Í dag er til moldar borinn frá Grundtvigskirken á Bispebjerg Kaupmannahöfn Anker Jørgensen, fyrrum forsætisráðherra Dana og formaður Det Socialdemokratiske Parti. Anker Henrik Jørgensen fæddist á Christianshavn 1922. Faðir hans var kúskur, vörubílstjóri þess tíma, og móðir hans ræstitæknir, rengøringsdame. Báðir foreldrar hans dóu úr berklum þegar hann var barn að aldri og ólst hann upp hjá móðursystur sinni.
Anker Jørgensen gekk í Det Kongelige Vejsenhus Skole, sem stofnaður var 1727 fyrir börn fátækra foreldra, en lauk ekki prófi, heldur gerðist sendill og síðar lagermaður, tók á árum síðari heimstyrjaldarinnar virkan þátt í andspyrnuhreyfinunni og var árið 1968 kjörinn formaður félags ófaglærðra verkamanna, Dansk Arbejdsmands- og Specialarbejderforbund.
Eftir að Danir gengu í Evrópusambandið árið 1972 Anker tók við starfi forsætisráðherra eftir að Jens Otto Krag sagði óvænt af sér. Átti Anker Jørgensen fyrir höndum erfiða tíma í kjölfar olíukrísunnar og átaka heima og heiman á áttunda og níunda áratug aldarinnar. Um starf sitt sem forsætisráðherra skrifaði hann í bókunum: Bølgegang, Fra mine dagbøger 1972-75 (1989), I smult vande, Fra mine dagbøger 1975-77 (1989) og Brændinge, Fra mine dagbøger 1978-82 (1990). Þá skrifaði hann minningar sínar sem hann kallaði Fra Christianshavn til Christiansborg. Erindringer 1922-1972 (1994).
Í viðtali var eftir honum haft „at demokrati er simpelthen kompromisser” – lýðræði felur í sér málamiðlanir. Ritt Bjerregaard, sem lengi starfaði með Anker Jørgensen sagði um hann: „Ingen greb ham i at sige usandt og han vidste hvad det er ægte og hvad det er uægte”: Enginn stóð hann að því að segja ósatt, hann vissi hvað var ekta og hvað var óekta. Í eftirmælum hefur Anker Jørgensen verið kallaður forsætisráðherra fólksins. Þetta eru góð eftirmæli.