Sunnudagur 15.05.2016 - 19:45 - Rita ummæli

AÐ STOFNA / DREPA STJÓRNMÁLAFLOKK

Enn leggja ungir menn til, að við sem unnum frelsi, jafnrétti og bræðralagi, að sameinaðir verði flokkar í stjórnmálum – að stofnaður verði stjórnmálaflokkur.

Ímyndum okkur að markmið stjórnmálaflokksins væri að sameina undir einum fána nokkrar fylkingar með sömu sjónarmið um líf og tilveru manna í samfélagi.

Getur sagan kennt okkur eitthvað?

Ekki er ólíklegt að við slíkar aðstæður yrðu menn sammála um að heiti á slíkum flokki ætti að hafa „“SAM“ í sér og væri það afbragðs hugmynd. Samræða myndi fljótlega sýna að ekki yrði vandi að láta málefnin ríma en síðar gæti komið í ljós að brestir í mönnum hefðu eitthvað um árangurinn að segja. Helsti brestur er íhaldssemi og í öðru lagi sjálfselska í þessu samhengi. Margir menn eru sem sagt íhaldsamir og sjálfselskir og sá sem einu sinni hefur gengið undi merki og lyft fána í baráttu, fellir hann ekki glaður til að taka upp annan fána eða annað merki. Það getur verið greypt í menn, eins og stál og hnífur var merki farandverkamanna, svo sem skáldið kvað. Sérstaklega ef málefnin hafa í engu breyst og sami frelsisandinn brennur þeim í brjósti sem áður.

Þá gæti gerst eins og gerðist til forna þegar stór ákvörðun var tekin sem skipti máli fyrir þessa fámennu þjóð sem varð að lifa í sátt í þessu landi og ekki var hægt að hlaupa til annarra landa eða komast hratt brott með öðrum hætti eins og nú er. Þá sáu menn skynsemina í því að taka upp einn sið og allir sáu vitið í því enda yrði hér ófriður sem eytt gæti byggð í landinu. Þegar Íslendingar standa frammi fyrir slíkum ógnum eiga þeir það til að sameinast um góða lausn sem allir verða sáttir við og gerist það enn í dag. Sumir vildu, á þessu forna þingi, fá að blóta sínum goðum í laumi og var þeim það leyft. Þannig var tekinn upp sami siður og ríkti meðal Evrópumanna og má segja að það hafi verið fyrsta sameining þeirra í menningarlegum efnum og kannski hjálpað það til í samskiptum og kannski viðskiptum. Það dugði þeim þó ekki til friðar fyrr en löngu síðar og blóðið hafði nært blómjurtir þeirrar álfu, stundum fremur en blessað vatnið.

Það er eins og mig rámi í, að eitthvað svipað hafi gerst réttum 1000 árum síðar þegar sameina átti nokkrar fylkingar í einum flokki, að þá var lausnin einmitt að menn fengu að blóta öðrum goðum og það á þeim stað sem hjarta hins nýja flokks átti að slá og dæla blóði í líkama baráttunnar. Skyldi þá hver fylking fá að halda sínu merki og sínum formönnum svo lengi sem verða mætti uns fylkingarnar myndu á endanum renna inn í hinn sameiginlega augljósa hugmyndasjóð sem myndaður hafði verið um frelsið, jafnréttið og bræðralagið. Þá voru það systurnar sem voru fyrstar til að leggja sig inn í þennan sjóð enda konur einhverra hluta vegna oft skynsamari en karlfauskar. Það voru sem sagt konur sem voru fyrstar til að virða hinn sameiginlega hugmyndasjóð. Enda varð það kona sem lyfti hinu nýja merki hvað hæst og kona sem gerði vel þegar mestu skipti fyrir þessa þjóð er sárvantaði gegna og heila manneskju. Þessu skal til haga haldið þó að þræðir þessara tveggja kvenna verði ekki raktir hér frekar.

Svo merkilegt sem það nú er, þá skyldi þannig valið til forystu í þessari fylkingu, með hin mörgu hjörtu merkt rósum, alþýðu, vakningu þjóðar svo ekki sé talað um frjálslyndi, að hver fulltrúi skyldi keppa við sinn meðreiðarmann í fylkingarbrjósti þegar halda skyldi til orrustu. Þá er orrustan skyldi standa og komið var fram á vígvöllinn og hver maður ætti halda hlífiskildi yfir öðrum ef þurfa þætti, þá var talið af framámönnum fylkinganna að farsælast væri til sigurs fyrir flokkinn að felldir yrðu skildirnir, þar sem menn horfðu yfir skjaldarrendurnar á andstæðingana, þannig að hver sneri að þeim er næst var og klóraðu úr honum augun. Svona var samkeppnin hörð um fylkingarbrjóstið. Gengu menn svo blóðrisa og illa sárir til orrustunnar og hvernig þeir fóru að þessu er flestum hulin ráðgáta. Þeir er studdu flokkinn, vissu ekki af þessu og aldrei var um þetta rætt af neinni alvöru fyrr en ein opinber endurskoðunarnefnd setti hlutina í samhengi.

Þá kom nefnilega í ljós að hver merkis- og fánarberi var meðal annars fremstur fyrir atbeina fjáraflamanna og var þar að því er virtist á eigin og þeirra vegum en ekki fylkingar fólksins sem að baki þeim stóðu. Hvernig þetta mátti verða til að gera veg hugmyndasjóðsins sem mestan veit ég ekki og hef aldrei skilið. Hvernig gátu menn nokkurn tíma talið að þessi háttur á að velja fólk í fylkingarbrjóst yrði til góðs, veit ég ekki og ef aldrei skilið. Þá er allt hrundi var sett samhengi á milli fjáraflamanna og þeirra er stóðu í fylkingarbrjósti flokka, ekki bara umrædds, og því um kennt að gullið hefði blindað og múlbundið, svo að sannleikurinn varð aukaatriði. Þegar við þetta bætist að það voru ekki bara peðin á skákborðinu sem voru hæluð niður í fjársjóði, sem vildu sitt, heldur einnig hinir æðstu foringjar er þeir kepptu um forystuna. Enginn vildi svo fella sín merki og sína fána því að hvert hjarta hinnar nýju fylkingar sló ekki flokknum heldur einstökum merkisberum og voru þar skjaldmeyjar og skjaldsveinar er sýndu hörku. Hver merkis- og fánaberi hafði sem sagt á bakvið sig hópa sem aðstoðaði við augnklórið.

Þetta var um aðdraganda orrustunnar sjálfrar og hvernig að henni var staðið. Þegar herráðið skildi undirbúa orrustuna leitaði það í hina sömu fjársjóði og kom þá oft upp að merkisberi hafði þegar sótt þangað og var þá sjóðurinn þorrinn. Mikið fé fór í að koma merkisbera í fylkingarbrjóst og hefði samanlagður sjóður merkisbera orðið mikið fé í höndum herráðsins. Ekki vildi herráðið og þeirra pótintátar sækja fé til þess almennings sem hugmyndasjóðurinn var myndaður fyrir, til þess almennings sem að líkindum myndi njóta velsældar og fengi margfaldlega greitt til baka ef hugmyndirnar yrðu til að stýra þeirra lífi og þeirra landi. Enda voru merkisberar í reynd ekki á þeirra vegum heldur fjáraflamanna. Það mátti ekki þó að lagt væri til að almenningurinn legði sem svaraði andvirði einnar þriggja rétta máltíðar á miðlungs veitingahúsi á hverju ári. Það var talið til of mikils mælst þó að vitað væri að tap í orrustunni um hugmyndirnar myndi taka margar máltíðir af almenningnum sem barist var fyrir. Einhverra hluta vegna átti frelsis- og lýðræðisbarátta að vera kostuð af Jóakim Aðalönd en ekki af þeim Andresi, Andresínu, Mikka Mús og Feitamúla og slíku alþýðufólki. Þetta er algjörlega óskiljanlegt. Svona geta menn nú vafist gjörsamlega inn í sjálfan sig og er þetta saga mannskyns í hnotskurn því að oft er það svo, eftir á að hyggja, að villugjörðir fyrri tíða eru samtímanum mikil ráðgáta. Menn spyrja sig hvernig menn gátu hagað sér svo undarlega í fortíðinni og með dæsingum segja fyrri tíða menn heimska.

Verra er ef samtíminn er enn á sama stað þrátt fyrir augljósar villur. Þá er ekki ólíklegt í ljósi þess sem sagt hefur verið hér að hver og einn sem telur sig vera til forystu fallinn efist um að flokkurinn sé flokkur og að fylkingarnar séu sundraðar og huga verði enn á ný að rótunum. Látið verði reyna á hugmyndasjóðinn. Reynt verði að gera hugmyndasjóðinn að því sem baráttan snýst um. Hugmyndirnar verði látnar skína af himninum og lýsa til framtíðar.

Hvernig er best að drepa stjórnmálaflokk?

Þekkingin er öllum nærtæk.

Sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér.

Svo einfalt er það nú.

Með baráttukveðju,

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur