Föstudagur 31.10.2014 - 12:08 - FB ummæli ()

Viltu köflótta gangstétt eða félagslegar leiguíbúðir?

Á sveitarfélögum hvílir sú skylda að tryggja framboð á húsnæði til handa þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Félagsbústaðir sem eru í eigu Reykjavíkurborgar eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.

Eins og fram kemur á heimasíðu Félagsbústaða er markmið félagsins að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Í sumar voru um 850 umsækjendur á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík þar af um 550 í brýnni þörf.

Sú stefna var hjá Félagsbústöðum að kaupa eða byggja 100 íbúðir á ári. Horfið var frá þeirri stefnu í byrjun síðasta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins enda eiga Félagsbústaðir færri félagslegar leiguíbúðir í dag en á árinu 2009. Ef meirihlutinn í borginni hefði fylgt þessari stefnu og keypt 100 íbúðir á ári frá 2010 þá ættu Félagsbústaðir um 450 fleiri félagslegar leiguíbúðir í dag.

Forgangsröðun fjármuna skiptir máli. Framkvæmdirnar í Borgartúninu kostuðu um 280.000.000. Hefði sá peningur verið notaður til að kaupa leiguíbúðir með 90% láni hefði verið hægt að kaupa um 140 félagslegar leiguíbúðir í staðinn fyrir framkvæmdirnar í Borgartúninu.

Flokkar: Húsnæðismál

Miðvikudagur 22.10.2014 - 00:14 - FB ummæli ()

Neyðarbrautin skiptir máli

Á fjölmennum borgarafundi um neyðarbrautina sem Hjartað í Vatnsmýrinni hélt í kvöld fjallaði Leifur Magnússon verkfræðingur um nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar. Í erindi hans kom fram að notkunarstuðull Reykjavíkurflugvallar nú með þremur flugbrautum sé 98,2%. Það þýðir að flugvöllurinn er að meðaltali lokaður 6,6 daga á ári vegna of mikils hliðarvinds.Sé hins vegar neyðarbrautin fjarlægð lækki nýtingarhlutfallið í 93,8% og væri flugvöllurinn þá að meðaltali lokaður 22,6 daga á ári vegna of mikils hliðarvinds. Við það yrði flugvöllurinn kominn niður fyrir það 95% lágmark sem tilgreint er í alþjóðareglum og reglugerð um flugvelli.Samkvæmt þessu myndi lokun neyðarbrautarinnar því þýða 16 daga árlega viðbótarlokun flugvallarins. Liggur í augum uppi að það myndi hafa veruleg áhrif á rekstur áætlunar- og sjúkraflugs.

Finnst þér að öryggi almennings sé tryggt með aðgerð sem felur í sér 16 daga árlega viðbótarlokun Reykjavíkurflugvallar?

Flokkar: Flugvöllur

Mánudagur 20.10.2014 - 21:09 - FB ummæli ()

Af hverju er flugbraut 06/24 kölluð neyðarbrautin?

Eins og öllum er kunnugt um vill Dagur borgarstjóri ekki hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Dagur borgarstjóri situr í svokallaðri “Rögnunefnd”. Rétt fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor var samþykkt deiliskipulag um breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar þess efnis að flugbraut 06/24 eða svokölluð neyðarbraut er ekki lengur á skipulagi.

Breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda eru fyrirhugaðar. Þar sem neyðarbrautin er ekki lengur á skipulagi mun breytingin á deiliskipulagi Hlíðarenda væntanlega renna smurð og fín í gegn hjá meirihlutanum.

En af hverju er flugbraut 06/24 kölluð neyðarbrautin? Á heimasíðu Hjartans í Vatnsmýrinni www.lending.is er útskýrt að umrædd flugbraut sem liggur frá NA til SV sé notuð þegar vindar hamla lendingu á öðrum brautum. Við ákveðin brautar- og veðurskilyrði sé eingöngu hægt að lenda flugvélum á þessari braut. Ef hún væri ekki til staðar þyrftu sjúkraflugvélar frá að hverfa í sterkum vindum en sjúkraflugvélar lenda á ca. 18 klst fresti á Reykjavíkurflugvelli allan ársins hring. Með lokun brautarinnar myndi nýtingarhlutfall flugvallarins fara niður fyrir 95% og flugvöllurinn ekki lengur uppfylla lágmarksskilyrði alþjóðlegu flugmálastofnunarinnar.

Sumir hafa spurt af hverju notum við ekki bara þyrlur í sjúkraflugið. Ýmsar ástæður eru fyrir því m.a. þær að sumir sjúklingar mega ekki ferðast með þyrlu því það er ekki jafnþrýstibúnaður í þeim og þyrlurnar eru lengur á leiðinni. Þyrlur eru flott björgunartæki á rúmsjó eða hálendi fjarri flugvöllum en þær skortir hraða, hagkvæmni, afkastagetu og jafnþrýstiklefa til að geta tekið við sjúkraflugsþjónustu hér innanlands. Svo er staðreyndin einfaldlega sú að nálægð Reykjavíkurflugvallar við Landspítala vegna sjúkraflugs og bráðaþjónustu við landsbyggðina er mikilvæg.

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 15.10.2014 - 19:50 - FB ummæli ()

Fundur um skipulagsmál í Borgartúni

Eitt helsta þéttingarsvæði borgarinnar er Borgartúnið. Þar hafa og eru að rísa mjög háar byggingar og var gatan sjálf nýlega tekin í gegn. Sitt sýnist hverjum um þær framkvæmdir. Mér persónulega líst ekkert sérstaklega vel á þær. Fyrir minn smekk er gatan of þröng og lýsingin röng þ.e. ljósastaurarnir lýsa ekki á gangstéttirnar og hjólastígana sem skapar hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Ég mæli því ekki með því að náttblint fólk keyri um Borgartúnið í myrkri. Þá getur verið erfitt að átta sig á hvar innkeyrslur eru á nokkrum stöðum inn á bílastæðin við húsin (eflaust vegna “köflóttra” stétta) og á háannatíma tekur oft svolítinn tíma að komast aftur út á götuna. Á meðan blokkera bílarnir gangstéttina og hjólastíginn.

Á morgun fimmtudaginn 16. október kl. 16:15 verður haldinn fundur í Borgartúni 12 á 7. hæð í fundarsalnum Kerhólum þar sem ræða á þær miklu breytingar sem orðið hafa í Borgartúninu vegna uppbyggingar og endurgerðar götunnar og mun Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, greina frá framtíðarsýn borgaryfirvalda um Borgartúnið. Áhugaverður fundur sem eflaust margir hafa gagn og gaman af að mæta á.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.10.2014 - 18:41 - FB ummæli ()

Uppsögn húsaleigusamninga

Húsaleigusamningar eiga að vera skriflegir og geta þeir annað hvort verið tímabundnir eða ótímabundnir. Teljast leigusamningar ótímabundnir nema um annað sé ótvírætt samið. Ef aðilar vanrækja að gera skriflegan leigusamning teljast þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gilda öll ákvæði húsaleigulaga um réttarsamband þeirra. Því hafa leigjendur sem gert hafa munnlega leigusamninga sama rétt og leigjendur sem gert hafa skriflega ótímabundna leigusamninga þegar kemur að uppsögn. Hins vegar eiga aðilar ekki rétt á húsaleigubótum skv. lögum um húsaleigubætur nema gerður hafi verið skriflegur leigusamningur.

Uppsögn á húsaleigusamningum er mismunandi eftir því hvort um ótímabundna eða tímabundna leigusamninga er að ræða.

Uppsögn á ótímabundnum leigusamningum

Bæði leigjandi og leigusali geta sagt upp ótímabundnum leigusamningum. Ræðst lengd uppsagnarfrests á ótímabundnum leigusamningum annars vegar af því um hvers konar húsnæði er að ræða og hins vegar af þeim leigutíma sem liðinn er þegar uppsögn er send. Þegar um er að ræða leigu á einstökum herbergjum, geymsluskúrum og þess háttar húsnæði er uppsagnarfresturinn einn mánuður af beggja hálfu. Hefur kærunefnd húsaleigumála (nú kærunefnd húsamála) túlkað þetta svo að eins mánaðar uppsagnarfrestur gildi um einstök herbergi þó svo þar sé stundaður atvinnurekstur sbr. t.d. álit kærunefndar húsaleigumála nr. 4/2000 og 7/2001. Uppsagnarfrestur á íbúðum fyrstu fimm ár leigutímans er sex mánuðir bæði af hálfu leigjanda og leigusala. Hafi leigjandi hins vegar haft íbúð á leigu lengur en fimm ár er uppsagnarfrestur af hálfu leigusala eitt ár. Þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða, og aðilar hafa ekki samið á annan veg, er uppsagnarfrestur af beggja hálfu sex mánuðir fyrstu fimm ár leigutímans, níu mánuðir næstu fimm ár og síðan eitt ár eftir tíu ára leigutíma.

Uppsögn á tímabundnum leigusamningum

Tímabundnum leigusamningi lýkur á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Er meginreglan sú að tímabundnum leigusamningi verður ekki slitið með uppsögn á umsömdum leigutíma. Undantekning frá þeirri meginreglu er sú að aðilum tímabundins leigusamnings er þó heimilt að semja um að segja megi slíkum samningi upp á grundvelli sérstakra forsendna, atvika eða aðstæðna sem þá skulu tilgreind í leigusamningi. Ef slíkt er gert skal uppsögn vera skrifleg og rökstudd og skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera a.m.k. þrír mánuðir. Dæmi um slíkt tilvik er t.d. ef sett er ákvæði í leigusamning að íbúð sé á sölu og ef hún selst á leigutímanum sé heimilt að segja leigusamningnum upp með 3ja mánaða uppsagnarfresti.

Húsnæði hagnýtt áfram eftir lok leigutíma

Ef tveir mánuðir líða frá því að leigutíma lauk samkvæmt uppsögn eða ákvæðum tímabundins leigusamnings, en leigjandi heldur áfram að hagnýta hið leigða húsnæði getur leigusali þá krafist þess að leigusamningur framlengist ótímabundið. Sömu kröfu getur leigjandi einnig gert enda hafi leigusali ekki skorað á hann að rýma húsnæðið eftir að leigutíma er lokið. Kærunefnd húsaleigumála hefur túlkað þetta svo, sbr. t.d. álit nr. 2/1999, að setji hvorugur aðila fram slíka kröfu á því tveggja mánaða tímabili sem um ræðir þá framlengist sjálfkrafa leigusamningur aðila ótímabundið, enda haldi leigjandi áfram að hagnýta sér hið leigða húsnæði, greiða húsaleigu og leigusali veitir henni móttöku án þess að skora á leigjanda að afhenda hið leigða húsnæði.

Ef segja á upp leigusamningi þarf viðkomandi að gæta þess að segja samningnum upp skriflega og með sannanlegum hætti t.d. með ábyrgðarbréfi eða símskeyti. Sé það gert telst uppsagnarfrestur hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.9.2014 - 14:51 - FB ummæli ()

Risalitla vöfflumálið

Mér hefur alltaf þótt það frekar flott og krúttlegt að Dagur, nú borgarstjóri, bjóði fólki heim til sín í vöfflur á menningarnótt, en þó fyrst og fremst brilljant markaðssetning. Það að hann fái efniskostnað greiddan eins og aðrir er bara sjálfsagt mál. Mér finnst það hins vegar frekar fyndið, en þó meira sorglegt, að ein lítil fyrirspurn um það hvort einhver borgarfulltrúi hafi fengið styrk vegna vöfflukaffis á menningarnótt hafi orðið tilefni til þvílíkrar umræðu og hneykslunar á fyrirspurninni að það hálfa væri hellingur.

Þetta sýnir kannski í hnotskurn að við erum meira fyrir smámálin en stóru málin þegar kemur að borgarmálum. Af hverju er Dagur borgarstjóri ekki frekar spurður út í það af hverju félagslegum leiguíbúðum hafi fækkað hjá borginni frá árinu 2010. Það eru tölulegar staðreyndir. Af hverju hann greiddi atkvæði gegn tillögu VG í desember sl. um að það yrðu keyptar 80 félagslegar leiguíbúðir á þessu ári en samþykkti bara 30. Hvað hefur félagslegum leiguíbúðum fjölgað frá áramótum. Hvernig ætlar hann að bregðast við því ástandi að 840 manns eru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík og þar af eru um 550 í brýnni þörf. Hvernig ætlar hann að leysa það. Hvernig gengur honum að byggja 3000 leiguíbúðir. Af hverju samþykkti hann að auglýsa breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda þrátt fyrir að vita að rannsóknir á vatnafari Vatnsmýrarinnar hefðu ekki átt sér stað. Þetta eru allt mál sem skipta miklu meira máli að fá svör við, heldur en hverjir hjálpi Degi borgarstjóra að hræra deigið og láni honum vöfflujárn, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.9.2014 - 15:50 - FB ummæli ()

Mikil veikindi hjá Reykjavíkurborg

Hátt veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar er áhyggjuefni. Bæði vegna þeirra sem í hlut eiga og kostnaðarins sem af því hlýst. Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að fyrstu sex mánuði ársins var veikindahlutfallið á velferðarsviði 6,1%, á skóla- og frístundasviði 6,2% og á umhverfis- og skipulagssviði 6,9%.

Veikindi starfsmanna velferðarsviðs hafa kostað borgina 145 milljónir fyrstu sex mánuði ársins og með sama áframhaldi verður kostnaðurinn af veikindum starfsmanna þessa eina sviðs um 300 milljónir í árslok. Þá er ótalinn kostnaður vegna veikinda starfsmanna á öðrum sviðum borgarinnar. Getur kostnaðurinn með sama áframhaldinu því slagað hátt upp í einn milljarð á árinu.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Ingunni Björku Vilhjálmsdóttur mannauðsstjóra hjá Attentus að þumalputtareglan sé að ef veikindahlutfallið sé komið yfir 4% á ársgrundvelli þá sé það á rauði svæði, helst vilji maður sjá tölur frá 0 upp í 2-3% yfir árið.

Auðvitað geta ýmis störf hjá Reykjavíkurborg verið lýjandi andlega og líkamlega erfið en getur það verið eitthvað annað sem veldur þessu háa veikindahlutfalli og ef svo er hvað getur það verið. Getur t.d. verið hugsanlegt að það sé ekki allt í sóma og blóma hjá Reykjavíkurborg og starfsmönnum líði bara ekki nógu vel í vinnunni. Kona spyr sig.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.9.2014 - 15:01 - FB ummæli ()

Skortur á félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík

Félagsbústaðir eiga í dag færri félagslegar leiguíbúðir en félagið átti á árunum 2009 og 2010. Á árunum 2009-2010 voru þær 1842 en í dag eru þær 1804. Horfið hefur verið frá þeirri stefnu að Félagsbústaðir kaupi eða byggi 100 íbúðir á ári og er stefnan að byggðar verði eða keyptar 30 íbúðir á ári. Þá er stefnan að Félagsbústaðir komi að þróun og byggingu svokallaðra Reykjavíkurhúsa sem til stendur að byggja næstu árin á þéttingarreitum víðs vegar um borgina. Gert er ráð fyrir á bilinu 400-800 íbúðum í svokölluðum Reykjavíkurhúsum og að Félagsbústaðir fái til úthlutunar 25% af þeim, þ.e. 100-200 íbúðir á næstu árum. Eðli málsins samkvæmt mun það taka nokkur ár að byggja þessi hús og því ljóst að mörg ár munu líða þar til biðlistinn eftir félagslegum leiguíbúðum minnki.

Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir félagslegu leiguhúsnæði vegna lagaskyldu sveitarfélaga að tryggja framboð slíks húsnæðis til handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna, kemur fram að um 840 umsækjendur séu á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum, þar af um 550 umsækjendur í brýnni þörf. Miðað við þá stefnu að bæta við 30 íbúðum á ári þá tekur það 18 ár að mæta þörf þeirra 550 sem eru í brýnni þörf í dag. Þó svo að 100-200 íbúðir bætist við í svokölluð Reykjavíkurhúsum næstu árin eða áratuginn þá dugar það engan veginn og tekur alltof langan tíma.

Ljóst er að verulega skortir á að Reykjavíkurborg uppfylli skyldur sínar í húsnæðismálum gagnvart þeim íbúum sem vegna félagslegra aðstæðna eru ekki færir um að sjá sér sjálfir fyrir húsnæði. Verður Reykjavíkurborg að setja í forgang fjölgun á félagslegum leiguíbúðum til að mæta skyldu sinni. Það verður ekki gert með því að stofna fleiri nefndir heldur með því að kaupa húsnæði.

Flokkar: Húsnæðismál

Fimmtudagur 3.7.2014 - 14:23 - FB ummæli ()

Halló heimur!

Velkomin á blog.pressan.is. Þetta er fyrsta færslan.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur