Nýafstaðnar Alþingiskosningar eru eftirtektarverðar um margt. Eftirtektarverðasta niðurstaða kosninganna er að mínum dómi sigur Flokks fólksins þar sem einlægni og hreinskilni Ingu Sæland olli straumhvörfum, en Þjóðfundurinn 2010 gerði orðin mannréttindi, menntun og heiðarleiki að helstu kjörorðum sínum.
Óhreinu börnin hennar Evu
Flokkur fólksins hefur m.a. vakið athygli á „óhreinu börnunum hennar Evu”, öryrkjum og fátæku fólki, sem hefur ekki átt sér formælendur í öðrum flokkum. Samkvæmt rannsóknarskýrslu UNICEF á Íslandi frá því í fyrra, líða 9% íslenskra barna skort, og það eru um 600 börn og þar af eru um 1600 börn sem líða verulegan skort og eru t.a.m. svöng í skólanum og fá ekki að borða með hinum börnunum af því að foreldrar þeirra hafa ekki efni á að greiða fyrir skólamáltíðir. Þetta eru börn sem geta ekki stundað íþróttir, lært á hljóðfæri eða eignast ónotuð föt. Þetta eru börnin sem mörg hver lifa við erfiðar aðstæður heima og hafa ekki náð augum stjórnvalda sem ekki hafa séð ástæðu til að skera upp herör gegn þessum sorglegu aðstæðum. Nú hefur fártækt fólk og öryrkjar eignast málsvara á Alþingi.
Inntak lýðræðis
Annað sem fagna má er breytt umræða og breytt viðhorf. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna bendir á að „stjórnmál snúist ekki um meirihluta og minnihluta,” heldur að sjónarmið allra fái að heyrast. Lengi hefur meirihlutinn á Alþingi virt að vettugi skoðanir minnihlutans eins og einn fulltrúi meirihlutans á síðasta þingi sagði: „Við erum í meirihluta og við ráðum.” Þetta er í hæsta máta ólýðræðislegt að naumur meirihluti virði minnihlutann að vettugi. Lýðræði felur í sér að raddir allra heyrist.
Kominn er tími til að að ræða saman og finna skynsamlegar leiðir til að leysa hin stóru vandamál, finna sameiginlega leiðir til úrlausnir með því að tala saman. Það er kominn tími til að við hrekjum orð Halldórs Laxness í Innansveitarkróniku: Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.
Sameinuð stöndum við, sundrum föllum við
Sjálfstæðimenn notuðu á sínum tíma vígorðið „Sameinaðir sigrum við, sundraðir föllum við,” sem nú ætti að heita: Sameinuð stöndum við, sundrum föllum við, en í frelsissöng Bandaríkjanna segir: The Liberty song, eftir John Dickinson [1732-1808], sem ortur var 1768 hefst á orðunum: Then join in hand, brave Americans all, By uniting we stand, by dividing we fall, orð sem eiga sér sögu allt til hins forna Rómarveldis. Þessi orð eiga nú brýnt erindi til allra íslenskra stjórnmálamanna.