Fimmtudagur 6.2.2014 - 10:39 - Lokað fyrir ummæli

Best að skutla í Mosfellsbæ

 

Virðing Jákvæðni Framsækni Umhyggja

Virðing Jákvæðni Framsækni Umhyggja

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar, með bæjarstjórann blessaðann í broddi fylkingar, hefur ítrekað fyrir okkur sem búum þar að best sé að búa í Mosfellsbæ. Hefur verið vísað í eitt svar af fjölmörgum í könnun sem var gerð varðandi búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórinn var svo bergnuminn af þessari könnun rétt eins og ég að hann sá sig tilneyddan til að rita grein í fréttablaðið hér í bæ, Mosfelling. Þar fjallaði hann um hve hátt Mosfellsbær skoraði og var ég afar sáttur við þessa grein bæjarstjórans enda nokkuð vel skrifuð.

Allir þekkja uppgjörið við Landsbankann á sínum tíma vegna víxilmálsins ólögmæta þegar bærinn (þ.e. við skattgreiðendur) var látinn gangast í ábyrgð fyrir einkaaðila. Nú má greina að komið sé að skuldadögum í því uppgjöri enda ekki seinna vænna nú fyrir kosningar.

Er nú komið í ljós enn og aftur að það eru ekki lýðræðiskjörnir bæjarfulltrúar sem stjórna þessum skuldmikla bæ heldur banki og byggingaraðili? Það gæti svo sem verið tóm vitleysa en það er saklaust að spyrja og grenslast fyrir um hvað ,,hidden agenda“ sé nú í gangi varðandi skipulags- og skólamál í Mosfellsbæ.

Þetta þekkja reyndar allir sem vilja vita og bera skynbragð á innansveitarkronikuna hér í Mosfellsbæ.  Nú ætla þeir sem bænum ráða að láta til sín taka. Ætlunin er að láta skólamál ganga fyrir. En hvaða skóla?

Jú, ætlunin er að byggja nú nýjan skóla í Helgafellslandinu í Mosfellsbæ þar sem mjög fáir búa. Auðvitað þykir manni vænt um það góða fólk er þar býr og nauðsynlegt er að byggja þar einhverntíma skóla en er það brýnt nú? Jú, það er brýnt fyrir Landsbankann, Hömlur sem er í eigu Landsbankans, byggingaraðilann og svo bæinn sem tók helling af eignum uppí eftir klúður núverandi bæjarstjóra og félaga hans á síðustu árum. Þetta er bráðsniðug hugmynd þessara aðila til að tryggja sölu lóða á svæðinu og koma yfirverðlögðum eignum í raunverulegt virði fyrir bæinn, byggingaraðila og banka. Vel hugsanlegt er að bærinn geti selt eitthvað af uppítökueignum sínum sem liggja þarna verðlausar en það er aldrei að vita hvað fasteignasalinn á efstu hæðinni nær að áorka.

En hvað með fólkið í Mosfellsbæ, foreldrana, börnin og … lýðræðið?

Reikna má með að taka eigi vinsældakannanir skör hærra hér í Mosfellsbæ og leggja til að fyrir næstu skoðanakönnun sé tryggt að spurt sé hvort fólki finnist ekki best að skutla í Mosfellsbæ.

Það vita allir foreldrar Mosfellbæjar að Varmárskóli er sprunginn og að Lágafellsskóli er einnig sprunginn en þar um kring má finna færanlegar kennslustofur sem um væri að ræða flóttamannabúðir er fyllt hafa upp í lóð skólans. Leikskólarnir eru að springa og allt skipulag úr skorðum þar sem fólki óar við að eignast sitt annað barn sökum skutls. Þeir foreldrar sem álpast hafa að kljúfa kínverska múrinn í barneignum hér í bæ eru svo að springa af skutli þar sem barn fer í sinn skólann hvert og eitt, hér og hvar um Mosfellsbæ.

Nú er því kallað eftir því í dag að foreldrar í Mosfellsbæ skutli börnum sínum út og suður í skóla.

Nú er ætlun bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ að bæta við áfangastað í tómu hverfi á næstu misserum, þ.e. í Helgafellslandinu. Undarlegt þykir að hin staurblinda stjórnarandstaða í bæjarstjórn hafi ekki náð nýta sér þetta mál pólitíkst í bænum. Nú spyrja fjölmargir foreldrar hér í bæ hvort virkilega sé ekki hægt að staðsetja næsta skólahús meira miðsvæðis í bænum og taka slíkan skóla framfyrir þar til byggð hefur þróast frekar í Helgafellslandinu og tryggja þannig að létta megi á þeim skólum sem fyrir eru og auka með því öryggi og vellíðan barna? Ég tel þessa spurningu afskaplega áhugaverða og verðuga í þessa viðamiklu skutlumræðu.

Líkur eru því á að í öllu þessu skutli verði tíma foreldra ,,vel varið“ sé vísað í þær tillögur sem uppi eru af hálfu skólanefndar bæjarins. Það vita allir foreldrar í Mosfellsbæ að þessu fylgir ómæld mengun, óþægindi og óhagræði. Þar sem Mosfellsbær er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ má ætla að ærið verkefni er fyrir þá er standa að því verkefni að leiðbeina foreldrum hvar finna megi styðstu leið í skutli uppí Helgafellsland á næstu árum og misserum.

Mörgum þykir vænt um Mosfellsbæ og vilja vel. Öllum þykir þó vænst um börnin sín. Manni þykir einnig vænt um börn annarra og ættu flestir að leggja skilning í að foreldrar vilja ekki gera skutl að menningarlegum viðburðum í lífi sínu hér í bæ. Hins vegar virðist sem meirihlutinn hér í Mosfellsbæ leggi áherslu á að á næsta kjörtímabili verði ,,Best að skutla í Mosfellsbæ“.

Höfundur: Foreldri, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisfélags Mosfellinga og fyrrum stjórnarmaður í foreldrafélagi Varmárskóla sem og formaður gæðahóps í skólamálum.

Ps.

Ég mun kjósa Bryndísi Haraldsdóttur í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ á laugardaginn kemur og skora eindregið á allt gott sjálfstæðisfólk, áhugasama bæjarbúa og foreldra að gera hið sama. Þó svo hún sækist ekki eftir því sæti er þetta mitt besta val ásamt fjölmörgu nýju fólki sem nú býður sig fram. Það er bráðnauðsynlegt að endurnýja á lista X-D á laugardaginn fyrir foreldra í þessum bæ og skattgreiðendur almennt.

Áfram X-D og konu til forystu í Mosfellsbæ !

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.9.2013 - 14:24 - Lokað fyrir ummæli

Krónan og kröfuhafarnir

Í pistli mínum í mars á þessu ári fjallaði ég um endalausar árásir á gjaldmiðil Íslands og stöðu kröfuhafa og Íslendinga undir snjósaflinum sem sumir kölluðu snjóhengjuna til að hræða líftóruna úr fólki svo þjóna mætti þeirra lélega og mannskemmandi málstað. Jafnframt var þjóðinni ætlað að skipta þessum miðli út og tilsvarandi löggjöf sem nú kemur í ljós að hafi verið okkar brjóstvörn og er það enn.

Mikilvægur dómur

Fyrir þá sem hafa talað niður íslensku krónuna og hallast að öðrum miðlum virðast ekki átta sig á því að á meðan við þó höldum eigin gjaldmiðli og sjálfstæði getum við hlutast til um eigin mál eins og þessi þjóð barðist fyrir að geta gert um langa hríð. Eitt af grundvallarstoðum í sjálfstæðisbaráttunni var að geta dæmt í eigin málum og færa það forna vald til Íslands og frá erlendu valdi.

Hæstiréttur Íslands dæmdi í vikunni sem er að líða í máli nr. 553/2013 á þann veg að nánast allt sem getið var í marspistli mínum rúmaðist þar innan og virðist ganga eftir hvað a.m.k. greiðslu til kröfuhafa varðar og stöðu þeirra gagnvart Íslandi, íslenskum lögum og rétti.

Dómurinn er viðamikill og ítarlegur í alla staði. en rétt er að benda á þá grundvallar staðreynd að samningsstaða Íslands er öllu betri nú en menn vildu halda fram hér á árum áður þegar ICESAVE málið var og hét og allir ætluðu á límingunum varðandi það að við Íslendingar hefðum ekki varnir. Krónan reyndist vörn okkar og munu kröfuhafar þurfa virða okkar löggjöf og rétt.

Dómsorð:

Viðurkennt er að varnaraðila, LBI hf., hafi verið skylt, við umreikning hlutagreiðslna til kröfuhafa í erlendum gjaldmiðlum 2. desember 2011 og 24. maí 2012 í íslenskar krónur, að miða við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á íslenskri krónu gagnvart hlutaðeigandi erlendum gjaldmiðlum á þeim degi þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.

Þessi dómur, sem og ítarefni í skýringum réttarins, segir í raun að setji slitastjórnir bú bankanna gömlu í þrot beri að selja eignir erlendis og andvirði sem fæst við slíka sölu eigna (í hvaða mynt sem er) skal fært yfir í krónur. Þegar svo greitt er út er heimilt að greiða kröfuhöfum allt út í krónum eða í öðrum myntum en í slíkum tilvikum (þegar greitt er út í annarri mynt/myntum en krónu) skal miðað við gengi þess dags sem greiðsla fer fram. Innan hafta eru slíkar krónur (eða aðrir gjaldmiðlar) ekki að fara út úr hagkerfinu án sérstakra heimilda frá Seðlabanka Íslands og skiptir engu hvort um sé að ræða eignir þrotabúanna hér heima eða erlendis, allt verður að seljast, söluandvirðið verður að koma síðan til Íslands og greiðast út í krónum ákveði slitastjórnir slíkt fyrirkomulag.

Hömlur og krónan

Margir telja krónuna hamla viðskiptum sökum smæðar sinnar og styrks. Jafnframt er því haldið fram að hún hafi rýrnað mikið og saka krónuna um slíkt á meðan ekki er litið til þess að hér höfum við byggt hraðar upp samfélag frá fátækt til velmegunar en önnur ríki í hinum vestræna heimi.

Í dag getum við séð fram á að hömlur, sem krónan setur okkur vissulega í dag í gegnum gjaldeyrishöft er vörn, vörn fyrir almenning í þessu landi og styrkir okkar samningsstöðu eftir þennan dóm sem að framan er getið.

Á næstu misserum er nú hægt að ganga til samninga við kröfuhafa, vilji þeir leita samninga, og vinda ofan af gjaldeyrishöftum, greiða til kröfuhafa það sem þeim ber og í samhengi við íslenskan rétt. Kröfuhafar og lögmenn þeirra geta nú gengið að því vísu að biðin er á enda í þessu efni og ekkert að vanbúnaði að semja eða búin verði að öðrum kosti sett í þrot.

Forsætisráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag, 28.9.2013;

Núna ætti að vera kominn sterkur hvati fyrir kröfuhafa til að leita lausna,…

Þetta er rétt hjá ráðherranum og rétt að minnast á að þetta muni leysast þó síðar verði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 21.5.2013 - 07:25 - Lokað fyrir ummæli

Frjálsi og Drómi reikna enn vitlaust

Í ár eru vel yfir 4 ár liðin frá hruni og í febrúar 2009 áttum við hjónin fund með Ingólfi, þáverandi lögfræðingi Frjálsa fjárfestingarbankans (núverandi forstjóra Dróma og Frjálsa fjárfestingarbankans), og Kristni Bjarnasyni, þáverandi forstjóra. Við sögðum að þeir reiknuðu lánin sín vitlaust.

Þeir trúðu því alls ekki að þeir væru að reikna vitlaust. Þeir vönduðu jafnvel um fyrir okkur og voru nokkuð kokhraustir.

Á sama tíma vissu margir af Hlyni Jónssyni (núverandi formanni stjórnar skilanefndar SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans) á hlaupum innan Fjármálaeftirlitsins og víða í stjórnkerfinu að ,,passa“ upp á fjármálakerfið.

Þetta var fyrir margt löngu síðan og greinilega farið að fenna yfir minninguna.

Í erindi frá Hlyni Jónssyni, formanni skilanefndar SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans, kom eftirfarandi fram fyrir fáeinum misserum:

Varðandi athugasemd þína um orðsporið þá er illt við það að eiga þegar menn kjósa að flytja einhliða áróður í skjóli þess að lánastofnun er bundin bankaleynd og getur ekki svarað fyrir sig á vettvangi fjölmiðla. Ég held að hugsandi menn sjái í gegnum slíkan áróður og kýs nú frekar að eiga orðspor mitt hjá þeim, heldur en á meðal aðila sem beita óheiðarlegum meðulum.

Flottur !

Óheiðarlegum meðulum?

Það er ansi áhugavert að lesa í þessi orð og sjá hve djúpt okkar fjármálakerfi er í raun sokkið, a.m.k. á meðal fárra sem enn stýra slitastjórnum og skilanefndum. Telja má samt sem áður að mikið sé um vel meinandi fólk að ræða innan banka en hér er til umfjöllunar undantekning frá því.

Ímyndunarauglýsingar bankanna skemmast við svona útspil af hálfu ,,hugsandi manna“ og skiptir litlu að þær hafi verið settar í kæli í fáein ár.

Orðsporið maður, orðsporið og ímyndin!

Hér er talað um ,,hugsandi menn“ og það sé ekki nokkurt vit í annað en að skipa sér í flokk með ,,hugsandi mönnum“. Það má vel vera og í raun mjög skynsamleg ályktun lögfræðingsins.

Nýlega hefur mörgum skuldurum borist endurútreikningur frá Frjálsa fjárfestingarbankanum og Dróma vegna meintra gengistryggðra lána. Sá útreikningur er vitlaus í flestum tilvikum og kemur það reyndar ekkert á óvart enda sprottið úr ,,skrúðgarði“ Hlyns Jónssonar.

Þeir sem greiddu ekki nákvæmlega á gjalddaga en greiddu samt ásamt dráttarvöxtum er gert að bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í sumum tilvikum frá útgreiðsludegi láns. Það gæti átt við í einhverjum tilvikum en ekki öllum.

Þvílík nauðung eina ferðina enn ! Þarna skríða menn upp á fórnarlambið eins og um væri að ræða einbeittan brotavilja viðkomandi aðila.

Bent skal í þessu tilefni á eitt hefti Lagadeildar Háskóla Íslands er ber heitið:

Um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu og þýðing fullnaðarkvittana (Slóð: hér)

Kom þetta hefti út árið 2012 í tilefni dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Höfundur þess er Valgerður Sólnes og var það unnið undir ritstjórn Hrefnu Friðriksdóttur dósents við Lagadeild HÍ.

Þar kemur m.a. fram eftirfarandi:

Norrænir fræðimenn hafa í skrifum sínum byggt á meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara, sem ekki efnir skuld sína að fullu, og haldið því fram að sérstakar aðstæður þurfi að vera til þess að hafna slíkri kröfu. Nefnd hafa verið til sögunnar þrjú skilyrði þess að hafnað verði rétti kröfuhafa til viðbótargreiðslu.

Varðandi þessi þrjú skilyrði eru þau reifuð:

  1. Í fyrsta lagi þarf skuldari að hafa verið í góðri trú er hann efndi skuld sína aðeins að hluta. Með því er átt við að skuldari hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi er hann innti hana af hendi.
  2. Í öðru lagi að villa skuldara verði einkum rakin til kröfuhafa, ýmist þannig að háttsemi skuldara sé afleiðing af mistökum kröfuhafa eða vafi leiki á af öðrum ástæðum um fjárhæð kröfu. Í öllu falli eru aðstæður þá með þeim hætti að nærtækara sé að kröfuhafi beri ábyrgð og áhættu þar af, enda er hann að jafnaði í betri aðstöðu til að ganga úr skugga um fjárhæð kröfunnar. Í kenningum fræðimanna hefur því enn fremur verið haldið fram í þessu samhengi að mæla megi gegn því að fallast á kröfu um viðbótargreiðslu þegar villa um fjárhæð kröfunnar stafar af rangri túlkun þeirra lagaákvæða er gilda um kröfuna, t.d. þegar viðtekinni beitingu lagareglu er hnekkt með dómi. Leiðrétting slíkrar rangrar túlkunar í framkvæmd verði hins vegar almennt einungis gerð til framtíðar (l. ex nunc), en ekki með afturvirkum hætti (l. ex tunc).
  3. Í þriðja lagi að mistökin hafi ekki uppgötvast þegar í stað og þau þá þegar leiðrétt með viðbótarkröfu af hálfu kröfuhafa. Eftir því sem lengri tími líður frá efndum og þar til upp kemst að greiðsla hafi ekki verið fullnægjandi, aukast líkur þess að hafnað verði kröfu um fullar efndir og alltént verða í slíkum tilvikum gerðar ríkari kröfur til kröfuhafa hvað varðar eftirfarandi aðgerðir hans í tengslum við mistökin og leiðréttingu þeirra. Verulegt óhagræði getur enda hlotist af því fyrir skuldara að vera krafinn um viðbótargreiðslu þegar hann sjálfur hefur gengið út frá því að hann hafi efnt skyldu sína að fullu.

Ef öllum framangreindum þremur skilyrðum er fullnægt þykir þannig koma til álit að hafna rétti kröfuhafa til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara, en á endanum er það þó heildarmat á aðstæðum sem ræður niðurstöðunni í þeim efnum. Við það mat er unnt að líta til atriða á borð við það hvor aðila hafði forræði á útreikningi fjárhæðar kröfu, hví fjárhæðin var röng og hvort viðkomandi aðili hafi leitast við að leiðrétta mistökin innan hæfilegs tíma. Með því móti er unnt að komast að niðurstöðu um hvorum aðila skuldarsambands, kröfuhafa eða skuldara, standi nær að bera hallann af mistökunum

Það er nokkuð ljóst að í tilefni svokallaðra gengistryggðra lána er það Frjálsa fjárfestingarbankans og Dróma að færa sönnur á að þessum skilyrðum sé ekki fullnægt og í slíkum tilfellum sé í kjölfarið augljóst að hafna kröfum slitastjórnar SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans er byggjast á þessum nýju endurútreikningum (ath. þeir eru þó með fyrirvara á því að hugsanlega gætu þeir reiknað aftur síðar vegna hugsanlegrar villu sem leynst gæti í útreikningunum).

Að lokum segir:

Samkvæmt því sem fyrr er rakið er ljóst að til þess getur komið að greiðsla skuldara sem annmörkum er háð eða ófullnægjandi, kunni að verða til þess að krafa falli niður,enda leiði afstaða kröfuhafa til slíkrar niðurstöðu hvort heldur sem er fyrir samþykki hans eða tómlætis sakir.Frávik kunna því að vera gerð frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara, þegar hinn síðargreindi efnir skuld sína ekki að fullu. Sú undantekningarregla, sem helst þarf að líta til í þessu samhengi, varðar fullnaðarkvittun kröfuhafa (d. saldokvittering).

Já, það er einmitt það að þó svo að skuldarar hafi greitt eftir gjalddaga og eindaga, greitt dráttarvexti af fjárhæðum eftir það er um fullnaðarkvittun úr hendi kröfuhafa að ræða. Það má a.m.k. lesa úr efni því sem að framan er tíundað.

Því má ætla að skuldarar Frjálsa fjárfestingarbankans og Dróma verði að stefna enn á ný til að fá úr því skorið að framangreindum 3 skilyrðum sé fullnægt hvað varðar greiðslur sem berast ekki fyrr en eftir gjalddaga og eindaga en greiddust engu að síður með dráttarvöxtum.

Hvers vegna?

Það er vegna þess að Frjálsi fjárfestingarbankinn og Drómi eru að reikna vexti Seðlabanka Íslands frá gjalddögum sem ekki var greitt nákvæmlega á gjalddaga eða fyrir eindaga, vexti sem hækka höfuðstól lánanna meira en efni standa til og reglur heimila eins og að framan er getið.

Er því stjórn Frjálsa fjárfestingarbankans og Dróma að reikna vitlaust en hún skipar sér í flokk meðal ,,hugsandi manna“.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 4.5.2013 - 08:48 - Lokað fyrir ummæli

Nýr stjórnarsáttmáli og fjármálastöðugleiki

 

Í pistli þann 30. apríl sl. fjallaði ég um loforð Framsóknarflokksins og stöðu þjóðarbúsins í samhengi við nýtt hefti um fjármálastöðugleika sem Seðlabanki Íslands gefur út. Í þeim pistli segir m.a.:

Talandi um kosningaloforð. Í dag kom t.a.m. berlega í ljós í hefti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika að leið Framsóknar varðandi skuldaleiðréttingu heimila gengur ekki upp. Það er frétt dagsins í dag en ekki það að formanni þessa ágæta flokks hafi verið veitt umboð til stjórnarmyndunar. Ekki er að undra að fjölmiðlar hafi ekki náð þessu enda greinilega fáir sem telja það henta í dag að minnast á þessa hlið málsins og þá augljósu staðreynd sem  bankinn hefur nú staðfest.

Í dag 4. maí ritar Þorsteinn Pálsson, fv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, um einmitt sama efni í Fréttablaðið og bendir réttilega á þá erfiðleika sem blasa við hér á landi um þessar mundir.

Þeir sem vilja láta taka sig alvarlega og vilja tryggja stöðugleika á næstu árum verða að öllum líkindum að hafa seðlabankastjóra sér við hlið í stjórnarmyndunarviðræðum á næstu dögum. Seðlabanki Íslands er og verður burðarás í stjórnvaldsaðgerðum næstu missera og ára.

Það að leiða hjá sér varnaðarorð sem koma fram í fjármálastöðugleikahefti Seðlabanka Íslands yrði ámælisvert og gæti einmitt skapað úlfuð og alvarlegan ágreining á milli sjálfstæðs seðlabanka og ríkisvalds.

Einnig er rétt hjá Þorsteini að hér á landi eru enn til þeir leiðtogar sem gefa því gaum sem máli skiptir varðandi stöðugleika í þjóðarbúinu og eru tilbúnir að taka á þeim brýnu og erfiðu málum sem liggja fyrir. Það er mikið fagnaðarefni fyrir íslenska þjóð.

Rétt er að ítreka þetta í ljósi þess að væntanlega verður nýr stjórnarsáttmáli dreginn upp á næstu dögum.

Góð lesning og ábyrg afstaða sem rýna má nú sem fyrr af Kögunarhóli Þorsteins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 3.5.2013 - 20:01 - Lokað fyrir ummæli

Í herrans nafni og Össurar

Ef leitað er að salti jarðar á Íslandi má örugglega finna fjölda Vestmannaeyinga sem eru virkilega ,,salt jarðar“ og hafa staðið vaktina fyrir Ísland lengi vel.

Má þar m.a. minnast á að þegar Danir nenntu ekki að sinna landhelgisgæslu við strendur Íslands voru það Vestmannaeyingar sem réru fyrstir allra á móti þeim sem fiskuðu frá Íslendingum.

Einn er sá maður sem hefur gert lítið úr eftirfarandi setningu bæjarstjórans í Vestmannaeyjum:

Ég er…mjög mótfallinn því að Sjálfstæðisflokkurinn geri sig ábyrgan fyrir loforðum sem hann hefur ekki trú á.

Það að hæðast að þessum orðum lýsir þeim best sem það gerir og hve langt sumir eru tilbúnir að ganga við sölu eigin sannfæringar við hvert tækifæri sem gefst. Margir átta sig ekki á því að aðhald og traust rök stuðla að því að góð og gegn stefna nái fram að ganga fyrir land og þjóð. Þar skiptir máli skynsemin og hyggindi.

Einhverjir hefðu greinilega aldrei fengist í það að sigla á móti þeim er fiskuðu upp við strendur landsins og stálu fiski á meðan Danir sváfu á verðinum. Einstakir aðilar hefðu örugglega boðið þeim erlendu skipherrum er fiskuðu hér frítt bara í kaffi eða tea. Það gerðu Eyjamenn ekki.

Sama á við um ESB undirgefni í herrans nafni og Össurar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.5.2013 - 08:27 - Lokað fyrir ummæli

Heilindi ríkisstjórnarflokka

Robert Cailliau

Robert Cailliau, Jean-François Abramatic of IBM, and Tim Berners-Lee á 10 ára afmæli ,,the World Wide Web Consortium“, þ.e. Veraldarvefjarins ,,Consortium“. (Heimild: http://en.wikipedia.org/)

 

Internetið** og Veraldarvefurinn (e. the World Wide Web Consortium) er frábær miðill og hefur opnað mörgum leið til tjáningar frá því að það komst á ,,kortið“ árið 1990 fyrir tilstuðlan tölvusérfræðings hjá CERN í Sviss að nafni Robert Cailliau. Þann 30. apríl árið 1993 var tekin ákvörðun hjá CERN að Veraldarvefurinn yrði gefið öllum frjálst til notkunar.

Það var öndvegisár þar sem frelsið jók vægi sitt og heilindi á milli sérfræðinga skipti öllu fyrir heiminn. Þeir vissu vel að frelsinu fylgir ábyrgð.

Nú nýlega hafa óprúttnir einstaklingar hafið herför gegn einum stjórnmálaflokki og það er miður enda er hún persónuleg og rætin. Það versta við þetta er að það virðast vera allt aðrir sem stýra þeirri heimasíðu, sem óhróðurinn er birtur á, en þeir sem hinir sömu telja sig vera. Þetta er fals og fals skal það heita.

Framundan er að öllum líkindum að ný ríkisstjórn muni taka völdin í þessu guðsvolaða landi. Hér býr þjóð sem kallar eftir stöðugleika, festu og áræðni við stjórn landsmála. Síðustu 4 árin hafa verið hreint út sagt skelfileg og bera hæst óheilindi innan stjórnarflokkanna sem réðu ríkjum, innanbúðar undirmál og rætin samskipti. Þá skipti miklu að á þingi voru flokkar sem sýndu festu, áræðni og dug við að halda sjó þegar aðrir sukku og voru þeir burðarvirki stjórnarandstöðu í landinu.

Nú gefst tækifæri að mynda sterka stjórn yfir Íslandi. Skiptir nú mestu að heilindi ríki ekki aðeins á milli formanna ríkisstjórnarflokka heldur einnig á milli þeirra stjórnarþingmanna er starfa munu saman á næstu árum. Telja má fullvíst að þetta er megin ástæðan fyrir því að 2ja flokka ríkisstjórn er mun ásætanlegri kostur, minnkar flækjustig við stjórn landsmála og tryggir festu. Það er einmitt festan sem veitir aðhald, bæði innan stjórnarflokkanna sjálfra og utan, þ.e. á Alþingi Íslendinga. Það að festa ríkir tryggir að byggja megi upp traust á Alþingi ekkert síður en á Íslandi sjálfu. Þetta eru lögmál sem eru virt og verka langt utan landsteina Íslands.

Varðandi stjórnarsáttmála verður að tryggja að endum verði náð saman varðandi rekstur ríkisstjóðs, gæta að jafnræði á milli manna í þessu landi og skapa umhverfi sem stuðlar að uppbyggingu, stöðugleika og hagvexti.

Mikilvægt er að líta til þess að formenn flokka hafa rætt saman og í slíkum viðræðum verður það ,,cemestry“ að myndast sem verður andlag samstarfsins á næstu misserum og árum. Það viðhorf og sú jákvæða ,,menning“, sem mótast á milli þessara tveggja formanna, verður að ,,smitast“ til allra þingmanna sem styðja slíka ríkisstjórn. Þjóðin óskar þess að Alþingi rísi upp úr öskustó átakastjórnmála fráfarandi ríkisstjórnar og kallar eftir festu.

Svo virðist sem tryggð og traust sé að myndast á milli formanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og það er vel enda hafa þessir menn starfað saman nokkuð lengi á Alþingi, hafa þaðan reynslu og geta tekist á við þau verkefni sem blasa við. Þá þarf að ríkja traust, djúpstætt traust.

Vei sé þeim sem reyna að eyðileggja þetta ferli enda er það augljóst framhald kosninganna. Persónulegar árásir undir fölskum formerkjum er lítilmannlegt og til þess eins að eyðileggja fyrir land og þjóð.

Heilindi, trúnaðartraust og festa verður að vera ríkjandi dygðir á stjórnarheimilinu á næstu árum enda mörg erfið og flókin mál sem bíða úrlausnar.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geta nú einir skapað það umhverfi sem þjóðin óskar eftir.

Nýtum Internetið og Veraldarvefinn til góðra verka og miðlum.

Frelsinu fylgir ábyrgð.

 

Viðauki – Bætt við vegna upplýsinga frá góðu fólki á Veraldarvefnum. Svona á andinn að vera !

** Internetið á sér víðari skírskotun en Veraldavefurinn en hér er þetta einfaldað. Einnig hægt að ræða um Veraldarvefinn í þessu samhengi. Fjallað verður síðar um þetta efni sérstaklega en efnið að ofan á við hvoru tveggja.

Nánar um Internetið: http://en.wikipedia.org/wiki/Internet

Nánar um veraldarvefinn: http://en.wikipedia.org/wiki/World_Wide_Web

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni

Þriðjudagur 30.4.2013 - 19:03 - Lokað fyrir ummæli

Kostur Sjálfstæðisflokksins í stöðunni

 

Hvaða leikur er í stöðunni?

 

Þeir sem hafa leikið knattspyrnu, handbolta eða aðrar íþróttir þekkja vel að það sem máli skiptir er tímasetningin þegar markmiðið er að skora. Það sem nú er um að ræða er að líta ekki til baka heldur spila úr stöðunni eins og hún liggur fyrir í dag.

Framsókn hefur ákveðið að leita fyrst til vinstri flokkana um stjórnarsamstarf. Það er niðurstaða dagsins í dag. Á þessu leikur enginn vafi og því ætti forysta Sjálfstæðisflokksins að neita viðræðum við Framsóknarflokkinn þar til hann hefur lokið sér af á vinstri vængnum. Það er ekkert annað í stöðunni enda hefur formaður Framsóknarflokksins ákveðið að spila upp vinstri kantinn í því augnarmiði að skora.

Við það að neita Framsóknarflokknum um ítarlegar viðræður er þessum ,,miðju“ flokki bent réttilega á að ef hann nær ekki að mynda enn einu veiku vinstri stjórnina er einboðið að formaður Framsóknar þurfi að skila inn umboði sínu.

Talandi um kosningaloforð. Í dag kom t.a.m. berlega í ljós í hefti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika að leið Framsóknar varðandi skuldaleiðréttingu heimila gengur ekki upp. Það er frétt dagsins í dag en ekki það að formanni þessa ágæta flokks hafi verið veitt umboð til stjórnarmyndunar. Ekki er að undra að fjölmiðlar hafi ekki náð þessu enda greinilega fáir sem telja það henta í dag að minnast á þessa hlið málsins og þá augljósu staðreynd sem  bankinn hefur nú staðfest.

Hvaða leikur er þá í stöðunni?

Það blasir við að fjölmargir Sjálfstæðismenn vilja ljúka viðræðum við Evrópusambandið og er pistlahöfundur einn þeirra þó svo að hann sé ekki sáttur varðandi það að ganga í Evrópusambandið. Það sem máli skiptir í dag er að nýta þann leik í stöðunni sem fjárfest hefur verið í síðustu ár, þ.e. vinnan sem embættismenn hafa þegar unnið í viðræðum við Evrópusambandið gæti nýst til að ljúka þeim með ódýrum hætti og boða til kosninga, þ.e. fara í  þjóðaratkvæðagreiðslu um samning við ESB. Hvers vegna ekki?

Með því má ætla að brúa megi bil á milli frjálslyndra afla í Sjálfstæðisflokknum, bjóða Bjartri Framtíð og Samfylkingunni til viðræðna um leið og Framsókn hefur skilað umboði sínu og formanni Sjálfstæðisflokksins falið það.

Framsóknarflokkurinn í dag er mun meiri og heftugri andstæðingur Evrópusambandsins en forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Bent skal á að Björt Framtíð varð einmitt til vegna þess að fólk úr Framsóknarflokknum, ungt og vel meinandi fólk, flúði íhaldið í Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn er breiðari flokkur og frjálslyndari en Framsókn og á að vera það.

Er þá þetta ekki einmitt leikurinn í stöðunni hjá Bjartri Framtíð og Samfylkingunni í dag?

Þjóðin færi þá vitræna leið til skuldaleiðréttinga með leið Sjálfstæðisflokksins, frjálslyndir einstaklingar í öllum flokkum fá samning sem borinn verður undir þjóðina varðandi aðild að Evrópusambandinu og þannig geta flestir unað vel við sitt. Samningurinn verður vitanlega felldur en það er þá afgreitt mál.

En er það e.k. VG aðferðarfræði? Það verður hver og einn að meta fyrir sig hvort að það sé ráðleg vegferð og gott veganesti.

Það sem máli skiptir í dag er að það verði Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, sem leiði nýja ríkisstjórn.

Þannig mætti ná sátt í samfélaginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.4.2013 - 16:47 - Lokað fyrir ummæli

Mesta áhætta Framsóknar

Í pistli hér á Eyjunni hefur ritstjórinn sjálfur talið sig þess umkominn að geta sagt að stærsti flokkur þjóðarinnar eigi ekki að fá umboð til stjórnarmyndunar á Íslandi. Í kjölfarið fer Össur Skarphéðinsson mikinn, maður sem glatað hefur þingmönnum úr þingflokki sínum í hlutfalli sem ekki hefur mælst áður frá stofnun lýðveldis á Íslandi, og belgir sig út eins og hann hafi eitthvað um stjórnarmyndun að segja.

Eru þessir menn veruleikafirrtir?

Það er rétt að Framsókn sópaði að sér óánægjufylgi frá Samfylkingunni sem gat ekki hugsað sér að kjósa þessa sameiningargrúbbu alþýðu er aldrei hefur virkað vel eða komið einhverju með viti í framkvæmd. Þar má nefna lög á lán landsmanna sem dæmd voru ólögmæt, milliríkjasamninga sem detta úr sambandi sé gengið í ESB og margt fleira. Reyndar mun líklega ekki verða af ESB aðild sem betur fer en verkin tala sínu máli þó mörg þverstæðukennd séu.

Ekki tókst einu sinni að koma ESB málinu í gegn og átti þar Össur hlut að máli. Það var og er allt bölvað klúður og tóm vitleysa. Sama má segja um ICESAVE.

Þrátt fyrir að það geti verið freisting í anda Rómaveldis á tímum Neró að fara í e.k. vinstri stjórn með Samfylkingunni er það mikið hættuspil fyrir Framsókn. Þjóðin sagði NEI við Samfylkingunni og ESB þvælunni. Það er allt í lagi að ljúka viðræðum en það má örugglega gera með meiri hraða en Össur hefur náð að reka sína hesta hingað til.

Það væri og að þetta endaði eins og í Róm forðum þegar bróðir Neró gerði Incitatus að ráðherra sínum í ríkisstjórn. Það yrði mesta áhætta Framsóknar fyrr og síðar og Íslendingum váleg tíðindi ef þróun mála æxluðust á þann veginn. Vænta má að svo verði ekki sem betur fer enda Forseti Íslands ansi glöggur maður.

Nei, nú skulu þeir sem hafa glatað trúnaði þjóðar sinnar taka þau sæti sem þeim hafa verið skipuð og hætta þessu rausi hér á vefsíðum Eyjunnar.

Í guðanna bænum komið nú niður á jörðina kæru vinstri menn.

Það er nóg komið af ykkar stjórnsýslu hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.4.2013 - 10:45 - Lokað fyrir ummæli

Er ESB ekki ,,tapari“ kosninganna?

Oftar en ekki er kveikt á útvarpinu á morgnanna og í dag er morguninn einstaklega fagur, blár himinn, sól og blíða. Stillt var á Heimi og Kollu í útvarpinu. Tónlistarinnar var notið í botn enda verið að spila Queen og rödd Freddy Mercury ómaði um eldhúsið. Dagurinn byrjaði virkilega vel. Í örskotsstund var hugað að því, á meðan hellt var á könnuna, hvar Freddy væri í raun jarðsettur. Skaust í gegnum hugann að farið yrði og sett blóm á leiðið hans ef það væri fundið rétt eins gert var þegar Jim Morrison, söngvara Doors, var vottuð virðing í Père Lachaise kirkjugarðinum í París hér á árum áður. Þar beið fólk í röð til að komast að.

Og hver eyðilagði þessa stund á Bylgjunni í morgun? Það var enginn annar en Eiríkur Bergmann sem hélt því fram að stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn, væri ,,tapari“ kosninganna. Hvers vegna er þessi maður að gefa sig út að vera sérfræðingur þegar hann lætur þetta út úr sér? Það er með ólíkindum að Heimir og Kolla skulu kalla Eirík í þáttinn og gera a.m.k. ekki athugasemd enda einstaklega vandræðalegt fyrir hann að láta þetta út úr sér. Þau áttu að vita betur og að Eiríkur þyrfti mun lengri tíma til að jafna sig eftir áfallið.

Setti Stefanía Óskarsdóttir reyndar ofan í Eirík blessaðan í þættinum með því einmitt að benda á að það væri Sjálfstæðisflokkurinn sem væri einn af sigurvegurum kosninganna. Það er reyndar augljóst.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að þessi sami Eiríkur Bergmann hefur fjárfest í ferli sínum og veðsett hann með umfjöllun og áróðri varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það verður enginn skuldaniðurfelling í tengslum við slíka veðsetningu og má því reikna með að hann þurfi að greiða þá skuld upp að fullu þó síðar verði.

Hvað Ísland og Íslendinga varðar skal á það bent að öll ESB umræða var jörðuð á Íslandi nú um nýliðna helgi. Aðdáendaklúbburinn hefur bara ekki alveg áttað sig á því enn og þurfa meðlimir hans tíma til að ná áttum. Á meðan þurfum við hin að sýna þessu fólki virðingu, biðlund og umhyggju.

Eins og með yndislega tónlistamenn, sem kunna að spila á hljóðfæri og syngja vel, vill maður ekki Evrópusambandinu eða evrunni neitt illt. En þegar hljóðfærin, sem spilað er á hér á landi, eru svo ramm fölsk og Eiríkur Bergmann reyndist vera í morgun, jaðrar slíkt glamur við umhverfisspjöll af hálfu sambandsins sem enginn tilskipun nær til.

Ef Evrópusambandið myndi ásamt evrunni leggja upp laupana yrðu það líklega afar fáir frá Íslandi sem myndu leggja lykkju á leið sína við að fara með blóm til Brussel að votta því virðingu sína. Ætli þar mætti þó ekki finna Eirík Bergmann í e.k. mussu peysu, með kerti og reykelsi líkt og þau sem elska Jim Morrison enn þann dag í dag, sitja þar álút við leiði hans og kyrja Love Street?

Því má til sanns vegar færa að það er einmitt ESB, Eiríkur Bergmann og hans lærisveinar sem eru ,,taparar“ nýafstaðinna kosninga á Íslandi. Þetta var þjóðaratkvæðagreiðsla, ekki satt?

Rétt að halda þessu til haga um ókomna tíð.

Njótið dagsins og blíðunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.4.2013 - 15:55 - Lokað fyrir ummæli

Sigur Bjarna Benediktssonar

Mörgum hefur orðið tíðrætt um að Framsóknarflokkurinn sé sigurvegari kosninganna. Það er ekki rétt mat þrátt fyrir að sá flokkur hafi bæði náð vopnum sínum frá fyrri tíð og rifið óánægjufylgi af Samfylkingunni m.a. vegna þess að sú fylking hefur hent út eðalkrötum á síðustu árum. Hið rétta mat er að Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem hefur átt mest undir högg að sækja, fengið rætna fjölmiðla gegn sér umfram aðra flokka auk þess sem fyrrverandi formaður hans var að ósekju m.a. látinn ganga í gegnum eld og brennistein Landsdómsmálsins. Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar stendur engu að síður sterkur eftir, vinnur fylgi og rís upp sem stærsta stjórnmálaafl Íslands enn á ný. Það er fagnaðarefni fyrir Íslendinga.

Hér er einnig um að ræða einn stærsta sigur stjórnarandstöðu og það var Bjarni Benediktsson sem leiddi þá andsstöðu ásamt frábærum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er hvikuðu ekki frá stefnu sinni og sannfæringu. Það er einnig rétt að Framsóknarflokkurinn stóð sig vel og þá sérstaklega í ICESAVE málinu.

Í kosningum byrja allir flokkar á núlli og þurfa að lúta því sem þjóðin kýs. Þjóðin, sem margir hafa talið sig vera fulltrúa fyrir en eru ekki skv. niðurstöðu kosninganna, hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn til valda og flestir kjósendur treysta Sjálfstæðisflokknum mest. Það er kjarni málsins og ekkert annað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sigrað þessar kosningar og það er formanni þess flokks að þakka.

Þegar ,,álitsgjafar“ Egills í Silfrinu í dag ræddu út og suður um þessi mál var RÚV enn á ný að sýna sitt rétta andlit með að tefla fram fólki sem samræmist ekki þeirri stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu. Þarna var fólk sem endurspeglaði alls ekki þjóðina og afstaðnar kosningar. Það er rétt að Framsóknarflokkurinn vinnur sigur en hann er ekki stærsti flokkurinn í landinu. Framsóknarflokkurinn er næst stærsti flokkurinn í landinu því það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er stærstur þrátt fyrir að þeir hafi á að skipa sama fjölda þingmanna.

Það sem stendur eftir er að Samfylkingin er orðin minni flokkur en Alþýðuflokkurinn var. Það skiptir litlu hvað Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði reynir að túlka þetta,  svona er staðan og ESB aðildin er hér með kolfelld og þjóðin vill ekkert með aðild hafa, a.m.k. meirihluti hennar. Það vakti sérstaka athygli þegar þeir sem hafa nú mikinn minnihluta á Alþingi fóru að ræða þá hugmynd í Silfrinu ásamt Agli í dag að það ætti nú að fara í einhverja þjóðaratkvæðagreiðlslu um ESB aðild þegar þjóðin hefur kosið til valda tvo flokka sem hafa bara engan áhuga á að ræða ESB aðild. Er þetta ekki afgreitt mál?

Að auki má nefna hið augljósa að fylgið er að færast til hægri. Íslendingar hafa fengið sig fullsadda af vinstri stefnu sem engu skilar.

Eftir stendur að úrslitin sýna sigur Bjarna Benediktssonar sem hefur nú endurheimt styrk Sjálfstæðisflokksins í íslenskri stjórnmálasögu.

Njótið dagsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur