Sunnudagur 23.9.2012 - 00:21 - FB ummæli ()

Vofa kommúnismans ásækir frjálshyggjumenn

„Vofa leikur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans“, segir í byrjun Kommúnistaávarps Marx og Engels. Þessi lýsing átti ágætlega við í Evrópu árið 1848, þegar ritið kom út. Þá var mikil ólga og átök um alla álfuna, ekki síst stéttaátök.

Maður hélt þó samt að búið væri að kveða þennan draug niður í okkar heimi, með hruni Sovétskipulagsins um 1990. Margir stuðningsmenn kommúnisma á Vesturlöndum höfðu reyndar löngu áður hellst úr lestinni. Tími kommúnismans virtist í meira lagi liðinn.

En ekki lengur. Vofa kommúnismans virðist birtast sumum Íslendingum um þessar mundir – og raunar í vaxandi mæli frá því skömmu eftir hrun.

Eftir því er tekið að hún virðist einkum birtast frjálshyggjumönnum. Því lengra til hægri sem þeir eru, þeim mun oftar sjá þeir vofuna. Aðrir verða hennar ekki varir.

Þetta er skondinn draugagangur.

Frjálshyggjumenn eiga þó sjálfir sinn draug, “ósýnilegu höndina”. Kanski vofa kommúnismans sækist eftir félagsskap hennar? Kanski hún vilji draga baug á ósýnilegan fingur?

En hvers vegna skyldu róttækir frrjálshyggjumenn, eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?

Þeir fengu meira að segja hinn glögga og skemmtilega Egil Helgason til að skenkja tevatni á miðilsfundi um málið í dag.

Ekki trúi ég á drauga og því er nærtækara að leita að veraldlegri skýringu á þessari óvæntu uppvakningu hinnar gömlu vofu.

Skyldu frjálshyggjumennirnir vera að draga athygli frá hinu hrikalega skipbroti frjálshyggjunnar á Vesturlöndum, sem endurspeglast í fjármálakreppunni?

Frjálshyggjumenn reyndust vera eins og Marxistar og Mormónar – trúa á “lögmál” um mannlífið. “Lögmál” frjálshyggjunnar reyndist vera byggt á yfirnáttúrulegu afli, “ósýnilegu höndinni”! Það leiddi ansi marga afvega.

Kanski eru frjálshyggjumenn einfaldlega að leita að verri vofu en sinni eigin. Það er eins konar syndaaflausn að geta bent á annan verri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 21.9.2012 - 09:29 - FB ummæli ()

61% Íslendinga eru aular – segir Viðskiptaráð

Það voru tímamót í kosningabaráttu Mitt Romneys í Bandaríkjunum er birt voru leynd ummæli hans á fjáröflunarfundi með auðmönnum þar vestra í vikunni (sjá hér).

Hann sagði m.a. þetta: „… það eru 47 prósent … sem eru háð ríkinu, … sem telja að ríkið eigi að sjá fyrir þeim, sem telja sig eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, mat, húsnæði og ég veit ekki hvað. Að þetta séu réttindi. Og að ríkið eigi að gefa þeim þetta. …Þetta er fólkið sem greiðir engan tekjuskatt. … Ég mun aldrei sannfæra þau um að þau eigi að bera ábyrgð og sjá um sig sjálf.”

Margir hrukku við. Meira að segja hægri sinnaðir fjölmiðlamenn voru orðlausir af hneykslan, eins og t.d. David Brooks á New York Times. Sumir telja þetta náðarhögg fyrir kosningabaráttu Romneys.

Ummælin þóttu sýna algenga mannfyrirlitningu auðmanna gagnvart alþýðufólki, en einnig ótrúlega fákunnáttu um samfélagið sem hann vill stýra sem forseti.

Hugsunin sem Romney tjáir á svo hispurslausan hátt er sú, að um 47 prósent landsmanna séu ómagar sem hin 53 prósentin þurfa að sjá fyrir. Þetta er einmitt hið harða viðhorf auðmanna til velferðarríkisins, sem þeir vilja ekki að sé rekið af skattfé. Þeir telja sig sjálfa og aðra í ríkari helmingi samfélagsins skapa verðmæti – en allir aðrir séu afætur.

Þetta er auðvitað ógeðfellt – en einnig kolröng hugsun.

Er ég heyrði þessu ummæli Romneys rifjaðist upp fyrir mér að Viðskiptaráð Íslands hefur orðað sömu hugsun á skýran og jafnvel róttækari hátt.

Það var í fréttabréfi um svokallaðan “stuðningsstuðul atvinnulífsins” frá 11. maí á síðasta ári (sjá hér og hér).

Þar birta þeir útreikning sem á að sýna að 61 prósent þjóðarinnar (192.700 manns) séu á framfæri þeirra 39 prósenta (125.000) sem starfa í einkageira atvinnulífsins. Þeir sem eru sagðir á framfæri einkafyrirtækjanna eru: opinberir starfsmenn, þeir sem eru atvinnulausir og allir aðrir (börn, eldri borgarar, öryrkjar, fólk sem er utan vinnumarkaðar, stúdentar).

Þetta eru ómagar atvinnurekenda einkageirans, alls 61% þjóðarinnar, segir Viðskiptaráð. Mitt Romney nefndi þó bara 47%! Hér má sjá útreikning Viðskiptaráðs:

Romney taldi hins vegar ekki opinbera starfsmenn til ómaga eins og Viðskiptaráð gerir. Ef það er gert, þá er tala “ómaga” á Íslandi 47% – rétt eins og í Bandaríkjunum!

Viðskiptaráð reiknar stuðningsstuðulinn sem á að sýna hversu miklar byrðar þeir hafa af þessum  ómögum. Hann er sagður hafa hækkað mikið í kreppunni og vera orðinn 1,5 árið 2010. Það þýðir að hver og einn sem vinnur í einkageiranum hafi 1 og hálfan ómaga á framfæri sínu (fyrir utan sjálfan sig).

Svona hugsa einmitt auðmenn eins og Mitt Romney og segja það upphátt á fundum með öðrum auðmönnum – en ekki opinberlega. Viðskiptaráð Íslands er þó ófeimið við að tjá svona hugsun.

Hér eru dæmi úr skrifum Viðskiptaráðs sem undirstrika boðskapinn frekar:

  • “Einkageirinn er forsenda þess að hið opinbera geti veitt nauðsynlega þjónustu s.s. heilsugæslu og menntun, greitt atvinnuleysistryggingar til þeirra sem eru án vinnu og greitt lífeyri eða bætur til þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.”
  • “Árið 2010 stóð hver einstaklingur á almennum vinnumarkaði að baki 1,54 einstaklingi (fyrir utan sjálfan sig) sem studdur var með opinberu fé eða millifærslum. Þarna er um að ræða þá sem starfa hjá hinu opinbera, auk þeirra sem njóta stuðnings sameiginlegra sjóða, en það eru börn, lífeyrisþegar, öryrkjar og atvinnulausir.”
  • “Eftir því sem stuðningsstuðull atvinnulífsins er hærri því fleirum stendur hver starfsmaður í einkageiranum undir, sem felur almennt í sér aukna skattbyrði. Til samanburðar þá stóð hver starfsmaður undir 1,29 einstaklingi árið 2007. Því hafa byrðar einkageirans aukist um tæp 20% frá árinu 2007.”
  • “Hærri stuðningsstuðull atvinnulífsins eftir efnahagshrun er áhyggjuefni. … Umsvif hins opinbera eru enn á mörgum sviðum í anda þess þanda hagkerfis sem var hér í aðdraganda bankahrunsins, en í stað eðlilegrar aðlögunar á opinbera geiranum hefur sú leið verið farin að stórauka byrðar á atvinnulífið til að halda við rekstri hins opinbera.”

Þetta er hugsun og boðskapur Viðskiptaráðs Íslands árið 2011. Viðskiptaráðs sem sagði að þeir hefðu fengið 95% af stefnumálum sínum samþykkt af ríkisstjórnum fyrir hrun. Þeir voru sem sagt leiðsögumennirnir í brú þjóðarskútunnar þegar henni var siglt í strand.

Margir af áhrifamönnum og meðlimum Viðskiptaráðs voru einmitt leiðandi í útrásinni og skuldsetta braskinu sem setti þjóðarbúið á hausinn. Þeir voru í senn boðberar amerísku auðhyggjunnar sem réð ferðinni og atkvæðamestir í dansinum í kringum gullkálfinn. Þeir sögðu okkur hinum að hætta að líta til hinna norrænu ríkjanna eftir fyrirmyndum, við værum þeim framar á öllum sviðum!

Nú segjast þeir þurfa að bera auknar byrðar af samfélaginu vegna hrunsins – hrunsins sem var í boði þeirra sjálfra! Vilja niðurskurð velferðarkerfisins og fá skattalækkanir, svo þeir geti grætt meira á daginn.

Þarf að segja meira?

Jú, við þurfum líka að leiðrétta þessar ranghugmyndir Viðskiptaráðs og Mitt Romneys.

Opinberir starfsmenn eru ekki afætur á starfsmönnum og eigendum einkafyrirtækja. Þeir lækna fólk, hjúkra fólki, mennta fólk, þjálfa vinnuafl, gera rannsóknir og leggja grunn að nýsköpun í tækni, vísindum, atvinnu og listum. Þeir stýra mörgum mikilvægum þáttum samfélagsins. Þeir bjarga t.d. einkageiranum þegar hann hefur rekið sjálfan sig og samfélagið allt í þrot – með græðgi sinni og stjórnleysi.

Opinberir starfsmenn reka flesta þætti grunngerðar samfélagsins, samgöngukerfi, öryggisþjónustu (löggæslu, slökkvilið, o.fl.) og landvarnir. Þeir annast og uppfræða ungabörnin á leikskólum og margt fleira. Þeir sjá um margt af því sem gerir einkarekstur arðbæran og samkeppnishæfan. Allt eru þetta mikilvægir þættir – í senn verðmætasköpun og nauðsyn.

Verðmætasköpun samfélagsins er samvinnuverkefni allra – ekki bara verk atvinnurekenda í Viðskiptaráði.

Lífeyrisþegar og atvinnulausir eru að stórum hluta fjármagnaðir með eigin fé. Þeir leggja hluta launa sinna í lífeyrissjóði, atvinnuleysistryggingasjóð og skatta þegar þeir eru á vinnualdri, til að hafa til tryggingar og framfærslu þegar heilsan gefur sig, aldur sækir að eða þegar ekki er vinnu að fá. Þeir lifa ekki á ölmusugreiðslum frá atvinnurekendum einkageirans.

Velferðarkerfið er þannig eins konar sparibaukur samfélagsins. Menn leggja meira af mörkum þegar þeir eru á vinnualdri til að hafa örugga framfærslu síðar. Opinberir starfsmenn gera það ekki síður en aðrir, sennilega meira en margir í einkageiranum.

Þeir sem fá barnabætur eru ekki þiggjendur ölmusu frá atvinnurekendum. Nei, þeir fá stuðning frá þeim sem komnir eru úr barneign. Þetta eru tilfærslur frá einu skeiði lífshlaupsins til annars, frá einni kynslóð til annarrar, í formi kynslóðasamnings.

Atvinnurekendur greiða í nafni fyrirtækja sinna sem svarar um 2% af þjóðarframleiðslu í tekjuskatt. Útgjöld hins opinbera eru nærri 40% af þjóðarframleiðslu. Mest af því er fjármagnað af sköttum frá öllu vinnandi fólki og einnig að hluta frá lífeyrisþegum. Fólk greiðir hluta launa sinna í sparibauk velferðarkerfisins (skatta og iðgjöld) og nýtur þess svo þegar á þarf að halda. Þannig er það í samfélagi samvinnu og samtryggingarinnar.

Viðskiptaráð hefur ekkert lært af hruninu. Iðrast einskis. Það boðar sömu hættulegu ranghugmyndirnar og fyrir hrun.

Það er því rík ástæða til að auðmenn Íslands láti af hroka sínum og yfirlæti. Þeir og þeirra fyrirtæki eru ekki það eina sem máli skiptir í samfélaginu.

Flestir Íslendingar leggja sitt af mörkum – en eru ekki aular á framfæri atvinnurekenda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 20.9.2012 - 10:54 - FB ummæli ()

Hvað kostar forseti Bandaríkjanna?

Allir vita að það þarf mikið fé til að geta orðið forseti Bandaríkjanna. En hversu mikið?

Stofnun sem heitir Open Secrets – Center for Responsive Politics tekur saman tölur um kostnað einstakra forsetaframbjóðenda. Myndin hér að neðan sýnir smá yfirlit um þetta (sjá líka hér).

Kostnaðurinn hefur hækkað yfir tíma, eins og sjá má á myndinni. Hann hefur aldrei verið meiri en í síðustu kosningum, er Obama og McCain tókust á.

Þá eyddi Barac Obama um 730 milljónum dollara, eða um 85 þúsund milljónum króna (þ.e. 85 milljörðum). McCain eyddi næstum jafn miklu og Obama. Samanlagt eyddu þeir nærri 160 milljörðum króna. Pælið í því!

Þetta segir ansi mikið um lýðræðið í Bandaríkjunum.

Slíkra fjármuna þarf að afla og mest kemur frá fyrirtækjum og auðmönnum. Frambjóðendur mæta á söfnunarfundi (fund raisers) og daðra við gefendur.

Lengi hefur tíðkast að fjármálafyrirtækin og bankarnir á Wall Street gefi hvað mest, síðan stórir fjárfestar og forstjórar. Þessir aðilar hafa líka mest áhrif á stefnu forsetanna. Þeir gefa til beggja flokka til að tryggja áhrif sín. Þeim er því yfirleitt alveg sama hvor vinnur.

“Æ sér gjöf til gjalda”, segir í Hávamálum.

Þegar áhrif fjármálaafla eru orðin svona mikil þá breytist lýðræði yfir í það sem mætti kalla fjárræði. “Fjárræði” er stjórnkerfi peningaaflanna. Hagsmunum auðmanna er vel þjónað í slíku stjórnkerfi.

Fátæklingar gefa ekkert í kosningasjóðina. Þeirra rödd heyrist almennt afar illa í bandarískum stjórnmálum. Þeir geta ekki rukkað forsetann um greiða við sinn málstað.

Enda er yfirleitt lítið gert til að draga úr fátækt í USA. Þeir fátæku sitja bara eftir og éta það sem úti frýs!

Millistéttin stendur heldur ekki vel í Bandaríkjum nútímans, ólíkt því sem var fram til um 1980. Nú er talað um hnignun millistéttarinnar í USA. Hagur auðmanna vænkast hins vegar stöðugt.

Í fjárræðis-stjórnmálum  Bandaríkjanna fá menn þann forseta og þá ríkisstjórn sem peningarnir kaupa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.9.2012 - 00:15 - FB ummæli ()

Skattar og hagvöxtur í USA – Nokkrar lexíur

Á myndinni hér að neðan er sýnd þróun hátekjuskatts á einstaklinga í Bandaríkjunum, frá 1913 til 2012. Súlurnar sýna hæstu álagningu á háar tekjur.

Þetta er ansi lærdómsrík mynd. Ekki síst fyrir algenga – en mjög villandi – umræðu um samband milli skatta og hagvaxtar.

Staðreyndin er sú, að þegar hátekjuskattar voru hæstir í USA þá var hagvöxturinn jafnframt mestur. Skattalækkanir Reagans og Bush-feðganna juku ekki hagvöxt.

Við sjáum á myndinni hvernig hátekjuskatturinn var mjög lágur í byrjun 20. aldar (7%) en hækkaði svo stórlega í fyrri heimsstyrjöldinni og fyrstu árin á eftir henni, upp í rúmlega 70% álagningu. Hann tífaldaðist, til að fjármagna stríðsreksturinn.

Síðan kom frjálshyggjutími þriðja áratugarins, þá var skatturinn lækkaður aftur í um 25%. Þessi tími einkenndist af vaxandi braski, skuldasöfnun og auknum ójöfnuði. Frjálshyggjutíminn endaði með hruninu á Wall Street haustið 1929  og við tók Kreppan mikla. Skatturinn var áfram lágur til 1932, en það var síðasta ár Hoovers forseta og við tók Franklin D. Roosevelt. Hann hélt skattinum í 63% til 1936 er hann var hækkaður í 79% (ATH: hátekjuskattur er nú rúmlega 46% á Íslandi).

Athyglisvert er að fyrsta stjórnarár Franklin D. Roosevelts fór hagvöxtur loks af stað og atvinnuleysi tók að minnka, eða beint í kjölfar skattahækkunar úr 25% upp í 63%. Skattahækkunin hamlaði ekki hagvexti þrátt fyrir mikla dýpt kreppunnar.

Svo hækkuðu hátekjuskattarnir í seinni heimsstyrjöldinni upp í 88% og í lok styrjaldarinnar í 94%. Þá þurfti að greiða stríðskostnaðinn og hátekjufólki var ætlað stórt hlutverk í því (enda höfðu margir þeirra grætt vel á stríðstímanum, ekki  síst iðnjöfrar).

Frá 1950 til 1963 héldust hæstu hátekjuskattar í um 91%. Það tímabil var jafnframt mesta góðæri Bandaríkjanna fyrr og síðar, með met hagvöxt, lítið atvinnuleysi og met kaupmáttaraukningu almennings. Þetta var gullöld blandaða hagkerfisins. Þessir gríðarlegu hátekjuskattar (91%) stóðu samt ekki í vegi fyrir þessu mikla góðæri. Lyndon Johnson lækkaði svo skattana 1964-5 niður í 70%.

Síðan má sjá hvenær nýtt frjálshyggjutímabil hefst með stjórn Ronald Reagans upp úr 1980 og voru þá hátekjuskattar snarlega lækkaðir úr 70% í 50% og áfram hjá Bush eldri niður í 28%. Ekki sáust nein sérstök merki aukins hagvaxtar í kjölfarið.

Clinton hækkaði hátekjuskattinn svo aftur 1993, til að greiða uppsafnaðan halla vegna skattalækkana ríka fólksins á Reagan-tímanum. Þrátt fyrir þá hækkun tók við mikið hagvaxtargóðæri frá 1994 til 2000. Sú hækkun stóð uns Bush yngri komst til valda og lækkaði hátekjuskattana aftur úr 39,6% í 35%. Þar hafa skattarnir verið til 2012, því Obama hefur ekki tekist að hækka þá, þó hann hafi lýst vilja til þess.

Lexíur:

  • Háir hátekjuskattar hafa oft verið taldir nauðsynlegir til að greiða mikinn kostnað samfélaga, svo sem af styrjöldum og kreppum.
  • Skattahækkanir á hæstu tekjur hafa almennt ekki hamlað hagvexti (sjá nýleg dæmi hér og hér).
  • Mesta góðæri 20. aldarinnar (1945-70) var jafnframt með hæstu hátekjuskattana í USA (og víðar á Vesturlöndum).
  • Frjálshyggjumenn lækka iðuglega skatta á hátekjufólk þegar þeir eru við völd. Það er yfirleitt höfuð baráttumál þeirra (leynt eða ljóst). Segja það auka hagvöxt, en sannanir skortir algerlega fyrir þeirri fullyrðingu.
  • Skattalækkanir á háar tekjur auka einfaldlega ójöfnuð.
  • Hátekjuskattur í Bandaríkjunum er nú með allra lægsta móti m.v. síðustu 100 árin. Samt eru frjálshyggjumenn og auðmenn þar í landi að ærast yfir skattbyrðinni og vilja lækka skatta og fórna velferðarkerfinu.

Hátekjuskattar voru hækkaðir hóflega á Íslandi eftir hrun. Það stóð ekki í vegi fyrir endurreisn hagvaxtar og framþróunar. Nú er Ísland með einna mesta hagvöxtinn í Evrópu og Norður Ameríku.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 18.9.2012 - 08:51 - FB ummæli ()

Súrir frjálshyggjumenn

Pistill minn um lækkun frjálshyggju-vísitölunnar hefur hreyft við frjálshyggjumönnum – sem vonlegt er. Ég sagði það jafnvel fagnaðarefni að vísitala þessi lækkaði aðeins!

Hins vegar eiga menn ekki að fjárfesta mikið í þessari vísitölu. Hún er órökrétt grautargerð með hagsmunaívafi og áróðursmarkmiði, eins konar naglasúpa í heimi vísitalna.

Ef hún mælir eitthvað sem hönd er á festandi þá er það hversu hagstæð skilyrði eru fyrir auðmenn og fjárfesta til að ávaxta auð sinn – óháð hag almennings.

Að hluta mælir vísitalan þannig áhrif frjálshyggju á skipan þjóðmála. Að vísu eru til tvær slíkar vísitölur sem skila nokkuð ólíkum niðurstöðum. Fraser stofnunin og Heritage Foundation, hvoru tveggja róttækar frjálshyggjuveitur, settu þessar vísitölur saman til að hafa áhrif á stjórnvöld í heiminum, í þeim tilgangi að sveigja heiminn meira inn á braut frjálshyggjunnar.

Vísitalan fór almennt að hækka um 1980, samhliða auknum frjálshyggjuáhrifum á stjórnvöld, bæði á Vesturlöndum og annars staðar. Hver er arfleifð þeirra breytinga?

  • Hagvöxtur rann í sífellt meiri mæli til fámennrar yfirstéttar auðmanna, en kjör milli og lægri stétta bötnuðu mun hægar en áður, eða stöðnuðu.
  • Frelsi á fjármálamörkuðum jókst með aukinni áhættu á óstöðugleika og fjármálakreppum.
  • Spákaupmennska og skuldasöfnun jókst stórlega
  • Ójöfnuður jókst

Hagvöxtur og lífskjarabati almennings var mun meiri á árunum 1950 til 1975, þegar blandaða hagkerfið og velferðarríkið voru ríkjandi stefnumið. Sveigjan í átt til aukinnar frjálshyggju var þannig ekki til góðs – nema fyrir auðmenn eina.

Ég skil vel æsingu og reiði frjálshyggjumanna, eins og Skafta Harðarsonar, Björns Bjarnasonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Þeir horfa nú upp á minnkandi áhrif fyrir trúarbrögð sín. Rétt rúmlega 20 manns mættu á mikið auglýstan fund þeirra í gær og frummælandinn sjálfur kom ekki, heldur ræddi við fundarmenn í síma.

Í staðinn ausa þeir úr skálum reiði sinnar yfir mig. Hannes rifjar upp ósannindaóhróður um meintar reiknivillur mínar, sem hann hefur birt 50-60 sinnum áður. Þær ákúrur eru jafn ósannar í hvert sinn sem hann endurtekur þær.

Skafti segir mig vilja eymd og volæði fyrir alla frekar en hagvöxt frjálshyggjunnar.

En ég vil bættan hag fyrir alla – konur og kalla.

Það dugir ekki að auðmenn einir hagnist , eins og þeir frjálshyggjumenn virðast stefna að.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 16.9.2012 - 09:02 - FB ummæli ()

Góð frétt: Frjálshyggju-vísitalan lækkar!

Nú berast fregnir af því að frjálshyggju-vísitala Íslands hafi lækkað eftir hrun.

Biskup frjálshyggjunnar, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur sjálfur sent út fréttatilkynningu um þessi tíðindi (sem birt er á Pressunni og hinum ókristilega vef amx-veitunnar).

Biskupinn er með böggum hildar yfir þróuninni og hefur boðað sérlegan talsmann vísitölunnar til landsins, alla leið frá Norður Ameríku. Sá er þekktur hægri öfgamaður og mun hann tala á fundi frjálshyggjumanna í Reykjavík á mánudagsmorgun, segir í tilkynningunni.

Markmið fundarins mun vera að auka enn frekar áhrif frjálshyggjunnar á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Sumum þykja þau þó ærin fyrir.

Fyrir allt venjulegt fólk eru þetta þó góð tíðindi. Það er vegna þess að frjálshyggju-vísitalan mælir fátt sem þjónar hagsmunum almennings.

Fyrst þegar þessi vísitala var sett fram var hún kölluð “frelsisvísitala”. Það þótti víðast hvar frekar hlægilegt, því vísitalan snýst varla um neitt sem venjulegt fólk kallar “frelsi”. Þess vegna var skipt um nafn á henni og hún kölluð “Index of Economic Freedom” (vísitala efnahagsfrelsis). Hólmsteinn biskup kallar hana hins vegar “atvinnufrelsisvísitölu”. Öll þessi heiti eru þó villandi.

Þessi vísitala  er fyrst og fremst mælikvarði á frelsi auðmanna og fjárfesta. Þegar menn skoða hvernig vísitalan er samsett þá kemur það berlega í ljós (sjá hér).  Há frjálshyggju-vísitala þýðir almennt betri skilyrði fyrir auðmenn og fjárfesta til að auðgast enn frekar – oft á kostnað almennings.

Vísitalan er almennt hærri þar sem velferðarríkið er minna, þar sem skattar á hátekjufólk og fjárfesta eru lægri, þar sem frelsi á fjármálamarkaði er meira og eftirlit minna, þar sem hagur erlendra fjárfesta er betur tryggður og einkaeignaréttur betur varinn, m.a. með mikilli bankaleynd.

Þá er frelsisvísitalan hærri þar sem auðveldara er að reka fólk úr vinnu, þar sem engin lágmarkslaun eru, þar sem verkalýðshreyfing hefur engin áhrif, og þar sem opinberar reglur eru almennt veikari og eftirlit sem minnst.

Margt af þessu sem frjálshyggju-vísitalan mælir eru einmitt þættir sem taldir eru hafa átt mikinn þátt í að auka ójöfnuð og steypa heiminum út í fjármálakreppuna sem nú ríkir.

Raunar var það svo að frelsi auðmanna, atvinnurekenda og fjárfesta tók víða að aukast mjög mikið frá því um 1980, samhliða aukningu ójafnaðar, vegna aukinna áhrifa frjálshyggju á stefnu margra stjórnvalda. Þá hækkaði frjálshyggju-vísitalan hratt.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, en hún sýnir frjálshyggju-vísitöluna fyrir Ísland og meðaltal allra þátttökuþjóða vísitölunnar, frá 1975 til 2009 (heimild: Fraser frjálshyggjuveitan). Hún sýnir sem sagt þróun frjálshyggjuáhrifa.

Myndin sýnir líka hvernig Ísland fór langt framúr öðrum þjóðum í innleiðslu frjálshyggjufrelsis. Hér náði frjálshyggjufrelsið hámarki frá um 2000 til 2006, er Ísland var í 11. til 12. sæti á þessum heimslista frjálshyggjunnar.

Þá var einmitt vörðuð leiðin að hruninu!

Nú hefur frjálshyggju-vísitalan sem sagt lækkað og líklega boðar talsmaður vísitölunnar að frekari lækkun hafi orðið á árinu 2010, á þessum fundi frjálshyggjumanna á mánudag. Það er í góðu lagi, ef rétt reynist.

Þó við eigum að styðja við frjáls viðskipti og frelsi almennings til að geta lifað farsælu lífi þá er engin sérstök þörf á að auka mikið frelsi auðmanna með útþenslu óhefts kapítalisma. Óheftur kapítalismi brást herfilega og færði okkur hrunið.

Öflugt velferðarríki í blönduðu hagkerfi hefur sýnt sig að vera besta leiðin til að ná árangri í hagsæld og farsæld þjóða – ekki leið frjálshyggjunnar. Hún eykur bara ójöfnuð og flæði fjár í erlend skattaskjól.

Þegar frjálshyggju-vísitalan lækkar þá þýðir það einfaldlega að áhrif frjálshyggju fara minnkandi – og það er gott fyrir almenning.

Það eru því góðar fréttir ef þessi vísitala er nú lækkandi á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 14.9.2012 - 22:45 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismaður styður góða hugmynd

Ég hef ekki verið aðdáandi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Málflutningur hans er oft mjög ómerkilegur og sumt sem tengist pólitík hans er skuggalegt, eins og Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri DV rifjaði upp um daginn.

En Guðlaugur Þór reifaði góða hugmynd í pistli á Pressunni í vikunni. Sjálfsagt er að hann njóti sannmælis fyrir það. Þetta er reyndar skemmtileg tilbreyting við venjulegan málflutning hans – og flestra annarra Sjálfstæðismanna. Þeir styðja nú orðið nær eingöngu afleitar hugmyndir.

Hugmyndin er sem sagt sú, að leyfa fólki að losa séreignasparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir sínar.

Þetta er að vísu hugmynd sem Már Wolfgang Mixa fjármálafræðingur hefur reifað nokkrum sinnum. Hugmyndin er svosem líka í stíl við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem framkvæmd hefur verið síðustu ár, að leyfa takmarkaða losun séreignasparnaðar (en með frjálsu vali um til hvers hann er notaður).

Mér finnst samt hugmyndin að tengja þetta nú við niðurgreiðslu húsnæðisskulda ansi góð. Sparnaður heimila er betur geymdur í húsnæði en í vörslu fjármálamarkaðanna, við núverandi aðstæður.

Ég hvet stjórnmálamenn allra flokka til að gera þessa hugmynd Más Mixa að sinni.

Skatttekjurnar sem af þessu fást mætti svo nota til að greiða niður skuldirnar sem frjálshyggjuhrunið lagði á ríkið.

Ekki veitir af!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 13.9.2012 - 14:14 - FB ummæli ()

Skattpíning Bjarna Benediktssonar

Í sjónvarpsumræðum frá Alþingi í gærkveldi, um stefnuræðu forsætisráðherra, sagði Bjarni Benediktsson að ríkisstjórnin verði að láta af skattpíningarstefnu sinni.

Hvaða skattpíningarstefna er það?

Ég hef áður sýnt að heildarskattheimta, þ.e. allar skatttekur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu, hefur minnkað eftir hrun, en ekki aukist (sjá hér og hér og hér).

Skatttekjurnar allar samanlagðar voru um 42% af landsframleiðslu 2006-7 en fóru niður í 36% árið 2010. Stjórnvöld taka nú í reynd minni hluta af þjóðarkökunni sem sjálf hefur minnkað um 10% á árinu 2010. Þetta eru viðurkenndar staðreyndir frá OECD og Hagstofu Íslands.

En skoðum sérstaklega tekjuskattbyrði einstaklinga, nú og fyrir hrun? Það má sjá á mynd 1, en tölurnar koma einnig frá OECD og sýna hverju tekjuskattur einstaklinga skilar í opinbera sjóði (sjá hér).

Mynd 1: Tekjuskattgreiðslur einstaklinga sem % af landsframleiðslu, 2003 til 2010. Ísland og meðaltal OECD-ríkja samanborin.

Tekjuskattbyrði einstaklinga á Íslandi hafði lengi verið minni en að meðaltali í OECD-ríkjunum, eða til 1998, en þaðan í frá skreið hún hratt upp fyrir meðaltal OECD-ríkjanna, vegna aukinnar skattbyrði lægri tekjuhópa.

Tekjuskattbyrði einstaklinga á Íslandi náði hámarki árin 2003 til 2007 og nam þá 13,8% til 14,2% af landsframleiðslu. Eftir hrun hefur skattbyrðin verið 12,8-12,9%.

Meðal tekjuskattbyrði einstaklinga og fjölskyldna hefur sem sagt lækkað umtalsvert í tíð núverandi stjórnar. Endurreisnarstarf eftir hrun hefur farið fram með minni heildar skattheimtu af einstaklingum en var fyrir hrun.

Er það aukin skattpíning?

Meðaltalið felur þó aðra raunverulega breytingu sem varð á skattbyrði einstaklinga eftir hrun. Í reynd var það svo, að skattbyrði um 60% fjölskyldna lækkaði en skattbyrði um 40% fjölskyldna hækkaði.

Byrðin lækkaði hjá þeim tekjulægri og miðjuhópum, en hún hækkaði hjá þeim 40% sem hæstu tekjurnar hafa. Þetta má sjá á mynd 2.

Mynd 2: Skattbyrði fjölskyldna árið 2007 og 2010. Heildarskattgreiðslur sem hlutfall heildartekna fyrir skatt (beinir skattar, að teknu tilliti til álagningar og allra frádráttarliða), eftir 10 jafn stórum tekjuhópum og tekjuhæsta 1% hópnum (ofurtekjufólki-lengst til hægri á myndinni).

Myndin er skýr. Lægri tekjuhópar eru vinstra megin á myndinni en þeir tekjuhærri hægra megin. Sýnt er hversu stóran hluta af tekjum sínum fjölskyldur í hverjum tekjuhópi greiddu í tekjuskatt árið 2007 (ljósu súlurnar) og svo 2010 (dökku súlurnar).

Bjarni Benediktsson er væntanlega í hópi þeirra tekjuhæstu sem fengu skattahækkun eftir hrun, hægra megin á myndinni. Skattpíning hans nú væri þá svipuð og hafði verið hjá hátekjufólki árið 1995, þ.e. áður en ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs lækkuðu skattbyrði hærri tekna. Skattpíning hátekjufólks jókst sem sagt eftir hrun.

Skattar á fyrirtæki og fjárfesta voru reyndar einnig hækkaðir nokkuð, enda voru þeir orðnir óvenju lágir fyrir hrun. Bjarni Benediktsson er líka í þeim hópi.

Bjarni Benediktsson og aðrir Sjálfstæðismenn segjast vilja taka til baka þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu eftir hrun.

Ef það verður gert mun skattbyrði hátekjufólks lækka en byrðar lægri og milli tekjuhópa munu aukast.

Þá mun draga úr skattpíningu Bjarna og félaga hans í efri hluta tekjustigans.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 12.9.2012 - 17:31 - FB ummæli ()

Velferðarstefna er góð hagfræði

Hið nýja frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 er athyglisvert. Þar er sýnt að áætlunin um að koma ríkisbúskapnum á sléttan sjó eftir frjálshyggjuhrunið er að takast. Það er afar mikilvægt og alls ekki sjálfsagt.

Menn geta t.d. skoða hvernig ýmsum evrópskum þjóðum sem lentu illa í kreppu gengur að höndla ríkisbúskap sinn! Bandaríkin eru líka með stóran halla og sjá fram á viðvarandi halla um mörg ókomin ár.

Skuldirnar sem við sitjum uppi með vegna kostnaðar við hrunið eru þó gríðarlegar og mikilvægt að komast fljótlega í að greiða þær niður í framhaldinu. Það þarf að gera með auknum tekjum af auðlindum þjóðarinnar og góðu framlagi frá þeim sem græddu mest á árum bóluhagkerfisins, þ.e. hátekju- og stóreignafólki. Fyrirtækin þurfa líka að greiða meira í skatta til að þjóðin nái þessu markmiði fljótt og vel.

En þetta er ekki eina atriðið sem fagna má í fjárlagafrumvarpi Oddnýjar Harðardóttur. Áherslurnar á velferðarmál, nýsköpun og samgönguframkvæmdir, í samræmi við hina snjöllu fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og Guðmundar Steingrímssonar, eru mikið fagnaðarefni.

Hækkun barnabóta um allt að 30% eru stór og tímabær tíðindi. Einnig frekari aukning vaxtabóta.

Þessi stefna í frumvarpinu og fjárfestingaráætluninni er í takti við boðskap Paul Krugmans, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Hún mun skila sér í örvun efnahagslífsins um leið og hún léttir enn frekar undir með heimilum sem fóru illa út úr hruninu. Gerir líka auðveldara að borga niður skuldir ríkisins með auknum hagvexti í framhaldinu.

Í svokölluðu “góðæri” frjálshyggjutímans (1995 til 2006) lækkuðu vaxtabætur og barnabætur stórlega. Nú eftir hrun hafa vaxtabætur verið hækkaðar afar mikið og barnabætur eru næstar á dagskrá. Það eru góð tíðindi fyrir mörg heimili.

Sá góði hagvöxtur sem er á Íslandi, í samanburði við önnur kreppulönd, sýnir að markviss velferðarstefna í kreppu er líka góð hagfræði. Það er gömul lexía frá hagfræði Keynes, sem reynd var á árum Kreppunnar miklu, 1933 til 1939.

Þetta mættu þeir læra sem alla jafna telja velferðarútgjöld vera gagnslausa sóun. Sá söfnuður boðar róttækan niðurskurð á næstu misserum, komist þeir til valda.

Lexían frá Evrópu núna og Kreppunni miklu á fjórða áratugnum er sú, að með róttækri niðurskurðarstefnu dýpkar kreppan á ný.

Sú stefna sem nú tíðkast á Íslandi er mun betri kostur – fyrir heimilin og þjóðarbúið í senn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.9.2012 - 22:20 - FB ummæli ()

Ísland árið 1950 – fróðlegt myndband

Hér er landkynningarmynd sem NATO lét gera um Ísland árið 1950. Myndin er rúmlega 15 mínútur að lengd. Sýndar eru svipmyndir úr gamla landbúnaðarsamfélaginu, sjávarútvegslífinu, náttúru og auðlindum og svo eru myndir af mannlífinu í Reykjavík og víðar.

Þetta er sérstaklega skemmtileg mynd fyrir fólk sem fætt er í kringum 1950, því hún gefur góða mynd af framförunum sem orðið hafa í tíð einnar kynslóðar, með samanburði við nútímann.

Það er oft gott að fá tilfinningu fyrir framförum með því að skoða gamlar myndir, kvikmyndir jafnt sem ljósmyndir. Þessi er nokkuð góð lexía í slíkum framfarafræðum!

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir

Sunnudagur 9.9.2012 - 08:56 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan fíflar alla

Forlagið  hefur nýlega gefið út bók hagfræðingsins Ha-Joon Chang, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Höfundurinn er virtur fræðimaður við Cambridge háskóla í Englandi. Þessi bók á sérstaklega mikið erindi við Íslendinga.

Bókin fjallar um mörg mikilvæg atriði samtímans á sviði efnahags- og stjórnmála, en er skýr og aðgengileg í framsetningu, fróðleg og skemmtileg í senn, þó hún sé byggð á margvíslegum fræðilegum rannsóknum.

Dæmisögurnar 23 eru í reynd fjölbreytt tilbrigði við grunnstef bókarinnar, sem er gagnrýni á frjálshyggjuboðskapinn um yfirburði óheftra markaðshátta.

Þetta er ekki bók gegn kapítalisma og því síður er þetta bók sem mælir með gamaldags sósíalisma. Þetta er bók um það að fá betri kapítalisma, en þann sem tíðkast hefur síðustu áratugina og nær eingöngu þjónar hagsmunum auðmanna, atvinnurekenda, bankamanna og braskara. Steypti heiminum svo í fjármálakreppu af stærstu gerð.

Þetta er bók sem sýnir hvernig frjálshyggjuhagfræðin hefur fíflað almenning í vestrænum löndum, í vaxandi mæli frá því um 1980.

Ha-Joon Chang tekur fyrir margar af grunn hugmyndum óheftrar markaðshyggju sem tröllriðið hafa hagfræði og stjórnmálum á þessum tíma og kryfur þær til mergjar. Hann sýnir á skýran hátt hvernig þær eru ýmist verulega villandi eða fá ekki staðist. Flestar eru í reynd skaðlegar almenningi.

Goðsagnir óheftar markaðshyggju falla þannig hver á fætur annarri á þessum blaðsíðum.

Frá upphafi nýfrjálshyggjutímans um 1980 hefur hagur almennings í vaxandi mæli verið fyrir borð borinn í mörgum vestrænum samfélögum, ekki síst í Bandaríkjunum. Hagvöxturinn tók þá að renna að stærstum hluta til yfirstéttarinnar, en mun minna til millistéttarinnar og lágtekjufólks. Ójöfnuður tók að aukast mikið.

Blandaða hagkerfið hafði skilað mun meiri lífskjarabata til almennings frá 1950 til um 1975, án þess að auka ójöfnuð. Það var mesta framfaraskeið vestrænna þjóða fyrr og síðar.

Ósýnilega höndin, guðsmynd frjálshyggjunnar, er ósýnileg einmitt vegna þess að hún er einfaldlega ekki til, eins og Nóbelsverðlaunaði hagfræðingurinn Joseph Stiglitz sagði á sínum tíma!

Gráðugir einkaaðilar sem þjóna eigin sérhyggju þjóna ekki almannahag í leiðinni (eins og frjálshyggjumenn þó fullyrða, einmitt með tilvísun í draugasöguna um “ósýnilegu höndina”). Þvert á móti er aragrúi dæma um að óhófleg gróðasókn einstaklinga skaði samfélagið. Bankamenn og útrásarvíkingar á Íslandi voru talandi dæmi um slíkt. Þeir græddu vel sjálfir um leið og þeir rústuðu samfélaginu!

Sagan sem Chang segir af langtíma hnignun bandaríska risafyrirtækisins General Motors, vegna þess að eigendur og stjórnendur höfðu smám saman sogið um of úr því blóðið, er af sama toga. Það endaði í gjaldþroti 2009. Um þá gildir svipað og William Black sagði um bankamenn: “Einfaldasta leiðin til að ræna banka er að eiga hann”! Á Íslandi var þetta kallað að tæma banka eða fyrirtæki innan frá.

Útvegsmenn á Íslandi sem sugu fé út úr fyrirtækjum og kvótaverðmætum og skildu eftir 500 milljarða skuldir á fyrirtækjum sínum, gerðu það sama og amerískir hluthafar. Þeir voru bara að hugsa um eigendagróða til skemmri tíma. Bröskuðu líka í eigin þágu með auðlind þjóðarinnar.

Var slíkt gróðabrask einkaaðila í þágu almannahagsmuna? Nei – öðru nær, segir Ha-Joon Chang.

Þannig tekur Chang hverja ranghugmynd frjálshyggjunnar á fætur annarri og sýnir hvernig þær ýmist eru blekkingar eða beinlínis hugsaðar til að þjóna yfirstétt auðmanna – gegn hagsmunum almennings.

Hvergi voru villur frjálshyggjunnar dýrari fyrir almenning en á Íslandi. Afleiðingarnar hér voru stærsta bóluhagkerfi sögunnar og dýrasta hrunið.

Bók Ha-Joon Changs er kærkomin lesning fyrir alla þá sem vilja skilja hvernig hugmyndir frjálshyggju-hagfræðinnar voru notaðar til að fífla almenning – í nafni “frelsis”.

Frelsi frjálshyggjunnar var í reynd einungis frelsi fyrir auðmenn – en á kostnað almennings.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 7.9.2012 - 19:59 - FB ummæli ()

Skuggahlið þingmanns?

Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri á DV, hefur slegið öðrum fjölmiðlamönnum á Íslandi við með viðamiklum og víðtækum skrifum sínum um hinar ýmsu hliðar fjármálabrasksins sem setti Ísland á hausinn. Ingi Freyr skilur fjármálaheiminn vel og hefur fyrir því að kafa ofan í gögn og draga upp á yfirborðið aragrúa af upplýsingum sem eiga mikið erindi við almenning.

Mér finnst raunar undrunarefni að aðrir fjölmiðlar skuli ekki miklu oftar vísa til sláandi upplýsinga sem hann hefur komið fram með. Vonandi heldur hann mikilvægu starfi sínu áfram.

Í dag skrifar Ingi Freyr um vafasamar hliðar þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Sjálfstæðisflokki, sem m.a. var aðili að undarlegum málarekstri gegn Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Pistill Inga Freys er hér í heild sinni:

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem hefur verið ákærður fyrir brot á bankaleynd og þagnarskyldu, hefur haldið því fram opinberlega að þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson hafi lekið gögnum um sig í Kastljósið. „Það er fullyrt í mín eyru, af mönnum sem ég treysti og trúi, að Guðlaugur Þór hafi komið gögnunum til Kastljóss sem umfjöllun þáttarins um mig byggði á,“ sagði Gunnar Andersen í viðtali við Fréttablaðið í mars. Guðlaugur Þór hefur ekki einu sinni neitað þessari staðhæfingu Gunnars.

Veit fólk þetta ekki? Finnst engum neitt bogið við það að þjóðkjörinn þingmaður, sem á að starfa með almannahag að leiðarljósi, reyni að koma höggi á forstjóra ríkisstofnunar með þessum hætti? Sérstaklega þegar litið er til þess að umrædd ríkisstofnun rannsakar efnahagsbrot í samfélaginu á árunum fyrir og í kjölfar efnahagshrunsins og hlýtur þar af leiðandi að teljast mikilvæg. Aðgerð Guðlaugs Þórs var því ekki bara persónuleg atlaga að Gunnari sjálfum heldur að þeirri stofnun sem hann stýrði og verkum hennar: Uppgjöri opinberra aðila við hrunið 2008. Það uppgjör þjónar almannahag og er kostað af skattgreiðendum, líkt og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og annað sem ætlað er að varpa ljósi á hrun bankanna. Af hverju ætli Guðlaugur Þór Þórðarson hafi viljað koma höggi á Gunnar, Fjármálaeftirlitið og þar með áðurnefnt uppgjör?

Skósveinar djöflast
Margir þeirra manna sem eru til skoðunar og rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu og sérstökum saksóknara hafa persónulega hagsmuni af því að gera þessar rannsóknir sem tortryggilegastar og hjákátlegastar. Til þess beita þeir alls kyns brögðum. Skósveinar þeirra og léttadrengir beita sér í fjölmiðlum og bak við tjöldin fyrir dúsu, mylsnu af kökunni sem þeir luma á eftir ruplið. Ólafur Arnarson, leigupenni Exista, Pálma Haraldssonar og örugglega fleiri, og Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Pálma, Sigurjóns Árnasonar og fleiri Landsbankamanna, fóru mikinn í fjölmiðlum gegn Gunnari og Fjármálaeftirlitinu um svipað leyti og Guðlaugur Þór plantaði gögnunum í Kastljósið, ef marka má orð Gunnars. Umfjöllunin virkaði eins og samantekin aðgerð til að koma Gunnari frá.

Aðskilin mál en þó tengd
Hafa verður í huga að þessi tvö mál eru í reynd aðskilin: Framferði Guðlaugs Þórs gegn almannahagsmunum og ákæran gegn Gunnari sem snýst um að hann hafi aflað bankagagna um þingmanninn og komið þeim til ritstjórnar DV. Guðlaugur Þór gerði það sem hann gerði til að koma höggi á Gunnar löngu áður en Gunnar á að hafa gert það sem hann er ákærður fyrir. Fólk getur á sama tíma haft þá skoðun að hátterni þingmannsins gegn forstjóra ríkisstofnunar sem vinnur að almannahag sé ólíðandi en jafnframt litið svo á að Gunnar hefði ekki átt að gera það sem hann er ákærður fyrir.

Gjörðir Gunnars verða þó hugsanlega skiljanlegri í huga margra þegar túlkun hans sjálfs er skoðuð; hann kann að hafa viljað gjalda Guðlaugi líku líkt, launa honum lambið gráa og á sama tíma afhjúpa spillingu og „eitraða þræði stjórnmála og stórauðvalds“. Sá maður kann að vera dyggðugur og göfugur sem býður hinn vangann, sár eftir atlögu, en Gunnar gerði það ekki í þessu tilfelli – lái honum hver sem vill eftir allar árásirnar frá samverkamönnum þeirra sem hann vann við að rannsaka. Bráðræði Gunnars, sem átti þátt í að kosta hann starfið í Fjármálaeftirlitinu, fríar Guðlaug þó ekki ábyrgð á tilræðinu.

Þó málin tvö séu í reynd aðskilin þá tengjast þau einnig með nokkuð mikilvægum hætti. Gögnin um Guðlaug Þór sem ákæran gegn Gunnari snýst um sýna hvernig þingmaðurinn hagnaðist persónulega um 33 milljónir króna – margföld árslaun flestra venjulegra launþega í landinu – þegar hann seldi vini sínum og fyrrverandi kollega Sigurjóni Árnasyni, nýjum bankastjóra Landsbankans, tryggingamiðlun fyrir svissneskt tryggingafyrirtæki vorið 2003. Guðlaugur Þór hafði unnið að því að ná umboðinu til Búnaðarbankans þegar hann starfaði þar ásamt Sigurjóni. Þegar Sigurjón var fenginn yfir til Landsbankans eftir kaup Björgólfsfeðga á bankanum var það eitt af hans fyrstu verkum að kaupa umboðið af Guðlaugi.

Minni um 33 milljónir
Þegar DV ræddi við Guðlaug um málið á sínum tíma mundi hann hvorki almennilega hvernig hann fjármagnaði kaupin á umboðinu af Búnaðarbankanum né af hverju hin 33 milljóna króna greiðsla kom ekki fram í ársreikningi eignarhaldsfélags hans, Bogmannsins, fyrir árið 2003. „Ég man það ekki alveg en ég held að ég hafi fengið skammtímalán, væntanlega frá Búnaðarbankanum […] „Ég bara hef ekki hugmynd um það. Var þetta ekki 2003? Er ársreikningurinn ekki undirritaður af endurskoðanda? Ég man ekki nákvæmlega allt sem ég gerði árið 2003. Ég kann ekki að segja frá þessu.“
33 milljónir eru hins vegar ágætis búbót fyrir flesta og líklegu myndu margir muna nákvæmlega hvernig þeir eignuðust slíka upphæð – þó ekki Guðlaugur í þessu tilfelli.

Ályktun um spillingu
Á næstu árum eftir einkavæðingu bankanna voru sagðar allnokkrar fréttir um tengsl og aðkomu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að íslensku viðskiptalífi. Þekktasta frásögnin snýst um hvernig hann kom að því, vegna persónulegra tengsla sinna við hluthafa og stjórnendur Landsbankans og bólufyrirtækisins FL Group, að afla Sjálfstæðisflokknum 55 milljóna króna styrkja í árslok 2006.

Einnig var Guðlaugur Þór lykilmaður í því sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur að stofna REI, útrásarverkefni borgarinnar og einkaaðila, sem hefði fært alræmdum auðmönnum yfirráð yfir hluta af Orkuveitu Reykvíkinga ef borgarráð hefði ekki gripið í taumana.

Þá ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sumarið 2010, að Guðlaugur Þór ætti að hætta þingmennsku vegna þess að hann hefði þegið svo háa prófkjörsstyrki frá einkafyrirtækjum. Guðlaugur Þór situr hins vegar enn á Alþingi þrátt fyrir þessa ályktun – þingmaðurinn virðist eiga sér fleiri líf en kötturinn – sem sýnir að flokkurinn vildi helst hreinsa sig af for hans.

Mikilvægi málsins
Mál Gunnars Andersen þarf nú að skoða í samhengi við þessa persónulegu sögu Guðlaugs Þórs. Sömu menn og Gunnar og Fjármálaeftirlitið rannsökuðu veittu Guðlaugi Þór þessa milljóna styrki og aðra fyrirgreiðslu á árunum fyrir hrunið. Málsvörn hans fyrir dómi hlýtur að snúast að hluta til um hvernig það vildi til að þingmaðurinn fékk 33 milljónir króna í vasann fyrir tryggingamiðlun sem annað fjármálafyrirtæki hafði lítinn áhuga á. Þannig kann málareksturinn gegn Gunnari Andersen að varpa ljósi á enn eitt, og kannski áhugaverðara, mál sem tengist Guðlaugi Þór Þórðarsyni og óeðlilegum aðgangi hans að fjárhirslum einkafyrirtækja á þingmannsferli hans.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 21:22 - FB ummæli ()

Ísland og Írland – Ólíkar leiðir í kreppunni

Ísland vekur mikla athygli erlendis fyrir góðan árangur í að klifra upp úr kreppunni. En það vekur líka athygli að Ísland hefur farið aðra leið en flestar aðrar kreppuþjóðirnar.

Hér var lægri og milli tekjuhópum hlíft við afleiðingum kreppunnar en þyngri byrðar lagðar á hærri tekjuhópa, sem meiri greiðslugetu hafa.

Þetta hefur m.a. leitt til þess að tekjuskiptingin hefur orðið mun jafnari eftir hrun en áður var. Með hækkun skatta á hærri tekjuhópa var einnig haldið aftur af þörf fyrir niðurskurð, sem dró úr þrýstingi til aukins atvinnuleysis.

Mikil hækkun lægstu bóta almannatrygginga og vaxtabóta veitti viðnám gegn samdrætti einkaneyslu, sem einnig hélt fleiri störfum gangandi. Atvinnuleysi varð m.a. þess vegna ekki jafn mikið og hjá öðrum kreppuþjóðum, auk jákvæðra áhrifa af ýmsum átaksverkefnum. Írar lækkuðu hins vegar bætur og lágmarkslaun og hækkuðu skattbyrði lágtekjufólks.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig leiðir Íslands og Írlands eru alveg öndverðar, hvað snertir það hvernig kreppan lagðist á ólíka tekjuhópa. Á Íslandi var þeim tekjulægri hlíft en á Írlandi fengu lágtekjuhópar mestu kjaraskerðinguna um leið og tekjuhærri hópum þar var hlíft.

Myndin sýnir lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna fjölskyldna (í %), eftir tíu tekjuhópum, frá þeim tekjulægstu (vinstra megin á myndinni) til hinna tekjuhæstu (hægra megin á myndinni). Í hverjum tekjuhópi eru 10% fjölskyldna.

Lægsti tekjuhópurinn (þau 10% fjölskyldna sem lægstu tekjurnar höfðu) fékk 9% kjaraskerðingu á Íslandi en um 26% skerðingu á Írlandi. Tekjuhæsti hópurinn á Íslandi missti hins vegar 38% af ráðstöfunartekjum sínum en samsvarandi hópur á Írlandi fékk um 8% hækkun tekna sinna á þessum tíma.

Bæði í Englandi og Bandarikjunum var mynstrið svipað og á Írlandi, þ.e. kreppan lagðist þar með mestum þunga á lægri tekjuhópana.

Íslenska leiðin virðist þannig vera að skila betri árangri en orðið hefur hjá flestum þeim þjóðum sem hvað lengst fóru afvega á áratugnum fyrir kreppu. Ísland náði botni á árinu 2010 og hefur nú hafið kröftugan vöxt kaupmáttar, einkaneyslu og hagvaxtar, um leið og atvinnuleysi dregst saman.

Sumar kreppuþjóðir eru hins vegar enn á leiðinni niður, t.d. Írar, Spánverjar, Grikkir og Portúgalir (sjá nánar um það hér).

Írlandi miðar hægt við að ná sér á strik, því þar er atvinnuleysi enn mikið og hagvaxtarspá fyrir 2012 er miklu lakari en fyrir Ísland. Írlandi er spáð 0,5% hagvexti á þessu ári en Íslandi frá 2,5 til 3%. Írland fór að miklu leyti niðurskurðarleið, sem er skyld þeirri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað hér á landi (sjá líka hér).

Íslenska leiðin er þannig öndverð írsku leiðinni og virðist íslenska leiðin vera að skila mun betri árangri í glímunni við kreppuna – þó hrun Íslands hafi verið stærra en írska hrunið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 5.9.2012 - 22:11 - FB ummæli ()

Chang: 23 atriði um kapítalisma – í HÍ á morgun

 

Athyglisverð bók – Athyglisverður fyrirlestur á morgun í Háskóla Íslands

Ha-Joon Chang heldur erindi í tilefni af útgáfu bókarinnar 23 atriði um kapítalisma sem ekki sagt frá.

Í pallborði verða:
Jóhann Páll Árnason, heimspekingur og heiðursdoktor við HÍ
Stefán Ólafsson, forstöðumaður Þjóðmálastofnunar
Páll Skúlason, prófessor í heimspeki
Fundarstjóri: Björn Þorsteinsson, heimspekingur
Ha-Joon Chang er sérfræðingur í þróunarhagfræði og dósent í stjórnmálahagfræði þróunarlanda við háskólann í Cambridge. Hann hefur ritað nokkrar bækur og fjölda greina um hagfræði, bæði fræðilegar og á léttari nótum, til dæmisKicking Away the Ladder og Bad Samaritans.
Í 23 atriði um kapítalisma sem ekki sagt frá eru viðteknar hugmyndir okkar um hag- og stjórnkerfi heimsins teknar fyrir ein af annarri og sýnt fram á að þær standast ekki skoðun. Í bókinni sýnir Ha-Joon Chang fram á að hægt er að breyta til, fara aðrar og betri leiðir til að bæta samfélagið – og endurskoða margt sem almennt er talið satt og rétt.
Bókin hefur vakið gífurlega athygli hvar sem hún hefur verið gefin út enda þykir hún djörf, auðskilin, áhrifamikil og efnið sett fram á húmorískan hátt.
23 atriði um kapítalisma sem ekki sagt frá kemur út á íslensku þriðjudaginn 4. september.
Umsagnir um bókina:

Flest höfum við ákveðnar hugmyndir um hvernig veröldin er skrúfuð saman – hvernig hag- og stjórnkerfi heimsins virka í raun. En í þessari stórmerku bók eru viðteknar hugmyndir okkar teknar fyrir ein af annarri og sýnt fram á að þær standast ekki skoðun. Sannleikurinn er sá að frjáls markaður er ekki til; þvottavélin breytti lífi fólks meira en netið; íbúar þróunarríkja eru meiri frumkvöðlar en fólk í auðugum ríkjum; það að ríka fólkið verði æ ríkara verður ekki til þess að við hin efnumst meira.

Við þurfum ekki að sætta okkur við heiminn eins og hann er. Suður-Kóreumaðurinn Ha-Joon Chang sýnir okkur hér að hægt er að breyta til, fara aðrar og betri leiðir til að bæta samfélagið – og endurskoða margt sem almennt er talið satt og rétt.

„Þessi prófessor frá Cambridge hefur yndi af þversögnum og ekki síður af að afhjúpa goðsagnir … þetta gerir hann á mannamáli og af þörf fyrir að skoða hvað það er sem stjórnar heiminum.“
Guardian

„Fyndin og löngu tímabær, hrekur margar af helstu goðsögnum um fjármálakerfi heimsins.“
Observer

„Auðskilin, djörf, áhrifamikil … mun koma illa við ykkur ef þið eruð tengd fjármálalífinu.“
Guardian

„Áhrifamikil … sannfærandi … gefur von um geðþekkari hnattvæðingu.“
Financial Times

„Skyldulesning … hárbeitt og bráðskemmtileg.“
New Statesman

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.9.2012 - 08:45 - FB ummæli ()

Jafnréttið og ráðningamálin

Ásta Bjarnadóttir, vinnu- og skipuagssálfræðingur, skrifar afar athyglisverða grein um ráðningamál hjá ríkinu og starfshætti Úrskurðarnefndar jafnréttismála (ÚJ) í Fréttablaðið í gær. Hún segir meðal annars þetta:

“Kærunefnd jafnréttismála er áhrifamikill úrskurðaraðili í deilumálum um opinberar ráðningar hér á landi. Þegar kærunefndin tekur mál til umfjöllunar leggur hún almennt til hliðar fyrra mat sem gert hefur verið og framkvæmir sitt eigið sjálfstæða mat á kæranda og þeim sem var ráðinn. Kærunefndin úrskurðar svo um hæfni þeirra, oft með mjög afgerandi hætti.”

Gallinn við þetta er sá, að ÚJ gerir alla jafna frekar frumstætt mat á hæfni umsækjenda, útskýrir Ásta. Hún er einn helsti sérfræðingur landsins á þessu sviði og hefur farið fyrir mörgum farsælum matsnefndum í ráðningarmálum.

Úrskurðarnefnd jafnréttismála hefur þannig alltaf síðasta orð um hæfni umsækjenda um topp stöður hjá ríkinu á grundvelli jafnréttislaga – jafnvel þó mat hennar sé ófullkomið og verra en það mat sem ráðherrar láta gera.

Í reynd þýðir þetta að Úrskurðarnefnd jafnréttismála, skipuð þremur lögfræðingum sem hæstiréttur tilnefnir, er eins konar yfirmatsnefnd varðandi hæfni fólks til að gegna öllum æðstu störfum hjá ríkinu. Þetta er æðsta ráðningarnefnd ríkisins – það er að segja ef menn kæra til hennar.

Sjá ekki allir að þetta er fráleitt fyrirkomulag?

Þetta er nefndin sem sakfelldi Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það að hafa ekki ráðið flokkssystur sína í stjórnunarstöðu í forsætisráðuneytinu, þó viðkomandi hafi lent í 5. sæti í mati óháðrar matsnefndar. ÚJ einfaldlega snéri við mati hinna óháðu matsaðila (færði umsækjandann í 5. sæti upp í það fyrsta) og setti þar með ráðherrann á sakamannabekk. Samt er Jóhanna þekkt fyrir einlægan stuðning við jafnrétti kynjanna til lengri tíma. Hún var sett í vonlausa og ósanngjarna stöðu, með vafasömum vinnubrögðum ÚJ.

Nú síðast tók ÚJ snúning á Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. ÚJ gerði sitt eigið einfalda mat, sem Ásta Bjarnadóttir bendir á að er ófullnægjandi frá sjónarmiði jafnréttislaganna. Það er raunar einnig ófullnægjandi ef mið er tekið af auglýsingunni um viðkomandi starf. Þörf var m.a. á mati huglægra þátta skv. auglýsingunni. Mér skilst að ráðuneytið og ráðherrann hafi framkvæmt slíkt mat, en í endanlegu mati ÚJ er bara stuðst við lýsingar í starfsferilsskrá og menntun.

Þar með tókst að setja annan einlægan jafnréttissinna á sakamannabekk, með kúnstum lögfræðinganna í ÚJ! Það er þó ekki eins og Ögmundur sé sakaður um að hafa verið að hygla flokksbróður, ættingja eða vini og klíkubróður, né að hann hafi haft hag af þessari niðurstöðu. Hann svaraði þó klaufalega fyrir þetta í fyrstu og fékk hörð viðbrögð.

Úrskurðarnefnd jafnréttismála hefur þannig sett þessa tvo nafntoguðu jafnréttissinna og femínista að ósekju á sakamannabekk jafnréttismálanna. Þetta er auðvitað mikil skemmtun fyrir Skrattann! Ójafnaðarsinnar stjórnarandstöðunnar kætast og sjá í þessu réttlætingu á eigin klíkuráðningum.

Það var ekki að ástæðulausu að ég kallaði þessa úrskurðarnefnd í fyrri pistil “súrrealíska úrskurðarnefnd”.

Nú er mál að linni og lögum og starfsháttum á þessu sviði verði breytt. Skylda þarf að faglegar og óháðar matsnefndir meti umsækjendur um allar stjórnunarstöður hjá hinu opinbera. Ef kært er til ÚJ og hún hefur rökstuddan grun um að matið sé ósanngjarnt þá á hún að fara fram á að nýtt mat verði gert af öðrum óháðum fagaðilum, en ekki gera sjálf sitt handarbaksmat með alræðisvaldi.

Að öðrum kosti munum við sjá viðvarandi furðuúrskurði sem í reynd þjóna hvorki markmiðum jafnréttis né fagmennsku hjá ríkinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar