Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi forsætisráðherra, hefur enn vakið máls á því að reisa nýjan landspítala við Vífilsstaði, enda þótt fyrir liggi hönnun að nýjum og glæsilegum Landspítala við Hringbraut í hjarta höfuðborgarsvæðisins í næsta nágrenni Reykjavíkurflugvallar, sem ekki hverfur næsta aldarfjórðung, og í næsta nágrenni Háskóla Íslands, Íslenskrar erfðagreiningar, Háskóla Reykjavíkur og aðrar miðstöðvar vísindalegra, akademískra rannsókna – að ekki sé nú talað um, að þegar er hafin bygging á nýjum landspítala, spítala fyrir alla landsmenn, með stuðningi heilbrigðisráðherra.
Gert er ráð fyrir að spítalinn rísi í áföngum eftir því sem fjármagn leyfir, en skortur hefur verið á fjármagni til heilsugæslu og til menntakerfis eftir að ríkisstjórn – undir forystu nefnds Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar – lækkaði veiðigjald á útgerðarfyrirtækjum um milljarða sem nægt hefðu til að reisa nýjan landspítala á tveimur árum.
Óskiljanlegt er hvað vakir fyrir núverandi forsætisráðherra með þessu útspili, en vafalítið liggja duldir hagsmunir að baki, nema þetta sé eitt af undarlegum hugmyndum núverandi forsætisráðherra. Meðan hann skýrir ekki hugmyndir sínar á skiljanlegan hátt, tel ég þetta heimskulegt asnaspark sem ekki verður til annars en sundra þjóðinni og seinka nýjum landspítala.
Ef forsætisráðherra er hins vegar megnugur þess að skaffa fé til þess að hanna og reisa nýja landspítala á fáum árum, væri gott fyrir okkur félaga í samtökunum „Spítalinn okkar“ að fá að vita af þeim töfrabrögðum hans og þeirra flokksfélaga hans sem dregið hafa lappirnar í þessu máli frá upphafi.