Mánudagur 17.12.2018 - 20:12 - FB ummæli ()

Stéttagreining Gylfa Zoega sýnir forréttindi auðmanna

 

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifar um stéttir og stéttabaráttu í nýjasta hefti Vísbendingar (sjá samantekt í Kjarnanum).

Megin boðskapur Gylfa er sá, að klassísk stéttagreining eigi ekki lengur við á Íslandi og að kjarabarátta launafólks sé dæmd til að misheppnast.

Hvoru tveggja er kolrangt. Gylfi sýnir raunar sjálfur að fyrri staðhæfingin er röng og ég mun sýna hér á eftir að sú seinni á ekki heldur við rök að styðjast.

Samt er margt gagnlegt í grein Gylfa Zoega.

 

Höfuðstéttirnar endurskýrðar að óþörfu

Í stéttagreiningu sinni segir Gylfi, að í stað þess að íslenska þjóðin skiptist í fjármagnseigendur og arðrænt launafólk (eins og Marx útlistaði á 19. öld), þá sé önnur stéttaskipting komin til sögunnar.

Þjóðin skiptist nú í þá sem geta farið inn og út úr íslenska gjaldmiðlinum og hina sem eru fastir.

Hér er stóra gatið á greiningu Gylfa. Þetta eru nefnilega sömu hóparnir og Marx talaði um!

Gylfi hefur einungis breytt um nafn eða skilgreiningu á höfuðstéttunum.

Það eru einmitt fjármagnseigendur sem geta farið inn og út úr krónuhagkerfinu en almennt launafólk er fast í viðjum þess og tapar bæði á uppsveiflu og niðurdýfum.

Gylfi lýsir ágætlega fyrirkomulagi fjármálakerfisins, þar sem yfirstétt fjármagnseigenda býr við algera forréttindastöðu, geta braskað með krónuna og grætt bæði á niður- og uppsveiflum gengisins. En almennt launafólk er fast í krónuhagkerfinu og borgar brúsann – lætur braskarana arðræna sig (t.d. með gengisfellingum og alltof háum vöxtum).

Það er ríkisvaldið sem hefur komið þessu kerfi á og Seðlabankinn hefur stærsta hlutverkið við að stýra því frá degi til dags.

En þessi forréttindi sem Gylfi lýsir eru bara hluti af því hvernig yfirstéttin hefur með aðstoð stjórnmála nýfrjálshyggjunnar gengið erinda yfirstéttar fjármagnseigenda (atvinnurekenda og stóreignafólks) en fórnað hagsmunum almenns launafólks.

Og það er ekki bara á fjármálamarkaði sem búið er að byggja forréttindakerfi fyrir fjármagnseigendur. Skoðum skattkerfið líka.

 

Skattkerfi yfirstéttarinnar og skattkerfi almenns launafólks

Hið sama á við í skattamálunum. Yfirstéttin, sem hefur stóran og jafnvel stærstan hluta tekna sinna í formi fjármagnstekna, býr við forréttindaskattkerfi með mun lægri álagningu en vinnandi launafólk og lífeyrisþegar.

Fjármagnstekjuskatturinn er skattkerfi yfirstéttarinnar (22% álagning núna) en almennt launafólk greiðir mun meira af launatekjum sínum í almennan tekjuskatt.

Láglaunamaður sem bætir við sig 100 þúsund krónum á mánuði með stritandi aukavinnu greiðir 36,9% í tekjuskatt af þessum aukatekjum sínum þegar fjármagnseigandi greiðir einungis 22% skatt á viðbótar fjármagnstekjur sínar (óháð upphæð).

Fyrir árið 1996 var hins vegar sama álagning á fjármagnstekjur og launatekjur vinnandi fólks. Samkvæmt hugmyndum nýfrjálshyggjumanna var talin þörf á að lækka skattlagningu fjármagnstekna og var sú lækkun greidd með hækkuðum álögum á lægri og milli launatekjur (sjá hér).

Lægri álagning á fjármagnstekjur en aðrar tekjur jafngildir styrk stjórnvalda til fjármagnseigenda sem hafa miklar fjármagnstekjur. Það er styrkur sem er miklu meiri í milljörðum talið en t.d. sú upphæð sem stjórnvöld láta af hendi rakna í barna- og vaxtabætur til ungs fólks, sem er að koma sér upp fjölskyldu og húsnæði. Slíkar bætur hafa raunar rýrnar stórum á síðustu árum.

Forréttindi yfirstéttarinnar í fjármálakerfinu eiga sér sem sagt samsvörun í skattkerfinu.

 

Er kjarabarátta til einskis?

Seinni hluti greinar Gylfa snýst um að það sé til einskis fyrir almennt launafólk að leggjast í kjarabaráttu, því fjármagnseigendur geti þá spilað á gengið (með frjálsu flæði fjár til og frá landinu).

Þeir geti fellt gengið jafnvel strax og þeir heyra af launakröfum og stýrt útkomum kjarasamninga (kaupmáttarbreytingum) – þ.e. gert launahækkanir að engu.

Vissulega geta fjármagnseigendur, bankarnir og braskfyrirtækin (Gamma, Kvika o.fl.) haft slík áhrif á algerlega frjásum fjármálamarkaði – og falið fjármuni stóreignafólks í skattaskjólum að auki.

Það er hins vegar ekki hægt þegar gjaldeyrishöft eru við lýði, eins og var á Íslandi allt til 1995 og einnig á árunum eftir hrun (2009 til 2016). Stífar varúðarreglur Seðlabanka geta þó unnið gegn braski með gjaldmiðilinn.

Slíkar aðstæður voru þegar síðasti kjarasamningur var gerður, árið 2015. Hann skilaði miklum kauphækkunum og gerði útslagið um að launafólk náði að vinna upp kjaraskerðinguna miklu eftir hrun (um 20% kaupmáttarrýrnum að meðaltali).

Án kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar væri staða almennings mun verri.

Hinn hnattvæddi kapítalismi vinnur sífellt í átt til launalækkunar og rýrnunar ráðningarkjara launafólks um allan hinn vestræna heim. Störf flytjast til láglaunalanda og almennt verkafólk í ríku löndunum situr eftir.

Þar sem verkalýðshreyfing er veik fyrir fer launafólk illa út úr þessari þróun. Sums staðar mjög illa. Menn geta t.d. hoft til Bandaríkjanna, þar sem slík þróun hefur verið afgerandi á sl. 30 árum og hefur nú miklar pólitískar afleiðingar – sem og í Evrópu.

Íslendingar eru með sterka verkalýðshreyfingu sem getur veitt alvöru viðnám og tryggt að launafólk njóti áfram hagvaxtarins í bættum kjörum. Ekkert er mikilvægara fyrir almenning.

 

Lærdómurinn af grein Gylfa Zoega

Þó Gylfi hafi rangt fyrir sér um gildi kjarabaráttu og endurskýri höfuðstéttirnar í þjóðfélaginu að óþörfu, þá má margt læra af greiningu hans.

Sérstaklega mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir því hvernig forréttindi eru byggð inn í fjármálakerfið, til hagsbóta fyrir yfirstéttina en á kostnað almenns launafólks. Hið sama á við um skattkerfið, eins og ég hef sýnt (sbr. Stóra skattatilfærslan).

Þetta felur í sér að kröfur verkalýðshreyfingarinnar þurfa ekki síður að beinast að stjórnvöldum en atvinnurekendum.

Verkalýðshreyfingin hefur raunar þegar dregið þann lærdóm, eins og fram kemur í sérstakri kröfugerð sem beinist að stjórnvöldum, m.a. um breytingar á skatta- og bótakerfum.

Því til viðbótar er nú ljóst, meðal annars af umfjöllun Gylfa Zoega, að launafólk þarf einnig að skipta sér af fjármálakerfinu, svo því verði ekki beitt með braski eða fjandsamlegum stjórnvaldsákvörðunum til að hafa kjarabætur af launafólki (t.d. með tilefnislausum gengisfellingum).

Seðlabankinn hefur að undanförnu létt af varúðarreglum um gjaldeyrisflæði svo ógnin af braski fjármagnseigenda með gengið er nú vaxandi.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar þurfa því líka að ná til varúðarreglna fyrir fjármálamarkaðinn til að stöðva brask með gjaldmiðilinn. Sömuleiðis þarf að lækka vexti og breyta verðtryggingakerfinu launafólki í hag.

Allt undirstrikar þetta mikilvægi verkalýðshreyfingar og að hún beiti sér af krafti fyrir víðtækri kjarapólitík í þágu alls þorra almennings.

Stéttabarátta yfirstéttarinnar um forréttindi á kostnað almennings lætur aldrei á sér standa – og hefur skilað þeim allt of miklum árangri í seinni tíð.

———————-

Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.

 

Síðasti pistill: Launakröfur verkalýðshreyfingarinnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.12.2018 - 17:33 - FB ummæli ()

Þjóðin vill ríkiseign banka

Í skýrslu nefndar fjármálaráðherra um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er ein sérstaklega athyglisverð niðurstaða, sem kom úr Gallup könnun meðal almennings (frá október 2018).

Spurt var: „Hversu jákvæður eða neikvæður ertu gagnvart ríkinu sem eiganda banka?“

Um 61% sögðu jákvæð, 25% voru hlutlaus og einungis 14% voru andvíg ríkiseign banka.

Ef einungis er litið til þeirra sem taka afstöðu eru það 81% sem eru jákvæð gagnvart ríkiseign en tæp 19% eru neikvæð.

Það er því stór meirihluti almennings sem styður ríkiseign banka.

Nefndin er þó augljóslega að reka það erindi í skýrslunni að ríkið selji Íslandsbanka í heilu lagi og tvo þriðju af Landsbankanum (ríkið verði minnihlutaeigandi Landsbankans).

Sett er fram alls konar kjaftæði til að réttlæta það (erlendir aðilar komi þar að, samkeppni aukist, hagræðing aukist, vextir lækki…).

Svona var líka talað þegar bankarnir voru seldir á árunum 2000-2003.

Menn muna hvernig aðkomu erlendra aðila var háttað þá (sbr. Hauck & Aufhäuser)!

Þetta er líklega það sem fjármálaráðherra lagði fyrir nefndina að gera. Allir vita um áhuga hans á að bankarnir verðir seldir einkaaðilum.

 

Ríkið er betri eigandi – segir almenningur

Þær ástæður sem svarendur í könnuninni nefna helstar fyrir afstöðu sinni eru að ríkið sé betri eigandi banka, það sé meira traustvekjandi, arðurinn fari til okkar, minni líkur séu á spillingu og græðgi og að illa fari.

Menn muna auðvitað að ríkið átti Landsbankann í 117 ár án þess að hann færi á hausinn en eftir einkavæðingu 2003 liðu einungis um 5 ár áður en einkaaðilarnir voru búnir að reka hann og aðra banka í þrot, sem var svo stórt að nærri heimsmeti gekk.

Reynslan af einkaeign banka er sem sagt arfaslæm á Íslandi – beinlínis baneitruð.

Menn hafa líka séð hversu miklum arði ríkisbankarnir skila til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar (207 milljarðar á sl. 5 árum – sjá hér).

Pælið í því!

Hrægamma í Valhöllu fýsir nú að fá þennan góða arð í einkavasa.

Þjóðin þarf að vera á varðbergi svo gammarnir hirði ekki þennan væna bita af almenningi.

 

Síðasti pistill:  Ójöfnuður eykst á ný

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.11.2018 - 09:29 - FB ummæli ()

Ójöfnuður eykst á ný

Tekjuójöfnuður jókst gríðarlega mikið á Íslandi á áratugnum fram að hruni – meira en dæmi eru um í öðrum vestrænum samfélögum. Sú aukning var frá stöðu eins allra mesta jafnaðar sem var að finna á Vesturlöndum fyrir árið 1995. Hámarki náði ójöfnuðurinn árið 2007.

Eftir hrun jafnaðist tekjuskiptingin mikið á ný, vegna samdráttar fjármagnstekna og aukinna jöfnunaráhrifa í skatta- og bótakerfunum.

Á uppsveiflunni frá 2011 til 2017 hefur ójöfnuður hins vegar tekið að aukast á ný. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir hlutdeild hátekjuhópanna af heildartekjum allra framteljenda (Heimild: Fjármálaráðuneytið).

Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins fór úr um 7% árið 2011 upp í 9,4% á síðasta ári. Hlutur tekjuhæstu fimm prósentanna fór úr 20,7% upp í 22,6%. Þetta þýðir að tekjur hæstu hópanna hafa verið að aukast hraðar en tekjur lægri tekjuhópa.

Ójöfnuðurinn jókst á hverju ári eftir að uppsveiflan eftir hrun komst á skrið, nema á árinu 2015. Þetta er umtalsverð breyting á tekjuskiptingunni.

Megin ástæðan fyrir þessum aukna ójöfnuði er að fjármagnstekjur (sem einkum koma í hlut allra tekjuhæstu hópa) hafa verið að aukast meira en almennar launatekjur. Þar eð fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en atvinnutekjur og lífeyristekjur og þar eð þeim sem fá barna- og vaxtabætur hefur snarfækkað (einkum fólk í lægri tekjuhópum) þá má búast við að ójöfnuður eftir skatta og bætur hafi aukist enn meira en myndin sýnir. Gríðarlegar verðhækkanir á húsnæðismarkaði, sem bitna hlutfallslega mest á lágtekjufólki, magna þessa þróun enn frekar.

 

Langtímaþróun ójafnaðarins

Þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi jafnast strax í kjölfar hrunsins þá fer því fjarri að hún hafi orðið álíka jöfn og hún hafði verið á árunum í kringum 1995 og fyrr. Nærri lagi er að tekjuskiptingin er nú svipuð og hún hafði verið milli áranna 2002 og 2003.

Tekjuskiptingin er því á hærra ójafnaðarstigi í dag en var fyrir árið 2002. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir nettó ójafnaðarsveiflu frá 1995 til 2017.

Hlutur tekjuhæstu fimm prósenta framteljenda var 17,3% árið 1995 en var orðinn 22,6% í fyrra, samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra. Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins var 5,2% og er nú kominn í 9,4% – hefur hátt í tvöfaldast. Á sama tíma fór auðvitað hlutur hinna 95 prósentanna, alls þorra almennings, úr 82,7% niður í 77,4%.

Skipting þjóðarkökunnar er þannig umtalsvert ójafnari nú á dögum en var fyrir árið 2002.

Ójafnaðaraukningin skýrist almennt af mikilli aukningu fjármagnstekna sem einkum koma í hlut hæstu tekjuhópanna og þær tekjur eru skattlagðar með mun minna móti en atvinnutekjur stritandi almennings og lífeyristekjur eldri borgara og öryrkja.

En ójöfnuðurinn á Íslandi skýrist einnig af stóru skattatilfærslunni, sem fól í sér lækkun skattbyrðar í hæstu tekjuhópunum (einkum vegna þeirra fríðinda sem fjármagnstekjuskatturinn færir hátekjufólki) og aukinnar skattbyrðar lægstu og milli tekjuhópa (sjá hér). Lækkun eignaskatta og skatta á hagnað fyrirtækja átti einnig sinn þátt í þessari þróun allri. Skattbyrðin var færð af hæstu hópum og yfir á lægri tekjuhópa, hlutfallslega mest yfir á þá allra lægstu. Rýrnun velferðarbóta átti einnig hlut í þessari þróun, ekki síst á allra síðustu árum (sjá hér).

 

Þróun tekjuójafnaðarins frá ári til árs

Loks má einnig sjá á þriðju myndinni hvernig tekjuhlutdeild þessara hátekjuhópa þróaðist frá ári til árs, á aldarfjórðungnum milli 1992 og 2017.

Þarna má á skýran hátt sjá hina gríðarlegu aukningu ójafnaðarins á áratugnum fram að hruni, jöfnunina fyrst eftir hrunið og hvernig hún náði ekki að færa tekjuskiptinguna alla leið niður á jafnaðarstigið sem hér ríkti áður en nýfrjálshyggjan ruddi auknum ójöfnuði leið inn í samfélagið.

Síðan er augljós hin nýja aukning ójafnaðarins, sem tók við frá og með árunum 2011 til 2017.

Rétt er einnig að skoða þessa þróun í tekjuskiptingunni í samhengi við þróun ójafnaðar í eignaskiptingunni, sem Þórður Snær Júlíusson hefur sýnt á glöggan hátt í nýlegum greinum í Kjarnanum (sjá t.d. hér og hér).

——————

Skýringar: Gögnin koma frá Ríkisskattstjóra og ná til allra framteljenda. Tekjuhugtakið er heildartekjur fyrir skatt (allar skattskyldar tekjur, þ.m.t. allar fjármagnstekjur sem taldar eru fram hér á landi). Gögnin fyrir árin 1997 til 2017 voru nýlega lögð fram á Alþingi af fjármálaráðherra, en gögn fyrir árin 1992 til 1996 koma úr bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi (sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2017).

——————

Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi

 

Síðasti pistill: Villandi tal um vinnutíma

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.11.2018 - 16:07 - FB ummæli ()

Villandi tal um vinnutíma

Hagfræðingur Viðskiptaráðs fór geyst í gær og lagði út af nýrri tilraun Hagstofu Íslands til að meta framleiðni.

Fékk þessi ágæti maður þá niðurstöðu að Ísland væri nú með einna stystu vinnuvikuna meðal OECD-ríkjanna, í stað þess að vera með eina af þeim allra lengstu, eins og hagskýrslur hafa sýnt um áratuga skeið (sjá hér).

Þetta var heldur villandi upphlaup hjá þeim Viðskiptaráðs-mönnum.

Tölur Hagstofunnar um framleiðni byggja meðal annars á áætluðum tölum um heildarfjölda greiddra vinnustunda á ári hverju og deila þeir svo í það með áætluðum tölum um heildarfjölda þeirra sem vinnuna framkvæma. Bæði er mat á slíkum heildartölum nokkuð lauslegt og auk þess eru ekki allar unnar stundir greiddar.

Slíkum tölum (bæði hjá Hagstofu Íslands eða OECD) fylgir sá skýri fyrirvari að þær henti ekki til að bera saman fjölda vinnutíma milli landa (sjá hér).

Það eru því engar forsendur fyrir þeim ályktunum sem hagfræðingur Viðskiptaráðs dró af þessum nýju mælingum Hagstofunnar á þróun framleiðni milli ára.

Nokkur einkenni hafa fylgt íslenskum vinnumarkaði um langt skeið. Þessi eru helst:

  • Íslendingar hafa meiri atvinnuþátttöku en flestar vestrænar þjóðir
  • Íslendingar hafa lengri starfsævi (vinna til hærri aldurs) en flestar vestrænar þjóðir
  • Algengara er á Íslandi að tvær fyrirvinnur séu á heimilum, enda er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna með allra mesta móti á Vesturlöndum
  • Vinnandi fólk á Íslandi hefur um langt skeið unnið lengri vinnuviku en flestar vestrænar þjóðir
  • Íslendingar hafa lengi varið afar stórum hluta af lífi sínu til vinnu

Þetta síðastnefnda er nú á dögum einkum byggt á mælingum vinnumarkaðskannana á vinnutíma, sem eru framkvæmdar á sama hátt í öllum Evrópuríkjunum. Hagstofa Íslands notar sömu aðferðir og spyr eins og hagstofur annarra Evrópulanda um lengd vinnutíma hjá svarendum.

Samkvæmt upplýsingum Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, er matartími almennt ekki talinn til vinnutíma í þessum könnunum. En lykilatriði fyrir túlkun þessara talna um meðallengd vinnuvikunnar í aðalstarfi er, að það eru svarendur sjálfir sem lýsa lengd eigin vinnutíma í síðustu viku eða að jafnaði.

Þeir eru almennt að svara því, hversu löngum tíma þeir verja í vinnu eða á vinnustað – óháð því hvort þeir séu að strita að staðaldri. Síðan eru ýmsar hefðir í ólíkum löndum um hvíldartíma og neyslutíma, bæði fjölda og lengd, sem og um hversu kröftuglega unnið er frá einni stund til annarrar.

Hér að neðan má sjá nýjustu tölur Eurostat um meðallengd vinnuvikunnar í aðalstarfi hjá fullvinnandi launafólki, sem og hlutfall þeirra sem teljast hafa “langa vinnuviku”. Síðan vinna margir í aukastörfum til viðbótar, ekki síst á Íslandi.

Niðurstaðan er sú, að launafólk á Íslandi er með næstlengstu vinnuvikuna í aðalstarfi í Evrópu, á eftir Tyrklandi. Ísland er einnig með næsthæsta hlutfall þeirra sem Eurostat telur hafa langa vinnuviku (þríhyrningarnir á myndinni).

Hinar norrænu þjóðirnar eru á hinum enda stigans, bæði með einna stystu meðal vinnuvikuna og lægst hlutfall fólks sem er með langa vinnuviku (ljósbláu súlurnar).

Þetta eru bestu mælingarnar sem við höfum í dag til að svara því hve löng vinnuvikan er hjá vinnandi fólki á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum.

Í sérkönnun meðal verkafólks í ágúst á síðasta ári kom fram að fullvinnandi einstaklingar í hópi verkafólks voru að jafnaði með 46 stunda vinnuviku (Gallup könnun fyrir Flóabandalagið 2017).

Íslenskt verkafólk sem er á lágum launum hefur iðulega þurft að stóla á umtalsverða yfirvinnu og aukavinnu til að ná endum saman.

Þannig er það því miður enn.

 

Síðasti pistill: Launakröfur verkalýðshreyfingarinnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.11.2018 - 19:41 - FB ummæli ()

Launakröfur verkalýðshreyfingarinnar

Forsenda kröfugerðar Starfsgreinasambandsins (SGS) er sú, að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum. Markmiðið er að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslukostnaði einstaklings samkvæmt framfærsluviðmiðum stjórnvalda (að viðbættum lágmarks húsnæðiskostnaði).

Þessu markmiði má ná með skattalækkun, hækkun bóta og hækkun launa, í mismunandi samsetningum. Þetta er í raun krafa um viðunandi ráðstöfunartekjur, í því landi sem hefur hæstan framfærslukostnað í Evrópu (sjá hér – https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/verdlag/magntolur-vergrar-landsframleidslu-og-einstaklingsbundinnar-neyslu-a-mann-i-evropurikjum-2017/).

Starfsgreinasambandið setur fram kröfu um að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans (3 ár). Hið sama gerir VR. Ef hækkunin dreifist jafnt á þrjú ár þá er þetta hækkun um 42.000 krónur á ári. Ef hækkunin verður flöt upp launastigann, sú sama í krónutölu fyrir alla, þá yrði prósentuhækkun launa fallandi – og þar með kostnaður fyrirtækja af launahækkuninni.

Á myndinni hér að neðan er sýnd prósentuhækkun á ári eftir stighækkandi grunnlaunum, sem flöt hækkun um 42.000 kr. skilar, á verðlagi ársins 2018.

Lágmarkslaun myndu hækka um 14% á ári en allra hæstu laun myndu hækka um 1%. Meðallaunahækkun reglulegra launa (skv. skilgreiningu Hagstofu Íslands) yrði 6,5% á ári og miðlaun myndu hækka um 7,7%. Helmingur launafólks er með lægri laun en miðlaun og helmingur er með hærri laun.

Ekki er tekið tillit til hugsanlegra breytinga á vinnutíma, skatta- og bótakerfum, eða öðrum starfstengdum skilyrðum.

Sumir hafa talað um þessar kröfur sem óraunhæfar og jafnvel líkt þeim við „sturlun“!

Þeim hinum sömu er bent á að svona fyrirkomulag launahækkana gefur möguleika á að halda hækkun heildar launakostnaðar innan hóflegra marka – eins og sjá má á myndinni.

 

______________________________

Stefán Ólafsson er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.11.2018 - 13:13 - FB ummæli ()

Fráleit vaxtahækkun Seðlabankans

Nú þegar hægir á efnahagslífinu, eftir að hagvöxtur varð talsvert meiri á fyrri hluta ársins en spáð var, þá stígur peninganefnd Seðlabankans fram og hækkar stýrivexti um 0,25%.

Þetta gengur gegn allri venjulegri hagstjórn. Við kólnun hagkerfisins myndu flestir Seðlabankar grannríkjanna lækka vexti til að milda niðursveifluna eða jafnvel til að vega á móti henni. Vaxtahækkun við þessi skilyrði hægir enn frekar á hagkerfinu.

Hækkanir vaxta koma fyrst og fremst til að dempa uppsveiflur eða til að vinna gegn ofþenslu. Ekkert slíkt er nú í kortunum hér á landi.

Svo vísa þeir í vaxandi „verðbólguvæntingar“ sem byggja á kukli eða marklausum kveðskap frekar en alvöru vísindalegum mælingum.

Ef það gætir einhvers þrýstings til lítillega hærri verðbólgu um þessar mundir þá er það vegna hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði.

Á vaxtahækkun á Íslandi að draga úr olíuverðshækkun á heimsmarkaði?

Þarna er sem sagt verið að beita meðulum á rangan sjúkdóm og rangan sjúkling! Þetta er undarleg læknisfræði hjá Seðlabankanum – og að auki kjánaleg pólitík.

Ef Seðlabankinn telur að hann sé með þessu að senda aðilum vinnumarkaðarins skilaboð um að ekki megi hækka laun um of í komandi kjarasamningum þá er þetta líklegra til að hafa öfug áhrif – ef þá einhver.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.10.2018 - 08:50 - FB ummæli ()

Stóra skattatilfærslan

Á síðustu 25 árum eða svo hafa stjórnvöld framkallað mikla tilfærslu á skattbyrði – af hærri tekjuhópum og yfir á þá lægri. Þetta hefur verið gert með ýmsum aðgerðum, sem eru skýrðar á ítarlegan hátt í nýlegri bók (Ójöfnuður á Íslandi, 2017) sem og í skýrslu ASÍ um skattbyrði launafólks 1998 til 2016.

Rýrnun persónuafsláttar (skattleysismarka), upptaka fjármagnstekjuskatts (með mun lægri álagningu en er á atvinnutekjur) og rýrnun vaxta- og barnabóta sem dragast frá álögðum skatti koma þar mest við sögu.

Þessi þróun hefur stórskaðað þann árangur sem lægra launað fólk átti að hafa af kjarasamningunum frá 2015 og reyndar einnig á fyrri árum. Þessi þróun hefur að auki verið afar óhagstæð fyrir lífeyrisþega.

Mynd 1 sýnir umfang þessarar skattatilfærslu frá 1993 til 2015. Sýnd er skattbyrðin 1993 (% heildartekna sem greidd er í beina skatta) og svo aftur 2015, í fjórum tekjuhópum: lægstu tíu prósentin, miðtekjuhópur, efstu tíu prósentin og efsta eina prósentið. Í gluggum við súlurnar er sýnd nettó breytingin á tímabilinu í prósentustigum.

Tilfærslan frá hærri hópum til þeirra lægri og miðtekjuhópa er skýr og umtalsverð.

Ef skoðuð væri breytingin frá 1993 til 2007 eða 2008 þá væri niðurstaðan mun meira afgerandi en sýnt er á myndinni (sem nær til 2015), því skattbyrði tekjuhæstu tíu prósentanna var á árunum fyrir hrun orðin minni en hjá miðtekjufólki, sem er fordæmalaust (sjá Ójöfnuður á Íslandi 2017). Vinstri stjórnin sem var við völd frá 2009 til 2013 færði tilfærsluna að hluta til baka með aukinni álagningu á hærri tekjur, auk þess sem lækkun fjármagnstekna eftir hrun hækkaði skattbyrði hæstu hópa í fyrstu. En síðan hefur þróunin aftur hneigst til fyrri áttar.

Fjármagnstekjur hærri hópanna eru nú vaxandi á ný (sem lækkar heildar skattbyrði hátekjufólks, vegna lægri skattlagningar fjármagnstekna en atvinnutekna) og persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróuninni (sem hækkar skattbyrði lágtekjufólks). Þetta síðarnefnda má sjá á mynd 2 hér að neðan.

Lágmarkslaun og óskertur lífeyrir TR voru skattfrjáls frá 1988 til 1996. Síðan þá hefur vaxandi hluti lágmarkslauna verið skattlagður, frá 6% 1997 og upp í 37% árið 2008. Þá lækkaði skattaði hlutinn í tvö ár en tók svo aftur að hækka. Nú er meira en helmingur lágmarkslauna skattlagður að fullu (51%).

Lituðu súlurnar til hægri sýna hvernig skattbyrði lágmarkslauna hækkaði afgerandi frá 2015 til 2018, sem er tímabil gildandi kjarasamnings á vinnumarkaði. Í samningnum 2015 var samið um umtalsverðar hækkanir lágmarkslauna, en vegna þess að persónuafslátturinn fylgdi ekki launaþróuninni þá jókst skattbyrði lágmarkslaunanna umtalsvert.

Með þessu og einnig með því að rýra verulega vaxtabætur og barnabætur (sem dragast frá álögðum skatti láglaunafólks) þá tók hið opinbera í reynd drjúgan hluta af umsömdum kjarabótum fyrir láglaunafólk (sjá skýrslu ASÍ um skattbyrði launafólks 2016 og skýrslu Gylfa Zoega fyrir forsætisráðuneytið 2018).

Þetta er auðvitað óþolandi niðurstaða fyrir verkalýðshreyfinguna og meðlimi hennar. En þetta er bara enn einn kaflinn í þessari lengri tíma sögu um tilflutning skattbyrðarinnar frá hærri tekjuhópum til lægri og milli hópa.

Umfang hinna auknu byrða lágtekjufólks

Mér telst til að vegna þessarar tilfærslu skattbyrðarinnar greiði fólk sem í dag er með 500.000 kr. á mánuði eða minna samtals um 80 milljörðum meira í tekjuskatt og útsvar en þau hefðu gert ef lágmarkslaun væru skattfrjáls eins og var 1996 og fyrr. Rúmir 19 milljarðar eru nú, árið 2018, lagðir aukalega á þá sem eru með 300.000 króna lágmarkslaun eða minna – fátækasta fólkið í landinu.

Því til viðbótar hefur ríkið sparað sér útgjöld til vaxta- og leigubóta frá 2011 til 2016 sem nemur 17,8 milljörðum króna. Enn frekari lækkun útgjalda til þessara bóta varð á árunum 2017 og 2018. Stórlega hefur fækkað í hópi þeirra sem fá barna- og vaxtabætur frá 2013 til 2017.

Alls hefur ríkið þannig lagt auknar byrðar á láglaunafólk, þá sem eru undir 500.000 á mánuði, sem nemur hátt í 100 milljörðum króna á verðlagi ársins 2018.

Þessu til viðbótar hefur húsnæðismarkaðurinn lotið markaðsáhrifum og braski í stórauknum mæli, í umhverfi ófullnægjandi framboðs húsnæðis, sem hefur skilað sér í gríðarlegum og fordæmalausum hækkunum leigu og kaupverðs íbúðarhúsnæðis.

Það er sorglegt að á sama tíma hafi stjórnvöld talið við hæfi að rýra húsnæðisstuðning við láglaunafólk á vinnumarkaði og ungt barnafólk, þannig að sá stuðningur er nú minni en nokkrum sinnum fyrr. Þetta þýðir að húsnæðismarkaðurinn hefur einnig tekið stóran hluta af kauphækkunum síðustu kjarasamninga, sérstaklega hvað snertir lágtekjufólk (sbr. Gylfi Zoega 2018).

Það er augljóst að verkalýðshreyfingin getur ekki látið það afskiptalaust að stjórnvöld fari fram með þessum hætti – komi ítrekað aftan að fólki og eyðileggi árangur af kjarasamningum.

 

Tímabært að færa byrðina til baka

Stjórnvöld hafa reyndar boðað að þau vilji breyta skatta- og bótakerfunum á þann veg að bæti sérstaklega hag lægstu tekjuhópa og lægri millihópa.

Þetta þarf að efna á þann veg að lágmarkslaun verði skattfrjáls á næsta samningstímabili og dugi til framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins, að viðbættum húsnæðiskostnaði. Það er lykilþáttur í kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar nú.

Einfaldast er að gera þetta með því að tvöfalda persónuafsláttinn og láta hann síðan lækka stig af stigi og fjara út þegar komið er vel yfir meðaltekjur. Þannig má fjármagna að hluta kostnað af tvöföldun persónuafsláttarins, en einnig með hækkun fjármagnstekjuskatts, a.m.k. til þess sem er á hinum Norðurlöndunum.

Slík aðgerð myndi almennt færa dreifingu skattbyrðarinnar á Íslandi í átt til þess sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Það myndi einnig færa dreifingu skattbyrðarinnar til þess sem tíðkaðist á Íslandi árið 1996 og fyrr – áður en nýfrjálshyggjuveiran hóf innreið sína í íslenskt samfélag.

Ef stjórnvöld svara þessu kalli og færa skattbyrðina aftur til þess sem hún var fyrir um 20 árum þá þarf atvinnulífið ekki að taka á sig jafn miklar launahækkanir og ella yrði.

Það er til mikils að vinna – fyrir stjórnvöld, atvinnulífið og almennt launafólk.

_______________________________________

Höfundur er prófessor við HÍ og gegnir hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.10.2018 - 17:30 - FB ummæli ()

Atvinnurekendur bjóða minna en ekki neitt!

Samtök atvinnurekenda (SA) hafa lagt fram útspil sitt fyrir komandi kjarasamninga (sjá hér).

SA-menn og yfirstéttin öll hafa notið ofurhækkana á ofurlaun sín á síðustu misserum – eins og allir vita.

Síðasta árið hafa þeir kyrjað þuluna um að ekkert svigrúm sé lengur fyrir neinar kauphækkanir – jafnvel þó ágætur hagöxtur sé í landinu og horfur einnig ágætar til næstu 3ja ára, skv. helstu spám.

Útspil SA-manna nú kemur því varla á óvart.

Engin kauphækkun er megin forsenda nýrra kjarasamninga, samkvæmt þessu útspili. Hagvöxtur næstu ára á þá væntanlega að renna óskiptur til atvinnurekenda einna.

Hugmynd SA virðist vera sú, að samið verði um 5 lauslegar bókanir – og málið dautt!

  • Bókun 1 verði um það að vonandi og kanski og hugsanlega lækki Seðlabankinn vexti.
  • Bókun 2 verði um stórt átak til aukins framboðs húsnæðis á dýrasta húsnæðismarkaði Norðurlanda. Ekkert um það hvernig láglaunafólki verði gert kleift að kaupa íbúðarhúsnæði eða ráða við leigu.
  • Bókun 3 verði um að atvinnurekendum verði selt sjálfdæmi til að “auka sveigjanleika vinnutíma”. Þetta virðist fela í sér að breyta skilgreiningu á dagvinnutíma þannig að hann rúmi einnig yfirvinnu og álagsgreiðslur – með stórum kjaraskerðingum fyrir launafólk sem stólar á aukavinnugreiðslur til að ná endum saman.
  • Bókun 4 verði um að auka framleiðni með því að hætta að telja neyslutíma (einkum kaffitíma) sem hluta vinnutíma. Það myndi lækka launakostnað atvinnurekenda.
  • Bókun 5 myndi snúast um að draga úr fjárhagslegri áhættu atvinnurekenda vegna ráðningar fólks með skerta starfsgetu.

 

Sátt um þetta?

Þegar efnislegt inntak þessa útspils atvinnurekenda er lagt saman blasir við, að þetta er tilboð um minna en ekki neitt. Tilboð um kjaraskerðingu.

Skyldi það greiða fyrir sátt í samfélaginu og farsælli lausn kjarasamninga?

  • Eftir ofurlaunahækkanir yfirstéttarinnar…
  • Eftir að hátekjuhóparnir hafa notið lækkandi skattbyrði til lengri tíma…
  • Eftir að láglaunahóparnir hafa búið við sívaxandi skattbyrði og verulega skerðingu bótagreiðslna…
  • Eftir að græðgisvæðing húsnæðismarkaðarins hefur étið upp kaupmátt láglaunafólks, t.d. ungs fjölskyldufólks…

Verður sátt um þetta í samfélagi þar sem fullvinnandi fólk á lágum launum nær ekki endum saman í einu ríkasta landi Evrópu?

Á launafólk á Íslandi að sætta sig við að afhenda atvinnurekendum einum allan afrakstur hagvaxtarins?


Höfundur starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.9.2018 - 17:03 - FB ummæli ()

Hlægileg könnun atvinnurekenda

Samtök atvinnurekenda (SA) birtu í dag niðurstöður könnunar sem þau hafa fengið Gallup til að gera (sjá hér).

Sagt er að hún fjalli um viðhorf landsmanna til áherslna í komandi kjarasamningum.

Ég stýrði gerð svona kannana fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um langt árabil. Ég verð að segja að sjaldan hef ég séð jafn hlægilegt dæmi um leiðandi og villandi skoðanakönnun.

 

Leiðandi hagsmunaspurningar – leiðandi útkoma

Atvinnurekendur eru auðvitað áhugamenn um sem minnstar launahækkanir.

Þeir haga spurningum sínum í samræmi við það.

Flest fólk er með verðtryggðar skuldir og þarf því að hafa áhyggjur af verðbólgu.

Þá er kjörið í svona könnun fyrir SA að spyrða spurningu um viðhorf til launahækkana við verðbólgu, rétt eins og launahækkanir leiði sjálfkrafa til verðbólgu (ólíkt því sem var reyndin á síðustu 4 árum).

Undirliggjandi meiningin verður þá til dæmis svona: „Viltu nokkuð fá launahækkun fyrst það leiðir til rosa mikillar verðbólgu (sem hækkar skuldir þínar og er verra fyrir alla)?“

Orðalagið er að vísu aðeins mildara þó þetta sé hin mótandi meining í framsetningunni, sem hefur svo bein áhrif á útkomuna.

 

Spyrja bara um það sem hentar

Svo er þetta líka gert: Að spyrja bara um það sem hentar hagsmunum verkkaupa – en láta annað sem ef til vill er nær veruleikanum ókannað.

Hver eftirtalinna spurninga haldið þið t.d. að sé raunsæust nálgun á könnun á viðhorfi til styttingar vinnutíma, frá sjónarhóli launafólks?

  • Viltu styttri vinnutíma?
  • Viltu styttri vinnutíma ef það felur í sér samsvarandi lækkun tekna?
  • Viltu styttri vinnutíma og hækkun grunnlauna, þannig að heildarlaun verði óbreytt fyrir styttri vinnutíma?
  • Viltu lengri vinnutíma ef þú getur ekki fengið hærri grunnlaun?

Fleiri dæmi mætti nefna…

 

Villandi framsetning niðurstaðna

Svo leika menn þann leik að kynna niðurstöður á afbakandi hátt. Fyrirsögn fréttarinnar sem SA skrifar um þessa könnun er svona:

„Stöðugt verðlag fremur en kauphækkanir“.

Raunar er stór fréttapunktur í þessari frétt SA sá, að verulega hefur dregið úr stuðningi við þessa mjög svo leiðandi spurningu um ímyndað val milli launahækkana og verðbólgu – fer úr 66% 2013 í 49% nú.

En þetta er varla þessi virði að elta ólar við – þegar spurt er á svona leiðandi hátt eins og hér er gert.

Skynsamlegast er að nota brandarann til hins ítrasta – og hlægja hressilega að þessari tilraun SA til að móta viðhorf almennings.


Höfundur starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum hjá Eflingu – stéttarfélagi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.9.2018 - 09:03 - FB ummæli ()

Þjófafossi stolið

Ég var við Heklu og Þjófafoss á föstudag. Búið er að taka stærstan hluta Þjórsár þarna í stækkun Búrfellsvirkjunar. Þessi stórbrotni foss, Þjófafoss sem var, er nú bara spræna og áin við Tröllkonuhlaup rétt eins og hver önnur grjóturð. Mér er óskiljanlegt hvers vegna þetta er hægt. En svona var farið með Hrauneyjarfoss og Sigöldugljúfur – þar standa nú vatnslaus stór gljúfur og í besta falli smá lækjasprænur sem renna þar um.

Verkfræðingunum og stjórnmálamönnunum, sem að þessu stóðu, hefur þó ekki tekist að eyðileggja alla þá fegurð sem þarna er í stórbrotnum gljúfrum neðan við Þjófafoss – með Heklu í baksýn.

Hvað skyldu líða mörg ár þangað til þessi stórbrotna náttúra verður endurheimt með lokun hinnar nýju stækkunar Búrfellsvirkjunar og virkjun sólar-, sjávarfalla- og vindorku í staðinn?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.9.2018 - 12:10 - FB ummæli ()

Um framlag stjórnvalda til kjarasamninga – til góðs eða ills?

I. Fagurgali eða alvöru vilji?

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: “Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi.”

Einnig þetta: “Hafin verður end­ur­skoðun á tekju­skatts­kerf­inu með áherslu á lækkun skatt­byrði og mögu­leg­ar breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi per­sónu­af­sláttar og sam­spili við bóta­kerfi sem ætlað er að styðja við ­tekju­lægri hópa (lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur).”

Þetta eru æskileg markmið.

Hins vegar var reynslan af framlagi stjórnvalda á síðasta samningstímabili (2015 til 2018) öndverð. Þá juku stjórnvöld skattbyrði launafólks, og bitnaði það sérstaklega á láglaunafólki.

Það gerðist vegna þess að skattleysismörk fylgdu ekki launaþróun, eins og nauðsynlegt er til að halda skattbyrði óbreyttri frá ári til árs þó laun hækki. Þá rýrnuðu vaxtabætur verulega og barnabætur sömuleiðis. Mun færri fengu þessar bætur en áður og hækkaði það skattbyrði viðkomandi umtalsvert.

Húsnæðisstuðningur stjórnvalda varð í heildina minni en nokkrum sinnum áður, á sama tíma og bæði kaupverð íbúðarhúsnæðis og húsaleiga fóru úr öllum böndum, með gríðarlegum hækkunum.

Þannig urðu aðgerðir stjórnvalda til þess að rýra stórlega þær kjarabætur sem verkalýðshreyfingin samdi um á síðasta samningstímabili, einkum hvað snertir lægri launahópa. Þetta er ein af stóru ástæðunum fyrir þeirri djúpstæðu óánægju sem er meðal launafólks og innan verkalýðshreyfingarinnar í dag.

Þessari þróun eru gerð greinargóð skil í skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga (2018), sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið. Þetta hefur einnig komið fram í gögnum sem ASÍ hefur lagt fram um þessi mál og í viðamiklum fræðilegum rannsóknum á þróun tekjuskiptingarinnar (sbr. bókin Ójöfnuður á Íslandi, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson, 2017).

Lítum aðeins á gögn um þessa þróun.

 

II. Stjórnvöld hafa vegið að lágtekjufólki

a) Rýrnun persónuafláttar jók skattbyrði láglaunafólks

Hvort sem litið er til áranna frá 1990 til hruns eða áranna eftir 2014 þá hefur þróunin verið á þann veg, að persónufrádráttur (skattleysismörk) tekjuskattkerfisins hefur rýrnað umtalsvert. Það skilar sér beint í aukinni skattbyrði og kemur með mestum þunga á láglaunafólk. Rýrnun skattleysismarka í núverandi tekjuskattkerfi vegur þannig stórlega gegn hagsmunum meðlima verkalýðsfélaganna.

Mynd 1 sýnir rýrnun skattleysismarkanna) frá 1990 til 2018.

Mynd 1: Þróun skattleysismarka í hlutfalli við lágmarkslaun, frá 1990 til 2018. (Heimildir: Ríkisskattstjóri og Efling-stéttarfélag).

 

Á árunum frá 1988 til 1996 voru skattleysismörkin hærri en lágmarkslaun. Það er að segja, umsamin lágmarkslaun á vinnumarkaði voru skattfrjáls í tekjuskatti (allir greiddu samt virðisaukaskatt af neyslu sinni). Hið sama gilti um hámarks lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun (þ.e. óskertan lífeyri) – þær voru líka skattfrjálsar á þessum tíma.

Í dag er innan við helmingur lágmarkslauna skattfrjáls!

Stjórnvöld voru að rýra skattleysismörkin ár frá ári eftir 1991 og hélst sú þróun áfram meira og minna til 2006. Vinstri stjórnin hækkaði svo skattleysismörkin aðeins eftir hrun (2009 og 2010) og lækkuðu þau síðan nokkuð til 2013.

Eftir 2014, eða á síðasta samningstímabili, tók svo aftur við umtalsverð rýrnum skattleysismarka (í hlutfalli við laun), sem hefur staðið alveg til 2018. Skattleysismörkin fóru þá úr um 61% árið 2014 af lágmarkslaunum niður í 49% á yfirstandandi ári. Þannig var sífellt stærri hluti lágmarkslauna skattlagður. Skattleysismörkin héldu ekki í við þróun lágmarkslauna og þar með jókst skattbyrði lágmarkslauna.

Þessi skipan, að láta skattleysismörkin ekki fylgja launavísitölu (heldur aðeins verðlagsvísitölu) hækkar skattbyrði láglaunafólks sjálfkrafa þegar laun hækka umfram verðlag.

Þetta er sérstaklega ósanngjarnt og raunar óþolandi, vegna þess að viðmiðunarmörk hærra álagningarþrepsins í rekjuskattinum er bundið þróun launavísitölunnar (eins og bent er á í skýrslu Gylfa Zoega fyrir forsætisráðuneytið).

Það þýðir, að þegar hærri launahóparnir, þeir sem eru með meira en 900.000 kr. á mánuði, fá kauphækkun þá eykst skattbyrði þeirra ekki. Það er aðeins hjá láglaunafólki og millitekjuhópum sem skattbyrði eykst sjálfkrafa með kauphækkunum.

Þetta er óþolandi óréttlæti í garð láglaunafólks sem verkalýðshreyfingin verður að stöðva nú þegar.

b) Rýrnun vaxtabóta og barnabóta veikir velferðina (og hækkar skattbyrði margra í lægri launahópum)

Stjórnvöld voru einnig að rýra vaxtabætur og barnabætur á áratugnum fram að hruni, sem bitnaði einkum á ungu fjölskyldufólki sem var að koma sér upp húsnæði. Margt af því fólki var snemma á starfsferli sínum og því oft á lágum launum. Þannig var stuðningur opinbera velferðarkerfisins til þessara hópa dreginn saman, sem auðvitað rýrði kjör viðkomandi fjölskyldna.

Á árunum eftir hrun voru vaxtabætur auknar mjög mikið af vinstri stjórninni til að milda aukna greiðslubyrði húsnæðisskulda (sem jókst vegna verðbólgu og mikillar lækkunar kaupmáttar ráðstöfunartekna). En eftir 2013 hafa stjórnvöld skert barna- og vaxtabætur stórlega. Bæði hefur dregið úr útgjöldum og þeim sem njóta þessara bóta hefur stórlega fækkað, eins og sjá má á mynd 2.

Mynd 2: Fækkun framteljenda sem fá barna- og vaxtabætur, frá 2013 til 2017. (Heimild: Ríkisskattstjóri).

 

Þiggjendum barnabóta hefur fækkað um nærri fjórðung, eða 23%, á þessum 4 árum (sem jafngildir 13.147 framteljendum).

Þiggjendum vaxtabóta hefur fækkað um hátt í helming, eða um 42%, á tímabilinu. Þannig hafa hátt í 20 þúsund framteljendur misst vaxtabætur sem niðurgreiða vaxtakostnað fjölskyldna af því að koma sér upp eigin húsnæði.

Þetta eru gríðarlega miklar breytingar, sem eru ekkert annað en aðför að velferðarkerfinu og sérstaklega að lífskjörum ungs fjölskyldufólks. Þar eð þessar bætur eru tekju- og eignatengdar og einnig tengdar hjúskaparstöðu þá bitnar þetta hlutfallslega mest á fólki sem er á lægstu launum og lægri milli launum – og þeim sem eru eignalitlir fyrir og oft með umtalsverða barnaframfærslu.

Mynd 3 sýnir svo þróun húsnæðisstuðnings hins opinbera (bæði vaxtabætur og húsaleigubætur) frá 2003 til 2016.

Mynd 3: Húsnæðisstuðningur hins opinbera, sem % af vergri landsframleiðslu frá 2003 til 2016. (Heimild: Hagstofa Íslands).

 

Frá 2003 til 2007 voru stjórnvöld að draga árlega úr húsnæðisstuðningi við ungar fjölskyldur, á sama tíma og verkamannabústaðakerfið hafði verið lagt niður og bönkunum hleypt inn á húsnæðislánamarkaðinn. Frá 2004 tók húsnæðisverð (og húsaleiga) að hækka verulega – samhliða rýrnun opinbers húsnæðisstuðnings við fjölskyldufólk.

Eins og myndin sýnir stórjókst húsnæðisstuðningurinn í tíð vinstri stjórnarinnar eftir hrun og náði hámarki árið 2011. Árið 2013 hafði hann verið lækkaður (með niðurlagningu sérstakra vaxtabóta) og eftir 2014 hefur hann lækkað umtalsvert á ný.

Árið 2016 var opinber húsnæðisstuðningur orðinn lægri en hann hefur nokkru sinni verið frá því kerfið var tekið upp árið 1990. Á sama tíma hefur bæði húsnæðisverð og húsaleiga náður áður óþekktum hæðum, með alvarlegum afleiðingum fyrir kjör láglaunafólks, ekki síst ungs fjölskyldufólks.

Í fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2018 til 2022 kemur fram að stjórnvöld eru að gera ráð fyrir að lækka útgjöld til húsnæðisstuðnings umtalsvert til viðbótar á næstu árum. Ótrúlegt – en satt!

Íslendingar hafa lengi búið við eina allra hæstu húsnæðisvexti á Vesturlöndum og í bland við verðtryggingu neyslulána hafa verið lagðar mun meiri byrðar á íslenskar fjölskyldur við að koma sér upp öruggu húsnæði en tíðkast í grannríkjunum.

Þörf er meiri húsnæðisstuðnings (niðurgreiðslu vaxtakostnaðar húsnæðislána og leigu) – en ekki minni eins og stjórnvöld stefna að (skv. fjárhagsáætlun þeirra til ársin 2022).

 

III. Stjórnvöld brugðust síðast – hvað gerist nú?

Á tímabili síðasta kjarasamnings (frá 2015 til 2018) hafa stjórnvöld þannig vegið stórlega að kjörum sem um var samið og hefur það bitnað hlutfallslega mest á lægstu launahópum, en afleiðingarnar ná einnig upp í lægri miðlaunahópana.

Þetta fólk finnur lítið fyrir góðærinu.

Þessari herferð stjórnvalda gegn lífskjörum launafólks þarf að hrinda og snúa við. Stjórnvöld þurfa nú að standa við loforðin sem þau hafa gefið.

En er þess að vænta við núverandi aðstæður?

Mér hefur sýnst að fyrstu skref starfshópa á vegum stjórnvalda við vinnu að breyttu skatta- og bótakerfi boði ekki gott í þessum efnum. Þeir hafa sótt fyrirmyndir til Bandaríkjanna en ekki til Skandinavíu.

Á næstunni mun reyna á hvort stjórnvöld leggi fram eitthvað sem um munar til að breyta þeirri óheillaþróun sem hér að ofan er lýst.

———————————–

Stefán Ólafsson er prófessor við Háskóla Íslands og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.

 

Síðasti pistill: Stjórnvöld veikja vaxtabótakerfið svo um munar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.8.2018 - 16:14 - FB ummæli ()

Stjórnvöld veikja vaxtabótakerfið svo um munar

Vaxtabætur eru helsta verkfæri stjórnvalda til að auðvelda fjölskyldum með lágar og milli tekjur að eignast íbúðarhúsnæði.

Mikill meirihluti Íslendinga vildi helst geta búið í eigin húsnæði. En eftir hrun hefur þeim fækkað umtalsvert sem það gera um leið og búseta í leiguhúsnæði hefur stóraukist.

Aukin notkun leiguhúsnæðis er ekki vegna þess að fleiri vilji nú leigja. Það sem ræður för er að færri eiga möguleika á því að geta ráðið við afborganir af íbúðarlánum. Íbúðir eru orðnar of dýrar fyrir mun fleiri en áður var.

Ungt fólk neyðist því í auknum mæli til að leita í leigu eða búa lengur í foreldrahúsum en áður.

Allir vita að bæði verð á íbúðum og leiga hafa hækkað með fordæmalausum hætti á síðustu árum, vegna þess að lítið var byggt fyrst eftir hrunið, túristum fjölgaði ört og vegna aukinnar innkomu fjárfesta og braskara á húsnæðismarkaðinn (t.d. Gamma og Heimavalla).

Bæði kaupverð og leiga íbúðarhúsnæðis eru nú í allra hæstu hæðum.

Stjórnvöld höfðu það í  hendi sér að bregðast við og auðvelda fólki með lægri tekjur að eignast íbúðarhúsnæði eins og hér hefur tíðkast.

Virkasta leiðin til þess hefði verið að auka vaxtabætur til ungs fjölskyldufólks í lægri og milli tekjuhópum.

Stefnan í fjármálaráðuneytinu hefur hins vegar sú, að gera það ekki. Þvert á móti að draga stórlega úr slíkum húsnæðisstuðningi.

Þróun opinbers stuðnings við kaup ungs fólks á íbúðarhúsnæði má sjá á myndinni hér að neðan. Hún sýnir vaxtabætur sem hlutfall af vaxtakostnaði vegna íbúðakaupa, frá 1994 til 2016.

Þróun vaxtabóta er augljóslega tengd því hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn, eins og myndin sýnir. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn voru í ríkisstjórn frá 1995 til 2007 og þá minnkaði stuðningur vaxtabótakerfisins um helming, úr 26% af vaxtakostnaði heimila að meðaltali og niður í 13%.

Vinstri stjórnin sem sat frá 2009 til 2013 stórjók stuðning vaxtabótakerfisins við skulduga íbúðareigendur, meðal annars með sérstöku aukaátaki árin 2011 og 2012. Stuðningurinn fór hæst í 35% og lægstu launahóparnir fengu enn meira, eða um 45% af vaxtakostnaði sínum greiddan af ríkinu (vegna tekjutenginga vaxtabótanna).

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fékk aftur fjármálaráðuneytið á árinu 2013 hélt minnkun þessa stuðnings við ungt fjölskyldufólk áfram.

Á árinu 2016 var þessi stuðningur orðinn minni en nokkru sinni fyrr eftir að vaxtabótakerfið var tekið upp árið 1990.

Stefnt er á enn minni stuðning við ungt fjölskyldufólk

Í fjárhagsáætlun ríkisstjórnar Katrína Jakobsdóttur fyrir árin 2018 til 2022 er gert ráð fyrir áframhaldandi minnkun húsnæðisstuðnings hins opinbera, bæði við kaupendur íbúðarhúsnæðis og leigjendur. Stefna Sjálfstæðisflokksins virðist ráða för í þessum efnum.

Það blasir því við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alveg snúið baki við séreignastefnu í húsnæðismálum og almennri velferðarstefnu í húsnæðismálum. Markaðshyggja fjárfesta og braskara ræður för.

Svipuð óheillaþróun hefur verið á sviði barnabóta á síðustu árum. Stuðningur við barnafjölskyldur stefnir í að verða minni en í áratugi, á tíma þar sem húsnæðismarkaðurinn hefur étið upp stóran hluta þeirra kjarabóta sem samið var um fyrir launafólk í síðustu kjarasamningum.

Raunar juku stjórnvöld einnig skattbyrði láglaunafólks á síðustu árum svo um munaði.

Það þarf að vera verkefni verkalýðshreyfingarinnar að snúa þessari óheillaþróun við í komandi kjarasamningum.

Ef stjórnvöld leggja ekki sitt af mörkum til að bæta úr á þessu sviði hlýtur verkalýðshreyfingin að þurfa að fara fram með mun meiri launakröfur á hendur atvinnurekenda en ella væri.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.8.2018 - 14:19 - FB ummæli ()

Ágætt svigrúm til launahækkana

Þeir sem gæta hagsmuna atvinnurekenda og fjárfesta tala nú mikið um að ekkert svigrúm sé til launahækkana í komandi kjarasamningum.

Það kemur svo sem ekki á óvart. Þetta er hefðbundið tal í aðdraganda kjarasamninga.

Það sem kemur þó á óvart er hversu langt menn ganga að þessu sinni.

Yfirleitt leyfa menn sér ekki að útiloka algerlega launahækkanir nema hagkerfið sé komið í djúpa kreppu eða umtalsverðan samdrátt.

Er það sú staða sem við erum komin í núna?

Ó nei! Öðru nær.

 

Ágætur hagvöxtur og góðar horfur

Hér er ágætur hagvöxtur. Mun meiri en almennt er í hagsældarríkjunum á Vesturlöndum. Þó eitthvað myndi hægja á þá væru Íslendingar áfram í góðum málum.

Árið 2017 var hagvöxtur 3,6% á Íslandi en meðaltal Evrópusambandsríkja var 2,4%.

Og það er spáð áframhaldandi hagvexti hér á landi frá 2018 til 2023 (á bilinu 2,5-2,9%) í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Það er mun meira en almennt er á alþjóðavettvangi (sjá myndina hér að neðan).

Slíkar spár nokkur ár fram í tímann eru alltaf varfærnislegar. Þær eru þess vegna undir því sem menn búast við að verði í raun. Því má gefa sér að hagvöxtur verði í kringum 3% á Íslandi á næstu árum – að öðru óbreyttu. Stundum meiri og stundum minni.

Svo má líka færa rök fyrir því að svigrúm til launahækkana sem samræmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5% á ári) sé það markmið að viðbættri framleiðniaukningu (sem til lengdar hefur verið um 1,7%). Samanlagt eru það rúmlega 4% á ári.

Fleiri viðmið mætti nefna. Meginatriðið er að verðmætasköpunin gengur vel og horfur framundan eru ágætar.

 

Eiga atvinnurekendur einir að njóta hagvaxtarins?

Ef ekki yrðu launahækkanir í slíku árferði þá myndi hagvöxturinn renna óskiptur til atvinnurekenda og fjárfesta einna – en ekki til vinnandi launafólks.

Tekjuhlutdeild ríkasta eina prósentsins myndi aukast. Aðrir stæðu í stað eða drægjust afturúr.

Fyrir slíku getur ekki verið neinn hljómgrunnur á Íslandi, ef fólk er upplýst um raunverulega stöðu mála.

Þessu til viðbótar geta aðilar vinnumarkaðarins einnig samið um breytta tekjuskiptingu og sett lægri launahópana í forgang. Slíkt er sérstaklega gagnlegt að gera þegar hægir á hagvexti og raunar einnig í kreppum. Það örvar hagvöxtinn.

Hátekjuhóparnir, stjórnendur á almennum vinnumarkaði og Kjararáðsþjóðin, hafa verið að gera það gott að undanförnu, eins og allir vita. Heldur betur.

Nú er komið að almennu launafólki og sérstaklega láglaunafólkinu.

Ef eigendur fyrirtækjanna vilja halda aftur af launahækkunum þá eiga þeir að beina slíku að hærri tekjuhópunum.

Stjórnvöld geta svo lagt félagslegum stöðugleika lið með því að breyta skattbyrði og velferðaraðgerðum lægri og milli tekjuhópum til hagsbóta – svo um munar.

Það er eðlilegt að félagslegur stöðugleiki kosti eitthvað, enda er hann mjög verðmætur fyrir þjóðarbúið.

Það má ekki gerast aftur að stjórnvöld grafi undan kjarasamningum (og félagslegum stöðugleika) með aukinni skattbyrði lágtekjufólk eins og gerðist í kjölfar kjarasamninganna 2015.

Svigrúm til kjarabóta er þannig klárlega fyrir hendi.

Það er mikilvægt að aðiljar vinnumarkaðar og stjórnvöld nái saman um að nýta það til að bæta sérstaklega kjör þeirra sem minna hafa.


Hér að neðan má sjá nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir Ísland til ársins 2023 og spá um hagvöxt á alþjóðavettvangi til samanburðar:

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.7.2018 - 11:03 - FB ummæli ()

Samband fjármálavæðingar, ójafnaðar og hruns

Hrunið 2008 var klassísk fjármálakreppa sem kom í kjölfar óvenju viðamikils bóluhagkerfis (sjá umfjöllun um það hér). Bólan sprakk vegna þess að fjármálakerfið hafði safnað svo miklum erlendum skuldum að ekki var við ráðið.

En hvers vegna gerðist það?

Rótin að tilurð bóluhagkerfisins og því gríðarlega óhófi sem þá tíðkaðist liggur í fjármálavæðingunni (financialization).

Fjármálavæðing sprettur af auknu frelsi á fjármálamörkuðum og ónógu aðhaldi eftirlitsaðila (Seðlabanka og Fjármálaeftirlits) og stjórnvalda.

Fjármálavæðing felst í auknu vægi fjármálageirans, hann fær stærra hlutverk og tekur til sín stærri hluta af umsvifum efnahagslífsins. Því fylgir aukið vægi hlutabréfa- og verðbréfamarkaða og verulega aukin spákaupmennska með lánsfé.

Fjármálavæðing gefur af sér mikinn vöxt fjármagnstekna eða eignatekna (financial/capital incomes), en þær koma að langmestu leyti í hlut hátekjuhópanna. Þannig var það alls staðar á Vesturlöndum.

 

Einstakur vöxtur fjármagnstekna

Myndin hér að neðan sýnir vöxt fjármagnstekna í íslenska þjóðarbúinu frá 1992 til 2015, sem var gríðarlegur.

Mynd 1: Fjármagnstekjur sem hlutfall allra framtaldra tekna, 1990 til 2015. (Heimild: Ríkisskattstjóri)

 

Fjármagnstekjur voru alls um 2% allra framtaldra tekna árin 1994-1995 og hækkuðu upp í nærri 25% á toppi bóluhagkerfisins árið 2007.

Þetta var mikil aukning og mun meiri en sást í öðrum vestrænum löndum á þessum tíma – enda var stærð íslenska bóluhagkerfisins einstök.

Stærstu hlutar fjármagnstekna voru söluhagnaður hlutabréfa og annarra eigna, sem tengdist spákaupmennskunni (braskinu), en síðan komu arðgreiðslur úr fyrirtækjum, vaxtatekjur og leigutekjur.

Fjármagnstekjur báru einungis um 10% tekjuskatt (þ.e. fjármagnstekjuskatt) fram að hruni á meðan atvinnutekjur vinnandi fólks og lífeyristekjur báru mun hærri tekjuskatt.

Fjármagnstekjur nutu sem sagt mikilla skattfríðinda – og gera raunar enn (samanber umfjöllun í bókinni Ójöfnuður á Íslandi).

 

Fjármálavæðingin: Einkamál hátekjuhópanna

Fjármagnstekjurna komu fyrst og fremst í hlut tekjuhæstu tíu prósentanna, eignamesta fólksins í landinu. Vöxtur þeirra snerti nær eingöngu hátekjuhópana, eins og sýnt er á mynd 2 hér að neðan.

Mynd 2: Hlutur fjármagnstekna af heildartekjum hátekjuhópa (tekjuhæstu tíu prósentin og hæsta eina prósentið), í samanburði við hin 90 prósentin (allan þorra almennings). (Heimild: Ójöfnuður á Íslandi 2017).

 

Hjá tekjuhæsta eina prósentinu voru fjármagnstekjur tæp 10% árið 1995 en fóru upp í um 80% árin 2005 til 2007. Lækkuðu síðan eftir hrun (niður í um 30% árið 2011), en eru að nálgast helming á síðustu árum.

Hjá tekjuhæstu tíu prósentunum fóru fjármagnstekjur frá um 3% árið 1995 upp í tæp 50% árið 2007.

Hjá öllum þorra almennings, öðrum en tekjuhæstu tíu prósentunum, voru fjármagnstekjur yfirleitt á bilinu 2-8% af heildartekjum til skatts á öllu tímabilinu.

Fjármálavæðingin og vöxtur fjármagnstekna var því sem næst einkamál hátekjuhópanna. Og þær tekjur nutu mikilla skattfríðinda að auki, umfram atvinnutekjur venjulegs vinnandi fólks.

Þannig jók fjármálavæðingin ójöfnuð tekna stórlega á áratugnum fram að hruni.

Mat okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar, í bókinni Ójöfnuður á Íslandi, er að fjármálavæðingin skýri um tvo þriðju af ójafnaðaraukningunni til 2008, en breytt skatta- og velferðarstefna skýri um þriðjung af aukningu ójafnaðarins.

 

Frá fjármálavæðingu til hrunsins

Fjármálavæðingin var drifin áfram af skuldasöfnun, einkum erlendum skuldum en einnig skuldum við lífeyrissjóði almennings.

Það var þessi skuldasöfnun sem á endanum felldi bankakerfið og skildi stóran hluta atvinnulífsins eftir tæknilega gjaldþrota. Fyrirtækjum og fjármálastofnunum var drekkt í skuldum.

Til stærsta hluta þeirra skulda var stofnað vegna eignabrasks yfirstéttarinnar í landinu, tekjuhæstu tíu prósentanna.

Almenningur bar svo mestu byrðarnar af kreppunni sem kom í kjölfar hrunsins.

Braskið eða spákaupmennskan snérist um að komast yfir verulegar eignir (hlutabréf o.fl.) er gáfu af sér verulegar fjármagnstekjur á stuttum tíma, þegar hlutabréfavísitalan blés út, sem og önnur eignaverð.

Þannig var sambandið milli fjármálavæðingarinnar, aukins ójafnaðar og hrunsins á Íslandi.

Þetta þurfa allir að skilja, svo varast megin endurtekningu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.6.2018 - 11:52 - FB ummæli ()

Ísland: Dýrasta land Evrópu

Hagstofa Íslands og Eurostat birtu um daginn nýjan samanburð á verðlagi milli Evrópulanda (sjá hér).

Niðurstaðan er sú, að Ísland er nú dýrasta landið í Evrópu. Jafnvel dýrara en Sviss og Noregur, sem lengi hafa verið með hæsta verðlagið.

Þetta má sjá á töflunni hér að neðan. Dálkur 1 sem sýnir útkomuna fyrir einkaneyslu heimilanna gefur bestu heildarmyndina:

Verðlag á einkaneyslu heimilanna er um 66% hærra en meðaltalið fyrir Evrópu og meira en þrisvar sinnum dýrara en ódýrustu löndin (Búlgaría og Makedónía).

Verðlag einkaneyslu er 16-17% hærra á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Það munar um minna.

Verð er um 33% hærra á Íslandi en í Svíþjóð og um 36% hærra en í Finnlandi. Þetta er mjög mikill munur.

Ég man þá tíma að verð á hinum Norðurlöndunum var hærra en á Íslandi. En það er sem sagt liðin tíð og gott betur!

Í töflunni má einnig sjá samanburð fyrir nokkra aðgreinda þætti einkaneyslunnar í Evrópulöndunum. Ísland er þar ýmist langefst eða í einu af allra efstu sætunum.

Mjög dýrt að vera Íslendingur!

Þetta er verkefni almennings í lífsbaráttunni hér á landi.

Laun á Íslandi þurfa að duga til framfærslu í dýrasta landi Evrópu.

En launin eina duga ekki og því þurfa velferðaraðgerðir stjórnvalda einnig að koma til.

Og dreifing skattbyrðarinnar þarf að vera þannig að hún hlífi lægstu tekjuhópum mun betur en nú er.

Þó það komi ekki fram í þessum samanburði þá er verð húsnæðis á Íslandi einnig mjög hátt og hefur hækkað einstaklega mikið á síðastliðnum árum.

Það hefur étið upp þá kaupmáttaraukningu sem samið hefur verið um á vinnumarkaði, einkum fyrir fólk í lægri tekjuhópum.

Ungt fólk sem er að glíma við að koma sér upp fjölskyldu og húsnæði á lágum tekjum finnur sérstaklega mikið fyrir þessari óheillaþróun.

Það er stórt verkefni, ekki síst fyrir verkalýðshreyfinguna, að koma skikk á þessi mál þannig að dæmin gangi upp fyrir þá sem verr standa.

Verðlagning og samkeppnishæfni

Og svo má einnig spyrja hvort álagning sé ekki of mikil á Íslandi?

Landsframleiðsla Íslands er 33% yfir meðaltali Evrópu en verðlag einkaneyslu heimilanna er 66% yfir meðaltali Evrópulanda.

Varla er það náttúrulögmál að Ísland sé dýrasta land í Evrópu…

Verðlagið hlýtur í öllu falli að setja viðmið fyrir launin sem greiða þarf í landinu – svo Íslandi verði samkeppnishæft til búsetu við grannríkin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar