Framtíð íslenskrar tungu

 

Skoðanir eru skiptar um stöðu og framtíð íslenskrar tungu, fornlegustu tungu Evrópu sem varðveitt hefur mörg einkenni sem önnur germönsk mál hafa glatað.  Ber helst að nefna upprunalegt fallakerfi, tíðbeygingu og gagnsæi í merkingu orða og orðstofna. Telja sumir íslensku á fallanda fæti og að innan 100 ára verði hún dauð sem þjóðtunga – í besta falli notuð eldhúsmál í afskekktum byggðum þessa kalda lands.

Skoðun mín er hins vegar sú, að íslensk tunga hafi aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga og félagslegt tjáningartæki en nú.  Helstu rökin eru þau, að undanfarna hálfa öld hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður.  Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og listgreinar, sem byggja á tjáningu málsins, svo sem leikhús, kvikmyndagerð og útvarps- og sjónvarpsþættir, standa með meiri blóma en áður.  Fleiri vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarinn aldarfjórðung en áður í sögu prentlistar á Íslandi og auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi eru gerðar af meiri frumleika, auk þess sem ný orðanotkun hefur breytt íslenskri fyndni – að ekki sé nú talað um furðufyrirbærið rapp – rapp á íslensku.

Réttilega er bent á að tölvur og tölvuleikir geti ógnað íslenskri tungu og valdi því, að börn og unglingar kjósi nú að tala saman á ensku.  Þá er ekki síður talin standa ógn af snjalltækjum af ýmsu tagi, allt frá eldavélum til sjálfkeyrandi bíla – sem aðeins skilji ensku.

Fyrir réttum mánuði kynnti hugbúnaðarrisinn Microsoft nútímaíslensku sem nýtt tungumál í gervigreindarþýðingavél sem kallast Microsoft Translator.  William Lewis, forritunarstjóri Microsoft Research, einn þeirra sem þróuðu Microsoft Translator, segir vélina stuðla að því að varðveita íslenska tungu í tækniheiminum.  Þýðingavélina er að finna á netinu og er aðgengileg á sama hátt Windows 10, Android, Kindle Fire, Powerpoint, Outlook, Microsoft Word og Bing og býður upp á þýðingar í rauntíma. Af þeim sökum er unnt að nýta hana til að eiga samtöl við fólk á mismunandi tungumálum.  Þá má nefna, að SAMSUNG hefur framleitt snjallsíma sem skilur íslensku og skrifar jafnharðan texta sem lesinn er í símann.  Enginn vafi leikur á, að tækni af þessu tagi mun þróast áfram svo að hættan af snjalltækjum er ekki það sem ógnar framtíð íslenskrar tungu og innan tíðar verða tölvuleikir á hinu forna tungumáli íslensku.

Hins vegar verður íslenskur almenningur og ekki síður íslensk stjórnvöld að vera á varðbergi, því ekkert gerist af sjálfu sér.  Þrennt skiptir mestu máli hvað varðar varðveislu tungunnar: skáld og rithöfundar, heimilin og skólarnir, en heimilin og skólarnir eru tvær mikilvægustu stofnanir samfélagsins – og tvær mikilvægustu stéttir samfélagsins eru foreldrar og kennarar, en „skáld eru höfundar allrar rýni,” eins og stendur í Fyrstu málfræðiritgerðinni frá 1150, sem merkir að skáld eru upphafsmenn eða frumkvöðlar allrar gagnrýni.  Áhugi almennings á tungunni skiptir gróflega miklu, því meðan áhugi almennings á tungunni er lifandi, heldur íslensk tunga velli.