Laugardagur 11.06.2016 - 19:34 - Lokað fyrir ummæli

Ætlar þú að kjósa Davíð?

Já, pistlahöfundur ætlar að kjósa Davíð Oddsson sem forseta Íslands.

Hver er Dr. Theo-Ben Gurirab?

Dr Theo-Ben Gurirab fv. forsætisráðherra Namibíu

Dr Theo-Ben Gurirab fv. forsætisráðherra Namibíu

Dr. Theo-Ben Gurirab er fyrrum forsætisráðherra Namibíu. Hann er annar forsætisráðherra Namibíu frá sjálfstæði ríkisins (2002-2005). Þar áður var hann utanríkisráðherra eða frá sjálfstæði Namibíu (1990-2002). Dr. Gurirab var forseti Allsherjarþings Sameinu þjóðanna (1999-2000) og síðar forseti þings Namibíu (2005-2015).

Dr. Gurirab er þjóðhetja í Nambíu, einn af virtustu mönnum þess ríkis og einn af mörgum sem náðu að sigra nýlenduþjóðir þær sem við sigruðum einnig í baráttu okkar t.a.m. gegn ICESAVE ánauðinni. Gleymum því ekki kæru landar.

Davíð studdi og styður enn Afríkuríki og alþjóðasamvinnu

Árið 2003 ákvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að framlengja þróunarsamning milli Namibíu og Íslands eftir að hinn virti fræðimaður, Dr. Jónas H. Haralz heitinn, hafði unnið skýrslu um þróunarmál fyrir forsætisráðuneytið. Í nóvember 2003 kom forsætirsáðherra í Namibíu, Dr. Theo-Ben Gurirab, í opinbera heimsókn til Íslands og lagði ríka áherslu á mikilvægi þessa samstarfs á milli Íslands og Namibíu. Hið sama gerði Davíð Oddsson og tók á móti Dr. Gurirab með miklum myndarskap fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Dr Theo-Ben Gurirab og Davíð Oddsson, nóvember 2003 (Mynd: Morgunblaðið)

Dr Theo-Ben Gurirab og Davíð Oddsson, nóvember 2003 (Mynd: Morgunblaðið)

Á þessum tíma voru Danir, Svíar, Norðmenn og önnur ríki Evrópu að hætta þróunarsamvinnu í Namibíu. Dr. Jónas H. Haralz benti á að mikilvægt væri að halda þessu samstarfi áfram enda víða enn fátækt í Namibíu og mikilvægt að styrkja þar innviði á morgum sviðum. Misskipting var mikil og hana þurfti nauðsynlega að jafna. Þróunarsamvinna er langhlaup.

Með þróunarsamvinnu má tryggja að fólk, sem vill dveljast í heimalandi sínu, festi þar sterkar rætur og þurfi ekki að rífa sig upp og flýja heimili sín vegna vosbúðar. Framhjá þessu litu framangreind ríki því miður en það var Davíð Oddsson sem tók af skarið og studdi þetta vinaríki Íslendinga sunnarlega í Afríku á meðan sósíaldemókratar í öðrum Norðurlöndum yfirgáfu Nambíu. Þessu ber að halda til haga.

Síðasta vinstri stjórn Íslands framlengdi ekki alþjóðasamvinnu við Namibíu

Frá sjálfstæði Namibíu 21. mars 1990 hafði Ísland staðið við bakið Namibíumönnum en það var fyrsta vinstri stjórnin á Íslandi, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hætti þessu samstarfi og framlengdi það ekki árið 2012. Til að bíta höfuðið af skömminni beitti þessi ríkisstjórn ekki neitunarvaldi innan NATO þegar ráðist var inn í Líbíu. Þessar aðgerðir hafa aukið á flótta fólks frá Afríku í stað þess að kalla eftir stöðugleika og þróunarsamvinnu til að tryggja að fólk gæti búið þar í sátt við land sitt og þjóð.

Það er miður. Líkur eru á að fjárframlagið, sem fór áður til Namibíu, og kraftar starfsmanna Utanríkisráðuneytisins hafi fremur farið í aðlögunarferlið að Evrópusambandinu (ESB) og kostnað við að semja um ICESAVE. Fjármunir fóru því í hönnun þess myllusteins sem átti að hengja um háls Íslendinga svo vel færi um ESB hér innanlands um aldur og ævi.

En hvað veldur því að flóttamannastraumur til Evrópu er svo mikil? Jú, það er vegna þess að vinstri stjórnir innan Evrópu hafa hætt stuðningi við ríki í Afríku til að byggja þar upp, bæta aðbúnað og skóla, tryggja alþjóðasamvinnu og kaupa vörur af ríkjum þar syðra. Við þekkjum árangur af slíkri öfgastefnu, slíku yfirlæti sem þar á bæ ríkir og því að frjáls viðskipti geta leitt til þess að efla ríki sunnan Sahara. Þetta má bæta og má Ísland gera betur í þeim efnum án fordóma gagnvart fólki og vörum sem þar eru framleiddar.

Orðanotkun Davíðs varðandi fólk af blönduðum kynþáttum

Nýlega hefur mikið verið rætt um orðanotkun Davíðs Oddssonar og tel ég að umræðan um þessa orðanotkun hafi verið notuð til að merkja hann sem kynþáttahatara sem og hans stuðningsmenn. Það er ekki rétt og ekki fallega gert. Davíð Oddsson er einstaklega heill maður þegar kemur að manngæsku og náungakærleik. Hann hefur í verki stuðlað að mikilli þróunarsamvinnu og með vinaþeli komið vel fram gagnvart ríkjum Afríku sem og öðrum ríkjum víða um heim. Davíð er minnugur mannvinur.

Hann mátti nota annað orðalag þegar hann lýsti forseta Bandaríkjanna í Morgunblaðinu á sínum tíma. Það eru fleiri orð eða orðasambönd í boði eins og ,,maður af blönduðum uppruna“. Íslenskan er hins vegar afar fátæk af orðum hvað þetta varðar og má geta þess að orðin ,,hommi“ og ,,lesbía“ voru á sínum tíma talin niðrandi þar til fólk með þessa kynhneigð tóku þau og gerðu að sínum. Það var klókt og sýnir styrk.

Af þessu tilefni setti ég þessi skilaboð á fésbókaríðu mína eftir þátt á RÚV þar sem Davíð var spurður út í þessa orðanotkun varðandi fólk af blönduðum kynþáttum:

Sem ræðismaður Afríkuríkis og faðir barna af blönduðum uppruna og kynþáttum tel ég afar óheppilegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að einn frambjóðandi til embættis forseta Íslands hafi ekki nýtt kjörið tækifæri á RÚV í gærkvöldi til að biðjast velvirðingar á að nota óviðurkvæmilegt orðalag um fólk af blönduðum uppruna og kynþætti. Einnig er þetta viðhorf mitt byggt á almennri sýn gagnvart fólki og manngæsku gagnvart öllum óháð uppruna þeirra.

Við þessi orð stendur pistlahöfundur enda vill hann sjá annað orðalag eða aðra orðanotkun sé þess nokkur kostur.

Hvað tíðkast þar syðra?

Í Namibíu, þ.e. á meðal svartra þar, er almennt viðkvæðið að nota orðið ,,mulatto“ um fólk sem blandað er hvítum og svörtum. Sem dæmi um þetta er hástétt Angólamanna, sem eru nágrannar Namibíumanna í norðri, blandaðir af Portúgölum og svörtum einstaklingum frá því landsvæði. Þeir eru kallaðir ,,mulatto“ og þar þykir fínt að vera af blönduðum uppruna. Annað gildir um þetta í Namibíu. Hverju sætir?

Megin ástæðan er sú hvernig nýlenduveldin fornu höguðu sér gagnvart hinum svörtu sem bjuggu í þessum löndum þegar þeir hernámu þau. Þjóðverjar voru nýlenduherrar Namibíu fram að fyrra stríði þegar Bretar og Suður Afríkumenn tóku þar völdin og kallaðist þá Suðvestur Afríka. Portúgalir voru nýlenduherrar í Angóla. Portúgalir voru mun vingjarnlegir, ef svo má að orði komast, og ,,liberal“ þegar kom að blóðblöndun í Afríku heldur en Þjóðverjar, Búar og Bretar. Segja má að þar hafi allir sofið hjá öllum og fjölgað sér á alla kannta á meðan þýski minnihlutinn hélt sér aðskildum í samræmi við aðskilnaðarstefnu sem almennt ríkti syðst í Afríku.

Þessi málþroski og málhegðun er því mismunandi en almennt hefur orðið ,,mulatto“ þótt niðrandi en þar sem nýyrðasmíð á Íslandi varðandi þetta hefur ekki verið betri en raun ber vitni má ætla að þessi umræða öll hvetji íslenskufræðinga til dáða.

Það má svo segja um marga stuðningsmenn einstakra forsetaframbjóðenda, sem pistlahöfundur þekkir vel, hafa ekki alltaf talað vel um fólk frá Afríku í mín eyru. Þykir mér það mjög miður og skiptir litlu hvort viðkomandi hafi verið af blönduðum uppruna eða ekki. Tekur hver það til sín sem telur sig eiga í því efni.

Heimurinn er ekki alveg svart-hvítur eins og margir vilja vera að láta

Þrátt fyrir orðanotkun hjá Davíð er hann langsamlega frambærilegasti frambjóðandinn til forseta Íslands. Það að hann hafi notað orð af þessum toga, sem mætti umorða, stendur eftir mun mikilvægari sigrar Davíðs á öflum sem hafa viljað skuldsetja börn og barnabörn Íslands langt fram í tímann.

Það er sekt í slíku fólgin en ekki í því að nota kjarnyrta íslenska tungu þó menn verði að gæta varúðar og haga orðum sínum með nærgætni gagnvart fólki almennt. Það á sérstaklega við um andstæðinga og stuðningsmenn meðframbjóðenda Davíðs til forseta Íslands. Þar hafa margir verið óvægnir í orðalagi, ónærgætnir og ósvífnir. Pistlahöfundur hefur fundið fyrir slíku einnig aðeins vegna þess að hann styður Davíð Oddsson í komandi kosningum. Vonandi verður þessi pistill til þess að fólk átti sig á þessari orðræðu og styrk þeim sem Davíð býr yfir ásamt yfirgripsmikilli reynslu.

Davíð lætur verkin tala og það skiptir öllu fyrir mig, mitt fólk og fjölskyldu.

Því kýs ég Davíð.

 

Flokkar: Hagmál · Heimspeki · Sagnfræði · Trúmál · Vinir og fjölskylda · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur