Íslensk umræðuhefð
Margir telja hluta vandans sem við Íslendingar eigum við að stríða, megi rekja til umræðuhefðar sem þróast hefur á Íslandi, umræðuhefð sem einkennist af kappræðu í stað samræðu. Í þessari umræðuhefð er lögð áhersla á að sanna að viðmælandinn – «andstæðingurinn» hafi rangt fyrir sér og algengt að gera lítið úr honum, gera honum upp skoðanir og nota háð, útúrsnúninga og sleggjudóma.
Fréttaskýringar
Einstaka fréttamenn og þáttastjórnendur í útvarpi og sjónvarpi nota svipaðar aðferðir, sýna takmarkaða tillitssemi en vilja láta ljós sitt skína, grípa fram í fyrir viðmælendum og reyna sauma að þeim í stað þess gefa þeim kost á að skýra mál sitt í friði, eins og gert er í umræðuþáttum í sjónvarpi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Sumir þessara fréttamanna leitast við að fá viðmælandann til þess að viðurkenna að hann hafi rangt fyrir sér – sé „sekur”. Stundum eru þessar viðræður fremur áróður en upplýsingaöflun eða fréttaskýring og gjarna nefnd aukaatriði málsins en aðalatriðum gleymt. Oft er sama fólkið fengið að segja álit, þótt þá sé hugsanlega vegna mannfæðar sem gerir okkur Íslendingum erfitt að vera alvöru þjóð – þjóð sem getur staðið undir sjálfstæðu þjóðríki.
Námsskrá í lýðræði
Það eru gömul sannindi – og ný, að við sjáum aðeins það sem við viljum sjá, og skiljum aðeins það sem við viljum skilja – eða eins og sagt var fyrir tvö þúsund árum: „Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.”
Hlutverk skólanna – allt frá leikskólum til háskóla – er að auka þekkingu, skilning, viðsýni og umburðarlyndi og búa nemendur undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi – því að það er lýðræði sem við stefnum sem felur í sér jafnræði á öllum sviðum og meðal allra. Skólarnir hafa reynt þetta, en betur má ef duga skal. Næst á eftir því að gera ungu fólki kleift að eignast íbúð með eðlilegum kjörum, reisa nýjan landspítala strax og koma heilsugæslu á landinu í sæmilegt horf, þarf þegar í stað að semja námsskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla í lýðræði og málefnalegri umræðu, m.a. á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis og niðurstöðu Þjófundarins 20009. Einkunnarorð námsskrárinnar ættu að vera latnesku orðin Audiatur et altera pars: Hlustaðu einnig á aðra.