Evrópudeild Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar WHO hefur mótað nýja stefnu í heilbrigðisþjónustu sem nefnd er Health 2020. Þar er lögð áhersla á, að aðildarríki stofnunarinnar vinni að samræmdum aðgerðum og sameiginlegri stefnu með það að markmiði að styrkja heilbrigðisþjónustu landanna í samvinnu við notendur – sjúklinga og aðstandendur þeirra – og blása nýju lífi í starf heilbrigðisstofnana.
Notendamiðað heilbrigðiskerfi
Meginmarkmið stefnunnar er að auka áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra á lækningu og meðferð sjúkra og deyjandi. Hærri lífaldur, áhrif mengunar og umhverfis á heilsufar, breyting á búsetu, efnahagsleg mismunun og minna fjármagn til heilbrigðisþjónustu í kjölfar óreiðu í fjármálaheiminum hafa gert slíka stefnumótun enn meira aðkallandi en áður. Þá hafa tækniframfarir, ekki síst á sviði samskiptatæki, aukið kostnað við heilbrigðisþjónustu, en jafnframt opnað nýjar leiðir til að samþætta ólíkar greinar og auka samstarf heilbrigðisstofnana um alla álfuna. Einnig hefur almenningur vegna aukinnar þekkingar gert kröfu um gagnsæi á öllum stigum heilbrigðiskerfisins og krafist aukinna áhrifa á mótun þess og rekstur.
Heilbrigðisþjónusta frá vöggu til grafar
Heilbrigðisþjónusta frá vöggu til grafar er einn af grunnsteinum samfélagsins. Alþingi hefur látið undir höfuð leggjast að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum við breyttar aðstæður, s.s. breytingar á búsetu, breytta atvinnuhætti, breytt mataræði andspænis þeirri dýru en dýrmætu staðreynd að fólk lifir lengur. Nýir sjúkdómar hafa komið fram vegna breyttra samskipta, breyttra viðhorfa og breyttra lifnaðarhátta. Mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum á Íslandi er því knýjandi nauðsyn þar sem tillit er tekið til breytta þarfa og breyttra viðhorfa undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.
Ný heilbrigðis- og velferðaráætlun
Á síðasta Alþingi lagði velferðarráðherra fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisáætlun til ársins 2020, en fyrri áætlun rann út 2010. Ekki gafst tími til að ljúka umræðu og samþykkja þessa heilbrigðisáætlun. Það vekur furðu og veldur vonbrigðum að svona skuli staðið að málum í íslensku velferðarsamfélagi: að heilbrigðisáætlun, sem átti að leysa af hólmi fyrri heilbrigðisáætlun, skuli lögð fyrir Alþingi tveimur árum eftir að hin fyrri féll úr gildi.
Nauðsynlegt er að þegar í stað verði mótuð ný heilbrigðis- og velferðaráætlun þar sem tekið er tillit til nýrra viðhorfa. Aðkallandi er því að Alþingi samþykki nýja heilbrigðis- og velferðastefnu sem mótuð er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi. Í hinni nýju heilbrigðis- og velferðaráætlun þarf að auka forvarnarstarf og efla þjónustu heilsugæslu og breyta áherslum með auknu aðgengi að ráðgjöf, bæði hjúkrunarfræðinga, lækna, næringarráðgjafa, sálfræðinga og annarra sérfræðinga á sviði heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan þarf einnig að taka ábyrgð á eftirfylgni og stuðningi við þá sem greinast með lífsstílssjúkdóma eða eru í áhættuhópi og þurfa á einhvern hátt að breyta lifnaðarháttum sínum.