til að Alþingi breyti því!

Hvers vegna voru þau þá að leggja þetta til, með Bjarna Benediktssyni?

Datt þeim í hug að skattur á veikasta fólk landsins yrði vinsæll?

 

Nýsköpun kæfð

Vinstri stjórnin virðist hafa haft meiri skilning á gildi nýsköpunar fyrir hagvöxt en núverandi stjórn. Það kom fram í sérstökum skattaívilnunum til nýsköpunarfyrirtækja sem vinstri stjórnin innleiddi.

Nýsköpun var einnig hjartað í fjárfestingaráætlun fyrri stjórnarinnar, sem átti að fjármagna með hagnaði af bönkunum (arði og sölu hluta) og með nýja veiðigjaldinu. Fjárfestingaráætlunin var vel hugsað plan um hagvaxtarörvun, sem gæta átti um allt land, t.d. í sóknaráætlunum landshlutanna.

Meðal annars átti að tvöfalda fé í rannsóknar- og þróunarsjóðum, sem skiptir miklu fyrir nýsköpun.

Þetta er allt blásið af.

Skynsamlegra hefði verið hjá ríkisstjórn sem vill auka hagvöxt að tvöfalda eða þrefalda fjárveitingar til viðfangsefna fjárfestingaráætlunarinnar.

En það er sem sagt allt blásið af. Raunar er ekki að sjá nein merki örvunar í nýja fjárlagafrumvarpinu.

Halda menn að niðurskurður án örvunar skapi hagvöxt?

 

Mistök að setja auðmenn í forgang

Það má líka telja mistök hjá ríkisstjórninni að setja auðmenn í forgang, með lækkun veiðigjaldsins og afnámi auðlegðarskattsins. Einnig með lækkun álagningar í milliþrepi sem skilar mestu til þeirra tekjuhærri.

Sjálfstæðismenn töluðu fyrir kosningar eins og skattar allra yrðu lækkaðir, en ekki bara skattar þeirra ríkustu.

Þó væri skrítið að kalla þetta mistök, því þetta er jú það sem Sjálfstæðisflokkurinn í reynd setur í forgang – að bæta hag þeirra ríkustu.

 

Síðasti pistill: Eldhafið í Evrópu!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.10.2013 - 00:19 - FB ummæli ()

Eldhafið í Evrópu!

Ég hef lengi haft taugar til Evrópu. Þess vegna hrekk ég oft við þegar ég les skrif um Evrópu og ESB hér á landi. Þar er yfirleitt dregin upp svo hrikaleg mynd af einu og öllu sem evrópskt er.

Þegar fjallað er um kreppuna er eins og Evrópa standi  öll í björtu báli – eða að allt sé að hrynja hjá þeim greyjunum!

Slíkar hörmungarfréttir af Evrópu, sem finna má hjá íslenskum þráhyggjubloggurum, ellibelgjum á Evrópuvaktinni og Hádegismóra á Mogganum, að ógleymdum æsingamönnum á ÍNN, hafa vakið mér óhug  og áhyggjur af vinum mínum í Evrópu.

Ég hef því nýlega gert mér ferð til nokkurra höfuðborga Evrópusambandsins og kannað aðstæðurnar.

Ég stakk fyrst niður fæti í Kaupmannahöfn – áður höfuðborg Íslands, en nú djúpt sokkin í Evrópusambandið.

Skemmst er frá því að segja að ástandið þar er skelfilegt. Allt stendur í ljósum logum, eins og sjá má á myndinni hér að neðan, sem tekin er rétt fyrir utan Tívólí í miðborginni.

DSC_3220 b2

Það vekur þó aðdáum að venjulegir borgarar reyna enn að draga fram lífið og fara um í daglegum erindum sínum – þrátt fyrir eldhafið.

Hér að neðan má svo sjá fólk á flótta undan eldtungunum við ráðhústorgið…

DSC_3237 b2

Hér er svo enn ein mynd sem einnig er tekin á götum Kaupmannahafnar, en þar má sjá að Danir eru nú farnir að keyra um á asískum rickshaw-reiðhjólum í stað leigubíla. Það er víst ekki lengur hægt að fá eldsneyti á bíla í Danaveldi.

DSC_3228 b2

Það er sem sagt rosalegt að sjá hversu illa Evran og skrifstofufólk í Brussel hefur leikið þjóðirnar í Evrópu!

Það sem ekki er hrunið stendur í ljósum logum…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 2.10.2013 - 08:04 - FB ummæli ()

Fjárlögin – að mestu óbreytt stefna

Nýja fjárlagafrumvarpið felur í sér litlar sem engar breytingar frá stefnu vinstri stjórnarinnar.

Áfram er almennt aðhald gagnvart útgjöldum, eins og á síðasta ári. Tryggingagjald á fyrirtæki er lækkað lítillega – eins og á síðasta ári.

Það sem kallað er tekjuskattslækkun (lækkun álagningar í milliþrepi) er hverfandi og raunar óvíst um hvort það verður raunlækkun á skattbyrði þegar breyting persónuafsláttar og vaxtabóta bætist í reiknidæmið. Óvíst er hvað verður um virðisaukaskattbyrðina.

Þriggja þrepa skattkerfi vinstri stjórnarinnar er viðhaldið nær óbreyttu.

Hækkun barnabóta um 30%, sem vinstri stjórnin setti á í byrjun árs 2013, verður fram haldið og sömuleiðis verða sérstöku vaxtabæturnar framlengdar (þó er gert ráð fyrir um 15% lækkun þeirrar upphæðar sem fer til vaxtabóta, líklega vegna væntrar kaupmáttaraukningar í komandi kjarasamningum og lækkunar skulda).

Afnám skerðinga tekjutryggingar til eldri borgara og öryrkja, sem vinstri stjórnin gerði ráð fyrir að kæmi til framkvæmda um næstu áramót, verður efnd – eins og félags- og húsnæðismálaráðherra hafði þegar lofað.

Meðferð Landsspítalans, íslenskrar kvikmyndagerðar og nýsköpunar í þessu frumvarpi er það helsta sem kemur á óvart. Gistináttaskattur á sjúklinga aflar smáaura og verður varla framkvæmdur. Óráð er að afnema fyrirhugaða fjárveitingu vinstri stjórnarinnar til tækjakaupa á Landsspítala. Kanski verður því breytt – ef marka má orð heilbrigðisráðherra.

Þá er óskynsamlegt að slátra hinni snjöllu og örvandi fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, eins og nú er gert. Skynsamlegra hefði verið að gefa í á þeim vettvangi, ekki síst á nýsköpunarsviðinu – til að örva hagvöxt.

Það sem Bjarni Benediktsson kallaði fyrir þremur árum “brjálæðislegar skattahækkanir” er að mestu áfram við lýði – enn um sinn.

Þær hækkanir lögðust einkum á hærri tekjuhópa og fyrirtæki og sumar þeirra voru hugsaðar sem tímabundin úrræði vegna hrunsins. Framhald þeirra nú þjónar þeim tilgangi að enda hallarekstur á fjárlögum, en það var einnig stefna vinstri stjórnarinnar. Aukin skattlagning fjármálageirans nú styrkir þau markmið.

Á heildina litið er þetta sama stefna og vinstri stjórnin innleiddi. Afnám auðlegðarskatts á ríkasta fólk landsins og lækkun fyrirhugaðs veiðigjalds eru helsta sérstaða nýju stjórnarinnar á sviði skattamála.

Kanski vinstri stjórnin geti litið á nýja fjárlagafrumvarpið sem hól!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.9.2013 - 21:13 - FB ummæli ()

Einstakur árangur í baráttu gegn atvinnuleysi

Þó hrunið á Íslandi hafi verið stærra en hjá öðrum þjóðum voru afleiðingarnar hér á landi ekki þær verstu sem kreppan lagði á vestrænar þjóðir.

Verstu afleiðingarnar hér voru hin gríðarlega kjaraskerðing heimilanna og aukin skuldabyrði, sem hvoru tveggja varð vegna hruns krónunnar (um nærri 50%). Að auki rústaði hrunið fjármálum ríkisins.

Hjá flestum öðrum kreppuþjóðum varð atvinnuleysið hins vegar stærsta vandamálið, en kjaraskerðing Evru-þjóða varð í staðinn mun minni en hjá Íslendingum.

Íslendingar náðu hins vegar einstökum árangri í að halda aftur af atvinnuleysinu og einnig við að ná því niður aftur eftir 2009.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig atvinnuleysið var á Vesturlöndum í júlí síðastliðnum (gögnin koma frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins).

Atvinnuleysi í júlí 2013

Ísland er með fimmta besta árangurinn í baráttunni gegn atvinnuleysi, næst á eftir Þýskalandi, Austurríki, Japan og Noregi sem er á toppnum. Nú í ágúst var atvinnuleysið komið enn neðar á Íslandi, eða í 4,4%.

Ef litið er á atvinnustig (hlutfall fólks á vinnualdri sem er í launaðri vinnu) þá var Ísland á toppnum á Vesturlöndum þegar í árslok 2012, með 79,1%. Atvinnustigið hafði þá hækkað um hátt í tvö prósentustig frá 2010.

Þetta er auðvitað ótrúlega góð útkoma fyrir Ísland, ekki síst í ljósi þess hversu gríðarlega stórt hrunið var.

Stjórnvöld eiga sinn þátt í þessum árangri, ásamt góðum vexti í ferðaþjónustu. Ýmsar aðgerðir og átaksverkefni hins opinbera til að örva atvinnu og vinnumarkaðsúrræði skiluðu góðum árangri.

Vinnumálastofnun á heiður skilinn fyrir kröftuga eflingu margvíslegra vinnumarkaðsúrræða. Ég hygg að fá ef nokkur dæmi muni finnast á Vesturlöndum um meira umfang þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum en varð hér á Íslandi eftir hrun og allt fram á þetta ár.

Ég hygg að á engan sé hallað þó Runólfur Ágústsson sé sérstaklega nefndur í þessu sambandi. Runólfur er þekktur fyrir dugnað og áræði og lét virkilega til sín taka í starfi sínu sem stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og verkefnisstjóri vinnumarkaðsúrræða í gegnum kreppuna. Honum ber að þakka góð störf.

Atvinnuleysi er eitt versta bölið sem fylgir kreppum. Þó Íslendingar hafi yfir miklu að kvarta vegna frjálshyggjuhrunsins, þá ber að meta það sem vel var gert.

Baráttan gegn atvinnuleysi á Íslandi eftir hrun er öllum sem að komu til sóma. Það á við um stjórnvöld sem mörkuðu skynsama stefnu og þeim sem hana framkvæmdu, í samvinnu við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.9.2013 - 18:38 - FB ummæli ()

Morgunblaðið stýrir flokknum

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins til áratuga, segir eftirfarandi í nýlegum pistli á Evrópuvaktinni:

“Það stefnir í mikinn slag í borgarstjórnarkosningum í vor. Með ítrekuðum skrifum um borgarmál svo löngu fyrir þær kosningar er Morgunblaðið augljóslega að leggja grunn að málefnabaráttu minnihlutans í borgarstjórn fyrir þær kosningar (feitletrun mín). Svo á eftir að koma í ljós hvernig núverandi minnihluta sjálfstæðismanna gengur að vinna úr þeim grunni, sem þar er verið að leggja.”

Þetta er stórmerkileg yfirlýsing.

Styrmir staðfestir þarna áróðurshlutverk Morgunblaðsins í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Og ekki bara það, heldur benda ummæli hans til að Morgunblaðið hafi frumkvæði að stefnumótun flokksins.

Svo er spurning, segir hann, “hvernig núverandi minnihluta sjálfstæðismanna gengur að vinna úr þeim grunni, sem þar (í Mogganum) er verið að leggja”!

Það er sem sagt Morgunblaðið sem stýrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins – hefur frumkvæði og tekur forystu.

Það var líka ritstjóri Morgunblaðsins sem mótaði núverandi Evrópustefnu Sjálfstæðisflokksins, sem byggð er á barnalegu hatri, bulli og ofstæki gagnvart öllu evrópsku.

Við vissum auðvitað að Morgunblaðið hefur alltaf stutt Sjálfstæðisflokkinn, en nú vitum við enn meira – sem sagt það að Mogginn leggur línurnar fyrir frambjóðendur flokksins.

Morgunblaðið skammar síðan borgarfulltrúa flokksins í Reykjavík eins og krakkaorma og hótar þeim öllu illu ef þeir ekki gera eins og fyrir þá er lagt! Sum þeirra bogna undan þrýstingnum og hverfa á braut!

Það er af sem áður var, er Morgunblaðið hafði þokkalega stöðu sem fréttamiðill.

 

Síðasti pistill: Landsspítalinn – skelfileg tíðindi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.9.2013 - 20:41 - FB ummæli ()

Landsspítalinn – skelfileg tíðindi!

Landsspítalinn hefur búið við viðvarandi niðurskurð frá árinu 2003. Eftir hrun var lögð áhersla á að auka tekjutilfærslur til heimilanna (vaxtabætur, atvinnuleysisbætur og lífeyrislágmarkið), til að milda áhrif hinnar gríðarlegu kjaraskerðingar sem hruninu fylgdi.

Í staðinn var skorið niður í velferðarþjónustu (heilsugeira og menntun) og framkvæmdum, því staða ríkisfjármála var afleit (14,5% halli var á ríkisbúskapnum í lok árs 2008 og byrjun 2009).

Frjálshyggjuhrunið var jú skelfilegt í alla staði og lagði gríðarlegan kostnað og kjaraskerðingu á þjóðina.

Skerðingar fjárveitinga til Landsspítalans eftir hrun bættust þannig við síversnandi stöðu sem varað hafði um langt árabil.

Nú er eins og þolmörkum sé náð – og raunar stefnum við fram af brúninni (sjá hér).

Þegar Björn Zoega forstjóri Landsspítalans segir af sér, með þeim orðum að hann ætli ekki að taka að sér að setja spítalann fram af bjargbrúninni, þá er varla hægt að hugsa sér að tjá megi alvarleika stöðunnar með meira afgerandi hætti.

Þetta eru skelfileg tíðindi!

Björn Zoega hefur staðið sig vel í erfiðum aðstæðum. Hann er væntanlega búinn að sjá  fjárlagafrumvarp næsta árs og í kjölfarið tekur hann þessa ákvörðun.

Ástandið er sem sagt válegt – það felur í sér ógn um vítahring samdráttar og hnignunar.

Aðstaðan á Landsspítalum er meira og meira ófullnægjandi og Ísland er ekki lengur samkeppnishæft til að halda í lækna og sérhæft starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar.

Við getum ekki einu sinni haldið í iðnaðarmenn, sem streyma í stríðum straumum til Noregs.

Vonandi eru svör þeirra sem um stjórnvölinn halda uppbyggileg. Samt óttast maður að svo sé ekki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar