Sunnudagur 11.02.2018 - 17:57 - Rita ummæli

MANNLAUS VIÐSKIPTI

Menning er að gera hlutina vel. (Þorsteinn Gylfason)

Hvers konar tækni tekur yfir fleiri og fleiri verksvið manna og nú er talað um nýja iðnbyltingu með „kunnáttu“ tölva til að skilja mælt mál. Þá getur hver sem er beðið tækin um eitthvað og spurt tækin spurninga um hvaðeina sem vistað er á tölvuskrám.

Ef tæknin bætir við menningu okkar, gefur okkur kost á því að gera vel eða gera betur; þá er vel.

H.G. Wells ferðast fram og aftur í tímavél sinni í samnefndri bók sem kom út 1895. Í vélinni kemst aðalpersónan til framtíðar þar sem hluti manna hefur misst mennsku sína vegna þess að kringumstæður þeirra gerðu það að verkum að þeir þurftu ekkert að hugsa; þetta voru Eloar. Hinn hópurinn sem ekki komst af eins vel, þróaðist í neðanjarðarverur sem veiddu Eloanna á nóttunni sér til matar og það voru Morlokkar.

Nú eru liðin 123 ár síðan H. G. Wells ritaði bók sína og ekki er úr vegi í ljósi samtímans að velta því fyrir sér hvort að tæknin sem breytti mannkyni í ómennska Elóa sé að verki í dag.

Ekki þarf að velta því fyrir sér hvort að hugmynd Georgs Orwells í bókinni 1984 sé fram komin; um að stóri bróðir fylgist með okkur daginn út og daginn inn og stýri hegðun okkar. Að vísu er það ekki einn alvaldur stóri bróðir sem fylgist með okkur heldur systkinahópur sem á sér það markmið að vita allt um okkur og hafa fjárhagslegan hag af því að þekkja hegðun okkar; langanir og þrár og beina til okkar hvers kyns möguleikum sem við föllum fyrir. Möguleikana grípum við til að fullnægja okkur, en til þess að geta það, þiggjum við laun og lán sem fjötra okkur í eilífa vist hjá systkinahópnum.

Erum við að þróast yfir í ómennska Elóa í stíl við þá sem H.G.Wells lýsir í bók sinni „Tímavélinni“ ?

Fyrstu skrefin í þeirri þróun er að vitund manna hverfi inn í vélarnar og verði síðan alfarið á valdi þeirra. Reyndar er áðurnefndur systkinahópur ekki langt fjarri í þessari þróun.  Þessa óheillaþróun vil ég kalla mannlaus samskipti og mannlaus viðskipti.

Við erum því miður vitni að því að börn og ungmenni (líka fullorðnir) lifa „Avatar“ lífi þar sem stór hluti eiginlegs vitundarlífs er inn í tölvum og tækjum.

Ég sé pör mæta á veitingahús og setjast niður með símana sína, líta upp til að panta og hverfa svo aftur inn í skjáina. Nú er einnig hægt að panta matinn í símanum á veitingastaðnum og því er engin þörf á samskiptum við þjóna.

Iðnaðarmenn á stórum vinnustöðum setjast í kaffi með símana sína og hlæja með sjálfum sér hver í sínu horni og einstaka spyr sessunaut hvað hlæi viðkomandi og úr því verða óvænt samskipti.  Sá er litinn hornauga sem bryddar upp á einhverju símalaus.

Símsvörunartölvur beina fólki endalaust áfram í talnarunu þangað til að síminn hringir út, nema ef einstaka hringjari lendi í því að verða númer í röð; Þú ert númer fimm í röðinni. Það virðist vera mikilvægt fyrir viðkomandi stofnanir að þurfa ekki að eiga samskipti við fólk.

Á síðasta ári lenti ég í því að setja kross á vitlausan stað í pöntun hjá þriggja stafa flugfélagi og tilraunir til úrbóta á netinu gáfu ekkert og símhringinar gáfu enga lausn, aðeins númer í röð; Þú ert númer 25 í röðinni. Þá ákvað ég að fara á staðinn en allt fólk virtist í felum, nema ein stúlka sem blasti skyndilega við þegar einar útidyr voru opnaðar á húsinu. Ég bar upp erindið og svarið var; Þú verður að laga þetta á netinu. Til hvers ert þú hérna, spurði ég, en stúlkan sagði kurteislega; Ég er hér til að leiðbeina fólki ef það lendir í vanda.

Vindsæng og vínarbrauð (Airbnb) er sumstaðar stundað þannig að öll viðskipti/samskipti fara fram á netinu þar sem leigjendur fá leyninúmer að lyklageymslu til að ná í lykil að hinu leigða húsnæði. Leigusali þarf aldrei að vera í beinum (mannlegum) samskiptum við leigjendur sína sem verður svo til þess, eins og ég þekki til, að leigjandanum er leigusali andlitslaus / ómennskur og heldur að íbúðin hafi komið úr tölvuheimi og þar megi gera hvað sem er. Nágrannar þurfa þá að kalla til lögreglu til að minna viðkomandi leigjanda eða leigjendur á að þeir séu í mannheimi þar sem krafist er tiltekins siðferðis og umgengni.

Engin mannleg tilfinning virðist hafa merkingu nema tjáning hennar sé einnig eða kannski einungis á alnetinu þar sem allir vinir geta borið vitni. Pör bæði vígð og óvígð segjast elska hvort annað „á ótrúlegan hátt“ á hátíðarstundum og nokkur hundruð manna þurfa að vita það líka. Kærleikar eru ekki lengur dýrmætt og rómantískt einkamál. (Slík pör hljóta að sitja þögul heima í símunum sínum í sitt hvoru herberginu!) Börn staðfesta ást sína á foreldrum við ýmiss tækifæri undir vökulu augnaráði alheims, sem er mikilvægt, því að þau eru lokuð inni í herbergjum með símana sína. Til er fólk sem afsakar börn sín ef þau gleyma að útvarpa kærleikum sínum á tillidögum.

Í nýlegum bankaútibúum í Reykjavík eiga viðskipti sér stað í tölvum en samskipti eru við fólk sem aðstoðar. Virðist vera gert til að auka mannleg samskipti, sem er gott.

Fréttir segja frá verslun í útlöndum þar sem lifandi fólk leiðbeinir en hin eiginlegu viðskipti eru við tölvur, sem er líka gott.

Ekki er allt ómögulegt, því að margvísleg samskipti sem eiga sér stað á félagsmiðlum hafa aukið og bætt menninguna.

Nýting tölvutækni sem minnkar mennsku okkar er lítils virði.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Vefurinn
Efnisorð: , , , ,

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur