Mánudagur 30.01.2017 - 19:05 - FB ummæli ()

Umboðsmaður eldri borgara

Brýna nauðsyn ber til þess að Alþingi stofni þegar í stað embætti umboðsmanns eldri borgara. Til þess liggja margar ástæður.  Í fyrsta lagi er aðbúnaði og umönnun aldraðra í mörgu ábótavant hér á landi, enda þótt víða sé vel unnið og af fagmennsku.  Í öðru lagi segir umönnun aldraðra mikið um menningarástand þjóðar á sama hátt og umönnun barna.  Í þriðja lagi hafa þeir, sem nú eru aldraðir, skapað velferðarríkið Ísland sem er meðal fremstu velferðarríkja heims, en fyrir 200 árum var Ísland eitt fátækasta land í Evrópu.  Í fjórða lagi þarf með þessu að skapa virðingu fyrir eldra fólki, virðingu sem byggð er á skilningi, en víða skortir mjög þennan skilning.

Samtök eldri borgara í Danmörku, Ældre Sagen, hefur gert kröfu um að stofnað verði embætti umboðsmanns eldri borgara og bent á umboðsmann barna þar í landi.  Svipað er uppi á teningnum hjá norsku samtökum eldri borgara, Seniorsaken, sem stofnuð voru með það að markmiði að vinna gegn mismunun og fordómum, sem eldri borgarar verða fyrir þar í landi, eldrediskriminring, og neikvæðri afstöðu til elda fólks.  Auk þess leggja samtökin mikla áherslu á að tryggja góða heilsuþjónustu fyrir eldri borgara, þar sem borin er tilhlýðileg virðing fyrir gömlu fólki, en á það skorti víða í Noregi.  Ennfremur leggja samtökin áherslu á að reistar verði hentugar íbúðir fyrir aldraða, en 60% aldraðra í Noregi vilja búa í íbúðasamstæðum fyrir aldrað fólk með svipuðu sniði og Grund er að reisa í Mörkinni við Suðurlandsbraut í Reykjavík sem sérstaklega eru hannaðar með þarfir aldraðra í huga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar