Laugardagur 17.01.2015 - 18:17 - FB ummæli ()

Ofstæki, ofbeldi og mannfyrirlitning

Ástæða er til að fordæma morð og ofbeldi íslamista hvar sem er í heiminum, svo og allt annað ofbeldi, ofstæki og mannfyrirlitningu. Miskunnarleysi íslamskra ofstækismanna gagnvart börnum og konum og öðru saklausu fólki er óskiljanleg mannvonska og mannfyrirlitning og þyngri en tárum taki. Sorglegt er að horfa upp á að “alþjóðasamfélagið” er vanmáttugt gagnvart þessu ofbeldi – eins og mörgu öðru ofbeldi.

Enda þótt miskunnarleysi, mannvonska og ofbeldi séu ekki ný af nálinni og hafi fylgt manninum frá því sögur hófust og mörg tímabil mannkynssögunnar séu drifin morðblóði, virðist samtíminn ekki ætla að reynast betri en önnur blóðug tímabil sögunnar, þrátt fyrir aukna menntun, sem svo er kölluð, aukna víðsýni, sem talað er um, og aukið alþjóðlegt samstarf. Vegna aukins alþjóðlegs samstarfs eru ýmsir farnir að tala um jörðina sem “heimsþorpið”, sem er algert öfugmæli.

Í “þorpinu” þekkja allir alla, skilningur og samhjálp eru þar fyrir hendi og góðvild. Þetta þekki ég úr þorpinu þar sem ég ólst upp, þótt ýmislegt mætti þar betur fara. Í “heimsþorpinu” er skipulega ýtt undir mismunun og misrétti og æðsta markmið margra valdhafa virðist vera aukin völd, aukinn aður af fjármagni og aukin hagsæld fárra – ekki frelsi allra, jafnrétti allra, bræðralag allra og vesæld allra.

Mistök hins vestræna heims – lýðræðisríkjanna, sem svo nefna sig – eru mikil og margvísleg, að mínum dómi. Eftir morð íslamskra ofbeldismanna á starfsfólki skopmyndablaðsins CHARLIE HEBDO á dögunum, sameinuðust margir þjóðarleiðtogar – og allur almenningur á Vesturlöndum að fordæma þessi ódæði. En hvers vegna heggur blaðið CHARLIE HEBDO áfram í sama knérunn – heldur áfram skopi sínu og háðsglósum um spámann Múhameðstrúarmanna? Það er mér óskiljanlegt.

Hvað liggur hér að baki? Er ekki ástæða til þess að hugsa sitt ráð – hugsa sig tvisvar um, læra af reynslunni? Það virðist hið gamla blað mitt Jyllandsposten hafa gert. Eru líka ekki önnur svið mannlífsins og samfélags mann sem mætti fjalla um á skoplegan hátt til þess að fá fólk til þess að hugsa – eða er þetta skop ef til vill eitthvað annað en skop? Hvað svo sem því líður, er þetta er ekki leiðin til sátta og aukins skilnings í „heimsþorpinu“ – ef menn vilja þá leita sátta.

Framkoma af þessu tagi er ekki í anda leiðtoga kristinna manna sem boðaði kærleika, sátt, umburðarlyndi og fyrirgefningu sem margar vestrænar lýðræðisþjóðir telja sig fylgja. En skopmyndablaðið CHARLIE HEBDO mun ekki vera að útbreiða kristinn boðskap um sátt og fyrirgefningu heldur segist blaðið vera að standa vörð um tjáningarfrelsið, sem svo er kallað, en tjáningarfrelsi felst ekki í því að sverta annað fólk, skoðanir þess eða trú.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar