Föstudagur 25.05.2018 - 17:59 - FB ummæli ()

Hvað mun veröldin vilja?

Í tilefni kosninga til sveitastjórna á morgun og atburðanna úti í hinum stóra heimi langar gamlan barnakennara og siðaprédikara að norðan að minna á upphaf ádeilukvæðisins Heimsósómi eftir Skáld-Svein þar sem segir:

Hvað mun veröldin vilja.

Hún veltist um svo fast

að hennar hjólið snýr.

Skepnan tekur að skilja

að skapleg setning brast

og gamlan farveg flýr.

Hamingjan vendir hjóli niður til jarðar.

Háfur eru til einskis vansa sparðar.

Leggst í spenning lönd og gull og garðar,

en gætt er síður hins er meira varðar.

Talið er að Skáld-Sveinn hafi verið uppi á 15. öld og í kvæðinu bregður hann upp lýsingu á þjóðfélagi samtíðar sinnar. Kvæðið er talin elsta heimsádeila eða þjóðfélagsádeila á íslensku, sem nokkuð kveður að, og skáldið segir „stórbokkum aldar sinnar til syndanna af heilum hug og mikilli andagift, svo að setja verður hann á bekk með helztu skáldum vorum fyrir þetta eina kvæði,” eins og Sigurður Nordal segir í Sýnisbók íslenzkra bókmennta.

 

Í erindinu spyr Skáld-Sveinn, hvert í ósköpunum veröldin stefni, því að hamingjan – hamingjuhjólið – virðist snúast samtímanum í óhag, allt skynsamlegt skipulag skorti og mútur – háfur – eru hvergi til sparaðar til illverka og almenningur sökkvir sé peningaeyðslu og gætir þess ekki sem skiptir meira máli.  Þetta er glögg lýsing á því, sem við barnakennarar og siðaprédikarar, þykjumst sjá nú á dögum

 

Til þess að leggja enn meiri áherslu á siðaprédikun okkar Skáld-Sveins má benda á, hverja undirrót að þessu öllu sálugi séra Hallgrímur Pétursson telur vera en í sextánda Passíusálmi sínum segir hann:

 

Undirrót allra lasta

ágirndin kölluð er.

Frómleik frá sér kasta

fjárplógsmenn ágjarnir,

sem freklega elska féð,

auði með okri safna

andlegri blessun hafna,

en setja sál í veð.

Og til að bæta einum prédikaranum við þá segir Jón biskup Vídalín í Postillu sinni: „Ágirndin er framsýni kölluð, drambsemin höfðingsskapur, hræsnin viska.”

En ungt og vel menntað fólk og konur hafa komið fram á sjónarsviðið til þess að auka réttlæti og jafnrétti á öllum sviðum – og vonandi er sumarið í nánd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar