Mánudagur 23.11.2015 - 13:49 - FB ummæli ()

Sundrungarvaldur

Enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar Grímsson þjónað eigin lund í stað þess að þjóna grundvallarhlutverki forsetaembættisins: að vera sameiningartákn allrar þjóðarinnar og hógvær og friðflytjandi sem talar af reynslu og þekkingu.

Með því að láta orð falla í þá veru, að mesta ógn okkar tíma sé öfgafullt íslam og vandinn verði ekki leystur með barnalegri einfeldni vekur hann sundrungu og tortryggni og hefur þá gleymt fyrri orðum sínum: að hlýnun jarðar væri mesta ógn mannkyns, eins og hann sagði í sumar leið.

Ólafur Ragnar Grímsson hlýtur einnig að tala gegn betri vitund sem gamall prófessor í stjórnmálafræði, að ekki sé minnst á þekkingu sem hann á að hafa hlotið með stjórnmálastarfi sínu: í miðstjórn Framsóknarflokksins, formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, formaður framkvæmdastjórnar og formaður Alþýðubandalagsins, fulltrúi á þingi Evrópuráðsins, ritstjóri Þjóðviljans og forseti alþjóðlegu þingmannasamtakanna Parliamentarians for Global Action, svo eitthvað sé nefnt.

Á grundvelli þessarar þekkingar ætti Ólafur Ragnar Grímsson og sem gamall jafnaðarmaður að vita að mesta ógn heimsins er misrétti, mismunun, fátækt og umkomuleysi milljóna manna og auðsöfnun í skjóli hervalds.

Fyrir áratug var gerð athugun á fjölda múslíma í Danmörku. Í ljós kom að um 200 þúsund múslímar væru búsettir í landinu. Þar af voru um 20 þúsund taldir trúaðir múslímar, þ.e.a.s. iðkuðu daglega trúarathafnir múslíma, en um 2000 – tvö þúsund – sem kalla mætti rétttrúaða múslíma – fúndamentalista. Af þessum 2000 væru innan við eitt hundrað sem talist gætu ofstækisfullir múslímar.

Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um múslíma eru því röng á saman hátt og ef sagt væri að mesta ógn okkar tíma sé öfgafull trú kristinna manna. Vandi heimsins verður sannarlega ekki leystur með barnalegri einfeldni og því síður með heimskulegum ummælum, óvarlegum orðum og sundrungartali.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar