Þriðjudagur 26.2.2013 - 12:36 - Lokað fyrir ummæli

Skortsala samfóista

Það hefur afar lítið farið fyrir einstökum framsóknarmanni og samfylkingarsnilling (samfóista) eftir hrun nema þá einna helst hér á Eyjunni.

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um að þeir sumir skortseldu krónuna fyrir hrun og græddu óhemju. Þeir veðjuðu gegn krónunni og tala gegn krónunni og græða þegar fólkinu í landinu svíður undan.

Ekki hefur greinarhöfundur oft vitnað í DV en gerir það hér með. Látum efnið tala sínu máli: Úr DV.

Það gæti vel verið að þetta sé tóm vitleysa í DV en það er ekkert mál fyrir góða rannsóknarblaðamenn að gera sér efni úr þessu um ókomin ár. Svo má einnig benda fræðimönnum, eins og t.d. Stefáni Ólafssyni, sjálfskipuðum verndara fátækra á Íslandi, að gera úttekt á þessu, jafnvel skrifa bók.

Bókin gæti borið heitið: Hvernig samfóistar fjármagna sig.

Enginn skortur á fjármunum á þessum bæ, bæ jafnar- og meðalmennsku.

Lifið heil.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 25.2.2013 - 11:35 - 14 ummæli

Sterkasti flokkurinn – Sjálfstæðisflokkurinn

Eftir lok Landsfundar er óhætt að segja að í dag og fyrir kosningar í vor geta landsmenn valið á milli stöðugleika, sem Sjálfstæðisflokkurinn getur einn flokka boðið uppá, og stirðleika bæði í innviðum og á milli allra annarra flokka á miðju stjórnmála á Íslandi og til vinstri. Að auki má segja að formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hlaut glimrandi kosningu á fundinum, kom afar vel út sem framtíðar leiðtogi íslensku þjóðarinnar. Það sem einnig ber hæst er hve öflugt málefnastarfið var og hve víðsýnn flokkurinn er þegar litið er til þeirra ályktana sem samþykktar voru á fundinum. Sjálfstæðisflokkurinn og formaður þessa öfluga stjórnmálaafls er því tilbúinn að taka við stjórnartaumunum á Íslandi og axla ábyrgð.

Hagsmunir heimilanna og efnahagurinn

Sjálfstæðisflokkurinn býður einn flokka fram á raunhæfa lausn fyrir heimilin í landinu með leiðum er liggja um skattkerfið. Hægt er að bæta hag fjölda fjölskyldna og að auki að stuðla til framtíðar að sparnaði í hagkerfinu. Í stjórnmálaályktun fundarins kemur m.a. fram:

  1. Að ráðast að rót vanda íslenskra heimila með skulda- og skattalækkunum
  2. Að auka verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi
  3. Að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og afnema gjaldeyrishöft
  4. Að sýna ábyrgð og bæta opinberan rekstur, lækka skatta og endurskoða bótakerfi
  5. Að tryggja grunnþjónustu fyrir alla landsmenn og standa vörð um velferðina

Þarna má sjá hvert Sjálfstæðisflokkurinn stefnir fyrir fjölskyldur þessa lands og einstaklinga sem hafa kallað eftir bættum hag allt frá hruni hagkerfisins 2008. Ekki hafa vinstri flokkarnir náð að hafa styrk til að taka á þessu málefni og fremur látið eins og sundurlaus hópur sem nær ekki saman um grundvallar mál heimila á Íslandi.

Besta leiðin til þess að styrkja stöðu heimilanna er að tryggja fólki möguleika til að stunda arðbæra atvinnu og gefa því þar með tækifæri til að vinna sig út úr vandanum.

Þetta er göfugt markmið og skynsamlega orðað.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherlslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verði markvissar aðgerðir til að bregðast við greiðslu- og skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum. Þessi aðgerð er mikilvæg forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðauppbyggingu íslensks þjóðfélags.

Allt sem að framan er talið kemur heimilum vel bæði til lengri og skemmri tíma. Grunntónn fundarins var í þágu heimilanna og það líkar pistlahöfundi afar vel. Það er einmitt hlutverk stærstu og öflugustu stjórnmálahreyfingar landsins að gæta að hagsmunum heimilanna umfram allt annað.

Evrópumálin afgreidd

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn á landinu sem tekur raunsæja afstöðu til málefna í tengslum við aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki hægt að menga umræðuna næstu árin eða eyða fé í eitthvað sem alsendis er óraunhæft, þ.e. að ræða við samband sem Íslendingar vilja ekki ganga til samninga við, a.m.k. þorri þjóðarinnar.

Þeir sem eru fyrir Evrópusambandið verða að bera skynbragð á sinn vitjunartíma í þessu efni og skilja að þjóðin vill alls ekki ganga í Evrópusambandið. Ástandið innan þessa sambands, hversu gott sem það kann að vera á mörgum sviðum, er bara með þeim hætti að ómögulegt er að eiga í aðildarviðræðum við það. Það er heldur ekki útséð með hvert það er að fara og hvert stefnir varðandi sambandið í heild sinni.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.Sjálfstæðisflokkurinn telur að varnir landsins séu best tryggðar á þeim tvíþætta grundvelli sem felst í aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.

Því var eina vitið hjá Sjálfstæðisflokknum að afgreiða aðildarviðræður útaf borðinu og líta fremur í kringum sig á alþjóðavettvangi eins og um sé að ræða aukin tækifæri þar sem mesti vöxturinn er, þ.e. í austurlöndum fjær.

Í setningaræðu formanns Sjálfstæðisflokksins mátti heyra að hann er áhugasamur um vaxtatækifæri t.d. í Asíu. Þetta er skynsamlegt innlegg af hans hálfu. Við eigum fyrirtæki sem eru að vaxa í þessa átt og tæknimenntaða einstaklinga og öflug tæknifyrirtæki sem hafa komið sér vel fyrir á þessum slóðum. Vöxturinn næstu árin verður ekki í Evrópu, það er alveg ljóst.

Svo má ekki gleyma hvar og innan hverra vébanda vörnum okkar er best borgið, þ.e. innan NATO. Það er augljóst.

Gjaldeyrishöft og fjárfesting

Fjárfestingar innanlands eru algjör nauðsyn og gera verður kröfuhöfum bankanna, sem vilja utan með gjaldeyri, það alveg ljóst að þeir komu hingað inn með því að kaupa kröfur á lágum verðum og í því felst áhætta sem þeir vissu af og þá borgar sig að þeir viti að þeir eru enn í þeirri áhættu en henni er hægt að stýra þeim í vil og einnig Íslendingum í vil. Þarna geta því báðir aðilar séð framúr vandanum.

Þannig á að ganga til samninga við þessa blessuðu kröfuhafa og ekki víla fyrir sér að benda á virðið sem þeir fóru inná og gera þeim fyllilega grein fyrir því að þeir munu ekki koma út í tapi en kanski ekki út í 50 til 100% ávöxtun sem þeir vildu vissulega fá ef miðað er við þá ávöxtunarkröfu sem til þeirra hefur verið gerð síðustu ár frá hruni.

Það er bara ,,því miður“ ekki í boði. Það á að vinna þetta í sátt við kröfuhafa sem verða að gera sér grein fyrir því að þeir keyptu sér ekki inní þriðjaheimsríki eða í gjaldþrota bílaframleiðanda heldur fjárfestu þeir í vestrænu lýðræðisríki sem vill vel og þegnum sínum umfram allt þann aðbúnað og kjör sem best eru í heiminum. Það gæti tekið tíma að láta þessa aðila skilja þetta en það er mikilvægt að gera þeim sem fyrst grein fyrir þessu svo þeir skilji betur virði eigna sinna. Vinstri stjórn síðustu ára hefur villt þessum kröfuhöfum sýn á undanförnum árum og talið þeim trú um annað, því miður.

Samningatæknin er sú að segja; ,,þið tapið ekki en fáið ekki það sem þið viljið helst fá“. Þegar náð hefur að sannfæra þá um að engin leið er fær nema samningaleiðin, er fyrst hægt að hefja viðræður. Það þarf reyndar hugsanlega að setja lög svo þeir geri sér grein fyrir sinni stöðu og einnig að gera þeim grein fyrir því að það er ,,deadline“ á þeirra mál. Það verður svo sett fram slagplan varðandi málið og með því að hafa gott slagplan, vita þeir hvenær þeir geta tapað á að semja ekki og hvað þeim getur áunnist við að semja við íslensk stjórnvöld. Þetta þarf að vera skýrt og skilmerkilegt, einföld og aðgengileg áætlun.

Þetta getur sjálfstæð og fullvalda þjóð farið fram á því hún hefur lagasetninga- og skattavaldið.

Sjálfstæð og fullvalda þjóð getur lofað vogunarsjóðum að fá ávöxtun fjár síns þannig að fjárfestar, sem eiga í þeim, tapi ekki heldur komi ágætlega út en þeir græða heldur ekki m.v. 50 til 100% ávöxtunarkröfu sem þeir óska helst. Hvers vegna ekki? Jú, það er vegna þess að þeir eiga ekki að gera svo háa ávöxtunarkröfu þegar þeir sjá fram á að þeir geta fengið greitt, þeir eiga kost á að fá gjaldeyri og að ríkissjóður Íslands, hversu sterkur sem hann nú er, tryggir að framfylgt sé því sem lofað er.

Þegar hingað er komið og þetta er vel formað og fest niður má ætla að hægt verði að bjóða mjög góð kjör á raforku og í skiptum fáist gjaldeyrir á góðum kjörum um leið og fjárfesting streymir í landið. Þannig má gera gjaldmiðlaskiptasamninga og/eða viðskipti til að tryggja að bitið sé hressilega af snjóhengjunni í hvert skipti.

Arðsöm uppbygging og nýting auðlinda landsins í sátt við umhverfissjónarmið eru lykilatriði í framtíðaruppbyggingu íslensks hagkerfis. Þær atvinnugreinar sem nýta náttúruauðlindir í eigu hins opinbera eiga að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir. Þá þarf að gæta þess að nýtingar- og eignarrétturinn sé virtur í hvívetna.

Reikna má að hægt verði að fá Alcoa aftur að borðinu varðandi álver á Norðurlandi, stækkun í Straumsvík og álver í Helguvík. Þessi 3 verkefni geta klipið um 400 til 500 milljarða af hengjunni með fyrirvara um betri úttekt á því.  Samhliða þarf að fara í að virkja neðri hluta Þjórsár og fara í virkjanir á Suðurnesjum, í Þingeyjasýslum sem og á Hellisheiði. Við kaup á vélbúnaði mætti klípa um 200 milljarða af snjóhengjunni.

Allt er þetta umhverfisvænn iðnaður og atvinnuskapandi mjög bæði til lengri og skemmri tíma.

Samhliða þessu mætti bjóða öðrum fjárfestum áhugaverð verkefni hér á landi t.a.m. á sviði ferðaiðnaðar, endurnýtanlegrar orku sem og þjónustu. Við eigum einnig að hefja aftur af krafti uppbyggingu þjónustugreina t.a.m. í fjármálageiranum og tryggja ávöxtun lífeyris með þátttöku í áhugaverðum verkefnum bæði hér innanlands og erlendis.

Það er af nógu af taka og óhætt er að treysta Sjálfstæðisflokknum til þeirra verka á næstu árum.

Til lukku sjálfstæðisfólk !

Til hamingju Ísland !

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 22.2.2013 - 16:41 - Rita ummæli

Bjarni Benediktsson og Samfylkingin

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, stærstu stjórnmálahreyfingar Íslands, var settur í gær og stendur nú yfir næstu daga. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, fjallaði um þau málefni sem efst eru á baugi í bestu ræðu sem haldinn hefur verið á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Óhætt er að segja að hann hafi þar farið með bæði skynsömum hætti og rökföstum yfir þá alvarlegu stöðu sem VG og Samfylkingin hefur komið þjóð sinni í á undanförnum árum.

Aðdragandi hrunsins

Ef litið er til baka og kannað hve margir hafa misst mikið og hve mörgu hefur verið fórnað stendur eftir að Ísland er ekki einsdæmi hvað það varðar. Sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir, hafa bent á að hrunið megi m.a. rekja til ótrúlegrar vaxtastefnu bandaríska seðlabankans á árunum eftir 11. september 2001 þegar mjög alvarleg hryðjuverk voru framin í New York.

Þessi vaxtastefna bandaríska seðlabankans leiddi til þess að ódýr, en stutt lán (c.a. 5 ára), buðust hér heima og fjármögnuðu bankar hér útrásina með þeim. Athuga ber að langtímavextir voru hærri og ekkert ósvipaðir þeim sem eru enn í dag en þannig er eðli vaxtaferla bæði til lengri og skemmri tíma að stutti endinn sveiflast meira en sá langi. Þetta nýttu menn sér í samdrættinum enda í þessu fólgin freistni.

Þessi mistök hafa þegar verið viðurkennd fyrir margt löngu síðan.

Hér heima voru hins vegar menn sem vöruðu við þessu og einn þeirra sem mest hamraði á varnaðarorðum var Davíð Oddsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hrunið og fortíðin

Margir, bæði innlendir og erlendir leikmenn og sérfræðingar, töldu á þessum tíma allt vera fært og framtíðin björt. Það voru falskar vonir en meðvirknin var mikil, bæði hér heima og erlendis.

Árið 2004 ritaði pistlahöfundur grein í Morgunblaðið þess efnis að ef ekki yrði tekið á skuldasöfnun væri krónan ,,dauðvona“. Árið 2007 endurtók pistlahöfundur í sama blaði sömu varnaðarorð í grein þar sem Seðlabanki Íslands og stefna hans var gagnrýnd. Haustið 2007 átti pistlahöfundur fund með einum bankastjóra Seðlabanka Íslands og fyrrum samstarfsmanni þar innandyra og lýsti þar áhyggjum sínum á ástandinu hér heima.

  • Grein pistlahöfundar frá árinu 2004 má finna hér á vef mbl.is: Grein A
  • Grein pistlahöfundar frá árinu 2007 má finna hér á vef mbl.is: Grein B

Það var enginn, a.m.k. mjög fáir, að kaupa þessar kenningar á þessum árum sem lýst var að þyrfti að huga að í þeim greinum sem að framan er getið. Hvers vegna ætli það hafi verið? En pistlahöfundur gat ávallt treyst á einn mætan mann sem ljáði þessum kenningum eyra og þær vöktu athygli hans.

Viðskipti eru göfug og þar leynast hættur

Bjarni Benediktsson var eins og svo margir aðrir í viðskiptum og það er göfugt að eiga í viðskiptum, ekkert við slíkt að athuga enda er það grundvöllur atvinnusköpunar að stunda viðskipti og þarf oft kjark til.

Ég verð að segja að ég þekki afar fáa á Alþingi sem hafa stundað viðskipti og tel reyndar að það ætti að fjölga fólki úr atvinnulífinu til muna innan veggja þingsins. Fólk sem ég tel vera ,,úr atvinnulífinu“ er fólk sem hefur starfað sjálfstætt eða rekið fyrirtæki (ekki stofnun), þurft að greiða út laun og eiga fyrir þeim mánaðarlega nú eða hafa unnið í einkageiranum þar sem aga og hagræðingar er krafist uppá hvern einasta dag.

Hér er m.a. átt við sjálfstætt starfandi iðnaðarmenn, bændur, sjómenn, hönnuði, listafólk, verktaka, verkfræðinga, fólk sem starfar í þjónustu, ferðaiðnaði, í fjármálageiranum, í útrás á erlendum vettvangi, fólk sem eru frumkvöðlar, sérfræðingar á sviði hjúkrunar og lækninga, sjálfstæða aðila sem reka skóla, reka heilbrigðisþjónustu og svo fjölmarga aðra. Hér ekki átt við embættismenn, fólk úr stjórnsýslunni, ekki fólk úr háskólasamfélaginu, ekki fólk er tengist opinberum rekstri.

Allir eiga erindi á þing en það vantar fleiri á þing úr atvinnulífinu.

Mest þykir mér um þá sem eru með lítil og meðalstór fyrirtæki enda skila þau oft mestu í þjóðarbúið, skapa mörg störf og eru trygg í rekstri. En það leynast hættur í viðskiptum, fjölmargar hættur.

Fáir nefna þá milljarða sem fólk, hluthafar stórra, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hefur tapað í og frá síðasta hruni. Fólki finnst það bara allt í lagi eða telur það bara hafa verið ,,gott“ á það að hafa tapað því. Þetta eru ekki sanngjarnar yfirlýsingar eða upphrópanir. Upphrópanir af þessum toga lýsa fremur skilningsleysi en skynsemi.

Fjárfestingarfélag fjárfesti eitt sinn í N1 og var fjármagnað af banka

Fjárfestarnir sem fjárfestu í N1, nú eða öðrum rekstri hér heima eða erlendis, töldu á þeim tímapunkti, þegar fjárfest  var, að forsendur, sem bankinn (líklega þá Glitnir banki) er seldi N1 lagði fram, væru réttar, sannar og stæðust skoðun.

Áttum okkur á því að á þessum árum fyrir hrun lifðu bankar nánast aðallega af þóknunartekjum af slíkum ,,dílum“ og seldu grimmt, sameinuðu og sundruðu fyrirtækjum til að hámarka þóknunartekjur og afrakstur vaxtamunar á lánum sem fylgdu með í kaupunum.

Athugið að þau lán voru fjármögnuð ,,stutt“ (þ.e. á stuttum lánum á lágum vöxtum – sbr að ofan) erlendis og lánuð ,,langt“ hér heima (þ.e. lánað til langs tíma hér heima svo það stemmdi við fjárflæðisgreiningu sem ,,seld“ var með dílnum). Svona var nú þetta eignasafn bankanna í grófum dráttum byggt upp og á sandi auðvitað.

Forsendur lagðar fyrir, eigið fé lagt fram á móti lánum

Á þeim forsendum, er bankinn lagði fram og fjárfestar töldu standast, var talið arðbært að fara í verkefnið. Á sömu forsendum keyptu margir nýtt hús, nýjan bíl, nýtt hjólhýsi, jafnvel sumarhús og fóru í fjárfestingar á hlutabréfamarkaði.

Flest ef ekki allt þetta fólk glataði gríðarlegu eigið fé og það gerði Bjarni Benediktsson eins og svo margir aðrir. Hann, eins og aðrir, gátu selt bréf í bönkum þegar menn töldu hættu steðja að og búa menn oft yfir misgóðum og öruggum upplýsingum eða væntingum.

Bjartsýni og brostnar forsendur við Miðjarðarhafið

Pistlahöfundur átti tal við Bjarna á þessum tíma og á þessum árum. Oft fullyrti greinarhöfundur að þetta kerfi væri að fara til fjandans. Bjarni vissi af þessum greinum sem getið er hér að framan. Hann vissi líka af því að undirritaður hafði rannsakað verðlag, sparnað og fjárfestingu í hagkerfinu hér heima og erlendis um langa hríð.

Með því að birta greinarnar var ætlun pistahöfundar að láta þig, lesandi góður, einnig vita af þessum upplýsingum sem margir segja nú að sumir vissu vegna innherjasvika. Innherjasvika? Hvernig getur það verið allt frá árinu 2004 og undirritaður ekki unnið í banka svo nokkru nemi? Þvílíkt og annað eins.

Upplýsingar vina minna og félaga gátu því alveg eins byggst á tuðinu í pistlahöfundi þegar Bjarni ákvað að selja bréf sín í Glitni banka árið 2008 á sama tíma og undirritaður var erlendis með stjórnarmanni úr bankanum og sagði bankann þegar kominn á hliðina með útskýringum á servíettu á bar við Miðjarðarhafið. Hver veit um það og hvernig er hægt að meta það? Það er bara ekki hægt og pistlahöfundur hefur ekki hugmynd um annað en allir hafi virt þessar ábendingar og varúðarráðstafanir allar að vettugi.

Ekki vantaði gagnrýnina á Davíð Oddsson þegar hann las yfir hausamótunum á útrásarhetjum Samfylkingarinnar hér rétt fyrir hrun. Því má ætla að ef lítið var hlustað á hann að ekkert hafi verið hlustað á það sem pistlahöfundur hafi fram að færa.

Hver er þá sekur?

Samfylkingin og falsheitin með VG leppum

En þá var hér flokkur sem dansaði með og það var Samfylkingin sem nú allir telja að hafi bara ekkert gert sem bætti í tap skattgreiðenda hér fyrir hrun. Eitt dæmi er t.d. hvatning fyrrverandi formanns fylkingarinnar til fólks að taka enn meira af verðtryggðum lánum Íbúðarlánasjóðs rétt fyrir hrun.

Þvílíkt hættuspil, þvílík forsjárhyggja og í raun fáviska sem það nú var.

En það var allt í boði Samfylkingarinnar ásamt VG sem átti sinn fulltrúa í Frjálsa fjárfestingarbankanum og svo má ekki gleyma stofnbréfaeigendum innan Samfylkingarinnar sem fengu sína gullnu fallhlíf eftir að núverandi formaður þessarar fylkingar hafði gefið út lögfræðiálit þess efnis að Íbúðarlánasjóður gæti hjálpað til með að stækka efnahagsreikning SPRON ofl. sparisjóða. Ekki að undra að menn vildu fela eitthvað í þeim sparisjóðum og voru tilbúnir að sólunda fjármunum skattgreiðenda til að koma ekki upp um allt sukkið þar innandyra. Jesús, María !

Þannig mátti hækka bréfin fyrir skráningu á markað, markað þar sem spilaborgin hrundi sama ár. Það var gullaldarárið 2007 en hér má sjá umfjöllun um það skelfingarástand á mbl.is: Umfjöllun.

Svo má ekki gleyma stærstu einkavæðingu innan Evrópu síðustu ár þegar VG og Samfylkingin einkavæddu Íslandsbanka og Arion banka til kröfuhafa. Þá var nú lítið um hagsmunagæslu fyrir skattgreiðendur sem höfðu lagt bæði ábyrgðir og fjármuni þar inn. Hver kemur til með að skoða það allt saman?

Bjarni Benediktsson orðinn leiður á Samfylkingunni

Eftir ræðu Bjarna í gær er pistahöfundur sannfærðari en nokkru sinni áður að hann er á réttri leið með Sjálfstæðisflokkinn. Hann er t.d. orðinn leiður á Samfylkingunni. Það eru svo margir orðnir leiðir á þeim flokki, þessari samfylkingu jafnaðarmanna að það er engu lagi líkt.

Ekki er að undra að þegar litið er yfir þinglið og ráðherrahóp þessa flokks að fólk vilji að það yfirgefi sviðið sem allra, allra fyrst og komi sér fyrir á Bifröst eða í borginni í boði Besta, næstbesta eða langbesta flokksins í skærbjartri framtíð.

Samfylkingin er ekki aðeins pólitískt afl. Samfylkingin er afl menntaelítu sem sogið hefur sig fasta á ríkisspena á síðustu árum og misserum. Samfylkingin er með á ríkisstyrkjum og í geymslu fjöldan allan af samfylkingarfyrirbrigðum eins og fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar sem kennir nú þróunarhjálp afríkuríkjum sem náðu ekki að skuldsetja sig eins og Hafnarfjörður fyrir hrun. Hann er sendur þangað suður til að koma þessu fólki í skilning um hve gott það var fyrir Hafnarfjörð að hafa hann í brúnni. Hvernig er það, fylgir ekki ástandsskoðun þessum kónum sem sendir eru utan í boði íslenska ríkisins?

Já, það er ekkert undarlegt að Bjarni sé orðinn leiður á Samfylkingunni.

Guð blessi Samfóista.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.12.2012 - 16:01 - Rita ummæli

Kryddsíldin 2012 – Bjarni leiðtoginn

Hinni ágætu Kryddsíld er að ljúka á Stöð 2. Þessi þáttur veitir sæmilegt yfirlit yfir árið í pólitíkinni og samantekt á stöðu mála í árslok. Eftir að hafa hlustað og litið á forystumenn stjórnmálasamtakanna á Íslandi, sem komu saman í Kryddsíldinni og tjáðu sig um hin ýmsu mál, stendur eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er eini leiðtoginn með einhverju viti á Íslandi í dag.

Það er ekki svo að hinir sé vitskertir eða alfarið vitlausir heldur fremur að þeirra pólitíska bakland, hin pólitíska fortíð og vænt framtíð er í molum og þar liggur vitleysan öll. Til margs er að líta í því efni en ljóst þykir að formaður Sjálfstæðisflokksins er bæði með bestu stefnuna sér að baki, tekur föstum tökum á öllum helstu málefnum líðandi stundar í stjórnmálum og rekur stoðir undir nýja framtíðarsýn íslensku þjóðarinnar með myndugleik og festu.

Evrópuumræðan í lokin á Kryddsíldinni var einkennandi hvað þetta varðar. Þar rak formaður Sjálfstæðisflokksins garnirnar úr forystumönnum ríkisstjórnarinnar sem ráfa um í Brussel eins og villuráfandi sauðir.

Þjóðin getur nú horft til framtíðar með björtum augum þar sem Bjarni Benediktsson er væntanlegur leiðtogi hennar og verðugur mjög með sterkasta baklandið í stjórnmálum á Íslandi í dag og skýrustu stefnuna þar sem atvinnumálin og hagsmunir heimila eru í forgrunni.  Þjóðin velur ólíklega sama ruglið og síðustu ár hefur riðið hér húsum og heimilum.

Við verðum að sækja fram, um það verður kosið ! (Bjarni Benediktsson, Kryddsíldin, Stöð 2, 31.12.2012)

Með þessum orðum óskar pistlahöfundur landsmönnum og lesendum hér á Eyjunni gleðilegs árs og friðar með þökk fyrir árið sem er að líða. Megi þið njóta nýja ársins í Guðs friði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.12.2012 - 09:38 - Rita ummæli

Lægstu samnefnarar Alþingis Íslendinga

Óhætt er að segja að lægstu samnefnarar Alþingis Íslendinga komi úr röðum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það hafa nú dæmin rækilega sannað.

Í gærkveldi, 30. nóvember 2012, sýndu tveir þingmenn þessara hreyfinga, sem mynda ríkisstjórn Íslands í dag, af sér mikinn og fáheyrðan dónaskap undir ræðuflutningi hins háttvirta þingmanns Illuga Gunnarssonar. Gengu þessir þingmenn á hinu háa Alþingi, sem við hin fáu leitumst við að sýna virðingu, með mótmælaspjöld fyrir framan þjóðkjörinn þingmann þegar hann flutti mál sitt.

Undir miðri ræðu Illuga um hagvöxt og spár Seðlabanka Íslands í tilefni umræðu um frumvarp til fjárlaga ársins 2013, þ.e. málefni sem afar brýnt er að ræða á þessum síðustu og verstu tímum, gengu tveir þingmenn framfyrir þingmanninn með mótmælaspjöld þar sem skrifað var á ,,málþóf“.

Hér má sjá myndband af þessu ótrúlega atviki:

Um þetta þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum en taka má heilshugar undir þau orð Illuga Gunnarssonar að þarna hafi þessir þingmenn orðið sér til minnkunar.

Kjósendur geta nú gert sér í hugarlund hvar ólátabelgi og vandræðagemlinga Alþingis er að finna. Það er framkoma af þessum toga sem undirstrikar vanda Alþingis og eina ástæðu þess að þingið er ekki að njóta þeirrar virðingar sem það á skilið frá þjóðinni.

Þrátt fyrir afsökunarbeiðni þessara þingmanna er ekki víst hvort þjóðin sé sátt, sátt við að Alþingi sé sett niður með þessari hegðun. Þjóðkjörnir þingmenn, í hvaða flokki sem er, eiga að fá notið virðingar á þessum vettvangi sem þjóðin hefur valið til langrar framtíðar sem hin helgu vé.

Rétt væri að þingflokksformenn þeirra þingflokka, sem þessir mistæku þingmenn skipa, stígi nú fram og biðjist einnig afsökunar fyrir hönd sinna fulltrúa og ítreki að ekki verði liðnir slíkir vargar  í véum á hinu háa Alþingi.

Það er reyndar huggun harmi gegn að báðir þessir ólátabelgir virðast vera að hverfa af þingi, annar eftir útreið í prófkjöri VG þar sem rétt yfir 500 tóku þátt og hinn vegna fléttulistaformgalla Samfylkingarinnar í Kraganum.

Svo er að bíða þess hverjir munu reyna að verja þetta framferði.

Gleðilegan fullveldisdag kæru lesendur.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.11.2012 - 17:18 - Rita ummæli

Suðurnesjamenn

 

Óhætt er að segja að fáir á Íslandi hafi þurft að harka meira af sér eftir hrun en Suðurnesjamenn. Verst er þó að allt sem núverandi ríkisstjórn gerir og stuðlar að hefur leitt til þess að þessu duglega fólki á Suðurnesjunum er gert erfiðara fyrir.

 

Sæmd er hverri þjóð að eiga sægarpa’ enn. / Ekki var að spauga með þá Útnesjamenn. / Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn / fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn.

 

 

Suðurnes - Reykjanesbær (Keflavík, Narðvík og Hafnir), Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar

 

Já, það er sæmd að eiga duglegt fólk í gjöfulu landi. Það er einnig sæmd að vera duglegur og tilbúinn að gefa allt í störfin sem bíða á hverjum degi, þ.e. þeirra sem hafa vinnu. Gleymum ekki heldur öllu því sómafólki sem vill vinna en er nú atvinnulaust og enginn störf eru sköpuð fyrir.

Nú spyr enginn lengur hvað ríkisstjórn Íslands er að gera til að skapa vinnu á Suðurnesjunum. Frekar er nú spurt hvað ríkisstjórn Íslands hefur verið að gera til að hamla framþróun á Suðurnesjum og hvar hún hefur staðið í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu þar og reyndar um allt land.

Tökum hér aðeins 3 dæmi:

1. Ríkisstjórn Íslands hefur áform uppi um að framlengja raforkuskatt

Undanfarin ár hefur verið mikið fjárfest á Suðurnesjum með það að leiðarljósi að hleypa að fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Hafa sveitastjórnir á Suðurnesjum unnið vel saman og leitt sama hesta sína, fólk í hvaða stjórnmálaflokki sem er, til að tryggja að uppbygging eigi sér stað. Hins vegar hefur ríkisstjórn Íslands, frá árinu 2009, lagt sig í framkróka til að standa í vegi fyrir virkjunaframkvæmdum á Suðurlandi og reynt að leggja stein í götu framkvæmda á Suðurnesjum. Eitt af því sem erlendir fjárfestar vilja ekki sjá er lagaleg og pólitísk áhætta. Óhætt er að segja að ríkisstjórn Íslands hefur gert allt til að hámarka þessa áhættu og nýlegt dæmi varðandi svokallaðan raforkuskatt er gott dæmi um þetta.  Þessi skattur var lagður á tímabundið árið 2010 og átti að falla út nú í árslok 2012. Þessu var lofað eftir að stórnotendur raforku á Íslandi gerðu samkomulag við ríkisstjórn Íslands sbr. yfirlýsingu fjármála- og iðnaðarráðuneytis auk Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda á raforku frá 7. desember, 2009. Í dag bendir ekki til annars hjá ríkisstjórninni en að ætlun hennar sé að brjóta þetta loforð.

Þetta er ekki aðeins brot á fjárfestingasamningi heldur skilaboð ríkisstjórnarinnar til fjármálamarkaða og erlendra fjárfesta, sem hug hafa á að fjármagna eða fjárfesta á Íslandi, að betra sé að bíða nýrrar ríkisstjórnar sem hefur aðrar áherslur og skýrari sem ógna ekki gerðum samningum og brjóta ekki loforð.

Hefur þetta kjörtímabil einkennst af aðgerðaleysi gagnvart Suðurnesjamönnum og aukinni áhættu fyrir fjárfesta vegna aðgerða ríkisstjórnar Íslands.

Suðurnesjamenn, rétt eins og aðrir sem greiða vilja götu erlendrar fjárfestingar á Íslandi, hafa þurft að þola ríkisstjórn sem er fjandsamleg þessum áformum öllum og framtíðarsýn.

2. Sjávarútvegur og skattur á grunnstoð atvinnulífs á Íslandi

Ofurhár og ósanngjarn skattur á sjávarútveg, sem lagður hefur verið á rekstur fyrirtækja í útgerð og þannig óbeint á tekjuflæði sveitarfélaga víða um land, er greinilega innleiddur bæði meðvitað og af vanþekkingu á mikilvægi stöðugleika í atvinnugrein eins og sjávarútvegi. Þannig er ekki aðeins verið að leggja skatt á útgerðir heldur er samhliða lagður óbeinn skattur á sveitarfélög og sjávarbyggðir sem hafa tekjur af þessum fyrirtækjum og tilsvarandi margfeldisáhrif vegna fjárfestingagetu þessara félaga og tekjumyndun sjómanna.

Það þarf svo sem ekki einhvern kjarneðlisfræðing til að átta sig á því að þegar ein grein er skattlögð umfram aðra, eins og sjávarútveg, að það veldur því að fjármunir eru dregnir af landsbyggðinni og því útdeilt á höfuðborgarsvæðinu. En það sem verra er að þarna, rétt eins og í ferðamannaiðnaði á Íslandi, er verið að skerða lífsviðurværi lítilla og meðalstórra fyrirtækja um allt land og ógna sveitarfélögum sem standa og falla með sjávarútvegi. Öll áform rekstraraðila þessara fyrirtækja, jafnvel einnig sveitarfélaga, fara út um þúfur auk þess sem stærri útgerðir og vinnslur, sem margar eru bundnar langtímasamningum um sölu afurða og kaup aðfanga, verða fyrir miklum skakkaföllum enda erfitt að finna fjármuni til að brúa bilið.

Um eða yfir 80% útgerða á Íslandi hafa keypt sinn kvóta og eru því að greiða af þeirri fjárfestingu. Það að bæta sköttum ofan á þetta og innheimta það nú með hörku ofan í væntanlegt 200 þúsund tonna framboð af þorski úr Barentshafi, sem mun væntanlega valda lækkun á þorskverðum á mörkuðum, er hreint og beint glapræði.

Suðurnesjamenn, rétt eins og allir í sjávarútvegi á Íslandi, hafa þurft að þola ríkisstjórn sem er fjandsamleg þessum áformum öllum og framtíðarsýn.

3. Skattur og gjöld á ferðamannaiðnaðinn

Ljóst þykir að áform ríkisstjórnar Íslands varðandi virðisaukaskatt og aðflutningsgjöld á bifreiðar fyrir bílaleigur á Íslandi er ekki aðeins ógn við iðnaðinn heldur einnig skelfileg innleiðing. Ferðamannaiðnaðurinn hefur ekki ráð til að bregaðast við þessu nýja útspili ríkisstjórnarinnar enda búið að ráðstafa gistinóttum, ferðum og rekstri á bifreiðum a.m.k. 20 mánuði fram í tímann. Það er búið að selja þessar nætur og leigja þessa bíla.

Hér er ekki um eðlilega framvindu mála að ræða. Hér er um skilningsleysi á þessum rekstri að ræða og þá sérstaklega á áætlanagerð fyrirtækja í ferðamannaiðnaði. Öll þessi áform munu aðeins geta valdið því að á næstu árum geti ferðamannastraumur til landsins dregist saman vegna kostnaðarauka auk þess sem aðgerðir og áform í dag varðandi 14% virðisaukaskatt (ofan í þegar áformaða og selda sumarvertíð 2013) leiðir til rekstrarlegs forsendubrests í greininni.

Keflavíkurflugvöllur er einn af grunnstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum og þar streyma hundruð þúsunda ferðamanna í gegn ár hvert. Það er afar undarlegt af ríkisstjórn að stinga þessum skatti inn í tekjustreymi fyrirtækja sem eru að vaxa og dafna eftir áratuga langa þroskasögu, uppbyggingastarf og elju þeirra sem starfa í greininni. Öllu þessu er því stefnt í voða með þessari skattastefnu ríkisstjórnar Íslands.

Suðurnesjamenn, rétt eins og allir í ferðamannaiðnaði á Íslandi, hafa þurft að þola ríkisstjórn sem er fjandsamleg þessum áformum öllum og framtíðarsýn.

 

Pistlahöfundur stendur með Suðurnesjamönnum, sem og auðvitað öðrum sem starfa í þessu umhverfi, enda ljóst að þeir hafa sjaldan sótt sjóinn í leit að lífsviðurværi sem hefur verið svo úfinn og svo háskalegur. Þar heggur sá er hlífa skyldi.

Ég vil sjá framþróun og framtíðarsýn sem gefur þessu fólki er starfar í þessum greinum byr í seglinn og tækifæri til að þróast, afla og dafna.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.11.2012 - 13:12 - Rita ummæli

Sigur Brynjars, Illuga og Hönnu Birnu

Nú má ætla að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins séu farnir að óttast um framgang sinna framboða eftir að flokksmenn Sjálfstæðisflokksins völdu sér fólk á lista í prófkjöri flokksins í Reykjavík í gær. Úrslit urðu ljós síðla kvölds og voru afgerandi.

Í fljótu bragði kemur í ljós að sigurvegarar þessa prófkjörs eru þau Brynjar Níelsson, Illugi Gunnarsson og síðast en ekki síst Hanna Birna Kristjánsdóttir sem mun leiða annan listann í kjördæminu og fékk bindandi kosningu í 1. sætið rétt eins og Bjarni Benediktsson í sínu kjördæmi. Það sem hér er fréttnæmt er að Hanna Birna hlaut 74% atkvæða í 1. sætið en Davíð Oddson hlaut um 56% atkvæða í það sæti í október 1990 eða sama hlutfall og Bjarni Benediktsson hlaut í 1. sæti í sínu kjördæmi nú nýlega.

 

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 1990 (úr Morgunblaðinu í október 1990) www.timarit.is

 

Munurinn er þó sá að Hanna Birna þurfti raunverulega að kljást aðeins við einn um 1. sætið í þetta skipti, þ.e. Illuga Gunnarsson, á meðan bæði Bjarni nú nýlega og Davíð í október 1990 þurftu að kljást við fleiri en einn en fengu engu að síður glimrandi kosningu. Þetta skiptir máli í samhengi innanhúss hjá Sjálfstæðisflokknum og þegar kemur að Landsfundi. Menn munu líta á styrk manna í hlutfalli við þann ágang sem menn hafa orðið fyrir og þann styrk sem býr að baki þegar á reynir.

 

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík 2012 - Fengið á vef Sjálfstæðisflokksins www.xd.is

 

Við þetta má bæta að Illugi Gunnarsson er eftir þetta meðal helstu leiðtoga Sjálfstæðisflokksins og er af nýrri kynslóð rétt eins og Bjarni Benediktsson og Hanna Birna. Hins vegar má sjá að Hanna Birna virðist fá mikið fylgi frá óánægðum kjósendum í Reykjavík sem hreint ekki þola Besta flokkinn og stjórnarhætti í borginni. Það óánægjufylgi styður vel við framboð Hönnu Birnu á meðan t.d. Davíð Oddsson hafði verið lengi farsæll leiðtogi í Reykjavíkurborg og var ekki á leiðinni, í október 1990, að hætta sem borgarstjóri skv. yfirlýsingum hans þá.

Raunverulegur sigurvegari gærdagsins er Brynjar Níelsson lögmaður sem fer í fyrsta sinn í pólitík, hefur lítið sem ekkert tekið þátt í stjórnmálum og fer beint í 4. sætið. Slíkur hástökkvari á heiður skilinn og sýnir þetta ótvíræðan styrk og vilja Sjálfstæðisflokksins.

Varðandi Pétur Blöndal er rétt að benda á að hann er hreint einstakur og fólk vill að rödd hans heyrist á hinu háa Alþingi. Því fólki er ég hjartanlega sammála.

Nú mega andstæðingar Sjálfstæðisflokksins fara að vara sig.

Til hamingju Sjálfstæðismenn í Reykjavík með afar frambærilegan lista.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 19.11.2012 - 18:49 - Rita ummæli

Samfylkingin og Panama norðursins?

 

Mynd fengin af www.visir.is (sjá frétt: http://www.visir.is/tuttugu-milljarda-krona-fjarfesting-verne-holdings/article/200880226071)

 

Ef við snúum okkur að fjármunum skattborgara á Íslandi, sem Samfylkingin hefur verið að deila út um borg og bý ásamt ríkisábyrgðum, er margt fróðlegt að sjá.

Nú er að poppa upp enn eitt afkvæmi Samfylkingarinnar skv. fréttum dagsins í dag.

Í tilefni þessarar fréttar er rétt að fara örstutt aftur í tímann og rifja upp söguna að baki þessu ævintýri en eins og þið vitið lesendur góðir erum við ansi fljót að gleyma. Því er rétt að fara fyrst aðeins aftur fyrir hrun þegar hér riðu hetjur um héruð með fullt rassgatið af ,,pjéníngum“ og skrautbúin skip fyrir landi er flutu með fríðasta lið, svo vitnað sé í okkar ástkæra skáld, Jónas Hallgrímsson.

En hver var þessi varningur sem þessi skip voru að flytja heim svo enn sé vitnað í ljóð Jónasar? Voru það ekki bara skuldbindingar til handa landanum, engin framleiðsla, aðeins fals, fífldirfska og frekjugangur?

Október 2007:

Áhugaverð ábending frá forstjóra Hibernia.

Í samtali við Morgunblaðið segir Bjarni að ákvörðun um lagningu Danice virðist hafa verið tekin í flýti og byggð á takmörkuðum upplýsingum enda fullyrði viðskiptavinir Hibernia Atlantic, sem séu mörg af stærstu síma- og fjármálafyrirtækjum heims, að strengur Hibernia til Írlands mundi henta þeim jafn vel eða betur en strengur til Danmerkur.

Október 2007:

Hér má sjá frétt varðandi áréttingu frá gjaldkera Samfylkingarinnar og fulltrúa Verne Holding.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Verne Holding ehf. hyggst setja upp netþjónabú, eða gagnaver, hér á landi að sögn Vilhjálms Þorsteinssonar stjórnarformanns. Hann sagði að eigendur Verne Holding ehf.

Hér kemur árétting þess efnis frá stjórnarformanni Verne Holding að Danice strengurinn yrði vandaðari strengur.

Var einhver trygging fyrir skattgreiðendur á því að þeir einstaklingar, sem þarna voru í viðskiptum, væru vandaðir, a.m.k. eitthvað vandaðari en Hibernia strengurinn sem aðeins átti að flytja ljós?

Október 2007:

Hér gefur að líta að væntanlegur viðskiptavinur (hver svo sem það var) réð ferðum hvernig sjóðum skattgreiðenda yrði varið þar sem ríkisábyrgð uppá milljarða var veitt og milljörðum dælt í verkefnið frá orkufyrirtækjum eins og Orkuveitu Reykjavíkur sem síðar kom í ljós að var blóðmjólkað fyrirtæki. Ekki má gleyma hlut Landsvirkjunnar í þessu dæmi.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Óskir Verne Holding, sem sýnt hefur eindreginn vilja til að setja hér upp netþjónabú, vógu þyngst í þeirri ákvörðun Farice að leggja frekar Danice-fjarskiptastrenginn en að semja við Hibernia Atlantic um afnot af fjarskiptastreng þeirra sem ætlunin er að leggja til Írlands. Þetta segir Steinn Logi Björnsson, en hann er bæði stjórnarformaður Eignarhaldsfélagsins Farice (E-Farice) og Farice.

Maður veltir því fyrir sér að ef viðskiptavinurinn var svo áfjáður, hví ekki að taka ábyrgðir úr hendi hans til að tryggja að ef allt færi úr skorðum að það lenti ekki á skattgreiðendum á Íslandi?

Hver var að gæta hagsmuna skattgreiðenda? Var það Kristján Möller og gjaldkeri Samfylkingarinnar? Hver var það? Var það sá sami og átti að sjá um kaup á Grímseyjarferjunni góðu? Var það sá sem sá um útboðið og áætlanagerð vegna Héðinsfjarðarganganna?

Febrúar 2008

Verne Holding kynnir netþjónabú á Íslandi

Sjá tengingu við frétt á Vísi

September 2008: 

Í þessum mánuði var ljóst að afar hagstæðu tilboði Hibernia í lagninu ljósleiðara, sem hefði tengt Ísland með lágmarks töfum (e. latency) til Evrópu og N-Ameríkju, var ekki tekið af íslenska ríkinu og frekar farið í gríðarlega fjárfestingu í lagningu í átt að smærri markaði en N-Ameríku, þ.e. Danmörku eftir áréttingu m.a. frá gjaldkera Samfylkingarinnar.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

EIGANDI Hibernia Atlantic og fyrrverandi eigandi Norðuráls á Grundartanga, Kenneth Peterson, segir að það hafi komið sér á óvart þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að ganga framhjá tilboði Hibernia um lögn sæstrengsins og leggja frekar Danice-strenginn.

September 2008

Hér segir forystumaður Bjartrar framtíðar, þá aðstoðamaður Kristjáns Möller, að það hefði bara verið ómögulegt að semja við Hibernia því skilmálar um þá ódýru lausn hefðu verið óásættanlegir.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Ekki var hægt að ganga að tilboði Hibernia, félags í eigu Kenneth Peterson sem stofnaði Norðurál á sínum tíma, í lagningu ljósleiðara milli Íslands og Evrópu vegna óviðunandi skilmála, segir Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra.

Það væri áhugavert að sjá þessa skelfilegu skilmála sem urðu til þess að mun dýrari kostur var valinn án tilsvarandi ábyrgða frá helsta og væntanlega kaupanda á ljósi á milli Evrópu og Íslands. Það gæti verið að Róbert upplýsi það fyrir skattgreiðendum fyrir næstu kosningar til Alþingis.

Febrúar 2009

Í miðju hruninu er svo gengið til samninga um að nýta 80% af Farice strengnum og hinum glæsilega nýja Danice streng sem Kristján Möller mærði eins og Vaðlaheiðagöngin í dag þar sem skattgreiðendur voru látnir taka alla ábyrgð. Í hvaða umboðsvanda voru menn hér?

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Bíðum nú við: Hvaða tryggingar lágu að baki viðskiptunum sem hér er lýst?

Á blaðamannafundi í dag skrifaði Verne Holding undir samninga við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar vegna málsins. Farice leigir Verne Holding flutningsrými á Farice-1 sæstrengnum og hinum nýja Danice-streng sem á að leggja á þessu ári. Samtals mun Verne Holdings hafa aðgang að 160 gígabitum á sekúndu eða 80 gígabitum á hvorum streng. Til samanburðar nota allir landsmenn, fólk og fyrirtæki, tæpa fjóra gígabita á sekúndu nú.

Sjá tengingu við þessa  (sjá útdrátt að ofan) frétt á Vísi

Fjáraukalög 2009

Hér kemur fram að ríkið þarf að auka hlut sinn í Farice. Hvers vegna ætli það hafi þurft ef þessir samningar hefðu verið það tryggir og eðlilegar ábyrgðir kallaðar fram og eftir þeim gengið svo að allt lenti ekki á skattgreiðendum? Hvernær verður Samfylkingin spurð að þessu?

Sjá tengingu við vef Alþingis þar sem finna má í fjáraukalögum (sjá 7.24) að ríkið bætir í og það um milljarða að öllum líkindum og tekur yfir alla áhættuna í verkinu. Hvenær verður innt eftir þessu? Fyrir næstu kosningar?

Frétt frá því í dag, 19. nóvember 2012

Jólagjöfin til skattgreiðenda í ár frá Samfylkingunni eru enn meiri greiðslur inní Farice.

Megin ástæðan er sú að Danice strengurinn var svo miklu, miklu betri en Hibernia strengurinn að við, skattgreiðendur verðum að borga miklu, miklu meira því ekki var talin ástæða til að kaupendurnir, nú eða byggjendur gagnaversins, gengust undir ábyrgðir.

Svo má ekki gleyma n.k. ,,gjöf“ ríkisins á húsnæði (enda selt á afar lágu verði og líklega undir markaðsvirði) úti á gamla varnarliðssvæðinu sem ríkið á nú í karpi út af fyrir dómstólum ytra og greiðir umtalsvert fé fyrir þau útgjöld öll, allt úr vasa skattgreiðenda.

Hér má sjá teningu við frétt í Morgunblaðinu í dag

Hvenær lýkur þessu bruðli Samfylkingarinnar?

Ætlum við skattgreiðendur að kjósa eina ferðina enn yfir okkur aðila sem sólunda fjármunum okkar?

Erum við að gefast upp á baráttunni fyrir ráðdeild í ríkisrekstri?

Hvenær verður þetta rannsakað til enda? Munu einhverjir axla ábyrð eða erum við Panama norðursins þar sem geyma má stjórnmálamenn á snaga og taka þá fram síðar og þeir eru þá ,,good as new“?

Það versta við það að innan flestra flokka eru aðilar sem stunda viðskipti af þessum toga og almenningur virðist blindur þegar kemur að prófkjörum og kosningum til Alþingis.

EIR málið er eitt gott dæmi um hugumstóra menn í Sjálfstæðisflokknum sem hafa farið illa að ráðum sínum og skilja ekkert í að svo fór sem fór. Allt gott fólk, sumt saklaust og jafnvel sært, jafnvel dálítið vitlaust.

Það er því mikið mál fyrir stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi að gefa ekki þumlung eftir í að verja hag skattborgara í stjórnarsamstarfi við flokka eins og Samfylkinguna og Framsókn eins og dæmin sanna. Þar virðist sólundað með ráðum og af ígrunduðu skipulagi þar sem unnið er markvisst gegn skattgreiðendum. Það er hættulegt, stórhættulegt pólitískt eins og dæmin sanna.

Ísland er greinilega orðið að Panama norðursins enda spillingin enn að koma í ljós þegar mörg ár eru liðin frá hruni.

Þessu er hægt að breyta en það kallar á sterka leiðtoga sem þora að tjá sig, eru séðir, ekki með aumingjaskap og stunda ekki umboðssvik stjórnmálamanns fortíðarinnar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 11.11.2012 - 10:21 - Rita ummæli

Bjarni Benediktsson kemur sterkur fram til forystu

Niðurstöður í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi benda eindregið til þess að þau Bjarni Benediktsson, Elín Hirst og Óli Björn Kárason séu sigurvegarar enda þau sem fá ein bindandi kosningu með yfir 50% atkvæða í sín sæti. Aðrir ná því ekki og eru þetta því sterkustu aðilarnir í sínum sætum á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Gunnarsson háðu baráttu um 2. sætið og hafði Ragnheiður betur auk þess að vera með flest atkvæði greidd í prófkjörinu og vinnur vissulega mikinn sigur hvað það varðar. Jón kemur afar sterkur inn í 3. sæti og er að tryggja sig vel í sessi.

Óhætt er að segja að Vilhjálmur Bjarnason hafi átt breiðan stuðning og komið sem nýliði mjög sterkur inn á listann og fór þar í 4. sæti. Elín Hirst kemur inn sem einn sterkasti nýliðinn enda með bindandi kosningu í sitt sæti sem skiptir miklu máli.

Það er áhugavert að sjá hve Sjálfstæðisflokkurinn kemur vel út úr þessu prófkjöri og hve formaðurinn er sterkur þrátt fyrir að að honum hafi verið sótt af ómerkilegum fjölmiðlamönnum sem yfirleitt hafa ósannindi að leiðarljósi og beita lygamörðum sem vopni í sinni baráttu fyrir veikum málstað. Hins vegar sjá Sjálfstæðismenn þetta fyrir og hafa valið sér sterkann mann til forystu sem fyrr.

Ef listi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi er borinn saman við niðurstöðu úr prófkjöri Samfylkingarinnar kemur í ljós mun vænlegri listi hjá Sjálfstæðismönnum en þar var til um helgina á vinstri vængnum.

Listi Samfylkingarinnar er ekki listi Suðvesturkjördæmis heldur Kópavogs eftir að hinum mæta eðalkrata úr Hafnarfirði, Lúðvíki Geirssyni, var ýtt niður um sæti vegna kynjakvóta. Eftir stendur að í efstu sætum lista Samfylkingarinnar í Kraganum eru hvorki eðalkratar né aðrir en hið vænsta fólk úr Kópavogi sem þar skipar nú þrjú efstu sætin.

Kynjakvóti, sem orðinn er afar vinsæll innan Samfylkingarinnar þegar það hentar, virðist hér koma í veg fyrir að Hafnfirðingar fái sinn mann á lista Samfylkingarinnar í vænt þingmannssæti. Heyrst hefur úr herbúðum eðalkrata að nú sé kominn tími til að taka upp kratakvóta svo tryggja megi að þeir fáu eðalkratar, sem eftir eru í Samfylkingunni, fái sæti á fléttulistum framtíðarinnar.

Niðurstaða helgarinnar er því sú að Sjálfstæðisflokkurinn er með mun betri niðurstöðu en Samfylkingin sem kaus sér Kópavogslista í rafrænu og ópersónulegu prófkjöri.

Bjarni Benediktsson er því vel að þessu kominn og tekur nú brátt við stjórn landsmála, sem betur fer.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.11.2012 - 11:20 - Rita ummæli

Allratap miðju- og vinstrimanna

Jón Steinsson, dósent í hagfræði, ritaði nýlega áhugaverðan og málefnalegan pistil undir yfirskriftinni Frelsi og hagsæld hér á Eyjunni. Var þá tími til kominn enda hefur Stefán Ólafsson, prófessor, riðið um netheima með allt annað en málefnalegar greinar og pistla varðandi frelsið, velsæld og jöfnuð.

Í pistli sínum vísar Jón m.a. í ræðu sem Gunnlaugur Jónsson flutti á aðalfundi Frjálshyggjufélagsins fyrir skömmu en megininntak hennar var að frjálshyggja væri ekki öfgastefna heldur ,,hin sanna miðjustefna“.

Í dæmi sínu fór Jón yfir það að í frjálsu kerfi innan heilbrigðismála myndi sá sem ræki einkatryggingakerfi ávallt lenda í því að sitja uppi með sjúkustu einstaklinganna sem síðar munu ekki hafa efni á að greiða fyrir þjónustu sem yrði mjög dýr og því fælist ekki jöfnuður í slíku kerfi. Hins vegar játar Jón því að í mörgum tilvikum fer aukið frelsi vel við aukna hagsæld. Ekki var talið hér á árum áður nokkut vit í því að auka frelsi og þannig velsæld neytenda t.a.m. með frjálsum fjölmiðlum. Spruttu margir vinstri- og miðjumenn upp til að mótmæla því sem og afléttingu bjórsölubanns á Íslandi svo fáein dæmi séu nefnd. Við hægri menn kölluðum þetta og köllum enn forsjárhyggju enda er þetta ekkert annað.

Eitt sem gleymist hjá Jóni er umfjöllun um umframbyrði, þ.e. það sem oft er kallað allratap. Það sem Jón á að vita, en velur að upplýsa lesendur sína ekki um, er að þegar einokun ríkir verður til óskilvirni á framboði og eftirspurn eftir vöru eða þjónustu og er kjörstöðu því ekki náð (svokallaðri Pareto-kjörstöðu). Því kaupir fólk vörur eða þjónustu en hlýtur ekki ábatann þegar aðili í einokunaraðstöðu, eins og RÚV ofl., beitir sér á markaði eða nýtir ríkisvaldið til að þvinga þegna sína og fyrirtæki til að greiða skatt sem nýttur er til niðurgreiðslu á lélegri rekstrareiningu, t.a.m. innan ríkisins. Hvers vegna bendir Jón ekki á þetta? Líkur eru á að það geri hann ekki frekar en Stefán því slíkt hentar greinilega ekki málstaðnum eða þeim hagsmunum sem skrifað er fyrir.

 

Mynd fengin úr glærusafni hagfræðideildar Háskóla Íslands

 

Miðju- og vinstrimenn eru því tilbúnir að leggja á skatta sem almenningur og fyrirtæki greiða til ríkisins, ásamt umtalsverðum eftirlitskostnaði og yfirbyggingu, svo halda megi upp einokun gegn þeim sjálfum. Í fyrsta lagi verður þetta til þess að neytendaábatinn er minni en ella og allratap (þ.e. það sem allir tapa á og er umframbyrði vegna markaðsbrests) er í hámarki.

Það sem hægri menn vilja er að hámarka ábata neytenda og lágmarka alltratap. En svo virðist sem bæði Jón og Stefán vilji einmitt lágmarka ábata neytenda og hámarka allratap.

Ef við bætum aðila á markaðinn í samkeppni við hinn sem fyrir er má sjá umtalsverða breytingu. Benda má lesendum á að þetta efni er kennt í fyrstu kúrsum í hagfræði við alla háskóla heims en virðist talið óþarft að benda á í þessu samhengi af hálfu bæði Jóns og prófessors Stefáns.

 

Mynd fengin úr glærusafni hagfræðideildar Háskóla Íslands

 

Hér má sjá að vegna áhrifa samkeppninnar á markaði eykst neytendaábatinn og allratap er lágmarkað auk þess sem verð sambærilegrar vöru og þjónustu, sem kemur ný á markaðinn, lækkar verð. Því vekur það furðu að þegar litið er á tölfræðiútlistun Jóns Steinssonar hagfræðings virðist hann fremur hallur undir ofbeldið af hálfu miðju- og vinstrimanna sem einkennist af því að auka skattlagningu og hámarka allratap samfélagsins.

Það sem einnig gleymist hér er að neytendur láta ekki að sér hæða og hafa fundið fyrir þessu síðustu árin eftir miklar skattahækkanir ríkisstjórnar Íslands. Þeir þekkja því vel orðið ofbeldið frá vinstri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur