Eftir að hafa hlustað á viðtal Gísla Marteins við forsætisráðherra í morgun get ég tekið undir orð Gísla Marteins – “Vá, furðulegt viðtal” – ekki aðeins vegna þess hvað forsætisráðherra sagði og gerði – heldur ekki síður vegna þess hvernig Gísli Marteinn hegðaði sér.
Sem gamall fréttamaður á gömlu Fréttastofu gamla Ríkisútvarpsins furða ég mig á sífelldum framíköllum Gísla Marteins og stöðugum tilraunum hans til þess að túlka orð forsætisráðherra. Vikulega horfi ég á sambærilega þætti í danska og norska sjónvarpinu og slík framkoma þáttastjórnenda þar er bæði óþekkt og óhugsandi. Þar stunda þáttastjórnendur ekki orðaskak við viðmælendur sína heldur reyna að kasta ljósi á viðfangsefnið og sýna virðingu.
Þrætubókarlist kemur sennilega til með að einkenna íslensk átakastjórnmál enn um hríð.