Sunnudagur 29.05.2016 - 12:21 - Lokað fyrir ummæli

Mótmælandinn Davíð Oddsson

Davíð Oddson var þekktur gleðigjafi á sínum yngri árum og er enn. Útvarp Matthildur var háðsádeila á svo margt í okkar samfélagi. Þá var ekki Spaugstofan eða Tvíhöfði til að gleðja okkur og gagnrýna með gleðina að vopni. Davíð var því n.k. ,,rebel“ þess tíma en kom sínum mótmælum á framfæri í gegnum gleðina, grínið og fór vel með.

Svo varð Davíð borgarstjóri.

Hér er ætlunin að draga upp myndina með punktum frá þeim tíma til dagsins í dag. Þetta eru allt staðreyndir og geta menn ekki fært rök gegn þessum staðreyndum enda öllum ljóst. Látum verkin tala.

(1) Davíð varð borgarstjóri 1982, þá 34 ára.

(2) Davíð fékk allt að 60% atkvæða borgarbúa á tímabili.

(3) Davíð gerði Reykjavík skuldlausa en nú hafa aðrir gert hana svo skuldmikla að ekki er hægt að reka skóla með góðu móti og borgin er óhrein en var fögur og hrein í tíð Davíðs.

(4) Davíð var forsætisráðherra 1991, þá 43 ára. Eftir það ríkti stöðugleiki.

(5) Davíð hefur lengstur allra setið samfellt sem forsætisráðherra 1991-2004.

(6) Þegar Davíð hætti sem forsætisráðherra var ríkissjóður nánst alveg skuldlaus en það kom að sér vel þegar taka átti yfir bankana í hruninu.

(7) Skattar lækkuðu í tíð ríkistjórnar Davíðs Oddssonar. Atvinna jókst sem og kaupmáttur fólks.

(8) Árið 2001 var krónan sett á flot og var vaxtalög nr. 38/2001 sett sem og lög um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 sem kröfðust þess að ef verðlag færi ofar 2,5% marksins bæri bankanum skylda að hækka stýrivexti. Vaxtalögin bönnuðu lán í krónum sem væru bundin gengi erlendra mynta, þ.e. gengistryggð lán voru bönnuð og það gert eftir ábendingu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (sjá hér skýrslu AGS frá júní 2001 – figure 1 um áhættu vegna óvarinna lána [e. unhedged FX loans] í myntkörfum bls. 23 í skýrslunni).

(9) Árið 2002-2003 voru bankarnir seldir til að eiga fyrir sjúkrahúsi landsmanna.

(10) Árið 2003 gerðist Davíð fyrsti mótmælandinn þegar hann gekk út úr Búnaðarbankanum-Kaupþingi eftir að Siggi og Hreiðar hækkuðu laun sín í c.a. 350 milljónir á ári og gerðu kaupréttasamninga við sig upp á milljarða. Þá sýndi Davíð fyrst í verki áhyggjur sínar og tók út sitt sparifé upp á kr. 400 þús. Hann mótmælti !

(11) Árið 2004 fóru hinir nýseldu bankar að bjóða 100% lán og síðar lán sem voru langt yfir 100% af brunabótamati eigna. Allt gert til að stækka efnahagsreikninginn á kostnað verðbólgu.

(12) 2004 Seðlabanki Íslands tók að hækka vexti.

(13) Davíð fer í Seðlabanka Íslands 2005 og hækkar vexti enn frekar til að fara að lögum um bankann nr. 36/2001 og hemja verðbólgu. Íbúðarlánasjóður fullur af peningum eftir uppgreiðslu lána þar er bankar höfðu lánað 100% lán og rúmlega það.

(14) Eftir að Davíð hækkaði vextina innan Seðlabanka Íslands eins og honum bar skylda til hættu bankarnir að geta keppt um vexti við Íbúðarlánasjóð. Fólk fór að taka lán hjá Íbúðarlánasjóði sem var með ríkisábyrgð að baki sér. Bankarnir vildu stækka efnahagsreikning sinn til að Siggi og Hreiðar gætu fengið milljarðana sína og allir hinir í þessu partýi.

(15) Í skjön við vaxtalög nr. 38/2001, þar sem Davíð hafði látið banna gengistryggð lán, tóku bankar að brjóta lögin og lána þessi lán. Þeir náðu í innlán frá Bretlandi í gegnum Edge og Icesave. Árni Páll hafði gefið álit einnig þess efnis að Íbúðarlánasjóður mætti lána SPRON sem svo mátti lána krónur út sem gengisttryggð lán. Vextir hækkuðu enn frekar enda var þetta leki sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði bent á að gæti skapað gríðarlega hættu.

(16) Endurskoðendur sendu Davíð ársreikninga sína upp í Seðlabanka Íslandsd sem voru falskir og reiknuðu gengistryggðu lánin rangt. Það kom vel í ljós í hruninu þegar Már vildi innheimta þetta ásamt Dr. Gylva Magg sem sagði Ísland á leiðinni að verða Norður Kórea.

(17) Nú er komið árið 2007 og Davíð heldur ræðu í nóvember það ár hjá Viðskiptaráði og segir að hætta sé nú á því að það fari að leka úr blöðrunni og stórhætta á ferðum. Þá var hann seðlabankastjóri og benti á þetta. Menn sem dreifðu ræðunni innan bankakerfinsins var hótað því að verða reknir.

(18) Árið 2008 var ICESAVE málið að vaxa ásamt EDGE hjá Kaupþingi enda þurrkuðust út erlent lánaframboð eftir að Lehmans Brothers fóru á hausinn. Davíð undirbýr neyðarlögin.

(19) Hrunið á sér stað. Davíð tilbúinn með frumvarpsdrög að neyðarlögunum um mitt sumar 2008. Nú erum við stödd í október. Davíð lánar Kaupþingi með, að því sem talið var, öruggu veði í danska FIH bankanum. Stuðst var við gögn frá seðlabanka Danmerkur ofl.

(20) Neyðarlögin sett, lög nr. 125/2008 og tóku gildi 6. október 2008.

(21) Bónusfáninn dreginn að húni á Alþingishúsinu 8. nóvember 2008. Mótmælendur á Austurvelli mæta sem gleymdu að Davíð hafði mótmælt 6 árum áður.

(22) Kosningar og fyrsta hreina vinstri stjórnin tekur við og fer í að innheimta ólögmæt lán fyrir bankana, gefur bankana til kröfuhafa og einkavæða án lagaheimildar. Skjaldborg heimilanna varð að ógn við fólkið í landinu.

(23) Umræðan um ICESAVE hefst og einn forsetaframbjóðandinn vill borga skv. Svavarssamningnum þeim grimma.

(24) Kosið um ICESAVE og Davíð þá komin úr Seðlabanka Íslands og mótmælir. Þjóðin hafnar með yfir 98% atkvæða. Guðni Th. vildi þá semja eins og Svavar Gests og vísaði í einhverja samninga í þorskastríðunum. Hæstiréttur dæmir gengistryggð lán 2010 og svo aftur 2011 varðandi afturvirka útreikninga á lánum (kvittanamálið). Fullnaðarniðurstaða þess efnis að bankar brutu vaxtalög nr. 38/2001 og þöndu út hagkerfið, stuðluðu að vaxtahækkunum og hruni þegar Seðlabanki Íslands gerði allt til þessa að ná tökum á verðlagi í landinu. Atlaga að peningastjórninni 2005-2008 var hér með upplýst með dómi.

(25) Aftur reynt að troða ICESAVE upp á komandi kynslóðir á Íslandi enda það hugsað sem aðlögun að ESB árið 2011. Aftur hafnar þjóðin og þá með um 60% atkvæða.

(26) Þjóðin hafnar ESB ítrekað.

(27) Davíð leggur áherslu á hörku við samninga við kröfuhafa. Verðum að verjast enda hagsmunir komandi kynslóða í húfi.

(28) Ný ríkisstjórn 2013 fer í það verk og árið 2014 og 2015 sett lög sem þvingja kröfuhafa til að létta þrýstingi á Íslandi. Þeir þurfa að borga útgögnuskatt ella semja.

(29) Sökum þessa verða verðmæti um allt að 500 milljarða til að grynnka á skuldum Íslendinga. Þjóðin farin að sjá að hún getur byggt upp nýtt sjúkrahús, bætt kjör í landinu og aukið velferð.

(30) Dómar falla um sekt eða sýknu í hrunmálum 2014 til 2015 eftir að Hæstiréttur dæmdi gengistryggu lánin, sem skekktu peningastefnuna 2005-2008, ólögmæt með öllu.

(31) Davíð býður sig fram á móti Guðna ofl. Davíð vildi ekki ICESAVE á meðan sumir frambjóðendur til forseta vildu semja eins og Svavar Gests. Davíð vildi ekki ESB á meðan sumir frambjóðendur til forseta vildu ESB.

Davíð mótmælti fyrstur allra árið 2003 og lengst allra. Hvar vorum við hin þá?

Þeir sem ætla sér að kjósa einhvern annan er bent á framangreint með fullri vinsemd og virðingu fyrir því sem koma skal. En vel skal vanda það sem lengi skal standa.

Kjósum Davíð Oddsson sem forseta Íslands.

Flokkar: Hagmál · Sagnfræði · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur