Laugardagur 12.07.2014 - 19:43 - FB ummæli ()

Á Glæsivöllum

Samdóma álit flestra sem kynnst hafa stjórnmálaumræðu á Norðurlöndum, að umræðuhefð á Íslandi sé afar frumstæð.  Þegar við frumstæða umræðuhefð bætist, að fjölmiðlar eru vanmegnugir – og sumir hlutdrægir – er ekki við því að búast að stjórnvöldum sé veitt það aðhald sem nauðsynlegt er, enda helst íslenskum stjórnmálamönnum uppi málróf og blekkingar sem líðast ekki í nágrannalöndunum. Þarf naumast að nefna dæmi – svo mörg sem þau eru frá umliðnum dögum.

Nokkrir pistlahöfundar dagblaðanna skera sig þó nokkuð úr, ekki síst Styrmir Gunnarsson, reyndasti blaðamaður á Íslandi.  Í dag – laugardag – skrifar hann grein í Morgunblaðið sem öllu hugsandi fólki er vert að lesa.  Greinina nefnir hann Af Glæsivöllum samtímans. Vitnar hann í kvæði Gríms Thomsen Á Glæsivöllum, kvæði sem eigi ekki síður við nú en þegar það var ort. Í kvæðinu segir m.a.

 

Á Glæsivöllum aldrei

með ýtum er fátt,

allt er kátt og dátt,

en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,

í góðsemi vegur þar hver annan.

Í upphafi greinarinnar segir Styrmir:

Í kjölfar hrunsins töldu margir að sá atburður mundi hafa grundvallaráhrif til breytingar á hugarfari fólksins í landinu, verðmætamat okkar og afstöðu til þess hvað skiptir máli í lífinu. Það var ekki fráleitt að ætla að það gæti gerzt. Örlagaríkis atburðir í lífi einstaklinga hafa slík áhrif eins og margir þekkja af sjálfum sér. Ótímabær andlát og alvarleg veikindi breyta afstöðu fólks til umhverfis síns.

Náttúruhamfarir geta haft sömu áhrif. Eldgosið í Vestmannaeyjum hefur haft varanleg áhrif á líf fólksins sem þar bjó og varð að yfirgefa heimili sín í flýti þá nótt og mun marka líf fólks sem þar býr nú og eftirkomenda þeirra um langa framtíð. Hið sama má segja um snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík.

Tvær heimsstyrjaldir á 20. öldinni hafa haft varanleg áhrif á sálarlíf Þjóðverja. Þeir fara fram af varkárni og eru tregir til þátttöku í hernaðaraðgerðum og leita enn svara við þeirri spurningu, hvernig hæamenntuð menningarþjóð gat komið fram við gyðinga á þann veg, sem gert var.

Kannski er oft snemmt að staðhæfa nokkuð hvor og þá hvaða áhrif hrunið hefur haft á sálarlíf okkar Íslendinga. Það er ljóst að við sem þjóð misstum sjálfstraustið um skeið, það sjálfstraust sem, sem veitti okkur kjark til að stofna eigið lýðveldi og vilja til að standa á eigin fótum. Sumir töldu ráðlegt að hlaupa í skjól Evrópusambandsins. Kannski verður tímabært að gera þetta upp á 10 ára afmæli hrunsins 2018, þegar við höldum up á 100 ára afmælis fullveldisins, sem við fögnum 1. desember 2018.

En getur það verið að það sjáist vísbendingar um að við séum að ganga of hratt um gleðinnar dyr á nýjan leik?

Í lok greinar sinnar segir Styrmir Gunnarsson:

Það er hægt að bregðast við hruninu haustið 2008 með því að vinna markvisst að því að endurreisa það samfélag sem hér var orðið til 2007, byggja hvert stórhýsið á fætur öðru, selja allt sem hægt er að selja og hylla stórfyrirtækin, sem birta gífurlegar hagnaðartölur, sem lítil innistæða reynist að vísu að vera fyrir, þegar upp var staðið.

En það er líka hægt að læra af reynslu annarra þjóða, sem hafa orðið fyrir miklum áföllum og dregið rétta lærdóma af þeim.

Þessi orð Styrmis Gunnarssonar eru umhugsunarverð. Stóra spurningin er því: Á að endurtaka Hrunadansinn frá 2007 – eða á að reisa nýtt Ísland.

 

           

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar