Þriðjudagur 20.02.2018 - 22:17 - 3 ummæli

GUÐ BLESSI ÍSLAND

Í upphafi sviðsverksins “Guð blessi Ísland” sitja persónur og leikendur á víð og dreif á hvítum garðstólum, þegja og horfa með alvarlegum augum framan í áhorfendur. Einhver hafði, því miður, hvíslað þögninni að mér og því kom hún mér ekki á óvart. Hitt var þó, að nokkuð óþol safnaðist í líkama og sál, þrátt fyrir þessa vitneskju mína; Þögnin var tær snilld.

Þegar persónurnar hófu upp raust sína voru þær ekki leikarar, heldur þær sjálfar. Þær voru eins og við í salnum; Íslendingar að tala um sjálfa sig og reynslu sína. Með því að segja sögur af sjálfum sér hvort sem sögurnar voru nú skáldaðar eða raunverulegar, vörpuðu þær fram afar áleitinni spurningu sem ég hef ekki orðið var við að hafi verið rædd opinberlega í framhaldi af sviðsverkinu; sem þó ber ærna nauðsyn til.

Hér verð ég að taka fram að sviðsverkið var eitt af því magnaðasta sem ég hef séð á lengi. Þetta var hárbeitt umfjöllun um okkur Íslendinga án þess þó að mismuna fólki og í því fólst snilldin. Í salnum var raunveruleg fyrirmynd einnar persónu verksins og einnig var mikið fjallað um átrúnaðargoð þeirrar fyrirmyndar. Hin lifandi fyrimynd var ekki ósátt við verkið og fannst það bara fyndið og skemmtilegt.

Spurningin sem verkið varpaði fram í upphafi var eiginlega eins og fullyrðing í gegnum sögur leikaranna er voru um þjófnaði þeirra sjálfra. Eftir frásagnirnar urðu leikararnir persónur verksins og fjölluðu um hrunadansinn með fjarstæðuleikhúsi.

Fullyrðingin eins og ég túlkaði hana var þessi: „Við Íslendingar erum þjófar og það er okkar innsta eðli.“

Þetta er afar áleitin spurning sem oft hefur sótt að mér í gegnum tíðina. Hrunadansinn, afleiðingar og upplýsingar sem hafa orðið til í framhaldi, gefa því miður undir fótinn með, að það sé að minnsta kosti þannig, að þjófseðlið sé ekki langt undan hjá allmörgum Íslendingum. Hér má minnast á ýmislegt, svo sem að hvergi á byggðu bóli, í hlutfalli við fólksfjölda, eru jafnmargir sem fela peningana sína í aflandsfélögum.

Sumt af því sem gerist með þessari þjóð er kannski ekki þjófnaður í venjulegum skilningi. Náskildur ættingi þessa þjófnaðareðlis er; að maður á ætíð að nýta sér þá aðstöðu sem maður kemst í til að maka sinn eiginn krók. Kannski er innsta eðli okkar margra bara siðleysi.

Fyrir rúmlega fjörutíu árum vann ég hjá Íslenskum aðalverktökum á Vellinum, síðar hjá málara á svæðinu sem sinnti húsamálun og um tíma var ég hleðslumaður hjá Icelandair. Ég heyrði því margar sögur og varð vitni að ýmsu. Ég hef oft undrað mig á því hvers vegna þjóðin hefur ekki tekist á við sögu hersetunnar í þessu samhengi. Það var held ég ekki fyrr en Jón Kalman Stefánsson tók þetta fyrir í bók sinni; Fiskarnir hafa enga fætur. (bls. 150 til 159)  Íslendingar nýttu sér þá aðstöðu sem hersetan gaf; sjálft ríkið, frá forstjórum til verkamanna – og til unglinga eins og fram kemur í bók Jóns Kalman. Það þótti sjálfsagt að nýta sér aðstöðuna. Eigum við að segja; stela?

Ég man sérstaklega eftir samtali við samverkamann á Vellinum sem var vinstri maður. Honum fannst sjálfsagt og jafnvel „pólitíkst“ rétt að stela „frá þeim“ en hann sagði mér ýmsar sögur um vel heppnaða nýtingu á aðstöðu. Athæfið virtist ekki vera þjófnaður eins og maður skilur það hugtak almennt. Ég verð þó að taka fram að ég varð ekki vitni að neinu misjöfnu hjá verktökunum í starfsumhverfi mínu eða málaranum sem ég vann hjá síðar en ég varð var við að hlaðmenn létu stundum tilteknar sendingar sem komu í pappakössum detta á eitt hornið svo hægt væri að stela úr þeim, því að flöskubrot er ekki hægt að telja. Ég varð ekki var við að nokkur í vinnuflokknum fordæmdi þessa hegðun sem virtist vera á allra vitorði.

Sögurnar voru allsstaðar og eftir því sem ég heyrði sögurnar oftar, áttaði ég mig á því að þær voru sannar, þetta voru ekki bara gamansögur. Það var bara annar siður eða annað siðferði á Vellinum. Sumir virðast geta réttlætt þjófnað með því að segja segja: Ég get þetta og enginn hefur hingað til gert athugasemdir og því er þetta í lagi.

Miðað við reynslu mína virðist ósiðurinn um að nýta sér aðstöðu vera bundinn við tiltekna þjóðfélagshópa fekar en aðra. Því miður kemur þessi ósiður of oft fram í tengslum við stjórnmálamenn og þá sem stunda viðskipti. Nýlegasta dæmið er um akstur tiltekins þingmanns. Honum finnst nákvæmlega ekkert athugavert við hegðun sína, meðal annars vegna þess að hann komst upp með framferðið. (Hann segir að það sé verið að leggja hann í einelti.)

Það er hins vegar jákvætt að framámenn hafa verið ókátir yfir hegðun þingmannsins og það er vel. Siðferðið er hins vegar ekki sterkara en svo að þingmaðurinn er ekki gerður útlægur úr umræddum stjórnmálaflokki og það segir eitthvað. Hvað á annars eftir að koma í ljós um sporslur þingmanna?

Maður sem er í aðstöðu til að stela og telur sjálfum sér trú um að hann sé aðeins að nýta sér aðstöðu, hugleiðir ekki, að með því að taka eitthvað sem er ekki ætlað honum er hann að rýra hlutskipti einhvers annars. Sá maður er siðlaus. Ef hann hugleiddi málið nánar, þá myndi hann ekki vilja að breytni annarra rýrði hans eigin kost.

Immanúel Kant (1724 – 1804) setti skilyrðislausa skylduboðið fram í ritinu, Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, sem er svona: „Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur jafnframt viljað að verði að almennu lögmáli.“

Erum við Íslendingar siðlausir í eðli okkar, er innsta eðli okkar allra eða einhverra tiltekinna þjóðfélagshópa þjófslegt? Þetta er, að mínu mati, spurning fjarstæðuleikritsins ; Guð blessi Ísland.

Það þarf markvissa almenna umræðu í íslensku samfélagi um siðferði og siðlega breytni. Nýir stjórnmálaflokkar, oft með yngra fólki, sem spretta upp ná fylgi út á fordæmingu á siðleysi og ekki af ástæðulausu.

Þetta er erfitt þjóðfélagsmein ef satt er.

Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. (Jóh. 8. kafli 7. vers.)

Ef við erum öll þjófar, þá getur enginn kastað fyrsta steininum.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«

Ummæli (3)

 • Bergljót Kjartansdóttir

  Sæll, það er held ég enginn maður þjófur í eðli sínu. Margvíslegar ástæður geta legið að baki þegar einstaklingur fer útí að taka til sín eitthvað sem ekki tilheyrir honum eða henni. Það sem mér hefur fundist áberandi í samfélagi okkar er hinsvegar einhverskonar uppgjöf og sljóleiki fyrir muninum á réttu og röngu.

  Sérstaklega fannst mér áberadi ákveðin græðgi meðal ungra á árunum fyrir hrun og þá varð mér oft á að hugsa er hægt er að búast við öðru miðað við fyrirmyndirnar í efstu lögum samfélagsins sem þá voru (og eru enn því miður).

  Því auðvitað eru ráðamenn samfélagsins fyrirmyndir þeirra sem eiga að taka við. Þetta allt leiðir til þess að þörf er á að efla siðferðið snemma á æfinni meðal þjóðar vorrar. En á meðan öjöfnuður sá sem allt of lengi hefur viðgengist heldur áfram þá verða fyrirmyndirnar þær sömu og hvað þá.

 • Ásgeir Beinteinsson

  Sæl Bergljót

  Takk fyrir þínar greinargóðu athugasemdir.

  Kv

  Ásgeir

 • Sigþór Hrafnsson

  Pistillinn er ansi nálægt því. Íslendingar hafa verið þjófar frá landnámi og stunda þá iðju enn af kappi. Þeir stela þó mest af hvorum öðrum, samanber auðlindaþjófnaður á auðlind heils lands, fiskurinn.

  Það er nokkuð týpískt að þegar þingmaður tekur sæti á þingi þá þagnar viðkomandi yfirleitt mjög hratt og byrjað er að tala um að vanda til verka.

  Nú svo er önnur umræða sem þarf nauðsynlega að taka, það er um lobbíista á Íslandi. Við höfum búið við það í áratugi að lobbíistar hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum. Þannig mjakast áróðrinum nær fólkinu sem þarf að heyra hann, að mati lobbíista. Hvað eru mörg lobbíistasamtök á Íslandi? Staðreyndin er sú að það eru lobbíistar sem stýra þessu landi að stórum hluta. „Ráðamenn“ hafa ekkert í valdið og eru vitagagnslausir þegar kemur að því að tryggja réttindi þegna landsins.

  Þeir sem meikuðu það fóru á þing, hinir fóru á Litlahraun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur