Miðvikudagur 28.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Ályktunarbærni (Alþingis) (59. gr.)

Í 59. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingi getur því aðeins gert samþykkt um mál að meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.

Lítið er um þeta að segja – annað en segir í gagnorðum skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með frumvarpsákvæðinu – og þó; þar segir:

Í greininni er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur einungis breytingu á orðalagi til nútíma­ horfs.

Í gildandi stjórnarskrá er efnislega sama ákvæði að finna.

Hvað þýðir að „taka þátt“?

Í þessu felst að a.m.k. 32 þingmenn af 63 þurfa ávallt að vera viðstaddir – en er það nóg? Þeir þurfa einnig að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Hvað felst í því? Er nóg að horfa á eða ýta á takka um að maður stiji hjá?

Hlutleysi telst með!

Fyrirfram hefði ólöglærður maður e.t.v. haldið að það að „taka þátt í atkvæðagreiðslu“ fæli í sér að taka afstöðu með „já“ eða „nei“ – en að hlutleysi með því að sitja hjá teldist ekki með.

Þó að ég hafi ekki átt þess kost að þessu sinni að rannsaka ítarlega og í lögfræðilegu samhengi umfjöllun m.t.t. almennra fundarskapa virðist í þessu tilviki ljóst að slíkt hlutleysi á að teljast með.

Ástæður þeirrar lögskýringar eru væntanlega þrennar:

  1. Fyrir því er löng stjórnskipunarhefð – enda m.a. byggt á því í lögum og langri framkvæmd að þingmaður, sem sé á fundi en greiði ekki atkvæði „við nafnakall eða atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði“ teljist taka þát í atkvæðagreiðslunni.
  2. Skýringar – sem að vísu eru því marki brenndar að vera fullgerðar eftir að stjórnlagaráð lauk störfum (sjá hér) – gera enga athugasemd við framkvæmd; að því leyti sem slík lögskýringargögn samrýmast texta frumvarpsins eru þau til stuðnings og skýringarauka.
  3. Efnisrök virðast standa til þess að minnihluti þings geti ekki firrt Alþingi ályktunarhæfi (l. qourum) eins og það er yfirleitt nefnt í lögfræði; ella gæti minnihluti í stað þess að greiða atkvæði gegn máli – t.d. 22:10 (ef aðeins lágmarksfjöldinn, 32 þingmenn, væri viðstaddur) setið hjá og fellt það þannig – eins og dæmi eru um úr öðru samhengi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Þriðjudagur 27.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála (58. gr.)

Í 58. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Þingsályktunartillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þær eru ræddar á Alþingi.

Tillögu til þingsályktunar má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.

Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok löggjafarþings.

Tillögur um þingrof eða vantraust á ráðherra eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu.

Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum.

Um meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála er ekkert fjallað í gildandi stjórnarskrá – heldur einungis um það, sem áður er komið fram, um frumkvæði að slíkum málum.

Framangreindar reglur eru að mestu í samræmi við gildandi þingskapalög en þar er fjöldi ákvæða um þingmál enda eðlilegt, eins og áður er fram komið að stjórnarskrá fjalli f.o.f. um meginreglur og markmið sem löggjafinn útfæri – sé hann á annað borð hæfur til þess.

Nýmæli í samræmi við aukið hlutverk Alþingis

Helsta nýmælið í ákvæðum 58. gr. er – eins og í tilviki lagafrumvarpa – að þessi algengu þingmál skuli fyrst tekin „til athugunar og meðferðar í þingnefndum“ – áður en Alþingi fjallar um þau í heild. Þetta á þó aðeins við um þingsályktunartillögur frá ríkisstjórn – en ekki frá þingmönnum.

Breytingin er þó ekki til þess gerð að draga úr gagnsæi og opnum umræðum enda er þeim þætti aðeins frestað. Tilgangur breytingarinnar er að umræða um þau þingmál, sem koma frá ríkisstjórn, sé upplýst og málefnaleg en ekki í upphrópunarstíl slagsmála; þessi breyting og greining á vandanum virðist vera í góðu samræmi við afstöðu margra – innan Alþingis sem utan. Samkvæmt þessu geta þingmenn kynnt sér þingmál (ríkisstjórnar) vel – og stjórnarandstaða jafnvel haft áhrif á þau í þingnefnd – áður en þau eru lögð fram og rædd á Alþingi.

Af þeirri ástæðu er minni þörf á slíkri reglu gagnvart þingsályktunartillögum frá þingmönnum en Alþingi er frjálst – eins og fram kemur í ágætum skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs með 58. gr. frumvarpsins – að setja slíka reglu í þingskapalög.

Dropinn holar steininn

Þá er haldið þeirri reglu – öfugt við reglu frumvarpsins um lyktir lagafrumvarpa – að þingsályktunartillögur falli niður við lok löggjafarþings, þ.e. árlega í lok september áður en nýtt Alþingi er sett í byrjun október.

Ástæðan er skýr – og ekki í ósamræmi við regluna um að lagafrumvörp lifi út fjögurra ára kjörtímabil sem er, sem sagt, sett til þess að minnka möguleikann á að salta þingmannafrumvörp. Reglan um að þingsályktunartillögur þurfi að endurnýja árlega er einmitt sett í því skyni að þingmönnum – ekki síst í stjórnarandstöðu – sé unnt að endurnýja þær árlega og hola þar með steininn eins og stundum gerist með þarfar úrbætur sem fyrst í stað njóta ekki alltaf stuðnings stjórnarmeirihluta eða skilnings embættismanna sem semja, sem sagt, flest frumvörp sem verða að lögum.

Í þessu felst það sem kalla má minnihlutavernd – eins og gert er í skýringum starfsmanna með ákvæðinu – en tillagan er gerð eftir ábendingar frá stjórnmálafræðingi, Birgi Hermannssyni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Mánudagur 26.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Meðferð lagafrumvarpa (57. gr.)

Í 57. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs, sem er ágætlega skýrð hér af hálfu skrifstofu stjórnlagaráðs, eru fólgin þrjú merkileg nýmæli; þau eru:

  • aukið sjálfstæði Alþingis;
  • mat á áhrifum lagasetningar áskilið;
  • ráðherraræði með „söltun“ mála gert erfiðara.

Í ákvæðinu segir:

Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi. Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.

Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Sjálfstæði Alþingis aukið

Í gildandi stjórnarskrá segir að fjallað skuli um lagafrumvörp í þremur umræðum – og því vaknar e.t.v. spurningin hvort verið sé að draga úr gæðum lagasetningar með tillögum okkar í stjórnlagaráði – um aðeins tvær umræður. Nei; eins og áður er fram komið – m.a. í pistli mínum í gær – er með tillögum stjórnlagaráðs verið að auka hlut Alþingis í löggjafarstarfinu, eins og vera ber.

Auk þess sem áður er komið fram felst aukið hlutverk Alþingis – innan raunsærra marka án þess að tvöfalda sérfræðingateymi ríkisins eða valda óvissu um stefnumótun – m.a. í því að öll frumvörp til laga verða

tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi.

Þetta er lykilatriði; skiptir þá ekki máli hvort lagafrumvörpin koma frá

  • alþingismönnum (eins og lengi hefur verið möguleiki – en ekki mjög raunhæft til samþykktar sem lög),
  • ríkisstjórnar (sem hefur verið uppruni flestra samþykktra laga hingað til og verður e.t.v. áfram, með breytingum þó) eða
  • kjósendum (sem er eitt af mörgum nýmælum í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, sjá 65. og einkum 66. gr.).

Með því var talið að umræðurnar yrðu frekar nær því að vera þrjár – heldur en 2  1/2 í raun; þetta atriði var þó umdeilt í stjórnlagaráði.

Hvað sem talningu líður er þessi breyting þó til þess fallin að auka efnislegar og málefnalegar umræður um lagafrumvarp – frekar en að stálin stinn mætist strax við kynningu frumvarps, án þess að aðrir en höfundar þess (í raun oftast starfmenn ráðuneytis) hafi náð að kynna sér það til hlítar.

Loks er breytingin í betra samræmi við svonefnt nefnda- eða starfsþing í stað málstofu- eða andstöðuþings.

Samráð við alla sjálfsagt – en ekki beinlínis áskilið!

Fyrir sjálfan mig er nýmælið í 2. mgr. enn mikilvægara (og merkilegra) þó að ég hafi því miður ekki náð í gegn einu af mínu stærstu stefnumálum – um að skylt væri að gæta jafnræðis þegar samráðs er leitað hjá hagsmunaaðilum; það voru vissulega vonbrigði að stjórnlagaráð skyldi ekki fallast á að stjórnarskráin skyldaði stjórnvöld og löggjafann við undirbúning löggjafar að hafa jafnvægi í samráði við t.d. fulltrúa stúdenta, launafólks og neytenda á við fulltrúa atvinnurekenda þegar nýjar reglur eru samdar. Þetta eru þeir þrír hópar sem ég hef staðið og unnið fyrir í um hálfan annan áratug og ég tel á hann hallað við þessar aðstæður.

Mótrök margra félaga minna voru vissulega að þetta væri svo sjálfsagt að gera – og er það vel ef svo er talið; löng og nýleg reynsla mín sýnir hins vegar annað – og það undir öllum tegundum af ríkisstjórnum!

Bót er þó í máli að afstaða fulltrúa þessara hópa, viðsemjenda hinna sterku, kemur væntanlega sterklega – ef ekki fortakslaust – til álita þegar þetta er metið, samkvæmt stjórnarskrá.

Í 2. mgr. 57. gr. er þó þetta mikilvæga nýmæli – sem getur tekið til hagsmuna, hagfræði, kynjafræði, lagalegra sjónarmiða, umhverfishagsmuna, fjárhags ríkissjóðs o.s.frv.:

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum

Erfiðara að „salta“ lagafrumvörp

Þriðja og síðasta – að mínu mati merkilega – nýmælið í stjórnarskrárfrumvarpi okkar í stjórnlagaráði er þetta, í lokamálsgrein 57. gr.:

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Í þessu látlausa ákvæði felst að sú meðferð þingmeirihluta í áratugi – ef ekki síðustu öld – að taka mál ekki (tímanlega) á dagskrá í hlutaðeigandi þingnefnd leiðir ekki lengur til þess samkvæmt þingskapalögum að þau falli niður að hausti; þingnefndarformaður (sem vonandi sýnir þó framvegis meira sjálfstæði gagnvart ráðherrum og ríkisstjórnarmeirihluta þó að þingræði ríki áfram) þarf að humma málið fram af sér og „salta“ það beinlínis í heil fjögur ár á venjulegu kjörtímabili ef það á að falla í gleymskunnar dá.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Sunnudagur 25.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Flutningur þingmála (56. gr.)

Í 56. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Alþingismenn hafa rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur þingmál.

Ráðherrar geta lagt fyrir Alþingi frumvörp til laga og tillögur til ályktana sem ríkisstjórn hefur samþykkt.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að forseti lýðveldisins geti látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og „annarra samþykkta“ en í raun þýðir það ríkisstjórnarfrumvörp sem forseti skrifar upp á formsins vegna. Þá hafa þingmenn í stjórnarskrá haft heimild til þess að flytja frumvörp og „tillögur til ályktana“ en sá réttur er að því leyti ekki raunhæfur að flest lög eru samþykkt að undangengnu stjórnarfrumvarpi og fá „þingmannamál“ fá alvöru umfjöllun á Alþingi.

Þessi réttur alþingismanna er óskertur í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Ráðherrum bætt við 1991…

Fyrir réttum 20 árum var ráðherrum (sem ekki eru þingmenn) bætt við þannig að þeir fengu sjálfstæðan rétt til þess að „flytja“ lagafrumvörp og þingsályktunartillögur – þ.e. óháð samþykktum eða í sjálfu sér afstöðu ríkisstjórnar þó að pólitískt ætti það að vera fremur óraunhæft við venjulegar kringumstæður.

Hvort tveggja – að forsenda þess að Alþingi fjalli um mál sé frumkvæði alþingismanns eða ráðherra – er áréttað síðar í stjórnarskránni.

… en teknir út 2011

Þar sem stjórnarskrárfrumvarpið byggir á meiri samstöðu ríkisstjórnar (sjá einkum 1.-3. mgr. 87. gr. frumvarpsins) en gildandi reglur og framkvæmd er eðlilegt að mínu mati að afnema þessa sjálfstæðu – og, sem sagt, fremur óraunhæfu og óheppilegu – heimild einstakra ráðherra. Samkvæmt því hafa aðeins þingmenn og ríkisstjórn framvegis – verði frumvarpið að stjórnarskrá – frumkvæðisrétt á Alþingi þar sem réttur ráðherra að þessu leyti er í 2. mgr. 56. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins bundinn við þau lagafrumvörp og þingsályktunartillögur

sem ríkisstjórn hefur samþykkt.

Þá er slíkur frumkvæðisréttur að stjórnarfrumvörpum og tillögum ríkisstjórnar að þingsályktunartillögum aftur orðaður – eins og í gildandi stjórnarskrá – sem réttur til þess að geta „lagt fyrir“ Alþingi slík mál.

Löggjafarvaldið er hjá Alþingi

Þá er mikilvæg – og ekki bara „symbolsk“, heldur skyld – breyting fólgin í frumvarpinu þar sem ráðherrar eiga aðeins skv. 1. mgr. 89. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins að mæla fyrir (stjórnar)frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn og taka þátt í umræðum á Alþingi

eftir því sem þeir eru til kvaddir

Þó að áfram sé gert ráð fyrir að flest frumvörp verði samin af sérfræðingum Stjórnarráðsins er dregið úr frumkvæði ráðuneytanna – og ákvörðunarvald fært til Alþingis – enda eru ráðherrar þjónar þings og þjóðar; eins og Ómar Ragnarsson benti oft á í stjórnlagaráði eru orðin ambátt og embætti samstofna.

Tilfærsla valds til Alþingis í því skyni að draga úr ráðherraræði er því ekki bundin við „symbolskar“ breytingar á borð við þá að ráðherrar víki af Alþingi meðan þeir gegna ráðherraembætti.

* Tekið skal fram að skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs við þetta ákvæði eru að sumu leyti ekki í samræmi við texta stjórnlagafrumvarpsins og stangast einnig að mati höfundar á við afstöðu þeirrar nefndar, sem fjallaði um þetta ákvæði, en höfundur þessarar umfjöllunar sat í þeirri nefnd stjórnlagaráðs; stangast skýring starfsmanna stjórnlagaráðs því að nokkru leyti á við samþykkta afstöðu stjórnlagaráðs. Um þetta ósamræmi gilda vitaskuld viðteknar lögskýringarreglur stjórnlagafræðinnar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

Laugardagur 24.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Opnir fundir (Alþingis) (55. gr.)

Í 55. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði.

Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.

Í gildandi stjórnarskrá er sams konar ákvæði og í 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins að frátöldu orðalagsfráviki þar sem nú er rætt um að þingfundir séu haldnir í heyranda hljóði í stað þess að þeir skuli vera það.

Lokunarákvæði fellt brott

Í stjórnarskránni er hins vegar eftirfarandi ákvæði sem stjórnlagaráð ákvað – eftir nokkra íhugun – að fella brott:

Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.

Þrátt fyrir efasemdir sumra, þ.m.t. af minni hálfu, hvort rétt væri að útiloka alveg neyðarráðstöfun sem þessa – að geta haldið þingfund fyrir luktum dyrum – var talið að lýðræðis- og gegnsæisrök væru þyngri á metunum en röksemdir um ófyrirsjánlegar neyðaraðstæður enda komu ekki fram dæmi um að þetta heimildarákvæði hefði verið nýtt, t.d. á stríðstímum.

Eins og fram kemur í skýringum með ákvæðinu með ákvæðinu er greint á milli fundar í heyranda hljóði – sem samkvæmt þessu er fortakslaus regla – og þess hvort slíkur opinn fundur sé aðeins sendur út rafrænt í undantekningartilvikum eða einnig opinn almenningi í bókstaflegum skilningi eins og meginreglan er.

Opnir þingnefndarfundir eru frávik

Þá er bætt við heimild til handa þingnefndum að opna fundi sína – en það er þá valkvætt frávik miðað við það sem tíðkast hefur; til þess er að líta að erfitt getur verið að ná góðum vinnufriði og vinnuanda á opnum nefndarfundum – eins og störf stjórnlagaráðs sjálfs sýndu en nefndarfundir þess voru ekki opnir þrátt fyrir heimild í starfsreglum til þess að opna þá. Einnig hafa komið fram þau rök að séu slíkir vinnufundir galopnir færist raunverulega vinna, rökræða og umræða óhjákvæmilega á annan óformlegri vettvang, t.d. í „reykfyllt bakherbergi“ þar sem engar fundargerðir eru haldnar eins og raunin er á bæði opnum og lokuðum formlegum fundum þings, ráðs og nefnda.

Það breytir því ekki að ég tel opna þingnefndarfundi mjög mikilvægt nýmæli og tæki til aðhalds og umræðu og eins og ég hef raunar reynslu af.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Föstudagur 23.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Þingnefndir (54. gr.)

Athyglisvert er að í gildandi stjórnarskrá er aðeins einu sinni minnst á þingnefnd – og í því tilviki reyndar rannsóknarnefnd þingmanna, sem er heimildarákvæði sem hefur ekki verið nýtt í um hálfa öld – raunar þvert á þá þörf, sem ég hef lengi talið fyrir hendi, hvað varðar aðhald og eftirlit Alþingis með handhöfn framkvæmdarvalds.

Starfs- eða málstofuþing?

Kannski endurspeglar þessi mikla þögn stjórnarskrárinnar um hið mikilvæga tæki, sem þingnefndir geta verið, þá staðreynd að Alþingi hefur að margra mati ekki þróast nægilega í átt að því sem stjórnmálafræðingar nefna starfs- eða nefndaþing. Þó að ég sé vegna starfa minna undanfarin 13 ár mjög meðvitaður um hið mikla og oft góða starf sem fer fram í nefndum Alþingis og á nefndasviði skrifstofu þingsins hefur Alþingi á yfirborðinu stundum virst – eða þóst – vera málstofuþing í ætt við leiksýningu, svo sem breska þingið er stundum talið vera.

Að fengnum ábendingum stjórnmálafræðings um muninn á starfs- eða nefndaþingi annars vegar, sem Alþingi er í raun og á að mati ráðsins að vera í ríkari mæli, og málstofuþingi hins vegar, þar sem lítt uppbyggileg kappræða eða andóf er tíðkað, var það eindregin niðurstaða stjórnlagaráðs að árétta og styrkja stöðu þingnefnda í stjórnarskrárfrumvarpinu. Var þetta ákveðið að tillögu okkar, sem sátum í valdþáttanefnd (B) er fjallaði um þessi mál.

Nokkrar tegundir þingnefnda

Fyrir vikið er í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs minnst á þingnefndir um 20 sinnum.

Í 54. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er fyrst minnst á þingnefndir að frátalinni forsætisnefnd sem er ekki eiginleg málefnanefnd heldur nefnd sem tekur þátt í að stýra störfum Alþingis undir forsæti forseta Alþingis – sem fær, sem sagt, sterkari stöðu í frumvarpinu.

Í 54. gr. segir:

Alþingi kýs fastanefndir til að fjalla um þingmál.

Um störf þingnefnda skal mælt fyrir í lögum.

Samkvæmt þessu virðist um margs konar nefndir að ræða af hálfu Alþingis sem flokkast og skarast eftir atvikum:

  • fastanefndir og sérnefndir,
  • málefnanefndir og stjórnarnefnd (forsætisnefnd),
  • þingmannanefndir og utanþingsnefndir.

Málefnanefndir eru f.o.f.

  • fastanefndir en geta einnig verið
  • sérnefndir.

Fastanefndir eru

  • málefnanefndir og
  • forsætisnefnd.

Þrjár fastar málefnanefndir með stjórnskipulega stöðu

Eins og nánar verður vikið að síðar eru þar af þrjár fastanefndir, sem hafa sérstakt stjórnskipulegt hlutverk samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu – og eru því nefndar þar sérstaklega – en það var nokkuð umdeilt í stjórnlagaráði. Sumum þótti þeim þar með gert of hátt undir höfði eða hærra en öðrum fastanefndum – auk þess sem óheppilegt væri að stjórnarskrárbinda heiti tiltekinna þingnefnda. Mótrökin voru að þessar þrjár fastanefndir hefðu ekki endilega mikilvægara hlutverki að gegna en aðrar fastar málefnanefndir, sem fjalla um löggjafarmál eftir atvikum hverju sinni, en hefðu óumdeilanlega stjórnskipulegu hlutverki að gegna – auk þess sem betra væri að nefna „fjárlaganefnd“ t.d. því hefðbundna heiti sínu undanfarin ár heldur en að nefna hana „þá nefnd sem fjallar um fjárlög“ eins og málamiðlunartillaga kom fram um.

Þessar þrjár nefndir eru:

  • stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (sem Alþingi hefur með lagabreytingu á þingskaparlögum þegar komið á fót);
  • fjárlaganefnd og
  • utanríkismálanefnd.

Rannsóknarnefnd – áfram, eða frekar – en gjarnan skipuð utanþingsmönnum

Aðrar nefndir eru t.d. sérstök rannsóknarnefnd samkvæmt 64. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins – sem er áþekk þeirri vannýttu nefnd sem áður var getið sem þeirrar einu sem gildandi stjórnarskrá fjallar um; hún er þó ólík að því leyti að nú er ekki lengur áskilið að í henni sitji (eingöngu) alþingismenn. Eins og nánar verður fjallað um þegar þar að kemur er rannsóknarnefnd Alþingis í kjölfar bankahrunsins nefnd af þessu tagi – sem var þó aðeins byggð á sérstökum lögum en hafði ekki stjórnarskrárstoð eins og lagt er til hér.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Fimmtudagur 22.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Þingsköp (53. gr.)

Í 53. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.

Í gildandi stjórnarskrá er samhljóða ákvæði að finna.

Fræðilegt – en lítt praktístkt – álitaefni

Um þetta er lítið að segja – annað en að ég hafði þá fræðilegu afstöðu, sem naut ekki fylgis í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs, þar sem ég sat, að þingsköp Alþingis ætti ekki að setja með lögum heldur með ákvörðun eða ályktun þingsins eins og í Danmörku þar sem Folketingests forretningsorden er sett með þeim hætti – en ekki með lögum.

Sú fræðilega afstaða byggir á kenningum um aðgreiningu valdþátta ríkisvaldsins.

Á að vernda minnihluta þings í stjórnarskrá?

Á hinn bóginn er í skýringum með ákvæðinu að finna áhugaverðar vangaveltur um hvort þingskaparlög eigi að njóta æðri stöðu – svipað og stjórnskipunarlög, m.a. í því skyni að meirihlutinn beiti minnihlutann ekki ofríki. Því er til að svara að í stjórnlagaráði var leitast við að hindra slíkt með sérstökum ákvæðum til verndar minnihluta og lýðræði í stað þess að eftirláta löggjafanum algert sjálfdæmi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Miðvikudagur 21.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Þingforseti (52. gr.)

Eitt róttækasta nýmælið í tillögum stjórnlagaráðs um stjórnskipan landsins er að finna í 52. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs enda er þar kveðið á um myndugri forseta Alþingis sem njóta á trausts aukins meirihluta þings en ekki aðeins þröngs ríkisstjórnarmeirihluta hverju sinni:

Alþingi kýs sér forseta með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.

Forseti stýrir störfum Alþingis. Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Með forseta starfa varaforsetar sem eru staðgenglar hans og mynda ásamt honum forsætisnefnd. Um kosningu þeirra skal mælt fyrir í lögum.

Forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.

Í gildandi stjórnarskrá er rætt um forseta Íslands eða forseta lýðveldisins nær 60 sinnum en aðeins minnst þrisvar á forseta Alþingis – þar af einu sinni sem einn 3ja handhafa forsetavalds. Þessu vill stjórnlagaráð breyta.

Forseti Alþingis verður í raun varaforseti Íslands samkvæmt tillögum okkar. Aðalhlutverk forseta Alþingis (sem í Danmörku heitir raunar formaður þjóðþingsins sem kannski er betri aðgreining á embættisheitum í lýðveldi) er þó ekki að vera staðgengill forseta Íslands.

Forseti yfir flokkadrætti hafin

Megin hlutverk forseta Alþingis verður samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs að vera aðalfulltrúi og sameiningarafl æðstu stofnunar ríkisins – Alþingis, sem fer með mikilvægustu völd landsins svo sem löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitsvald auk þess að velja forsætisráðherra og þar með í raun ákveða ríkisstjórn landsins. Reynt er að undirstrika að Alþingi sé sjálfstætt – en lúti ekki stjórn forsætisráðherra eða ríkisstjórnar.

Í þessu skyni leggjum við í stjórnlagaráði til að forseti sé kjörin með 2/3 atkvæða og að hún missi atkvæðisrétt og fái á meðan inn varamann þannig að hún verði fremur yfir flokkadrætti hafin.

Hvað ef…?

Um framangreind markmið vorum við nokkuð sammála í stjórnlagaráði; umdeildara var hvort skynsamlegt væri að krefjast þess í stjórnarskrá að aukinn meirihluti (2/3) – þ.e. 42 þingfulltrúar – en ekki aðeins einfaldur meirihluti (32) eins og nú – ætti að styðja kjör þingforseta.

Við sem studdum þessa tillögu héldum því fram að ef Alþingi risi ekki undir þeirri ábyrgð að sammælast með svo breiðum stuðningi við þetta mikilvæga embætti yrðu þing og þjóð að sæta því að samkvæmt útbreiddri, langri og óumdeildri stjórnskipunarvenju og lögum sæti (starfs)aldursforseti sem forseti Alþingis þar til annar yrði kjörinn. Enginn skaði væri við það skeður.

Sem dæmi má nefna að Ómar Ragnarsson, aldursforseti stjórnlagaráðs, stýrði því af myndugleika þar til við í ráðinu höfðum sammælst um málsmeðferðarreglur og kjör okkar ágæta formanns stjórnlagaráðs, Salvarar Nordal. Á einstökum fundum í  óformlegum hópum ráðsins – t.d. áður en ráðið tók formlega til starfa – var stuðst við sömu hefðarreglu.

Þess má geta að Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, hefur frá 2009 verið bæði aldurs- og starfsaldursforseti Alþingis.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 20.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Styrkir til frambjóðenda og samtaka þeirra (51. gr. )

Í 51. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er eitt merkasta nýmælið að finna:

Í lögum skal kveðið á um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo og um fjármál frambjóðenda í því skyni að halda kostnaði í hófi, tryggja gegnsæi og takmarka auglýsingar í kosningabaráttu.

Upplýsingar um framlög yfir ákveðinni lágmarksupphæð skulu birtar jafnóðum samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

Ekkert er að finna um þetta í gildandi stjórnarskrá.

Regluleysi býður upp á spillingu

Lengi voru einu lögin um fjármál stjórnmálaflokka lög um bann við erlendum styrkjum til stjórnmálastarfsemi. Auk þess setti Alþingi reglur um styrki til stjórnmálaflokka af opinberu fé – en engar reglur giltu um styrki og önnur framlög annarra til stjórnmálaflokka.

Slíkt ástand býður upp á spillingu – eins og ótal dæmi sanna.

Fyrir 5 árum voru loks sett heildstæð lög um þetta efni en þau ganga að mínu mati heldur skammt auk þess sem telja verður óeðlilegt að löggjafinn hafi sjálfdæmi um atriði sem tengist Alþingi og skipan þess og starfsemi stjórnmálaflokka svo náið.

Úrbætur til almannaheilla

Skyldan sem stjórnarskráin leggur löggjafanum á herðar er samkvæmt þessu ákvæði að kveða á um:

  1. starfsemi stjórnmálasamtaka,
  2. fjármál frambjóðenda og
  3. tiltekna upphæð en skylt er að birta framlög yfir þeirri upphæð „jafnóðum samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.“

Lögin verða að vera til þess fallin að

  • halda kostnaði í hófi,
  • tryggja gegnsæi og
  • takmarka auglýsingar í kosningabaráttu.

Stjórnmálaauglýsingar í sjónvarpi víða takmarkaðar

Í skýringum með frumvarpinu segir m.a.:

Almenna reglan í mörgum ríkjum Evrópu er að auglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðl­um eru bannaðar, að öllu leyti eða að hluta. Svo er ekki á Íslandi. Á fundum starfshóps þess sem stendur að tillögunni var rætt um hvort banna ætti auglýsingar frá stjórnmálasamtökum. Að loknum samræðum um ýmsar hliðar þessu tengdu, og með tilliti til yfirlýsinga álitsgefandi sérfræðinga var ákveðið að heimila löggjafanum að útfæra með hvaða hætti skyldi leitast við að takmarka auglýsingar.

Vonandi stuðlar þetta ákvæði að heilbrigðara stjórnmálalífi en undanfarna áratugi. Væntanlega sjá það líka flestir.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Mánudagur 19.9.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Hagsmunaskráning (alþingismanna) og vanhæfi (50. gr.)

Í 50. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er nýmæli sem varðar það sem í lögfræði er nefnt

  • sérstakt hæfi til þess að taka ákvörðun um mál og
  • almennt (neikvætt) hæfi til þess að gegna tilteknu hlutverki.

 

Fyrri málsgrein 50. gr. lýtur beint að sérstöku hæfi alþingismanns og síðari málsgreinin tengist almennu (neikvæðu) hæfi hans til þess að gegna þingmennsku en ákvæðið hljóðar svo:

Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

Í lögum skal kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

Engar skráðar stjórnarskrárreglur um vanhæfi

Í gildandi stjórnarskrá eru engar hæfisreglur á stjórnskipunarstigi, þ.e.a.s. sem gilda um æðstu handhafa hinna ýmsu þátta ríkisvalds. Óskráðar reglur kunna að felast í skráðum og óskráðum reglum um jafnræði og málefnalegar forsendur þó að ekki hafi reynt að það svo vitað sé til. Þá geta fordæmi falið í sér vísbendingar um hæfi þingmanna til þess að taka þátt í meðferð máls eins og ég hef tjáð mig um hér.

Slíkar reglur má hins vegar í einstaka tilvikum finna í almennum lögum frá Alþingi.

Sérstakt hæfi þingmanna

Auk hæfisreglna réttarfarslaga, sem gilda vitaskuld um hæstaréttardómara sem aðra dómara, er í þingskaparlögum t.d. að finna eitt ákvæði sem fjallar um stjórnskipulegt vanhæfi þingmanns en þar segir:

Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs síns.

Í þessu lagaákvæði er ekki langt gengið að mínu mati og auk þess er væntanlega fátítt að á þetta reyni. Ekkert er – samkvæmt þessu – í settum lögum sem hindrar þingmann í að eiga þátt í – og jafnvel frumkvæði að – löggjöf sem varðar verulega og jafnvel sérstaka hagsmuni hans. Ég tel að finna megi dæmi um slíkt í nýrri stjórnskipunar- og stjórnmálasögu Íslands. Nýmælið í 1. mgr. 50. gr. frumvarpsins er því mikilvægt en þar er þingmanni bannað að „taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna.“ Um hæfisreglur stjórnsýsluréttar er til þykk og góð doktorsritgerð eftir Pál Hreinsson sem styðjast má við til hliðsjónar.

Löggjafanum er falið að útfæra þetta nánar.

Réttaráhrif vanhæfis

Í því skyni að skapa ekki stjórnskipuleg álitamál og til þess að réttarstaða borgaranna sé ljós í slíkum tilvikum er þó tekið fram að vanhæfi þingmanns – ef út af er brugðið – hafi ekki áhrif á gildi settra laga. Ekki er hins vegar útilokað að vanhæfi hafi áhrif á aðrar ákvarðanir Alþingis en lög, t.d. fjárveitingar eða annað sem Alþingi hefur ákvörðunarvald um – án þess að þær ákvarðanir eða samþykktir teljist til almennra laga.

Almennt vanhæfi

Ekki er gengið svo langt að kveða í stjórnarskrárfrumvarpinu á um almennar efnisreglur um hæfi þingmanna – hvorki jákvætt né neikvætt hæfi; jákvætt almennt hæfi lýtur að því hvaða kostum maður þarf að vera búinn til þess að gegna tilteknu hlutverki (t.d. að vera löglærður) eða hvaða atriði mega ekki eiga við um hann (t.d. að mega ekki hafa með höndum önnur fjárhagsleg störf). Talið er eðlilegt að kjósendur meti þetta sjálfir – enda fá þeir með frumvarpinu stóraukna möguleika til þess með svonefndu persónukjöri eins og áður er vikið að; til þess að kjósendur geti í raun lagt mat á þetta „almenna neikvæða“ hæfi þingmannsefnis er þó eðlilegt að þeir veiti

upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

Þessi formregla skal samkvæmt ákvæðinu útfærð nánar í lögum; þar tel ég eðlilegt að víkka út regluna þannig að hún gildi einnig um frambjóðendur til Alþingis.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur