Skömmu fyrir páska horfði ég á beina útsendingu frá Alþingi. Það var sorgleg sjón og raunalegt á að heyra. Ráðherrann, sem sat fyrir svörum, grúfði sig yfir smátölvu og leit sjaldan upp en kallaði fram í fyrir ræðumönnum sem þuldu yfir honum skammir og kröfðu hann sagna, en fengu ekkert svar og ekkert var um málefnalegar umræður.
Clement Attlee, forsætisráðherra Breta á árunum eftir seinna stríð, sagði að lýðræði væri stjórnarform sem reist væri á umræðu. Jawaharlal Nehru, forsætisráðherra Indlands til 1964, sagði að lýðræði væri leið að marki, ekki markmiðið sjálft. Þorbjörn Broddason prófessor lét svo um mælt í umræðuþætti í RÚV 1997, að lýðræði án upplýsingar væri verra en ekkert lýðræði.
Á hinu kalda Roklandi er lýðræðisleg – málefnaleg umræða af skornum skammti. Ráðandi stjórnmálamenn virðast ekki gera sér grein fyrir, að lýðræði er leið að marki – ekki markmiðið sjálft – og að upplýsingar um mikilsverð mál eru grundvallaratriði. Forsætisráðherra virðist leitast við að sundra þjóðinni með aðgerðum sínum og ummælum og fjármálaráðherra svarar aðfinnslum stjórnarandstöðunnar með því að benda á, að núverandi stjórnarflokkar hafi meirihluta á Alþingi – og ráði því málum. Þetta ber ekki vitni um lýðræðislegan skilning og lýðræðisleg viðhorf.
Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík í nóvember 2010 um nýja stjórnarskrá. Fundinn sátu nær eitt þúsund manns á aldinum frá 19 ára til níræðs af landinu öllu þar sem kynjaskipting var nánast jöfn. Fundurinn komst að niðurstöðum, sem vonir stóðu til að nýtast mundu stjórnlagaþingi við vinnu að nýrri stjórnarskrá, sem enn hefur ekki orðið – en verða mun eftir næstu alþingiskosningar.
Grundvallaratriði í niðurstöðum Þjóðfundarins var, að almenningur fengi aukna aðkomu að þjóðmálum með lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem rafræn tækni yrði notuð, en rafræn tækni á eftir að knýja fram lýðræðislegar umbætur og stuðla að beinu lýðræði, leysa af hólmi úrelt viðhorf og úrelt vinnubrögð og auka, gagnsæi lýðræði og traust.