Föstudagur 27.05.2016 - 01:05 - Lokað fyrir ummæli

Unga fólkið og Davíð

Það kann að vera mikil skömm í því fólgin að verða hegnt fyrir það sem maður gerði ekki. Sumir hafa ekki bein í að standa af sér slúðrið, niðurlæginguna og hræsnina sem fólk beitir. Hins vegar eru til þeir sem eru með hreina samvisku og vita hvað er rétt og satt.

Frjálslega farið með staðreyndir

Fjöldinn af fólki tekur sig saman vitandi vits um að búa ekki yfir öllum upplýsingunum og frjálslega er farið með staðreyndir máls t.a.m. í niðurgreiddum fjölmiðlum með fjármunum úr hruninu mikla. Það að ,,allir“ séu að segja eitthvað illt um einstakling þarf ekki að þýða það sama og það sé ,,rétt og satt“.

Sum blöð eruð niðurgreidd slúðurblöð og sumir einstaklingar eru slefberar, þ.e. segja ósatt og bera út slúður um fólk sem engin rök standa að baki, engar staðreyndir heldur villandi áróður. Sumir reyndar telja sig algjörlega sannfærða í lyginni og telja sig fullkomlega vita um staðreyndir máls sem byggðar eru á sandi.

Hrekkjusvínin og George Orwell

Það er áhyggjuefni hvers samfélags þegar hrekkjusvínin telja sig hafa fullan rétt á því að vera hrekkjusvín og að auki skelfilegt ef þau sjálf eru farin að vera hrekkjusvín án þess að vita að þau eru orðin það.

Hrekkjusvínin má rækta og eru til nokkur svínabú hér á landi þar sem þau bíða öll eftir því að vera brúkuð af þeim sem fjármagna fæðukeðjuna. George Orwell gat greint þarna á millli en getum við það ekki bara sjálf hér heima, þ.e. Íslendingar?

Hvað segir sumt ungt fólk um Davíð Oddson?

Er það þess vegna sem margir ungir kjósendur segja í dag eftirfarandi?

Davíð var valdur að hruninu !

Er þetta virkilega satt?

Fortíð og fyrri skrif

Pistlahöfundur kaus ekki Davíð Oddsson til formannsembættis Sjálfstæðisflokksins árið 1991. Pistlahöfundur hefur oft gagnrýndi Davíð Oddsson í greinarskrifum sem og aðra. Pistlahöfundur gagnrýndi Seðlabanka Íslands harðlega í júní árið 2004 og svo aftur árið 2007. Árið 2004 skrifaði pistlahöfundur grein í Morgunblaðið gegn fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnar Íslands sem Davíð stýrði á þeim tíma. Að auki hefur pistlahöfundur ritað greinar til að vara við hruninu.

Hann hefur skrifað skýrslu vegna nauðungarsölulaga og rannsakað slík mál og ritað um gengistryggð lán um árabil. Hefur pistlahöfundur bent á að vaxtalög nr. 38/2001, sem sett voru í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, komu í veg fyrir gríðarlega eignaupptöku banka og kröfuhafa vegna gengistryggðra lána.

Nú spyr pistlahöfundur unga fólkið, fólk hans eigin kynslóðar og fædda í kringum 1968. Einnig spyr pistlahöfundur alla sem telja hann ,,tindáta Davíðs“.

Hefur pistlahöfundur, með þessu framferði sínu alla þessa tíð, afsalað rétti sínum til að hafa skoðun á Davíð Oddssyni?

Svarið er nei!

Frelsið !

Alla þessa tíð hefur pistlahöfundur getað í frjálsu samfélagi gagnrýnt Davíð Oddsson. Pistlahöfundur hefur velt við steinum í sínu fagi og rannsakað tildrög hrunsins. Davíð veitti fólki og fyrirtækjum frelsi en því fylgir ábyrgð sem sumir stóðu ekki undir. Frelsið er yndislegt en því fylgir mikil ábyrgð.

Pistlahöfundur hefur varað t.a.m. banka við ,,litla hruninu“ árið 2003 þegar fjöldagjaldþrot urðu hjá verktökum t.a.m. í Grafarholti sem var þá að byggjast upp. Ritaði hann skýrslu fyrir Búnaðarbanka Íslands á sínum tíma í tengslum við þetta.

Á sama tíma og löngu síðar voru fjölmargir einstaklingar (nb. ekki allir) innan vébanda Háskóla Íslands meðvirkir og á fullum launum þar að dásama dýrðina fyrir hrun og hafa eftir það reynt að nota fræðin til að ljúga sig út úr eigin klúðri. Margir ansi klókir í því efni. Einhverjir enduðu jafnvel í stjórn Fjármálaeftirlitsins eftir hrun.

Er pistlahöfundur samkvæmur sjálfum sér?

Pistlahöfundur telur sig fullfæran til að meta söguna og hvar við stöndum í dag gagnvart hruninu og því fólki sem olli því. Pistlahöfundur getur mætt hverjum sem er og fært rök fyrir máli sínu leggi einhver á annað borð í að mæta honum opinberlega. Það hefur Davíð Oddson gert og má hvetja ungt fólk að hlusta betur á hann, miklu betur.

Í ljósi þess skal eftirfarandi fullyrt með góðri samvisku:

Davíð Oddsson olli ekki hruninu. Davíð varaði við hruninu og bætti um betur með því að skrifa ítarlega um ICESAVE svo við, unga fólkið og aðrir, skuldsettum okkur ekki né börn okkar og barnabörn langt inn í framtíðina.

Þið, sem ekki trúið þessu, getið dæmt pistlahöfund og hreytt í á hann úti á götu. Þið getið skrækt á hann á fésbókinni, kallað hann nöfnum og talið hann fávita. Skilaboð til ykkar, sem hugsið pistlahöfundi þegjandi þörfina, eru þau að hann hefur sterk bein í þetta og hefur ekkert að óttast því samviska hans er hrein.

Þegar pistlahöfundur kallar á píparann, smiðinn og múrarann þá treystir hann þeim vegna þekkingu þeirra. Sama með bóndann, skipstjórann, læknin, hjúkrunarfræðinginn, flugstjórann ofl.

Davíð er hafður fyrir rangri sök

Því fullyrðir pistlahöfundur hér að Davíð Oddsson er hafður fyrir rangri sök af mörgum, hann er saklaus og hefur alls ekki gert annað en að gæta okkar, gæta hagsmuna þjóðar sinnar og samið svo um að varnarveggir Íslands eru hærri í dag en áður fyrr.

Davíð er ekki óskeikull maður frekar en aðrir menn en hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að verja land og þjóð.

Því skorar pistlahöfundur á unga fólkið sem og alla sem þetta lesa að kjósa Davíð Oddsson sem forseta Íslands. Með því eigið þið kost á því að að skrifa söguna rétt, gera hana sanna og sýna þeim, sem ögruðu hagsmunum Íslands og stefndu hagsmunum þjóðarinnar í voða, í tvo heimana.

Davíð á erindi við unga fólkið

Davíð á einmitt erindi við unga fólkið á Íslandi sem og til allra Íslendinga enda hefur hann staðið vörð um yngri kynslóðirnar umfram aðrar, þ.e. börn okkar og barnabörn. Ég er ánægður að hafa komist að því, ég er stolltur að fullyrða það og ég er viss um að fleiri eigi eftir að átta sig á því.

Davíð Oddsson er sá einstaklingur sem getur staðið vörð og aldrei bognað !

En það situr enn í mörgum þetta hér:

Davíð er valdur af hruninu því það segja svo margir !

Þú getur metið þetta upp á eigin spýtur kannir þú málið vel. Þetta er ósatt þó að margir vaði þessa villu rétt eins og fyrir hrun þegar margir sögðu ekkert á meðan Davíð varaði við hruni !

Ekki láta hrekkjusvínin ráða för.

Orwell varaði við því.

 

Flokkar: Sagnfræði · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur