Þriðjudagur 07.02.2017 - 20:03 - Rita ummæli

Hugleiðingar um stjórnmál

Stjórnmál fjalla um hvernig á að stjórna samfélagi, á hvern hátt og fyrir hvern. Flestir stjórnmálaflokkar undangenginna fimmtán til tuttugu ára segjast vera með stefnu sem sinnir öllum þegnunum, öllum stéttum og öllum hagsmunaöflum. Vandi þegnanna / kjósendanna er að greina hver segir satt og hver ósatt og fyrir hvern hver og einn flokkur starfar í raun. Ég sem kjósandi og þegn reyni að átta mig á því hvort að stjórnmálaflokkurinn sem ég ætla að kjósa muni sinna mínum hagsmunum. Ef ég er þroskaður þegn velti ég því fyrir mér hvort að hann sinnir hagsmunum heildarinnar. Helsta gagnrýni sem við höfum á stjórnmálaflokk er að hann sinni sérhagsmunum tiltekinna þjóðfélagstétta eða valdaafla umfram aðra. Í þjóðfélagsumræðunni þykir ekki gott að hygla einum hópi umfram annan og því vilja flokkar þvo slíkar ásakanir af sér.

Um miðja síðustu öld voru stjórnmálaflokkar tengdir tilteknum hagsmunaöflum og þjóðfélagsstéttum. Stjórnmálaflokkar voru afsprengi verkalýðshreyfinginarinnar, atvinnurekenda eða bænda. Þessir stjórnmálaflokkar voru einnig á fjölmiðlamarkaði og héldu þannig uppi linnulausri upplýsingagjöf um hugmyndafræði sína, greiningu á samfélaginu og gagnrýni á andstæðinga í stjórnmálum. Ég tek hér ekki tíma til að reyna að lýsa hugmyndafræði hvers og eins enda flestum kunnug. Það sem gerist á síðari hluta tuttugustu aldar er það sem ég fullyrti í upphafi að flestir stjórnmálaflokkar telja sig sinna öllum og viðurkenna ekki að þeir gangi sérstaklega erinda tiltekinna þjóðfélagshópa, stétta eða hagsmunaafla. (Þó eru undantekningar frá þessu.)

Þessi þróun hefur orðið samfara því að framvinda, samspil hagsmunaafla og stjórnun samfélagsins virðist hafa orðið flóknari. Það sem hefur gerst er að stóru hugmyndakerfin, kommúnismi og kapitalismi ónýttust, annars vegar á síðari hluta tuttugustu aldar og hins vegar í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar. Hugmyndafræði er á reiki og ekki virðast vera valkostir hjá stjórnmálaflokkum um tiltekna samfélagsgerð. Fólk ræðir ekki í hvernig samfélagi það vilji lifa í og við erum ekki að skilgreina samfélagið eða að reyna að skilja það í orðræðu. Allir ganga út frá því að samfélagið sem kerfi eigi að vera eins og það er – vera óbreytt.

Sjálfsagt má viðurkenna að framvindan sé á einhvern hátt líka flóknari vegna hvers kyns nýjunga í tölvutækni sem hafa breytt samskiptum og upplýsingagjöf. Leikritið um sögu Sölku Völku sem sýnt er í Borgarleikhúsinu minnir okkur hins vegar á það með eftirminnilegum hætti að kjarni togstreitunnar á milli hagsmunaafla samfélagsins er hin sama í dag og á þeim dögum sem sagan gerist. Reyndar ekki bara það, heldur að eðli togstreitunnar megi rekja aftur til frönsku stjórnarbyltingarinnar. (Í gamansemi er svo látið að því liggja að eini munurinn sé sá að túristar horfa nú á herlegheitin.)

Í dag reyna stjórnmálaflokkar að höfða til allra kjósenda, því að það er leiðin til að ná völdum. Flestir reyna að sýna ekki á þau spil hverra hagsmuna þeir eru að gæta í raun.   Stjórnmál hafa í þessari þróun breyst í einskonar viðskiptamódel þar sem stjórnmálaflokkar búa til loforðalista fyrir kosningar yfir aðgerðir sem þeir telja að höfði til sem flestra. Lausnir eru orðnar að söluvöru á kjósendamarkaði.

Við þessar aðstæður telja allmargir að stjórnmálaflokkur lengst til vinstri og lengst til hægri geti starfað saman eins og þær hugmyndavíddir skipti ekki lengur máli. Það liggur við að fjölmiðlamenn tali um fúllyndi hjá stjórnmálaflokki sem vill ekki vera með þessum eða hinum. Það er einnig svo við þessar aðstæður að það virðist vera tæknilegt atriði hvernig á að stjórna – það þurfi bara að finna leiðina eða semja um leiðina. Mér fannst aðeins einn stjórnmálaflokkur tengja sig við tiltekna hugmyndafræði í síðustu Alþingiskosningum.

Nú er það einmitt svo að kjarni átakanna eða togstreitunnar er í grunninn hinn sami, allt frá frönsku stjórnarbyltingunni, eins og leikritið um Sölku Völku minnir á. Togstreitan er á milli þeirra sem vilja safna að sér hvers kyns vistum og völdum og hinna sem skildir eru eftir snauðir og valda- og áhrifalausir. Við reynum nú ótrúlega svipaðan veruleika og var kveikjan að frönsku byltingunni sem var misskipting auðs og valda. ( Þó íslenskar hamfarir hafi kveikt í tundrinu.) Þar hafði yfirstéttin sankað að sér megninu af auðæfum landsins og lifði í velllystingum á meðan aðrir sultu.  2016 áttu 1% jarðarbúa meira en helming allra auðæfa á jörðinni. (Skýrsla Oxfam.) „Ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda á hátt í fjórðung alls auðs landsmanna. Ríkustu tíu prósentin eiga næstum þrjá fjórðu.“ (Nútíminn 20. janúar 2015.)

Það er því kominn tími til að skilgreina helstu grunnþætti í eðli samfélagsins og þeirrar togstreitu sem þar ríkir og leggja grunn að hugmyndafræði fyrir stjórnmál. Hugmyndafræði er lýsing á því hvernig menn sjá samfélag framtíðarinnar fyrir sér – eins konar heildarsýn. Hugmyndafræðin byggir þá á grunngildum eða skilningi á því hvað skipti máli við stjórnun samfélagsins og hvernig eigi að skipta gæðum þess öllum til heilla. Hvernig við lítum á mannlegt eðli og virkjum það án þess að einn fái meira rými en annar. Nú þegar ljóst er að við erum að ganga á takmörkuð gæði jarðarinnar og andrúmsins, hlýtur að þurfa að hugsa öll viðskipti upp á nýtt. Það er ekki laust við að hægt sé að kalla það, sem að okkur steðjar, háska. Það þarf því að skilgreina háskann og smíða tillögur um breytingar sem gefa von um framtíð til handa okkur, börnum okkar og barnabörnum.

Kjósendur fer brátt að þyrsta í upplýsingar um það hvernig við ætlum að lifa af á jörðinni. Innkoma Trumps á stjórnmálasvið heimsins virðist vera eins og síðasti andardráttur þeirra risaeðlu sem trúir því að nóg sé af öllu í náttúrinni og að við getum bara haldið áfram að teygja okkur í auðævi hennar og breytt í peninga og völd og velsæld handa hinum útvöldu. Um allan heim vita menn betur og því stendur heimurinn á öndinni.

Stjórnmálahreyfing 21. aldarinnar hallar sér ekki að tilteknum hagsmunaöflum eins og í upphafi 20. aldarinnar heldur greinir stöður út frá heildarskilningi á samspili hinna ýmsu afla sem gagnast þegnunum, í fjölbreyttu samfélagi þar sem gæðum er réttlátlega skipt. Þannig má segja að sú hugmynd stjórnmálaflokka á Íslandi í dag að reyna að ná til allra kjósenda sé skref í rétt átt en það sem vantar er hvernig það samfélag lítur út sem stefna þeirra stuðlar að.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur